Aldingarður æskunnar er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Verkefnið er unnið að frumkvæði Garðyrkjufélags Íslands eftir hugmynd Kristins H. Þorsteinssonar. Hönnun og útfærsla er í höndum Dagnýjar Bjarnadóttur landslagsarkitekts.
Hugmyndin felst í því að koma upp sérstökum trjáreitum með ávaxtatrjám og berjarunnum í náinni samvinnu við leikskóla landsins, foreldra, sveitarfélög og aðra velunnara í sem flestum sveitarfélögum landsins. Formleg gróðursetning fyrstu trjánna var miðvikudaginn 25. júní 2014 við leikskólann Steinahlíð. Þuríður Backman formaður Garðyrkjufélags Íslands og Kristín Ólafsdóttir varaformaður Sumargjafar, ávörpuðu samkomuna sem samanstóð af starfsfólki Steinahlíðar, nemendum, foreldrum og velunnurum verkefnisins áður en hafist var handa við að gróðursetja ávaxtatrén og ný og áhugaverð berjayrki. Að lokum fengu allir nýpressaðan rabbarbarasafa og epli.
Erfingjar Halldórs Eiríkssonar stórkaupmanns gáfu Sumargjöf Steinahlíð (húsið og lóðina í kring) árið 1949, til minningar um foreldra sína, Halldór og Elly Schepler Eiríksson. Í gjafabréfinu er ákvæði um að leikskóli skuli vera í Steinahlíð og að börnum verði kennd trjá- og matjurtarækt.
Matjurtir til heimilisnota hafa verið ræktaðar í Steinahlíð trúlega öll þau 65 ár sem hér hefur verið barnaheimili/leikskóli. Börnin hafa tengst þeirri ræktun eftir því sem aldur þeirra og þroski hefur leyft. Hugmynd Kristins H. Þorsteinssonar var því kærkomin viðbót til að auka matjurtarækt hér enn frekar. Hugmyndinni var svo fylgt eftir sumarið 2015 með því að úthluta foreldrum barnanna í Steinahlíð skikum til að rækta matjurtir.
Sumargjöf og Garðyrkjufélag Íslands eiga margt sameiginlegt. Félögin eru bæði áhugamannafélög, stofnuð til að bæta úr óviðunandi ástandi hvort á sínu sviði, með velferð barna, umhverfis og heilsu að leiðarljósi. Garðyrkjufélagið með því að bæta umhverfi og auka hollustu í mataræði landsmanna sem var snar þáttur í baráttunni fyrir bættu heilbrigði og lækkun ungbarnadauða. Tilgangur Sumargjafar hefur verið að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og þroska barna og vernda þau fyrir óhollum áhrifum.
Eitt af hlutverkum Garðyrkjufélagsins er að leiða saman ólíkar kynslóðir og skapa skilyrði fyrir vaxandi ræktunarmenningu ungs fólks. Aldingarður æskunnar er kjörinn vettvangur til þess. Áhugi almennings á hvers kyns ræktun hefur aukist. Hvað ræktunarskilyrði varðar hafa frumkvöðlar í ræktun, með bjartsýni og þolinmæði, sýnt að trén geta borið ávexti utanhúss hér á landi. Sæmundur Guðmundsson og Eyrún Óskarsdóttir á Hellu eru þau fyrstu sem hófu markvissa ræktun ávaxtatrjáa. Þau fluttu sín fyrstu tré inn árið 1994 og voru það eplatré og yrkin Transparent Blanche, Haugmann og Sävstaholm. Þessi yrki er nú búið að gróðursetja í Steinahlíð. Árangur af ávaxtarækt getur tekið nokkur ár, en ef rétt er að staðið geta trén borið ávexti hér á landi utandyra. Með þeirri þekkingu sem Garðyrkjufélagið býr að verður spennandi að fylgjast með Aldingarði æskunnar dafna.