Stofnun Sumargjafar

Félagið var stofnað 11. apríl 1924 og hlaut nafnið Sumargjöfin. Laufey Vilhjálmsdóttir átti hugmyndina að nafninu. Félagið óx upp úr hreyfingu sem vakin var af reykvískum konum, og tók Bandalag kvenna að sér forustuna.
Má rekja aðdragandann að stofnun félagsins til ársins 1918.

Helstu stofnendur félagsins
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu:
Steingrímur Arason, formaður
Aðalbjörg Sigurðardóttir
Magnús Helgason
Steinunn Bjartmarsdóttir
Steindór Björnsson frá Gröf.

Meðal annarra forvígismanna voru:
Camilla Bjarnason, Inga Lárusdóttir, Laufey Vilhjálmsdóttir, Steinunn H. Bjarnason o.fl.

Markmið félagsins
Tilgangur félagsins var, að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum.
Tilgangi þessum hugðist félagið ná m.a. með því að stuðla að rekstri dagheimila fyrir börn.
Félagið gerði Sumardaginn fyrsta að hátíðisdegi barna, í samræmi við gamla íslenska hefð.  Þann dag fór einnig fram fjársöfnun félagsins.

Starfsemi Sumargjafar
Starfsemi félagsins fyrstu árin var m.a.:
Hátíðahöld og fjársöfnun á Sumardaginn fyrsta.
Útgáfa uppeldismálarita fyrir foreldra.
Útgáfa ársritsins Sólskins, með lesefni fyrir börn.
Námskeiðahald fyrir börn.
Rekstur dagheimila (leikskóla) yfir sumarið, þann tíma sem skólar störfuðu ekki.

Rekstur dagheimila

Strax fyrsta árið, 1924, hófst rekstur dagheimilis í gamla Kennaraskólanum, og var það starfrækt þrjú sumur, 1924-1926.
Árið 1930 var hafinn undirbúningur að byggingu dagheimilis, Grænuborgar, og var það fullgert 25. júlí 1931. Þar með má segja að rekstur félagsins hafi komist á fullan skrið.Upp úr 1940 fór dagheimilum að fjölga og jukust þá umsvif félagsins jafnt og þétt, með dyggum stuðningi bæjarstjórnar Reykjavíkur, enda naut félagið mikils trausts.

Dagheimilum fjölgar
Með fjölgun borgarbúa og breyttu þjóðfélagi fjölgaði dagheimilum og leikskólum jafnt og þétt. Um 1950 komst sú skipan á að borgin reisti heimilin og lagði fram rekstrarfé, en fól Sumargjöf reksturinn. Borgin hafði jafnframt fulltrúa í stjórn Sumargjafar.
Fjöldi barnaheimila sem Sumargjöf rak:
1945 – 3.
1950 – 8.
1955 – 8.
1960 – 12.
1965 – 14.
1970 – 20.
1974 – 32.
1978 – 35.

Fóstruskóli Sumargjafar
Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður árið 1946. Árið 1957 var nafni skólans breytt í Fóstruskóla Sumargjafar.
Tilgangur skólans var að mennta starfsfólk fyrir barnaheimilin.
Skólinn varð ríkisskóli 1973, og hlaut þá nafnið Fósturskóli Íslands. Hann var sameinaður Kennaraháskóla Íslands árið 1998.
Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf sá um reksturinn.

Völuskrín
Vorið 1977 keypti Sumargjöf leikfangaverslunina Völuskrín, sem lengst var á Klapparstíg 26. Verslunin sérhæfði sig í sölu vandaðra leikfanga sem hafa uppeldislegt gildi.
Sumargjöf rak verslunina í 12 ár, eða til 1989. Þá var reksturinn orðinn það þungur að ákveðið var að selja hann.  Varð niðurstaðan sú, að Mál og menning keypti Völuskrín, og setti upp leikfangadeild í verslun sinni í Síðumúla.

Borgin yfirtekur reksturinn
Í ársbyrjun 1978 yfirtók Reykjavíkurborg rekstur allra barnaheimila borgarinnar. Var þar raunar verið að viðurkenna staðreyndir; það að Sumargjöf sæi um reksturinn byggðist   eingöngu á trausti og gamalli hefð.
Við þetta varð grundvallarbreyting á starfsemi félagsins. Áður hafði stjórn Sumargjafar verið stjórnarnefnd dagvistarstofnana. Nú þurfti félagið að finna sér nýtt hlutverk.

Breytt hlutverk Sumargjafar

Á síðustu árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem stuðningsaðili við málefni, sem tengjast velferð barna.
Félagið vinnur að þessum markmiðum sínum, m.a. með styrkveitingum.
Félagið hefur verið aðili að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka frá árinu 1988, og styrkir sjóðinn fjárhagslega.
Félagið á náið samstarf við hliðstæð samtök, eins og Bernskuna, og styður einnig Barnaheill.

Formenn félagsins
Eftirtaldir hafa verið formenn félagsins:
Steingrímur Arason,   1924 – 1939.
Ísak Jónsson,    1939 – 1954.
Arngrímur Kristjánsson,  1954 – 1957.
Páll S. Pálsson,   1957 – 1962.
Ásgeir Guðmundsson,  1962 – 1974.
Bragi Kristjánsson,   1974 – 1980.
Jón Freyr Þórarinsson,  1980 – 2018
Kristín Hagalín Ólafsdóttir, 2018 –