Íslensku barnabókaverðlaunin

Þriðjudaginn 16. október 2018 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Háteigsskóla. Stormsker eftir Birki Blæ Ingólfsson var hlutskörpust að þessu sinni en 20 handrit bárust. Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan  vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur úr 8. bekk sem voru að þessu sinni úr Háteigsskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé „spennandi fantasía… í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi“.

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2017 – 1018

Breytingar á stjórn
Þau tíðindi urðu um síðustu áramót að Jón Freyr Þórarinsson formaður og Ragnar Jónasson gjaldkeri hurfu úr stjórn eftir langt og farsælt starf.

Jón Freyr var skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Sumargjafar 14. ágúst 1974 og varð þá varaformaður félagsins. Þegar borgin hafði að fullu tekið við rekstri leikskólanna í árslok 1978, hætti Jón sem fulltrúi borgarinnar en vann áfram fyrir félagið í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar. Á aðalfundi 25. nóvember 1980 var hann kjörinn í stjórn Sumargjafar, og varð þá formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemi þess. Hann var því formaður Sumargjafar í 37 ár og vann fyrir félagið í meira en 43 ár.

Ragnar kom inn í stjórn 1984 og var gjaldkeri frá 1992, eða rúm 25 ár; hann sat í stjórn í 33 ár. Haldinn var kveðjufundur fyrir þá 29. janúar 2018 þar sem þeir fengu blóm, bóka- og peningagjöf og skrautrituð skjöl fyrir ómetanlegt starf. Stjórn félagsins þakkar þeim einstaklega ánægjulega samveru og samvinnu.

Í stað Jóns Freys og Ragnars komu inn í stjórn Albert Björn Lúðvígsson og Sölvi Sveinsson.
Kristín Hagalín Ólafsdóttir tók við formennsku og Gerður Sif Hauksdóttir varð gjaldkeri.

Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Lindaskóla í Kópavogi 17. október 2017. Að þessu sinni fékk Elísa Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur verðlaunin fyrir skáldsöguna: Er ekki allt í lagi með þig? sem er fyrsta bók hennar. Að mati dómnefndar er þetta spennandi og skemmtileg unglingasaga sem fjallar á nýstárlegan hátt um einelti sem fer að hluta fram á netinu. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 20 handrit að barna- og unglingabókum. Næsta verðlaunabók verður kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 29. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 32; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. 

Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 9.500.000 krónur.  Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Steinahlíð
Kjallarinn í Steinahlíð var málaður og dúklagður og greiddi Sumargjöf tæp 40% kostnaðar, eða um 2,5 Mkr. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Steinunn Jónsdóttir hefur sagt upp sem leikskólastjóri í Steinahlíð, eftir 17 ára starf (frá 2001). Bergsteinn Þór
Jónsson hefur verið ráðinn nýr leikskólastjóri.

Grænaborg
Endurbætur á lóð fóru fram síðastliðið sumar og kostuðu rúmar 4,6 Mkr. sem Sumargjöf greiddi. Borgin sá um lagfæringar innanhúss, m.a. var skipt um efni í loftum.

Sumardagurinn fyrsti, ljósmyndasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur. Félagið styrkti sýninguna.

Heimasíða Sumargjafar
Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna.

Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 fermetra skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2017 – 1018

Grænaborg og Steinahlíð fá gjafir

Eftir vel heppnaða styrkjaafhendingu þann 6. maí 2018 barst Grænuborg og Steinahlíð óvænt gjöf frá Pamelu de Sensi sem innihélt 7 bækur með geisladiskum. Árið 2016 styrkti Barnavinafélagið Sumargjöf útgáfu á Pétri og úlfinum sem Stórsveit Reykjavíkur setti upp í djassútgáfu fyrir börn og  var frumflutt á Listahátíð 2017. Útgáfan var í formi myndskreyttrar bókar og geisladisks.

Á myndinni fyrir neðan má sjá Kristínu Hagalín Ólafsdóttur formann Barnavinafélagsins Sumargjafar, Steinunni Jónsdóttur leikskólastjóra Steinahlíðar og stjórnarmeðlim Sumargjafar og Gerði Sif Hauksdóttur leikskólastjóra Grænuborgar og gjaldkera Sumargjafar taka við bókargjöfinni frá Pamelu de Sensi.  Talið frá vinstri: Kristín Hagalín Ólafsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Gerður Sif Hauksdóttir og Pamela de Sensi

Continue ReadingGrænaborg og Steinahlíð fá gjafir

Afhending styrkja 2018

Í upphafi árs 2018 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 40 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018. Eftirtalin verkefni hlutu styrki (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Trúðavaktin – íslensku sjúkrahústrúðarnir.

Trúðavaktina skipa faglega þjálfaðir leikarar sem allir eiga sinn sjúkrahústrúð. Markmið sjúkrahústrúða er að gleðja og létta lundina, bæði hjá veikum börnum og fjölskyldum þeirra. Trúðavaktin heimsækir Barnaspítala Hringsins einu sinni í viku, tveir og tveir trúðar í senn. Þjónustan er fjármögnuð utan heillbrigðiskerfinsins og er  spítalanum að kostnaðarlausu. Styrkur Sumargjafar er ætlaður til að greiða laun trúðanna í tvo mánuði. –

Styrkþegi: Trúðavaktin

Tengiliður: Agnes Þorkelsdóttir Wild

2. Veggmynd á tengigangi Barna- og Kvennadeildar Landspítalans.

Verkefnið er gríðarstór myndskreyting sem máluð er beint á veggi og loft langs gangs sem tengir saman Barna- og Kvennadeild Landspítalans við Hringbraut og jafnframt texti og myndefni að barnabók sem ætluð er börnum og aðstandendum þeirra. Myndefni bókarinnar er sótt í veggmyndina.

Styrkþegi: Arnór Kári Egilsson

3. Spítalablöðrur.

Verkefnið felst í því að styrkþeginn heimsækir Barnaspítala Hringsins vikulega og gerir blöðrudýr fyrir börnin sem þar eru. Þá kemur hann með blöðrur og pumpur svo krakkarnir geti sjálfir gert blöðrudýr með honum.

Styrkþegi: Daníel Sigríðarson

4. Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna.

Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna er sýning sem var opnuð á sumardaginn fyrsta 19. apríl sl. í Ráðhúsinu. Sýningin fjallar um tilurð og þróun barnamenningar með hliðsjón af sumardeginum fyrsta og sögu hans. Grunnhugmynd sýningarinnar og meginmarkmið er að vekja athygli á mikilvægi sumardagnsins fyrsta fyrir velferð barna og þróun barnamenningar í Reykjavík 1918 – 2018.

Styrkþegi: Björg Bjarkey Kristjánsdóttir

5. Ferðast um fullveldið – sögur af fullvalda börnum.

Um er að ræða tónleika og útgáfu á nýju tónlistarævintýri við nýjar sögur og ljóð eftir Þórarin Eldjárn og nýja tónlist Elínar Gunnlaugsdóttur. Þórarinn semur barnaljóð og sögur sem fjalla um börn á fullveldistímanum frá 1918 – 2018. Tekin eru fyrir tíu ártöl, 1918, 1928 o.s.frv. og búin til saga og ljóðatexti sem passar við hvert ártal. Stúlkur og drengir segja þá frá atburði í lífi sínu og kynna þannig fyrir yngstu kynslóðinni hvernig líf Íslendinga var á árunum 1918 – 2018 og þær breytingar sem orðið hafa. Gefin verður út myndskreytt bók og hljómdiskur og dagskráin flutt í Hörpu 18. nóvember 2018.

Styrkþegi og tengiliður: Elín Gunnlaugsdóttir

6. Tákn með tali tekið lengra – Þróun námskeiðs ásamt bæklingi með hagnýtum leiðbeiningum.

Markmiðið er að þróa og innleiða hnitmiðað og áhrifaríkt námskeið í notkun tjáskiptamátans TMT (tákn með tali) fyrir foreldra og starfsmenn leikskóla þar sem aðferðin er tekin lengra en áður með það að leiðarljósi að fjölga tækifærum barna með seinkun, frávik og/eða alvarlega röskun í málþroska til að gera sig skiljanleg og tjá sig fyrr og meira en ella.

Styrkþegi: Eyrún Ísfold Gísladóttir

7. Vefnámskeið í íslensku fyrir snjalltæki ætlað 5 til 7 ára börnum.

Snjalltækjavæðing grunnskóla hefur ekki leitt af sér aukið framboð námsefnis og þörfin á stafrænu íslensku efni fyrir börn hefur aldrei verið meiri. Að mati Menntamálastofnunar er gríðarleg vöntun á námsefni í íslensku fyrir börn með annað tungumál. Verkefninu er ætlað að koma til móts við þessa þörf með því að framleiða vandað námsefni í íslensku fyrir aldurshópinn 5 – 7 ára. Þróað verður aðgengilegt, skemmtilegt og gagnvirkt 60 klst. námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla, jafnt börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi.

Styrkþegar: Birna Arnbjörnsdóttir og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir

Tengiliður: Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir

8. Auðvitað get ég – Myndbandagerð fyrir börn úr innflytjendafjölskyldum á Íslandi.

Verkefninu er ætlað að styðja börn og fjölskyldur þeirra af erlendum uppruna í íslensku samfélagi við að aðlagast og öðlast færni til að lifa og starfa til fullnustu í íslensku samfélagi. Myndböndin eru ætluð til að fræða börnin um ýmsa hagnýta samfélagsþætti eins og

  1. Hvert get ég leitað ef ég þarf aðstoð? Til lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, námsráðgjafa o.s.frv.
  2. Þekkja stofnanir á Íslandi og hlutverk þeirra
  3. Mannréttindi barna
  4. Kvenréttindi
  5. Barnamenning
  6. Unglingamenning
  7. Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
  8. Heilbrigðisþjónusu o.fl.

Að verkefninu koma um 20 börn af ýmsum þjóðernum sem búa á Íslandi. Þau skipuleggja viðtöl, skrifa handrit fyrir myndböndin, sjá um upptökur og klippa myndböndin með aðstoð verkefnisstjóra.

Styrkþegi og tengiliður: Jamil Kouwatli

9. Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn.

Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn er ætlað börnum sem misst hafa náinn ástvin. Um er að ræða tilraunaverkefni sem var haldið helgina 20.-22. apríl sl. í Vindáshlíð í fyrsta sinn. Þörfin fyrir búðir af þessu tagi er brýn að sögn Jónu Hrannar Bolladóttur sem fer fyrir verkefninu sem heitir Örninn og er fyrirhugað er að hafa aðrar búðir í haust.

Tengiliður: Jóna Hrönn Bolladóttir

10. Reykjavík barnanna.

Reykjavík barnanna verður ríkulega myndskreytt bók um höfuðborgina og nágrenni hennar. Hún er framhald Íslandsbókar barnanna sem kom út árið 2016 og styrkþeginn, Linda Ólafsdóttir, myndskreytti. Nýja bókin er ætluð börnum, ungmennum og fólki á öllum aldri sem langar að fræðast um Reykjavík og nágrenni í máli og myndum. Markmið verkefnisins er að kynna höfuðstað Íslands, sögu hans, mannlíf og náttúru. Bókin er unnin í samstarfi við Margréti Tryggvadóttur sem skrifar bókina.

Styrkþegi: Linda Ólafsdóttir

11. Þinn besti vinur – Forvarnamyndbönd fyrir börn og unglinga um kvíða og þunglyndi.

Hópur sálfræðinga í samvinnu við leikara og framleiðslufyrirtæki vinnur að gerð stuttra myndbanda um þunglyndi og kvíða fyrir unglinga og ungt fólk. Myndböndin verða opin öllum á vef verkefnisins, thinnbestivinur.is og hugsuð sem forvörn til að sporna við þróun lyndisraskana hjá unglingum. Þeim er ætlað að vera fræðandi og skemmtileg þar sem grundvallaratriði í hugrænni atferlismeðferð (HAM) eru kynnt en HAM er gagnreynd meðferð við kvíða og þunglyndi. Myndböndin eiga að vera almennt fræðsluefni en einnig til notkunar í einstaklings- eða hópmeðferð við kvíða og þunglyndi.

Styrkþegi og tengiliður: Sólveig Hlín Kristjánsdóttir

12. Síðasta lestrarátak Ævars Vísindamanns

Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns í fyrsta sinn. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og hefur Ævar endurtekið leikinn árlega nokkrum sinnum síðan og börnum sem taka þátt fjölgar sífellt. Ævar hótar því nú að endurtaka leikinn í síðasta sinn og verðum við bara að vona að hann standi ekki við þau orð sín.

Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson

13. Dyndilyndi

Verkefnið felst í hljóðritun og útgáfu á átta nýjum sönglögum Megasar í nýjum útsetningum Þórðar Magnússonar. Lögin eru hugsuð fyrir börn á leikskólaaldri og yngstu bekki grunnskóla. Flytjendur og skipuleggjendur eru nemendur úr Tónlistardeild Listaháskóla Íslands í samstarfi við Mengi Records sem styrkir og sér um útgáfu. Lögin segja frá dýrum, heimkynnum þeirra, ástum og lífsbaráttu og eru sprottin frá hugmyndum barna. Í glænýjum útsetningum Þórðar Magnússonar fyrir strengjakvartett og rödd eignast lögin nýtt og litríkt líf. Skipuleggjendur og flytjendur eru allir nemendur úr Listaháskóla Íslands.

Styrkþegar og tengiliðir: María Sól Ingólfsdóttir og Agnes Eyja Gunnarsdóttir

Continue ReadingAfhending styrkja 2018

Styrkir 2018

Styrkir verða afhentir sunnudaginn 6. maí 2018, kl. 14:00. Afhending fer fram í leikskólanum Grænuborg, Eiríksgötu 2, 101 Reykjavík. Allir þeir sem sóttu um styrk hafa fengið tilkynningu annað hvort með símtali, þeir sem fengu styrk eða með tölvupósti, þeir sem fengu ekki styrk.

Continue ReadingStyrkir 2018

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Í byrjun árs 2018 urðu miklar breytingar á stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar. Jón Freyr Þórarinsson, formaður og Ragnar Jónasson, gjaldkeri létu af störfum sínum fyrir félagið eftir farsælt starf. Kristín Hagalín Ólafsdóttir tók við sem formaður og Gerður Sif Hauksdóttir sem gjaldkeri. Albert Björn Lúðvígsson og Sölvi Sveinsson komu inn í stjórn félagsins sem varamenn. Af því tilefni var haldinn kveðjufundur með Jóni Frey, Ragnari og núverandi stjórn þann 29. janúar 2018 og þeim þakkað fyrir ómetanlegt starf fyrir Barnavinafélagið Sumargjöf.

Núverandi stjórn með fráfarandi stjórnarmönnum. Talið frá vinstri, efri röð: Kristín Hagalín Ólafsdóttir (formaður) Jón Freyr Þórarinsson (fráfarandi formaður), Albert Björn Lúðvígsson, Rósa Björg Brynjarsdóttir, Ragnar Jónasson (fráfarandi gjaldkeri), Rán Einarsdóttir og Hildur Biering. Neðri röð: Helga Hallgrímsdóttir, Gerður Sif Hauksdóttir (gjaldkeri), Steinunn Jónsdóttir, Sölvi Sveinsson og Sigurjón Páll Ísaksson (ritari).

Fráfarandi stjórnarmenn: Ragnar Jónasson (t.v.) og Jón Freyr Þórarinsson (t.h.)

Jón Freyr Þórarinsson var skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjón Sumargjafar þann 14. ágúst 1974 og varð þá varaformaður félagsins. Hann sat í stjórninni til ársloka 1978, en þá hafði borgin að fullu yfirtekið rekstur leikskólanna. Jón Freyr vann samt áfram fyrir félagið, því hann sat í byggingarnefnd n‎‎‎‎‎‎‎ýrrar Grænuborgar. Á aðalfundi sem haldinn var 25. nóvember 1980 var Jón Freyr kjörinn í stjórn Sumargjafar, og varð þá formaður félagsins. Blés hann brátt n‎‎ýju lífi í starfsemi þess. Hann var því formaður Sumargjafar í 37 ár, þar áður varaformaður í rúm 4 ár, og hefur unnið fyrir félagið í rúm 43 ár.

Ragnar Jónasson kom inn sem varamaður í stjórn Sumargjafar 1984, kom inn í aðalstjórn 1985 og tók við sem gjaldkeri 1992. Hann var því gjaldkeri í rúm 25 ár og sat í stjórn í rúm 33 ár, þar af 32 í aðalstjórn.

Stjórn Sumargjafar þakkar þeim fyrir einstaklega ánægjulega samveru og samvinnu.

Continue ReadingStjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Umsókn um styrk árið 2018

  • Post category:styrkir

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna.

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.

  • Umsóknareyðublað um styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf (PDF)
    Vistið eyðublaðið á skjáborð tölvunnar og notið Adobe Reader til að opna skjalið og fylla út umsóknina. Hér er hægt að nálgast Adobe Reader.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 18. febrúar 2018.

Reykjavík, 17. janúar 2018
Barnavinafélagið Sumargjöf

Póstfang: Pósthólf 5423, 125 Reykjavík
Tölvupóstfang: [email protected]
Vefur: sumargjof.is

Continue ReadingUmsókn um styrk árið 2018

Aðalfundur 2017

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Grænuborg við Eiríksgötu, fimmtudaginn 8. júní 2017, kl. 20:30.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Lagabreytingar, sjá nánar hér.
  5. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins er skipuð þessum mönnum:

Formaður: Jón Freyr Þórarinsson
Varaformaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Ragnar Jónasson
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Gerður Sif Hauksdóttir og Steinunn Jónsdóttir
Varamenn: Helga Hallgrímsdóttir, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Hildur Biering

Continue ReadingAðalfundur 2017

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2016 – 2017

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, rithöfundar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Seljaskóla 13. október 2016. Að þessu sinni fékk Inga Mekkín Beck verðlaunin fyrir skáldsöguna: Skóladraugurinn, sem er fyrsta bók hennar og jafnframt lokaverkefni til meistaraprófs í ritlist frá Háskóla Íslands. Að mati dómnefndar er þetta spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hefur ástvin. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 28. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 31; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. 

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 35 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.360.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 7. maí 2017, kl. 14.

70 ára afmæli leikskólakennaramenntunar: Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður 1946 og hafði það hlutverk að mennta leikskólakennara, sem þá kölluðust fóstrur. Þann 4. nóvember 2016 var haldin afmælishátíð í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð, í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá því að Uppeldisskólinn var stofnaður, en hann er nú á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sumargjöf tilnefndi Helgu Hallgrímsdóttur í undirbúningsnefnd og lagði fram 200.000 kr. styrk. Hátíðin var mjög vel heppnuð og voru þar 450 til 500 manns; á eftir var boðið upp á veitingar. Flutt voru nokkur erindi á sögulegum nótum, m.a. ræddi Jón Freyr Þórarinsson formaður félagsins um þátt Sumargjafar og Uppeldisskólann. – Í tilefni af afmælinu ákvað stjórnin að setja upp skilti í Steinahlíð til að minnast þess að þar var Uppeldisskólinn á árunum 1949–1952. Árið 1957 fékk skólinn nafnið Fóstruskóli Sumargjafar. Ríkið tók við rekstrinum 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands. Námið færðist á háskólastig 1998.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Steinahlíð: Komið hefur verið upp matjurtagarði fyrir foreldra og starfsfólk, og voru á síðasta ári keypt verkfæri, verkfærakista, borð o.fl. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem hófst 2014 og er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Ragnar Jónasson hefur tekið saman greinargerð um upphaf Aldingarðsins, sem finna má á heimasíðu félagsins. Grænaborg: Nokkrar endurbætur voru gerðar innanhúss, en framkvæmdir á lóð bíða sumars.

Heimasíða Sumargjafar: Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna sumargjof.is

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2016 – 2017