Ársskýrslur Barnavinafélagsins Sumargjafar
Á aðalfundi Sumargjafar sem haldinn er í maí eða júní ár hvert ár er lögð fram skýrsla stjórnar fyrir nýliðið starfsár.
Fyrsta ársskýrsla félagsins sem birt var almenningi kom út 1934. Skýrslurnar komu út til 1943. Var ársskýrslan síðan birt í Barnadagsblaðinu.
Sigurjón Páll Ísaksson, ritari Sumargjafar tók saman.
Starfsárið 2024 - 2025
Aðalfundur Sumargjafar 2025 var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 12. júní 2025. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2024 til aðalfundar 2025. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Aðalfundur 2024
Aðalfundurinn var í Grænuborg 6. júní 2024, kl. 19:0. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur samþykktur til áritunar og kosið í stjórn. Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem hafði verið í stjórn frá 2013, kom inn í varastjórn eftir eins árs hlé. Á fundi stjórnar að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Kristinn H. Þorsteinsson
Varamenn: Rósa Björg Brynjarsdóttir og Bergsteinn Þór Jónsson.
Verðlaunasjóður barnabóka: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Verðlaunin hafa verið veitt í 33 skipti, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.
Árið 2024 féllu verðlaunin niður vegna þess að verið var að ganga frá breytingum á sjóðnum. Ákveðið var að verðlaun sjóðsins fái þá sérstöðu að vera fyrir texta og myndverk og geta höfundar því verið tveir. Einnig var ákveðið að verðlaunin muni framvegis heita: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin. Gengið var frá nýrri reglugerð og ýmsum formsatriðum vorið 2024 og gert nýtt merki fyrir sjóðinn. Einnig samþykkti Sumargjöf að verðlaunin (framlag Sumargjafar) verði hækkuð í 1,5 Mkr. – Auglýst var eftir handritum 9. maí 2024 með skilafresti til 1. október. Alls bárust 34 handrit að myndríkum barnabókum. Þar af voru 24 fyrir yngri börn, en hin fyrir eldri börn og unglinga. Búið er að velja verðlaunabók og eru höfundarnir nú að klára teikningar og ganga frá bókinni, sem kemur út í haust. Auglýst var 20. maí 2025 eftir handritum að verðlaunabók 2026, skilafrestur er til 15. október. – Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd og í stjórn sjóðsins.
Styrkir
Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, féllu styrkveitingar niður árin 2023 og 2024. Ákveðið var að taka aftur upp styrkveitingar á þessu ári og var auglýst eftir umsóknum með skilafresti til 2. mars 2025. Alls bárust 46 umsóknir. Ákveðið var að veita 15 styrki að þessu sinni, og er heildarupphæð þeirra 9.472.000 kr. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 4. maí.
Hægt er að stjá yfirlit styrkja með því að smella hér.
Styrkir til Grænuborgar og Steinahlíðar í tilefni af 100 ára afmæli félagsins
Samþykkt var að veita hvorum leikskóla veglegan styrk í tilefni afmælisins. Einnig fá starfsmannafélögin á leikskólunum styrk frá félaginu.
Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson
Bók sem fjallar um sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár frá því að Barnavinafélagið Sumagjöf var stofnað, kom út í byrjun nóvember 2024. Bókin er glæsilegt verk og mikið myndskreytt, 640 bls. Útgáfuhóf var í verslun Forlagsins á Fiskislóð 6. nóvember og var það vel heppnað. Fanney Benjamínsdóttir kynningarstjóri Forlagsins setti samkomuna. Kristín H. Ólafsdóttir flutti ávarp, Guðjón Friðriksson kynnti bókina og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávarpaði gesti. Kristín afhenti honum svo tvö eintök af bókinni, annað fyrir hann sjálfan og hitt fyrir borgina.
Bókin var einnig kynnt í Kiljunni í sjónvarpi og Guðjón kynnti hana og las upp á um 40 stöðum. Bókin hlaut góðar undirtektir og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis. Í lok janúar fékk bókin svo Íslensku bókmenntaverðlaunin 2025 í flokki fræðirita. Hún hefur vakið mikla athygli og fólk er mjög ánægt með hana. Það var vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með þessum hætti.
Hægt er sjá umfjöllun um bókina Börn í Reykjavík með því að smella hér.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Samkvæmt nýlegri frétt á að gera Sæbrautarstokk á árunum 2027-30, en hann er forsendan fyrir Borgarlínu á þessum stað.
Lóð í Steinahlíð
Matjurtagarðurinn er nýttur af foreldrum og öðrum. Kristinn H. Þorsteinsson hefur haft umsjón með umhirðu lóðar, sem er í höndum verktaka.
Göngustígur í Steinahlíð
Foreldrar í Steinahlíð hafa óskað eftir göngustíg meðfram innkeyrslu til að minnka slysahættu. Málið er í athugun hjá borginni.
Gamla Steinahlíðarhúsið
Í húsinu er ein leikskóladeild (21 barn), en starfsemin í húsinu stendur e.t.v. tæpt, nema bætt verði úr aðgengi fyrir fatlaða. Mikilvægt er að starfsemi verði áfram í húsinu. Af þessu tilefni kom fram tillaga um að „rampa upp“ Steinahlíð til að húsið verði aðgengilegt fötluðum. Verkefninu Römpum upp Ísland er lokið, en einhver fyrirtæki veita ráðgjöf um útlit og hönnun rampa. Stefnt er að því að ljúka þessu á árinu.
Grænaborg
Kominn er tími á viðhald á loftræsikerfi og mögulega að útvíkka það inn í nýju álmuna. Kostnaður verður þónokkur ef til kemur og er málið í skoðun.
Heimasíðan sumargjof.is
Sumarið 2024 var hýsing vefsíðunnar færð yfir til Snerpu á Ísafirði, og fór vefsíðan í loftið um haustið. Rósa B. Brynjarsdóttir hefur séð um uppfærslu vefsíðunnar. Rósa hefur einnig séð um Facebook-síðu félagsins.
Fjármál Sumargjafar
Endurskoðun og ráðgjöf (Henry Örn Magnússon) hefur undanfarin ár verið endurskoðandi félagsins og sér einnig um rukkun leigu.
Firmaritun
Í sambandi við íbúðarkaup í árslok 2022 kom til skoðunar hver megi skrifa undir skuldbindingar í nafni félagsins (rita firma), það var ekki skýrt í lögum Sumargjafar. Lagabreyting þar um var gerð á aðalfundinum 2025.
Tímaritið Börn og menning
Það er gefið út af Ibby á Íslandi, sem eru frjáls félagasamtök um barnabókmenntir og barnamenningu. Sumargjöf styrkir tímaritið með 10 áskriftum.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Einnig á félagið íbúð á Hallgerðargötu 1A, 3. hæð, þar sem aðsetur félagsins er.
Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2023 - 2024
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 6. júní 2024. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2023 til aðalfundar 2024. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Aðalfundur og stjórnarkjör
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 1. júní 2023, kl. 19:30. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur afgreiddur til áritunar og kosið í stjórn. Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem hafði verið í stjórn frá 2013, og í aðalstjórn frá desember 2017, ákvað að draga sig í hlé. Í stað hennar kom Kristinn H. Þorsteinsson inn í aðalstjórn. Særún Sigurjónsdóttir, varamaður frá 2021, dró sig einnig í hlé. Á fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Kristinn H. Þorsteinsson
Varamaður: Bergsteinn Þór Jónsson.
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Verðlaunin hafa verið veitt í 33 skipti, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.
Í fyrra féllu verðlaunin niður annað árið í röð vegna þess að ekki bárust frambærileg handrit. Verðlaunaféð (framlag Sumargjafar) átti þá að hækka í 1,0 Mkr. Ástæðuna fyrir minnkandi áhuga má að hluta a.m.k. rekja til þess að Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur sem stofnað var til af hálfu borgarinnar, eru að efnislegu inntaki sniðin að Verðlaunasjóði barnabóka og síðan hefur verið samkeppni um handrit á milli þessara tveggja verðlauna. Einnig eru Íslensku bókmenntaverðlaunin sem forsetinn afhendir, farin að verðlauna barnabækur. Í vetur var því ákveðið að Verðlaunasjóður barnabóka fái þá sérstöðu að verðlauna texta og myndverk; höfundar geta því verið tveir. Einnig var ákveðið að verðlaunin muni framvegis heita: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin. Gengið var frá nýrri reglugerð og ýmsum formsatriðum. Einnig var samþykkt að framlag Sumargjafar (verðlaunin) hækki í 1,5 Mkr. Stefnt er að því að fyrsta verðlaunabókin samkvæmt nýjum reglum verði gefin út haustið 2025. Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd og í stjórn sjóðsins.
Styrkir
Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, var ákveðið að gera hlé á styrkveitingum á þessu ári, eins og í fyrra. Reiknað er með að taka aftur upp þráðinn á næsta ári.
Saga barna í Reykjavík
Í tilefni af 100 ára afmæli Sumargjafar nú í vor, fékk stjórnin Guðjón Friðriksson sagnfræðing til að rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Gengið var frá samningi við Guðjón 4. júní 2019. Hann skilaði handriti í árslok 2021, og fór það síðan í yfirlestur hjá ritnefnd, en í henni eru Hildur Biering, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson stjórnarmenn Sumargjafar. Guðjón skilaði svo fullbúnu handriti til Forlagsins 18. ágúst 2023 með myndum, myndatextum og heimildaskrá.
Varðandi útgáfu ritsins töldum við eðlilegt að leita til Forlagsins, sem við höfum unnið mikið með. Forlagið lýsti ánægju með bókina, og óskaði eftir að gefa hana út haustið 2024, og gera hana að jólabók, sem við samþykktum. Gengið var frá samkomulagi við Forlagið um útgáfuna. Umbrot bókarinnar er langt komið og verður þetta glæsileg bók.
Styrkir til útgáfunnar
Miðstöð íslenskra bókmennta veitti Sumargjöf 750.000 kr. styrk, og barnamálaráðherra veitti 250.000 kr. styrk. Reykjavíkurborg veitti 350.000 kr. styrk til afnota af ljósmyndum úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur, en fyrirhugað er að birta 171 mynd úr safninu.
Húsnæðismál félagsins
Eins og fram kom í síðustu skýrslu var flutt inn í nýtt húsnæði félagsins á Hallgerðargötu 1A þann 17. mars 2023. Búið er að stofna húsfélag og sér Eignaumsjón um reksturinn. Íbúðin hentar vel sem aðstaða fyrir félagið.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Samkomulag liggur fyrir um skipti á landi, allt að 5.000 fermetrum, og var það undirritað í Steinahlíð 22. ágúst 2022 af borgarstjóra og formanni Sumargjafar. Veruleg óvissa er um framgang Borgarlínu og Sæbrautarstokks.
Nýr leikskóli og Ævintýraborg í Steinahlíð
Frá síðasta aðalfundi var málið í hálfgerðri biðstöðu, en vinna Alta við deiliskipulag hélt áfram fram á haustið 2023. Jón Valgeir Björnsson hjá borginni upplýsti þá að verkefnið í Steinahlíð væri komið á ís, og einnig Ævintýraborgin. Hann sagði að skipulagsvinnan nýtist ef haldið verður áfram. Hann bað um bréf um kostnaðarstöðu verksins, sem borgin mun væntanlega greiða a.m.k. að hluta.
Hljóðvist og loftgæði í Steinahlið
Þann 21. júní 2023 var fundur um hljóðvist með Myrru, hljóðstofu. Virðist hægt að uppfylla kröfur með vissum mótvægisaðgerðum.
Göngustígur í Steinahlíð
Foreldrar í Steinahlíð hafa óskað eftir göngustíg meðfram innkeyrslu til að minnka slysahættu. Málið er í skoðun hjá borginni.
Álfasteinar í Steinahlíð
Anna Lísa Guðmundsdóttir verkefnastjóri fornleifa hjá Árbæjarsafni hafði samband og spurði um örnefnið Tvísteina, og um Álfasteina við Steinahlíð. Snjólaug Guðmundsdóttir sem vann hjá Idu Ingólfsdóttur í Steinahlíð, hafði heyrt að Tvísteinar væru við húsið. Austast á lóðinni er steinn sem Elsa E. Guðjónsson lék sér við sem barn og kallaði Álfastein. Steinninn var fluttur inn á lóðina haustið 1997, með milligöngu Erlu Stefánsdóttur sjáanda, þegar lóðin var skert, sbr. Mbl. 26.09.1997.
Lóð í Steinahlíð
Matjurtagarðurinn er nýttur af foreldrum og öðrum. Kristinn H. Þorsteinsson stjórnarmaður hefur haft umsjón með umhirðu lóðar, sem er í höndum verktaka.
Stuðningur við Grænuborg og Steinahlíð
Sumargjöf hefur reynt að gera vel við starfsfólk í Grænuborg og Steinahlíð, til dæmis í sambandi við afmæli leikskólanna. Nýlega var samþykkt var að veita leikskólunum styrki í tilefni af 100 ára afmæli félagsins.
100 ára afmælið vorið 2024
Á síðasta vetrardag, 24. apríl, var viðtal við Kristínu H. Ólafsdóttur formann félagsins og Guðjón Friðriksson á morgunvaktinni í RÚV, og rætt um 100 ára afmælið og útgáfu á bókinni Börn í Reykjavík. Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, var viðtal við Kristínu í Morgunblaðinu. Þótti vel við hæfi að minnast afmælisins með þeim hætti. Þegar bókin Börn í Reykjavík kemur út í haust, verður útgáfuhóf hjá Forlaginu eða í Ráðhúsi Reykjavíkur. – Þess má geta að Kristín Dýrfjörð minntist 100 ára afmælisins á Fésbók. Einnig Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra á blog-síðu sinni.
Heimasíðan sumargjof.is
Eftir að Rósa Björg Brynjarsdóttir hvarf úr stjórn hefur uppfærsla vefsíðunnar legið niðri. Sama er að segja um Fésbókarsíðu félagsins. Við það bættist að fá þurfti nýjan hýsingaraðila. Talsvert var unnið í málinu á árinu, undir umsjón Kristins H. Þorsteinssonar og er nú loksins farið að sjást til lands í málinu. Kominn er hýsingaraðili, Snerpa á Ísafirði. Rósa Björg Brynjarsdóttir sem sá um heimasíðuna, féllst á halda utan um uppfærslur fyrir okkur. Stefnt var að því að koma breyttum vef upp fyrir afmælið (25. apríl 2024), en það tókst ekki, og verður reynt að ljúka því sem fyrst. – Tímarit sem Sumargjöf gaf út eru komin inn á timarit.is, og verða þau tengd inn á vefsíðuna (Sólskin, Fóstra, Sumargjöfin, Barnadagurinn/ Barnadagsblaðið/ Sumardagurinn fyrsti). Einnig verður kynning um sögu félagsins sett þar inn, og kynning sem Kristinn var með á fundi hjá okkur um sögulega þróun Steinahlíðar.
Fjármál Sumargjafar
Endurskoðun og ráðgjöf (Henry Örn Magnússon) hefur undanfarin ár verið endurskoðandi félagsins, og sér nú einnig um rukkun á leigu.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg á Skólavörðuholti og Steinahlíð við Suðurlandsbraut. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Einnig á félagið íbúð á Hallgerðargötu 1A. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2022 - 2023
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 1. júní 2023. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2022 til aðalfundar 2023. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Aðalfundur og stjórnarkjör
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg miðvikudaginn 8. júní 2022, kl. 19:30.
Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur afgreiddur til áritunar og kosið í stjórn, sem var óbreytt frá fyrra ári. Á fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa B. Brynjarsdóttir og Sölvi Sveinsson
Varamenn: Bergsteinn Þór Jónsson, Kristinn H. Þorsteinsson og Særún Sigurjónsdóttir
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin féllu niður á síðasta ári, 2022. Þá bárust 10 handrit, þar af tvö frambærileg en hvorugt metið verðlaunahæft.
Í vetur bárust 10 handrit og komu tvö til nánari athugunar. Niðurstaðan var að fella verðlaunin niður annað árið í röð. Framlag Sumargjafar átti að hækka í 1.000.000 kr. Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd.
Styrkir
Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, var ákveðið að gera hlé á styrkveitingum á þessu ári.
Styrkur til kaupa á gróðurhúsi í Tjarnarborg
Tjarnarborg átti 80 ára afmæli í árslok 2021, og kom þá upp hugmynd um að gefa leikskólanum gróðurhús. Hulda Ásgeirsdóttir leikskólastjóri óskaði eftir styrk frá Sumargjöf í þessu skyni. Tjarnarborg skipar sérstakan sess hjá Sumargjöf, þar var Uppeldisskólinn stofnaður og starfaði fyrsta árið. Samþykkt var að gjöf frá útskriftarárgangi Fóstruskóla Sumargjafar 1972, renni til þessa verkefnis, og félagið bæti við þannig að upphæðin verði 300.000 kr. Gróðurhúsið var sett upp sumarið 2023.
Saga barna í Reykjavík
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, ákvað stjórnin að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur skilaði handriti í árslok 2021. Eftir yfirlestur hjá ritnefnd, endurskoðaði Guðjón og stytti handritið, aflaði mynda og samdi myndatexta. Stefnt er að því að ritið komi út næsta vor, 2024.
Útgáfa ritsins
Stjórnin taldi eðlilegt að þreifa fyrst fyrir sér hjá Forlaginu, sem við höfum unnið mikið með. Kristín og Sölvi hittu Hólmfríði Matthíasdóttur hjá Forlaginu 17. maí 2023, og tók hún vel í að gefa út bókina. Forlagið fékk þrjá kafla og hugmynd um myndafjölda og fjölda í lit.
Húsnæðismál félagsins
Félagið hafði á leigu rúmgott herbergi í Sóltúni 20, með afnotum af kaffistofu og salerni. Stjórnin velti fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fjárfesta í húsnæði fyrir félagið. Aðstaðan í Steinahlíð var skoðuð og var ekki talin koma til greina á meðan leikskólabörn eru í gamla húsinu og starfsmannaaðstaða í Úthlíð. Í nóvember 2022 bauðst tækifæri til að kaupa nýja stúdíóíbúð á 3. hæð í Hallgerðargötu 1A. Geymsla í kjallara fylgir. Samþykkt var að kaupa hana og var gengið frá kaupsamningi í lok nóvember; með afhendingu 1. mars 2023. Andvirði íbúðar í Skipholti 5 fór í kaupin og nokkuð að auki. Í febrúar 2023 kom í ljós að við myndum missa húsnæðið í Sóltúni og var þá ákveðið að flytja aðstöðu félagsins á Hallgerðargötu 1A. Fengnir voru flutningamenn í verkið og flutt inn 17. mars 2023. Talsverð vinna var að koma sér fyrir og er aðstaðan nú orðin mjög góð.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Var því komið á framfæri í mati á umhverfisáhrifum, skipulagsbreytingu og hugmyndasamkeppni. Á fundi með borginni 26. apríl 2022 voru kynnt drög að samkomulagi um skipti á landi. Sumargjöf gerði nokkrar lagfæringar á samkomulaginu, í samráði við lögfræðing félagsins. Borgin samþykkti allar breytingarnar og var samkomulagið undirritað í Steinahlíð 22. ágúst 2022 af borgarstjóra og formanni Sumargjafar. Jón Valgeir Björnsson hjá Eignaskrifstofu var þar kynntur sem umsjónarmaður verkefnisins af hálfu borgarinnar. Helstu atriði samkomulagsins eru:
Fari Borgarlínan inn á lóð Steinahlíðar, Suðurlandsbraut 75, … með þeim hætti sem greinir í 1. gr. samkomulags þessa, mun Sumargjöf framselja til Reykjavíkurborgar til eignar allt að 5.000 fermetra af lóðinni Steinahlíð. Reykjavíkurborg mun í staðinn bæta við lóð Steinahlíðar sambærilegu landi og skal það liggja að lóð Steinahlíðar. Landið sem kemur í stað lands sem framselt er Reykjavíkurborg skal vera að lágmarki að mati Sumargjafar eða óháðs þriðja aðila af sömu gæðum og stærð og landið sem framselt er Reykjavíkurborg og vera nýtanlegt fyrir Steinahlíð. Reykjavíkurborg skal á sinn kostnað leggja nýja girðingu á lóðarmörkum í samráði við Sumargjöf. Að öðru leyti en að framan greinir kemur ekki til frekara endurgjalds af hálfu aðila vegna skipta á landi
Veruleg óvissa er um framgang Borgarlínu og Sæbrautarstokks.
Ráðgjafarsamningur við Alta
Þann 28. september 2022 var fundur hjá borginni þar sem samþykkt var að fá Alta sem ráðgjafa í undirbúningsvinnunni. Sumargjöf samþykkti að vera í í forsvari fyrir vinnu Alta, þó að ekki liggi fyrir samningur um kostnaðarskiptingu. Þann 12. október var fundur í Steinahlíð með Halldóru Hreggviðsdóttur frá Alta þar sem lóðin var skoðuð og rætt um mögulegan stað fyrir nýjan leikskóla, skipulag lóðar og fleira. Í framhaldinu vann Alta fyrstu drög að „Þróunaráætlun fyrir Steinahlíð“. Meginatriðið er breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina, þar sem skilgreindur er byggingarreitur fyrir nýjan 120-200 barna leikskóla, og fyrir bráðabirgðahúsnæði á byggingartíma (Ævintýraborg). Verksamningurinn var samþykktur með smá breytingum í stjórninni og undirritaði Kristín hann fyrir hönd félagsins og Halldóra Hreggviðsdóttir fyrir hönd Alta, þann 29. nóvember 2022.
Nýr leikskóli í Steinahlíð
Borgin hefur rætt um að nýr leikskóli í Steinahlíð verði fyrir 120-200 börn. Gert er ráð fyrir 11 fm á barn, þannig að gólfflötur yrði allt að 2.200 fm. Til að minnka umfang hússins yrði það á tveimur hæðum og kjallari fyrir tæknirými undir hluta þess. Grunnflötur gæti verið 1.250 fm, sem er stórt hús. Skoðaðar hafa verið nokkrar staðsetningar. Á byggingartíma yrði starfsemin í Ævintýraborg sem rúmar 100 börn, og gæti staðið í 5 ár.
Haldnir hafa verið allmargir vinnufundir, flestir hjá Alta. Eftir fund 27. janúar 2023, kom upp biðstaða í málinu. Að beiðni Reykjavíkurborgar hafði Alta samband við Myrru hljóðstofu um að meta hljóðvist á lóðinni og mun borgin greiða þá vinnu. – Kristinn tók saman myndir og mikinn fróðleik um Steinahlíð, sem hann kynnti á stjórnarfundi 23. febrúar 2023.
Gamla Steinahlíðarhúsið
Það var lauslega metið í húsakönnun 2010 og var vilji til að friðlýsa það. Arne Finsen teiknaði það, en hann teiknaði m.a. Siglufjarðarkirkju. Pétur Ármannsson arkitekt hjá Minjastofnun þekkir vel til hússins og var ákveðið að fá hann til að skoða það. Hann kom 9. desember og leggur til að húsið verði friðað, en telur mikilvægt að því verði fundið hlutverk sem skili tekjum upp í viðhald. Friða mætti hluta af innrýminu (loftið). Með friðun má sækja um styrki til viðhalds, en það eru ekki háar upphæðir. Áður stóð við Steinahlíð garðhýsi sem flutt var að sumarbústað á Þingvöllum. Til eru teikningar af því.
Úthlíð
Pétri fannst Úthlíð stinga í stúf við gamla húsið, en talsverð verðmæti eru í húsinu, sem er innifalið í leigu.
Bekkur í Steinahlíð
Þann 26. ágúst afhenti Guðný Bjarnadóttir bekk með áletrun til minningar um Idu Ingólfsdóttur fyrsta leikskólastjóra í Steinahlíð. Bekkurinn er gjöf frá ættingjum og vinum Idu. Nokkur afgangur var af söfnunarfénu og voru í samráði við Bergstein leikskólastjóra keypt 4 borð með bekkjum fyrir börnin.
Stuðningur við starfsemi í Grænuborg og Steinahlíð
Í vetur voru afhentar viðurkenningar frá ríki og borg til vinnustaða með bestu starfskjör starfsfólks. Grænaborg lenti í öðru sæti fyrir 25-49 manna vinnustaði, og er viðurkenningarskjal komið upp á vegg þar. Sumargjöf hefur reynt að gera vel við starfsfólk í Grænuborg og Steinahlíð, til dæmis í sambandi við afmæli félagsins og leikskólanna. Ákveðið var að styrkja starfsmannafélögin árlega um 5.000 kr. á starfsmann, sem eru um 30 í Grænuborg og um 20 í Steinahlíð.
Ávöxtun fjármuna Sumargjafar
Henry Örn Magnússon endurskoðandi félagsins ráðlagði að setja hluta af innistæðum í að kaupa fasteign. Eins og fram hefur komið var fasteign keypt í vetur.
Heimasíða Sumargjafar
Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur séð um vefsíðuna sumargjof.is og uppfært eftir þörfum. Rósa hefur stofnað Fésbókarsíðu fyrir félagið þar sem styrkir hafa verið auglýstir.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2021 - 2022
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 8. júní 2022. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2021 til aðalfundar 2022. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Nokkur röskun var á starfsemi félagsins á liðnu ári vegna Covid-19 faraldursins, en nú er þjóðlífið aftur að færast í eðlilegt horf.
Aðalfundur og breytingar á stjórn:
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Hannesarholti þriðjudaginn 15. júní 2021, kl. 17. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningar afgreiddir til áritunar og kosið í stjórn. Steinunn Jónsdóttir sem setið hafði í varastjórn frá 2010 og í aðalstjórn frá 2015, gaf ekki kost á sér og var henni þakkað ánægjulegt samstarf. Særún Sigurjónsdóttir kom ný inn í varastjórn og Sölvi Sveinsson kom úr varastjórn í aðalstjórn. Á fyrsta fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Sölvi Sveinsson
Varamenn: Bergseteinn Þór Jónsson, Kristinn H. Þorsteinsson og Særún Sigurjónsdóttir
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2021 voru afhent 12. október, og vegna fjöldatakmarkana var athöfnin í bókabúð Forlagsins úti á Granda. Að þessu sinni hlaut Ólafur Gunnar Guðlaugsson verðlaunin fyrir bókina Ljósbera, sem er fyrsta skáldsaga hans fyrir eldri börn. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Ljósberi sé kraftmikil og spennandi fantasía fyrir unglinga. Börn úr Vogaskóla aðstoðuðu dómnefnd við valið en alls bárust 19 handrit. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð 750.000 kr., en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 33. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.
Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 10 handrit að barna- og unglingabókum. Ekkert handritanna taldist verðlaunahæft að mati dómnefndar og falla verðlaunin því niður í ár. Framlag Sumargjafar átti að vera 750.000. Það hækkar í 1.000.000 kr. árið 2023. Sölvi Sveinsson hefur verið fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd frá ársbyrjun 2021.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Auglýstir voru styrkir til rannsókna, lista- og þróunarverkefna í þágu barna, einkum barna á leikskólaaldri. Alls bárust 32 umsóknir en tvær komu of seint. Ákveðið var að veita átta styrki, samtals kr. 6.130.000. Styrkirnir voru afhentir í byrjun maí 2022. Hægt er að kynna sér yfirlit styrkja hér.
Styrkur til UNICEF
Vegna stríðsátaka í Úkraínu efndi UNICEF á Íslandi til söfnunar til að bæta aðstæður barna þar. Stjórn Sumargjafar ákvað að gefa eina milljón króna í söfnunina.
Saga barna í Reykjavík
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi m.a. til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur var ráðinn til verksins. Hann skilaði handriti í árslok 2021 og er það nú í yfirlestri hjá ritnefnd og stjórn, auk þess sem verið er að safna myndefni. Undirbúningur útgáfu verður á næsta ári, 2023. Í ritnefnd eru Hildur Biering, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson.
Myndir af leikskólum
Matthildur Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Freys Þórarinssonar fyrrverandi formanns Sumargjafar, afhenti félaginu litskyggnur sem hann tók af leikskólum um 1977.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en áformað er að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Var því komið á framfæri við borgina, Verkefnastofu borgarlínu og Skipulagsstofnun. Borgin viðraði þá hugmynd að hugsanleg skerðing verði bætt með skiptum á öðru landi á svæðinu. Stjórn félagsins féllst á að skoða það ef uppbótarspildan henti fyrir starfsemi Steinahlíðar, þ.e. rekstur leikskóla og sem grænt svæði, og að borgin beri allan kostnað af standsetningu lóðarinnar. – Þann 26. apríl 2022 var haldinn fundur hjá borginni, þar sem fram kom að skerðing lóðar verður að hámarki 5.000 fm í suðausturhorni, sem bætt verður upp með jafnstórri spildu að norðaustan. Borgin lagði fram drög að samkomulagi um skipti á landi. Í þriðju grein þess er viljayfirlýsing um samstarf um að þróa svæðið áfram og fjölga leikskólaplássum. Sumargjöf er með nokkrar tillögur um breytingar á samkomulaginu. Borgin hefur boðað til fundar um málið 14. júní. Lögfræðistofan Réttur hefur verið Sumargjöf til ráðuneytis varðandi Steinahlíð og borgarlínu.
Endurgerð leiksvæðis og lóðar í Steinahlíð hefur verið í biðstöðu vegna óvissu um Borgarlínu.
Úthlíð
Undirbúnings- og kaffiaðstaða starfsfólks var flutt í Úthlíð sumarið 2021 og er ánægja með aðstöðuna. Kostnaður við að standsetja húsnæðið var greiddur af Reykjavíkurborg. Skrifstofa Bergsteins Þórs Jónssonar leikskólastjóra var um haustið flutt í kjallarann í gömlu Steinahlíð. Engin starfsemi er á efstu hæð í gömlu Steinahlíð, en hinar tvær eru í fullri notkun.
Gróðurhús og matjurtagarður
Í tilefni af 70 ára afmæli Steinahlíðar 2019 var leikskólanum gefið lítið gróðurhús. Það var sett upp vorið 2021 og er nú komið í fulla notkun. Matjurtagarðurinn er talsvert nýttur af foreldrum og öðrum.
Nýting á lóð
Um tíma nutu börn úr Fossvogsskóla kennslu í húsnæði Hjálpræðishersins. Lóðin í Steinahlíð var þá nýtt sem leiksvæði og til leikfimikennslu, með leyfi Bergsteins leikskólastjóra.
Grænaborg 90 ára
Haldið var upp á afmælið 25. júní, kl. 15-17, og var fjölmenni þar, börn, foreldrar og gestir, og borgarstjórinn í Reykjavík leit inn í lokin. Nokkur úr okkar hópi mættu. Kristín H Ólafsdóttir formaður Sumargjafar ávarpaði gesti og afhenti gjafir frá félaginu, til leikskólans og til starfsmanna. Keypt var upplýsingatækniefni fyrir gjöfina. Grænaborg er elsti leikskóli á landinu.
Sumargjöf barst gjöf frá útskriftarárgangi Fóstruskóla Sumargjafar 1972
Sumargjöf á ensku
Styrkþegi spurði um enskt heiti félagsins. Kristín leitaði til Kenevu Kunz sem er löggiltur þýðandi og var niðurstaða að velja: SUMARGJOF, Friends of Children Society.
Heimasíða Sumargjafar
Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur séð um vefsíðuna sumargjof.is og uppfært hana eftir þörfum. Einnig stofnaði hún Fésbókarsíðu, sem nýtist til að kynna styrki o.fl.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra.
Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2020 -2021
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 15. júní 2021. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2020 til aðalfundar 2021. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Mikil röskun hefur orðið á starfsemi félagsins vegna Covid-19 faraldursins, og var úthlutun styrkja síðasta árs frestað til hausts 2020 og aðalfundi þar til í desember 2020 af þeim sökum.
Aðalfundur og breytingar á stjórn
Vegna samkomubanns var ákveðið að halda aðalfund með rafrænum hætti 9. desember 2020. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningar afgreiddir til áritunar og kosið í stjórn. Rán Einarsdóttir sem setið hafði í stjórn í 39 ár gaf ekki kost á sér og var henni þakkað ánægjulegt samstarf. Kristinn H. Þorsteinsson kom nýr inn í varastjórn. Tekin var upp sú nýbreytni að árgjald var rukkað í heimabanka og fréttabréf birt á heimasíðu félagsins í stað þess að senda félagsmönnum það í pósti. Ársreikningur var undirritaður rafrænt.
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2020 voru afhent 22. október. Vegna fjöldatakmarkana var athöfnin í bókabúð Forlagsins úti á Granda. Að þessu sinni hlaut Rut Guðnadóttir verðlaunin fyrir sína fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Að sögn dómnefndar er sagan skemmtileg og spennandi og skrifuð af mikilli virðingu og næmni fyrir flóknum tilfinningum sem fylgja unglingsárunum. Bókin fékk vinsamlega dóma og seldist vel. Börn úr Vogaskóla aðstoðuðu við valið. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð kr. 750.000 en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 32. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 35.
Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 19 handrit að barna- og unglinga-bókum. Upplýst verður í október um höfund verðlaunabókarinnar og verður bókin þá gefin út og kynnt. Framlag Sumargjafar verður kr. 750.000.
Kristín H. Ólafsdóttir hefur verið fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd frá 2015. Síðastliðið haust óskaði hún eftir að Sölvi Sveinsson tæki sæti hennar í nefndinni, og tók hann við í ársbyrjun 2021.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 30 umsóknir. Ákveðið var að veita níu styrki, samtals kr. 6.200.000. Styrkirnir voru afhentir í lok maí 2021, en vegna Covid-19 faraldursins var engin athöfn að þessu sinni. Verkefnin sem hlutu styrk eru kynnt annars staðar á vefsíðunni.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Lokahátíð var nú í mars og var styrkur Sumargjafar 750.000 kr. Þetta mun vera í síðasta skipti sem keppnin er haldin núverandi formi. Fyrirhugað er að sveitarfélögin taki verkefnið að sér, e.t.v. í breyttri mynd.
Saga Sumargjafar
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi m.a. til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur vinnur að verkinu og mun ljúka því í ársbyrjun 2022.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en áformað er að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar og skerði lóðina talsvert. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Hefur því verið komið á framfæri við Verkefnastofu Borgarlínu og við Skipulagsstofnun í tengslum við mat á umhverfisáhrifum sem er að hefjast. Borgin hefur viðrað þá hugmynd að hugsanleg skerðing verði bætt með skiptum á öðru landi á svæðinu. Stjórn félagsins hefur fallist á að skoða það nánar, en þó með skilmálum um að uppbótarspildan henti fyrir starfsemi Steinahlíðar, þ.e. rekstur leikskóla og sem grænt svæði, og að borgin beri allan kostnað af standsetningu lóðarinnar. Ekki hefur heyrst nánar frá borginni um málið. Sumargjöf hefur fengið ráðgjöf hjá lögfræðistofunni Rétti varðandi Steinahlíð og Borgarlínu.
Endurgerð lóðar
Endur lóðar í Steinahlíð hefur verið í biðstöðu vegna óvissu um Borgarlínu, en þó var afgirt leiksvæði barna stækkað og tengt nýja húsinu, Steinagerði.
Úthlíð
Bergsteinn leikskólastjóri í Steinahlíð hefur óskað eftir að færa undirbúningsaðstöðu kennara úr risi gamla Steinahlíðarhússins yfir í Úthlíð, sem stundum hefur verið nýtt sem listasmiðja og mætti nýta betur. Málið er í skoðun hjá Vinnueftirlitinu og borginni. Einhverjar breytingar þarf að gera og fyrirhugað er að leggja ljósleiðara í húsið.
Gróðurhús
Í tilefni af 70 ára afmæli Steinahlíðar 2019 var ákveðið að gefa leikskólanum gjöf. Samþykkt hefur verið að kaupa lítið gróðurhús og verður það sett upp á næstunni.
Sala á Skipholti 5
Haustið 2019 var hugsanleg sala á Skipholti 5 til umræðu í stjórn, en íbúð félagsins á 3. hæð var orðin lúin, og er auk þess óþarflega stór. Í ársbyrjun 2021 kom fram að 2. hæð og hálf 3. hæð í Skipholti 5 væru komnar í sölu og var ákveðið að hafa samflot við söluna. Íbúð okkar seldist í febrúar og var afhent 15. mars síðastliðinn.
Mikil vinna var að rýma húsnæðið. Fara þurfti yfir öll gögn, velja úr til varðveislu og ráðstafa öðru. Árbæjarsafn tók við gömlum leikföngum og munum, skv. samningi um leikskólaminjar frá 2001. Skjöl og útgefið efni Sumargjafar var flokkað og skráð og komið fyrir í sýrufríum öskjum til varanlegrar varðveislu.
Nýtt húsnæði félagsins
Eftir söluna á Skipholti 5 var tekið á leigu rúmgott herbergi í Sóltúni 20, með afnotum af kaffistofu og salerni. Flutt var í það 2. mars 2021. Það hentar félaginu ágætlega sem fundaraðstaða, auk þess sem öll gögn og munir félagsins komast þar fyrir. Herbergið í Sóltúni er ekki framtíðaraðstaða fyrir félagið, og þarf að huga nánar að þeim málum.
Grænaborg
Í sumar verður Grænaborg 90 ára, og var samþykkt að gefa leikskólanum gjöf af því tilefni. Haldið verður upp á afmælið í Grænuborg 25. júní síðdegis með börnum, foreldrum, starfsfólki og borgarstjóranum í Reykjavík.
Merki Sumargjafar
Júlíus Valdimarsson grafískur hönnuður hefur hreinteiknað merki félagsins í lit og svart-hvítu, fyrir bæði prentmiðla og rafræna miðla.
Sumardagurinn fyrsti
Margrét Blöndal, sem er með þátt í Ríkisútvarpinu, óskaði eftir viðtali við Krístínu H. Ólafsdóttur, og var það flutt að morgni sumardagsins fyrsta. Þar var rætt um Barnavinafélagið Sumargjöf og starfsemi þess fyrr og nú, sem átti vel við á þessum degi.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan hefur undanfarin ár samnýtt húsnæðið í Skipholti 5 með Sumargjöf, var þar með herbergi og aðgang að fundarherbergi. Sumargjöf þakkar ánægjulegt sambýli, nú þegar breytingar verða á húsnæðismálum félagsins.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra.
Starfsárið 2019 - 2020
Mikil röskun hefur orðið á starfsemi félagsins vegna Covid-19 faraldursins, og var ákveðið að fresta bæði úthlutun styrkja og aðalfundi til haustsins.
Jón Freyr Þórarinsson
Jón Freyr Þórarinsson fyrrverandi formaður Sumargjafar lést 21. desember 2019. Við útför hans 7. janúar var sendur blómakrans frá Sumargjöf, og hans minnst af hálfu félagsins í minningargrein í Morgunblaðinu. Jón Freyr var lífið og sálin í félaginu í rúm 40 ár, til ársloka 2017, og er hans sárt saknað.
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2019 voru afhent í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi 10. október 2019. Snæbjörn Arngrímsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Rannsókn á leyndardómum eyðihússins. Að mati dómnefndar er þetta grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, og hugrökk og huglaus börn. Börn úr Valhúsaskóla aðstoðuðu við valið. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, kr. 500.000, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 31. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 34.
Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 14 handrit að barna- og unglingabókum. Upplýst verður 15. október nk. hver er höfundur að verðlaunabókinni og verður bókin þá kynnt og formlega gefin út. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Ákveðið hefur verið að hækka verðlaunaféð árið 2020 í kr. 750.000.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 34 umsóknir. Ákveðið var að veita níu styrki, samtals kr. 5.700.000. Styrkirnir voru afhentir í lok september 2020, en vegna Covid-faraldursins var engin athöfn að þessu sinni.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn er nú 750.000 kr.
Saga Sumargjafar
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hóf verkið nú 1. september og mun ljúka því í ársbyrjun 2022.
Steinahlíð
Steinahlíð varð 70 ára 7. nóvember 2019, og var haldið upp á það með afmælishátíð í Steinahlíð. Í sumar var sett upp hlið í heimkeyrslu, þ.e. slá sem lyftist þegar hringt er í ákveðið númer, og ætti það að koma í veg fyrir óviðkomandi bílaumferð. Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en í ársbyrjun voru hugmyndir um hana kynntar félaginu. Þær eru ekki fullmótaðar, en líklegt talið að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar og skerði lóðina talsvert. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Hefur því verið komið á framfæri við Verkefnastofu Borgarlínu og við Skipulagsstofnun í tengslum við mat á umhverfisáhrifum sem er að hefjast.
Í ársbyrjun var hafinn undirbúningur að endurgerð leiksvæðis á lóð, sem er brýn framkvæmd, en borgin frestaði síðan öllum framkvæmdum við lóðina vegna óvissu um Borgarlínu.
Grænaborg
Í sumar var útbúið leiksvæði fyrir yngstu börnin í norðurhorni lóðar við Grænuborg og komið þar fyrir leiktækjum og er almenn ánægja með breytingarnar. Kostnaður var um 4,8 milljónir kr.
Skilti í Tjarnarborg
Skilti í Tjarnarborg var sett upp 13. nóvember 2019 til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara hér á landi.
Breytingar á stjórn
Bergsteinn Þór Jónsson leikskólastjóri í Steinahlíð kom inn sem varamaður á aðalfundi 2019.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5 og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2018 - 2019
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.
Saga Sumargjafar
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.
Steinahlíð
Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.
Grænaborg
Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.
Skipholt 5
Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.
Skilti í Tjarnarborg
Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.
Gerðabækur Sumargjafar
Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).
Breytingar á stjórn
Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2017 - 1018
Breytingar á stjórn
Þau tíðindi urðu um síðustu áramót að Jón Freyr Þórarinsson formaður og Ragnar Jónasson gjaldkeri hurfu úr stjórn eftir langt og farsælt starf.
Jón Freyr var skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Sumargjafar 14. ágúst 1974 og varð þá varaformaður félagsins. Þegar borgin hafði að fullu tekið við rekstri leikskólanna í árslok 1978, hætti Jón sem fulltrúi borgarinnar en vann áfram fyrir félagið í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar. Á aðalfundi 25. nóvember 1980 var hann kjörinn í stjórn Sumargjafar, og varð þá formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemi þess. Hann var því formaður Sumargjafar í 37 ár og vann fyrir félagið í meira en 43 ár.
Ragnar kom inn í stjórn 1984 og var gjaldkeri frá 1992, eða rúm 25 ár; hann sat í stjórn í 33 ár. Haldinn var kveðjufundur fyrir þá 29. janúar 2018 þar sem þeir fengu blóm, bóka- og peningagjöf og skrautrituð skjöl fyrir ómetanlegt starf. Stjórn félagsins þakkar þeim einstaklega ánægjulega samveru og samvinnu.
Í stað Jóns Freys og Ragnars komu inn í stjórn Albert Björn Lúðvígsson og Sölvi Sveinsson.
Kristín Hagalín Ólafsdóttir tók við formennsku og Gerður Sif Hauksdóttir varð gjaldkeri.
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Lindaskóla í Kópavogi 17. október 2017. Að þessu sinni fékk Elísa Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur verðlaunin fyrir skáldsöguna: Er ekki allt í lagi með þig? sem er fyrsta bók hennar. Að mati dómnefndar er þetta spennandi og skemmtileg unglingasaga sem fjallar á nýstárlegan hátt um einelti sem fer að hluta fram á netinu. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 20 handrit að barna- og unglingabókum. Næsta verðlaunabók verður kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 29. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 32; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 9.500.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018, kl. 14.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.
Steinahlíð
Kjallarinn í Steinahlíð var málaður og dúklagður og greiddi Sumargjöf tæp 40% kostnaðar, eða um 2,5 Mkr. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Steinunn Jónsdóttir hefur sagt upp sem leikskólastjóri í Steinahlíð, eftir 17 ára starf (frá 2001). Bergsteinn Þór
Jónsson hefur verið ráðinn nýr leikskólastjóri.
Grænaborg
Endurbætur á lóð fóru fram síðastliðið sumar og kostuðu rúmar 4,6 Mkr. sem Sumargjöf greiddi. Borgin sá um lagfæringar innanhúss, m.a. var skipt um efni í loftum.
Sumardagurinn fyrsti,
ljósmyndasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur. Félagið styrkti sýninguna.
Heimasíða Sumargjafar
Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 fermetra skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2016 - 2017
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, rithöfundar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Seljaskóla 13. október 2016. Að þessu sinni fékk Inga Mekkín Beck verðlaunin fyrir skáldsöguna: Skóladraugurinn, sem er fyrsta bók hennar og jafnframt lokaverkefni til meistaraprófs í ritlist frá Háskóla Íslands. Að mati dómnefndar er þetta spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hefur ástvin. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 28. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 31; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 35 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.360.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 7. maí 2017, kl. 14.
70 ára afmæli leikskólakennaramenntunar
Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður 1946 og hafði það hlutverk að mennta leikskólakennara, sem þá kölluðust fóstrur. Þann 4. nóvember 2016 var haldin afmælishátíð í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð, í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá því að Uppeldisskólinn var stofnaður, en hann er nú á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sumargjöf tilnefndi Helgu Hallgrímsdóttur í undirbúningsnefnd og lagði fram 200.000 kr. styrk. Hátíðin var mjög vel heppnuð og voru þar 450 til 500 manns; á eftir var boðið upp á veitingar. Flutt voru nokkur erindi á sögulegum nótum, m.a. ræddi Jón Freyr Þórarinsson formaður félagsins um þátt Sumargjafar og Uppeldisskólann. – Í tilefni af afmælinu ákvað stjórnin að setja upp skilti í Steinahlíð til að minnast þess að þar var Uppeldisskólinn á árunum 1949–1952. Árið 1957 fékk skólinn nafnið Fóstruskóli Sumargjafar. Ríkið tók við rekstrinum 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands. Námið færðist á háskólastig 1998.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.
Steinahlíð
Komið hefur verið upp matjurtagarði fyrir foreldra og starfsfólk, og voru á síðasta ári keypt verkfæri, verkfærakista, borð o.fl. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem hófst 2014 og er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Ragnar Jónasson hefur tekið saman greinargerð um upphaf Aldingarðsins, sem finna má á heimasíðu félagsins. Grænaborg: Nokkrar endurbætur voru gerðar innanhúss, en framkvæmdir á lóð bíða sumars.
Heimasíða Sumargjafar
Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna sumargjof.is
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2015 - 1016
Á árinu var stjórn félagsins skipuð þessum mönnum:
Formaður: Jón Freyr Þórarinsson, formaður
Varaformaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Ragnar Jónasson
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Gerður Sif Hauksdóttir og Steinunn Jónsdóttir
Varamenn: Helga Hallgrímsdóttir, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Hildur Biering.
Steinahlíð
Færanlega húsið í Steinahlíð, sem sett var upp í árslok 2011, er kallað Steinagerði. Þar eru nú reknar tvær leikskóladeildir og sú þriðja er í gamla húsinu. Reksturinn hefur gengið vel og mun styrkja stöðu Steinahlíðar til framtíðar. Í Steinahlíð hefur verið komið upp matjurtagarði fyrir foreldra og starfsfólk þar, auk þess sem framhald er á Aldingarði æskunnar sem hófst 2014. Framkvæmdir við bílastæði við Steinagerði eru ekki á fjárhagsáætlun borgarinnar.
Grænaborg
Á degi leikskólans, 5. febrúar 2016, fékk Grænaborg viðurkenningu fyrir að skara fram úr við að fjölga körlum í leikskólastarfinu, en um fjórðungur starfsmanna er karlmenn.
Barnabókasjóður
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Barnabókaverðlaunin voru afhent í Hagaskóla 13. október 2015, og var það í 27. sinn sem þau voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 30. Að þessu sinni fékk Ragnheiður Eyjólfsdóttir arkitekt verðlaunin fyrir skáldsöguna: Skuggasaga – Arftakinn, sem er fyrsta bók höfundar, margslungin og spennandi furðusaga fyrir alla aldurshópa. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 20 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Verðlaunabækurnar eru orðnar veglegur bókaflokkur.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 39 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.810.000 krónur:
Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 24. apríl 2016, að viðstöddum gestum. – Árið 1958 gaf Sigfús Halldórsson Sumargjöf lagið Sumarkveðja til íslenskra barna (við ljóð Sigurðar Einarssonar frá Holti). Við afhendingu styrkja 2015 var lagið flutt af blásurum í útsetningu Össurar Geirssonar; Sumargjöf kostaði útsetningu lagsins. Það var aftur flutt við afhendingu styrkja nú í ár.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú hækkaður í 750.000 kr. Þann 8. mars 2016 var haldin 20 ára afmælishátíð keppninnar (í Hafnarfirði) í Hafnarborg.
Heimasíða Sumargjafar
Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna sumargjof.is og er nú hægt að nálgast þar mun meiri upplýsingar um starfsemi félagsins en áður var.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Jóhanna Bjarnadóttir
Á aðalfundi 2015 baðst Jóhanna Bjarnadóttir undan endurkjöri eftir 37 ára stjórnarsetu. Hún kom inn sem varamaður árið 1978, og í aðalstjórn 1979. Var henni þakkað fyrir ánægjulegt samstarf. Jóhanna var leikskólastjóri í Grænuborg frá 1983 til 2002.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Þar eru geymd ýmis söguleg gögn félagsins, auk þess sem þar er góð fundaraðstaða. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.
Starfsárið 2014 - 2015
Steinahlíð
Færanlega húsið í Steinahlíð, sem Reykjavíkurborg setti upp í árslok 2011, var tekið í notkun um síðustu áramót. Húsið er kallað Steinagerði en þar eru nú reknar tvær leikskóladeildir og sú þriðja er í gamla húsinu. Reksturinn hefur gengið vel og mun styrkja stöðu Steinahlíðar til framtíðar. Gerður var samningur við Reykjavíkurborg um ýmis fjárhagsleg atriði tengd rekstri hússins. Að undanförnu hefur verið til kynningar nýtt deiliskipulag í Steinahlíð, um innkeyrslu á lóð og bílastæði; niðurstaða liggur ekki fyrir.
Grænaborg
Reykjavíkurborg hefur verið með þreifingar um að byggja við Grænuborg og bæta þar við einni deild. Sumargjöf hefur fallist á að málið sé skoðað, en það er nú í biðstöðu.
Barnabókasjóður
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Langholtsskóla 16. október 2014, og var það í 26. sinn sem þau voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 29. Að þessu sinni fékk Guðni Líndal Benediktsson verðlaunin fyrir skáldsöguna: Leitin að Blóðey – Ótrúleg ævintýri afa, sem er fyrsta bók höfundar, spennandi og bráðfyndin saga ætluð 7-12 ára lesendum; myndir gerði Ivan Capelli. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 28 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Ólafsdóttir er að þessu sinni fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. – Verðlaunabækurnar eru orðnar veglegur bókaflokkur og hefur vel tekist til með starfsemi sjóðsins.
Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 umsóknir sem margar voru áhugaverðar. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.550.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 3. maí 2015, að viðstöddum gestum.
Aldingarður æskunnar
Verkefnið hófst í Steinahlíð 25. júní 2014 með því að börnin gróðursettu eplatré, rifs o.fl. Garðyrkjufélag Íslands og Sumargjöf standa að verkefninu sem heldur áfram í ár. Verið er að útbúa grænmetisgarð í Steinahlíð fyrir foreldra barna þar.
Handbók: Snemmtæk íhlutun í málörvun 2-3 ára barna
Í tilefni af 90 ára afmæli félagsins 2014 gaf Sumargjöf öllum leikskólum í Reykjavík eintak af þessari bók, bæði borgarreknu leikskólunum og þeim einkareknu. Félagið væntir þess að bókin nýtist vel í leikskólastarfi.
Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn nam nú 500.000 kr.
Heimasíða Sumargjafar
Í tilefni af 90 ára afmæli Sumargjafar á síðasta ári var ákveðið að endurbæta heimasíðu félagsins, sumargjof.is. Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur unnið að málinu og er nú hægt að nálgast mun meiri upplýsingar um starfsemi félagsins en áður var.
Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Þar eru geymd ýmis söguleg gögn félagsins, auk þess sem þar er góð fundaraðstaða. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.