Tjarnarborg

Barnavinafélagið Sumargjöf lét setja upp skilti í leikskólanum Tjarnarborg þann 13. nóvember 2019 til minnis um að Uppeldisskóli Sumargjafar starfaði þar í einni stofu fyrsta starfsárið, 1946 – 1947. Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður að tillögu Þórhildar Ólafsdóttur, forstöðukonu Tjarnarborgar.

Skólinn fékk nafnið Fóstruskóli Sumargjafar árið 1957 og var aftur staðsettur í Tjarnarborg frá haustinu 1962 til ársbyrjunar 1964. Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf rak skólann.

Ríkið tók við rekstri skólans árið 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands en námið færðist upp á háskólastig árið 1998 þegar skólinn sameinaðist Kennaraháskóla Íslands. Í dag er námið kennt í leikskólakennaradeild innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem mætti kalla arftaka Uppeldisskóla Sumargjafar.

Af þessu tilefni færðu stjórnarmenn Barnavinafélagsins Sumargjafar starfsfólkinu tertu og börnunum tvær bækur og púsluspil. Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar tók vel á móti stjórnarmönnum og sýndi þeim húsið og starfsemina. Halldór Guðmundsson útbjó skiltið.

Frá vinstri: Gerður Sif Hauksdóttir, gjaldkeri Sumargjafar, Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar, Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar, Helga Hallgrímsdóttir, stjórnarmaður Sumargjafar og Halldór Guðmundsson sem útbjó skiltið. Sigurjón Páll Ísaksson tók myndina.

Continue ReadingTjarnarborg

Leikskólinn Steinahlíð

70 ára

Gestir á afmælisdeginum

Leikskólinn Steinahlíð fagnaði 70 ára starfsafmæli þann 7. nóvember 2019 en leikskólinn hefur verið starfæktur frá árinu 1949. Húsið var byggt 1932 og var það ásamt rúmgóðu landi með túni, görðum og trjálundi gjöf til Barnavinafélagsins Sumargjafar frá erfingjum Elly Schepler Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar til minningar um foreldra sína, að ósk föður þeirra. Skilyrði gjafarinnar fólust í því að eignina skyldi eingöngu nota til að starfrækja barnaheimili þar sem sérstök áhersla yrði lögð á trjárækt og matjurturækt. Einnig átti Sumargjöf að tyggja að landið yrði ekki skert og félagið átti að hlúa að þeim gróðri sem var á lóðinni. Eignin átti að halda nafni sínu, Steinahlíð.

Enn þann dag í dag er rekinn leikskóli í Steinahlíð og mikil áhersla er lögð á trjárækt og matjurtarækt. Í ársbyrjun 2015 var sett færanlegt hús á lóð Steinahlíðar sem Reykjavíkurborg fékk leyfi fyrir og eru þar reknar tvær leikskóladeildir, en sú þriðja er í gamla húsinu.

Ida Ingólfsdóttir var fyrsta forstöðukona Steinahlíðar og gengdi hún því starfi í 33 ár eða til ársins 1982. Hún var jafnan kennd við Steinahlíð. Um mitt árið 2018 tók Bergsteinn Þór Jónsson við starfi leikskólastjóra Steinahlíðar af Steinunni Jónsdóttur.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Sigurjón Páll Ísaksson tók á afmælishátíðinni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur ávarpaði hópinn
Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar ávarpaði hópinn
Kristín Hagalín Ólafsdóttir afhenti Bergsteini Þór Jónssyni, leikskólastjóra Steinahlíðar blóm og gjöf í tilefni dagsins frá Barnavinafélaginu Sumargjöf
Krstín Hagalín Ólafsdóttir, Bersteinn Þór Jónsson, Dagur B. Eggertsson og börnin
Svala Jóhannsdóttir og Steinunn Jónsdóttir, fyrrverandi leikskólastjóri Steinahlíðar
Continue ReadingLeikskólinn Steinahlíð

Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 10. október 2019 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson var hlutskörpust að þessu sinni en 26 handrit bárust.

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan  vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Valhúsaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru afhent nú í 34. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér.

 

í umsögn dómnefndar um bókina segir  „þetta er  grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, hugrökk og huglaus börn“.

Um bókina: „Guðjón G. Georgsson er nýfluttur í Álftabæ og fær Eyðihúsið á heilann. Milla vinkona hans sá aldrei Hrólf nágranna sinn, ríkasta mann þorpsins, sem bjó í Eyðihúsinu. Hann var víst skapvondur ógæfumaður sem sást sjaldan utandyra því sennilega var honum illa við annað fólk. Dag einn birtist dularfullur trékistill á bókasafnströppunum og bréf frá Hrólfi – þar sem bæjarbúar fá þrjár vísbendingar, þrjá lykla að leyndardómum lífs hans og fjársjóðum. Lausnin er ekki einföld. Og sannarlega ekki hættulaus. En þá er gott að Guðjón G. Georgsson og Milla eru saman í liði.“

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.

Steinahlíð: Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.

Grænaborg: Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.

Skipholt 5: Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.

Skilti í Tjarnarborg: Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.

Gerðabækur Sumargjafar: Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).

Breytingar á stjórn: Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Aðalfundur 2019

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Grænuborg við Eiríksgötu,
fimmtudaginn 6. júní 2019, kl. 20:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins er skipuð þessum mönnum:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Rósa Björg Brynjarsdóttir
Varamenn: Hildur Biering og Sölvi Sveinsson.

Continue ReadingAðalfundur 2019

Afhending styrkja 2019

  • Post category:styrkir

 

Í upphafi árs 2019 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 33 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir í leikskólanum Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019.

Fyrir og eftir afhendingu styrkjanna spiluðu Gréta Petrína Zimsen og Hrafnhildur Halla Sigurðardóttir á fiðlu við píanóundirleik Júlíönu Indriðadóttur skólastjóra Tónskóla Sigursveins. Nýtt píanó Grænuborgar var vígt við athöfnina.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Myndlistarnámskeið fyrir fjölfötluð börn á leikskólaaldri

Börnin eru á aldrinum 1-7 ára og sækja þjónustu Áss styrktarfélags í Bjarkarás í Stjörnugróf 9 þar sem rekin er sérhæfð leikskóladeild. Myndlistarnámskeiðið verður haldið í samvinnu við Myndlistarskólann í Reykjavík og fer fram í Bjarkarási en börnin eiga, sökum heilsu sinnar erfitt með að sækja tilboð annars staðar.

Styrkþegi : Ás, styrktarfélag

Tengiliður: Valgerður Unnarsdóttir

2. Bókin Stórhættulega stafrófið

Stórhættulega stafrófið er ný bók fyrir börn eftir Ævar Þór Benediktsson, sem kunnur er af geysivinsælum bókum fyrir börn á undanförnum árum (Lestrarátakið sem hófst 2014/2015 og var að ljúka núna), og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Bókin fjallar um 7 ára gamla stelpu sem kann ekki enn að lesa og þorir ekki að segja neinum frá því. Styrkurinn er ætlaður til myndskreytingar á bókinni en það er Bergrún Íris sem annast myndskreytinguna. Forlagið gefur út og er stefnt að útgáfu haustið 2019.

Styrkþegar: Bergrún Íris Sævarsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.

3. Útijóga með dæmisögum Esóps

Verkefnið felst í því að hafa ævintýralegan jógatíma úti á skólalóðinni sem byggist á Childplay Yoga kennslufræði Gurudass Kaur og dæmisögum Esóps. Auk þess verður notast við möntrur, tónlist og dans. Hver tími verður 30-40 mínútur og ætlaður fyrir 10-15 börn á aldrinum 3ja-5 ára. Markmiðið er að börnin fái hvatningu og innblástur til að taka þátt í æfingunum – að þau haldi áhuga á jógaævintýrinu og skemmti sér vel um leið og að þau kynnist mismunandi jógaæfingum og dragi jafnvel einhvern lærdóm úr dæmisögum Esóps.

Styrkþegi: Bergþóra Einarsdóttir.

4. Foreldravaktin – lifandi fræðsla fyrir foreldra og börn um málþroska og læsi

Um er að ræða þróunarverkefni og er markmiðið að opna vefgátt/heimasíðu í rafrænu formi fyrir foreldra allra barna frá 0 – 10 ára sem fræðir þá um hvað barn þeirra á að geta í málþroska, orðaforða, framburði íslensku málhljóðanna og læsi á hverju aldursskeiði. Jafnframt verða kynntar leiðir til að örva mál og tal og boðið upp á sérstök verkefni fyrir börn sem foreldrar geta unnið með þeim heima. Með veitingu styrksins munu foreldrar geta nálgast efnið sér að kostnaðarlausu.

Styrkþegi: Bryndís Guðmundsdóttir kennari og talmeinafræðingur

5. Lokbrá – kennslutölvuleikur til að undirbúa börn undir svæfingu

Árlega fara nokkur þúsund börn í svæfingu á Íslandi, t.d. vegna skurðaðgerða, tannaðgerða eða annrrar læknismeðferðar. Í þessu verkefni, sem er íslensk hugmynd og nýjung á alþjóðavísu, verður hannaður og prófaður nýr kennslutölvuleikur sem hefur þann tilgang að undirbúa börn, 4-6 ára, undir svæfingu með fræðslu og kennslu í bjargráðum sem geta hjálpað þeim að takast á við kvíða og hræðslu en börn sem þurfa að gangast undir fulla svæfingu, vegna skurðaðgerðar eða annarrar meðferðar sýna oft mikinn kvíða. Tengsl hafa fundist á milli kvíða barna fyrir aðgerðir og bráðaæsings, verkja og neikvæðra hegðunarbreytinga eftir aðgerð og getur slíkt haft áhrif á bata. Rannsóknir sýna að fræðsla í ýmsu formi fyrir aðgerð getur dregið úr kvíða og er Lokbrá einmitt ætlað að draga úr kvíða barnanna fyrir svæfingu. Verkefnið er samstarfsverkefni LSH, HÍ (hjúkrunarfræðideildar) og háskólans í Turku (hjúkrunarfræðideild).

Styrkþegar: Aðalheiður Stefánsdóttir, Brynja Ingadóttir og Katrín Njálsdóttir

6. Mía, Moli og Maríus – vandræðasögur

Vandræðasögurnar um Mola, Míu og Maríus hafa það að markmiði að efla tilfinningameðvitund hjá börnum og þjálfa samkennd. Sögurnar eru fimm og allar byggðar upp með svipuðu móti. Vinirnir Mía, Moli og Maríus lenda í ágreiningi eftir annars rólega og friðsama byrjun í ósköp kunnuglegum aðstæðum í leikskóla. Á hápunkti árekstranna er sagan stöðvuð og lesendur beðnir um að slást í leikinn með því að svara spurningum um tildrög aðstæðna og líðan sögupersónanna. Einnig eru spurðar spurningar sem snúa að eigin reynslu barnsins. Að lokum er sagan dregin í land með farsælum endi. Sögurnar fimm eru settar saman í eina bók sem er myndskreytt vatnslitamyndum Ragnheiðar Jónsdóttur. Styrknum verður varið til þess að gefa öllum leikskólum landsins, 245 talsins,  (skv. tölum frá Hagstofunni 2017) eintak af bókinni.

Styrkþegar: Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir, Alexandra Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir 

7. Bæklingurinn Ung börn og snjalltæki

Í vetur kom út bæklingurinn Ung börn og snjalltæki – Grunnur að góðri byrjun. Var hann unninn í tengslum við meistaraverkefni Ingibjargar Jónsdóttur í samstarfi við Heimili og skóla, landssamtök foreldra og SAFT árið 2017. Bæklingurinn fjallar um snjalltæki á heimilum en notkun þeirra felur í sér nýjar áskoranir og tækifæri í uppeldi barna frá unga aldri. Hann inniheldur ráð og gátlista til þess að hjálpa foreldrum að stuðla að því að barnið fari vel af stað með notkun tækjanna og hverju skuli sérstaklega hugað að. Bæklingurinn hefur verið sendur til foreldra elstu barna í leikskóla og foreldra barna í fyrsta bekk í öllum skólum landsins. Margir skólar hafa óskað eftir honum fyrir fleiri foreldra barna og verður styrk Sumargjafar varið til þess að senda öllum leikskólaforeldrum bæklinginn.

Styrkþegi: Heimili og skóli, landssamtök foreldra

Tengiliður: Hildur Halldórsdóttir 

8. Samvera og góðar minningar – Sumarbúðir fyrir fjölskyldur

Um er að ræða um skipulagt sumarfrí fyrir efnalitlar barnafjölskylur í sumarbúðum skáta á Úlfljótsvatni í júní í sumar, alls 50 – 60 manns. Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn á Íslandi standa saman að sumarfríinu. Markmiðið með verkefninu er að draga úr félagslegri einangrun og stuðla að samveru og gæðastundum efnalítilla fjölskyldna sem svo skapa góðar minningar. Lögð er áhersla á að blanda saman þjóðernum og er áætlað að um þriðjungur þátttakenda verði fjölskyldur af erlendu bergi brotnu. Sumarbúðirnar eru þátttkendum að kostnaðarlausu.

Styrkþegi: Hjálparstarf kirkjunnar

Tengiliður: Atli Geir Hafliðason

9. Árstíðirnar – tónlistarsaga fyrir börn – fyrir sögumann, kammersveit og dansara

Styrkurinn er ætlaður fyrir útgáfutónleika með nýju tónlistarævintýri þar sem Árstíðirnar eftir Vivaldi tengjast inn í sögu eftir Pamelu De Sensi stjórnanda Töfrahurðar. Tónleikarnir verða hluti af tónleikaröð Kammersveitar Reykjavíkur í tilefni af 45 ára afmælisári hennar árið 2019. Tónleikarnir verða haldnir í nóvember í Norðurljósasal Hörpu og verða útgáfutónleikar þar sem fagnað verður nýrri myndskreyttri bók fyrir börn og unglinga sem inniheldur hljóðrit með sögunni og tónlist Vivaldi. Í bókinni verður einnig stutt ágrip af sögu Kammersveitar Reykjavíkur sem ætlað er að kynna ungu fólki starf sveitarinnar. Valgerður Guðnadóttir söngkona verður sögumaður.

Styrkþegi: Kammersveit Reykjavíkur og Töfrahurð

Tengiliður: Pamela De Sensi 

10. Velkomin til Íslands – Skólinn minn

Verkefnið til Velkomin til Íslands – Skólinn minn er náms- og verkefnabók fyrir byrjendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Bókin verður byggð upp á myndum og verkefnum tengd myndunum. Útgáfu bókarinnar er ætlað að bregðast við þeim skorti sem er á námsefni fyrir byrjendur sem eru að læra íslensku sem annað mál. Nemendum með íslensku sem annað mál hefur fjölgað ört; árið 1997 voru þeir 377 í grunnskólum landsins og árið 2014 voru þeir orðnir 3.275. Mikill skortur er á námsefni fyrir þennan hóp og er útgáfa bókinnar Velkomin til Íslands – Skólinn minn liður í að bæta úr því.

Styrkþegi: Pálína Þorsteinsdóttir

11. Listasmiðjur fyrir Dýradaginn 22. maí 2019

Dýradagurinn verður haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 22. maí n.k. en þessi dagur er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Dýradagurinn er valdeflandi viðburður sem gefur nemendum tækifæri til að læra um og vekja athygli á m.a. loftslagsbreytingum og lífbreytileika. Gengið verður í skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem verður skipulögð dagskrá. Þema göngunnar er málefni hafsins og viðburðurinn verður settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungmennum  í skóla, í Myndlistarskóla Reykjavíkur, í Norræna húsinu og Gerðubergi í tengslum við Barnamenningarhátíð. Búningar og/eða grímur verða unnar úr endurnýttum efnivið og munu endurspegla þema göngunnar, sem er málefni hafsins.

Styrkþegi: Landvernd

Tengiliður: Rannveig Magnúsdóttir

12. Te & tíðir – kynfræðsla

Að sögn Sigríðar Daggar Arnardóttur kynfræðings greina ungar stúlkur gjarnan frá því í kynfræðslu að þær upplifi sig óundirbúnar fyrir það að byrja á blæðingum, bæði skorti þar fræðslu og samtal um hvað gerist og hvernig það gerist. Tíðarskömm er að sögn Sigríðar Daggar raunverulegt fyrirbæri og getur haft áhrif á hversdagslegt líf unglings, bæði líkamlega og andlega. Það er reynsla Siggu Daggar af níu ára kynfræðslu um allt land að þekking unglinga á blæðingum sé skammarlega lítil og samtal milli unglinga og foreldra afar takmarkað. Verkefninu sem hér er styrkt er ætlað að bæta úr þessu en það felst í gerð handbókar og fræðslumyndbanda auk hittinga þar sem konur koma saman, drekka te og deila eigin reynslu af blæðingum.

Styrkþegi: Sigríður Dögg Arnardóttir

13. Myrkrabörn – tónlistarhátíð ætluð börnum

Myrkrabörn er ný tónlistarhátíð ætluð börnum. Hátíðinni er ætlað að gera samtímatónlist aðgengilega fyrir börn og fjölskyldur þeirra og standa fyrir viðburðum sem eru upplýsandi og fræðandi samhliða því að vera skemmtileg. Hátíðin verður haldin 30. janúar til 1. febrúar í Kaldalóni í Hörpu. Myrkrabörnum er ætlað að opna heim samtímatónlistar fyrir ungum áheyrendum og skapa vettvang þar sem börn geta kynnst fjölbreyttu landslagi samtímatónlistar ásamt því að gera samtímatónlist aðgengilega sem flestum. Á dagskrá eru m.a. tónleikar með Drengjakór Reykjavíkur og opnar vinnustofur þar sem börn fá að prufa nýstárleg hljóðfæri og aðferðir í sköpun samtímatónlistar. Aðgangur að Myrkrabörnum er öllum 10 ára og yngri ókeypis og miðaverði verður haldið í algjöru lágmarki til þess að sem flestir geti sótt hátíðina. Myrkrabörn er hliðarhátíð Myrkra músíkdaga sem fer fram á sama tíma en er þó alveg sjálfstæð.

Styrkþegi: Tónskáldafélag Íslands

Tengiliður: Gunnar Karel Másson

Continue ReadingAfhending styrkja 2019

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2019

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 3. mars 2019.

Reykjavík 31. janúar 2019
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2019

Aldingarður æskunnar

Aldingarður æskunnar er verkefni sem er unnið að frumkvæði Garðyrkjufélags Íslands eftir hugmynd Kristins H. Þorsteinssonar.

22. október 2018 var líf og fjör hjá leikskólabörnunum í Steinahlíð í Reykjavík þegar gróðursett voru eplatré og berjarunnar.

Árlega gróðursetja leikskólabörn og starfsmenn leikskólans í Steinahlíð aldintré og berjarunna í lóð Steinarhlíðar. Að lokinni gróðursetningu er slegið upp veislu undir berum himni þar sem borð svigna undan eplum auk fjölmargra annarra gómsætra aldina.

Hugmyndin að baki Aldingarði æskunnar er að byggja garð eða trjáreit sem hefði algjöra sérstöðu. Svæði sem er í senn fallegt, hefur fræðslugildi fyrir börn og forelda og skilaði af sér hollar og góðar afurðir. Verkefninu Aldingarði æskunnar sem er landsverkefni var formlega hleypt af stokkunum 2014 við leikskólann í Steinahlíð við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Á þessum tímamótum voru gróðursett ávaxtatré og berjarunnar af leikskólabörnum, foreldrum og starfsmönnum Steinahlíðar. Verkefnið í Steinahlíð er samstarfsverkefni Barnavinafélagsins Sumargjafar og Garðyrkjufélags Íslands.
Markmið verkefnisins er að efla vitund og virðingu ungra barna á ræktun ávaxtatrjáa, berjarunnum og öðrum aldinplöntum. Leyfa ungu fólki og þeim tengdum að fræðast um gróðurrækt og efla meðvitund um umhverfisvænan lífstíl, matarsóun og matvælaframleiðslu.

Texti og myndir eru af facebooksíðu Garðyrkjufélags Íslands með leyfi Kristins H. Þorsteinssonar.

Continue ReadingAldingarður æskunnar