Á sumardaginn fyrsta 1925 kom fyrsta rit Barnavinafélagsins Sumargjafar út og fékk það nafnið Sumargjöfin. Útgáfa ritanna var talin geta unnið málstað barna tvenns konar gagn. Í fyrsta lagi vakið almenning í bænum til aukins skilnings á þeim verkefnum sem félagið beitti sér fyrir og í öðu lagi aflað fjár til starfseminnar.

Sum ritanna voru gefin út í skamman tíma og strandaði þá útgáfan á lítilli sölu. Tvö rit voru gefin út farsællega í áratugi. Sólskin var gefið út frá árinu 1930 til 1967 og Barnadagurinn hóf göngu sína árið 1934 en nafni þess var breytt í tvígang, frá árinu 1940 til 1956 var það gefið út undir nafninu Barnadagsblaðið og frá árinu 1956 – 1978 undir nafninu Sumardagurinn fyrsti.

Flest rita Sumargjafar eru aðgengileg inni á tímarit.is en þar er hægt að skoða alla árganga hvers rits.

Sumargjöf hefur sem dæmi einnig gefið út ársskýrslur félagsins og afmælisrit.

Auk þess á félagið aðild að Íslensku barnabókaverðlaununum og á einn fulltrúa í dómnefndinni.