Barnavinafélagið Sumargjöf hafði forgöngu um að opnað yrði barnaheimili í Reykjavík árið 1924, hið fyrsta af mörgum sem á eftir fylgdu. Í flestum tilfellum lagði Reykjavíkurborg til húsnæði en Sumargjöf sá um reksturinn, frá 1935 með styrk frá Reykjavíkurborg. Einnig byggði Sumargjöf eða keypti nokkur hús fyrir starfsemina. Árið 1958 styrktust tengslin við borgina á þann veg að fulltrúi Reykjavíkurborgar tók sæti í stjórn Sumargjafar. Árið 1978 tók borgin alfarið við rekstri leikskólanna. Í dag á Sumargjöf leikskólana Grænuborg og Steinahlíð og leigir Reykjavíkurborg húsnæðið undir rekstur leikskóla.

Árið 1968 voru gerðar viðamiklar breytingar á reglugerð Barnavinafélagsins Sumargjafar um starfsemi félagsins. Í reglugerðinni var til dæmis tekið fram um fjölda barna í hinum ýmsu deildum á öllum dagheimilum og leikskólum, settar reglur um starf forstöðukvenna og nýjar reglur um innritun í leikskólana. Breytingin skapaði meiri ró og festu í starfi leikskólanna. Árið 1971 var Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi ráðin til Sumargjafar til að sjá um viðtöl við foreldra sem sóttu um vist fyrir börn sín. Frá upphafi hafði innritun verið í höndum forstöðukvenna og á ábyrgð þeirra. Með fjölgun heimila og auknum þrýsingi frá almenningi um dagvistun barna, varð þessi þáttur of umsvifamikill og erfitt fyrir forstöðukonur að sinna honum sem skyldi. Mikið hagræði þótti fólgið í því að hafa innritun á einum stað og fá öruggar upplýsingar um fjölda umsókna og ástæður umsækjanda. Sama ár var Sólveig Björnsdóttir ráðin til Sumargjafar sem uppeldislegur leiðbeinandi við barnaheimilin.

Starfsemi Barnavinafélagsins Sumargjafar varð með tímanum fjölþætt og umsvifamikil. Í upphafi voru opnuð sumardagheimili (1924) en seinna meir bættust við vetrardagheimili (1938). Dagheimilin voru opin allt að sex daga vikunnar og mættu mæður með börnin sín snemma á morgnana og sóttu þau seint að deginum. Oft voru það börn efnaminni foreldra sem sóttu dagheimilin og í sumum tilfellum var maturinn sem börnin fengu þar eina staðgóða næringin sem þau nutu.

Leikskóli að erlendri fyrirmynd (barnagarður, Kindergarten) var fyrst starfræktur að Amtmannsstíg 1 (1940), en leikskólar þóttu hinar nauðsynlegustu stofnanir í borgum og bæjum. Börn á aldrinum þriggja til sex ára fengu þar aðstöðu til að leika sér í hollu umhverfi undir handleiðslu hæfra starfsmanna. Börnin glímdu þar við fjölbreytt og skemmtileg viðfangsefni sem hæfðu aldri þeirra og þroska, til að efla hugmyndaflug þeirra og þjálfa líkamann. Þau voru látin teikna, móta í leir og klippa myndir í blöð og pappa. Einnig átti að þjálfa börnin í meðferð móðurmálsins og kenna þeim vísur og söngva. Reynslan sýndi að leikskólar veittu borgarbörnum nauðsynleg þroskaskilyrði og gegndu mikilvægu hlutverki í uppeldi borgarbarnsins. Leikskólinn gaf barninu tækifæri til að tjá sig í skapandi starfi, efldi heilbrigði þess og þroska, bæði andlegan og líkamlegan. Leikskólar Sumargjafar voru tvísetnir, kennt var bæði fyrir og eftir hádegi.

Barnavinafélagið Sumargjöf rak vistheimili frá 6. október 1938 þar sem börnin dvöldu allan sólarhringinn, vikum og mánuðum saman og sá heimilið þeim fyrir öllum nauðsynjum. Vistheimili var rekið um tíma í Vesturborg, Tjarnarborg og Suðurborg, en vöggustofan í Suðurborg var síðasta vistheimilið á vegum Sumargjafar. Vöggustofa var vistheimili fyrir börn innan tveggja ára aldurs. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum 1. maí 1952.

Barnavinafélagið Sumargjöf rak í fyrsta sinn hér á landi dagvöggustofu þegar Laufásborg opnaði árið 1952 en þangað voru tekin ungbörn til daggæslu. Árið 1962 er í fyrsta skipti minnst á skriðdeild en hún var starfrækt í Hagaborg og var fyrir börn sem voru ekki farin að ganga en þurftu ekki lengur að liggja í vöggu.

Árið 1971 var fyrsta skóladagheimilið opnað í Reykjavíkurborg á vegum Sumargjafar. Börnin stunduðu nám í sínum skóla en fengu aðstoð við heimanámið og ýmiss konar aukakennslu í skóladagheimilinu.

Frá árinu 1924 til 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstri leikskólanna var starfsemi eftirfarandi barnaheimila á vegum Sumargjafar. Með því að smella á nafn heimilanna birtist saga hvers heimilis fyrir sig. Þau heimili sem eru skáletruð eru enn starfandi í dag að einhverju leyti. Heimildaskrá er fyrir neðan upptalningu heimilanna nema heimildaskráning mynda er fyrir neðan hverja um sig:

Sumardagheimili í Kennaraskólanum 1924–1926

Fljótlega eftir stofnun félagsins 11. apríl 1924 var farið að undirbúa rekstur dagheimilis yfir sumarið og ýmsir staðir athugaðir í því sambandi. Komist var að þeirri niðurstöðu að Grænuborgartúnið væri heppilegast og fékk félagið afnot af húsnæði Kennaraskólans við Laufásveg fyrir starfsemina. Jóna Sigurjónsdóttir var ráðin forstöðukona. Dagheimilið var rekið í þessari mynd frá 1924 til 1926. Sumarið 1927 voru framkvæmdir við hús Kennaraskólans en einnig stóð yfir bygging Landspítalans sem var reistur steinsnar frá leikvelli barnanna. Leitað var að öðru húsnæði sem reyndist ófáanlegt. Ákveðið var því að leggja niður starfsemi dagheimilisins, enda hafði félagið í raun naumast bolmagn til að reka það. Félagið var nánast félaust og átti ekki kost á styrk, hvorki frá Reykjavíkurborg né ríkinu. Á árunum 1928 til 1930 lagði félagið allt kapp á að afla fjár til að reisa hús undir dagheimili.

Grænaborg 1931 – 1978

Gamla Grænaborg, Grænuborgartúninu 1931–1978

Þann 18. Júlí 1930 skrifuðu Steingrímur Arason formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar og Knud Zimsen borgarstjóri undir samning um að félagið fengi land að láni á Grænuborgartúninu austan við Landspítalann, þar sem hægt væri að reisa dagheimili handa börnum. Byggingarframkvæmdir hófust seint í maí 1931 og var húsið fullgert að kvöldi 25. júlí; hlaut það nafnið Grænaborg. Jafnframt smíði hússins var útbúinn fyrsti leikvöllurinn hér á landi sem var með sérstökum leikvallartækjum. Starfsemi dagheimilis var allan ágústmánuð þetta sama ár. Stefanía Stefánsdóttir veitti heimilinu forstöðu þetta fyrsta sumar en Þorbjörg Árnadóttir hjúkrunarkona var ráðin forstöðukona sumarið 1932. Börnin mættu klukkan níu að morgni og fóru heim klukkan sex að kvöldi. Flest börnin mættu fylgdarlaus nema þau allra yngstu sem voru þriggja ára.

Grænaborg var leigð undir skólastarfsemi yfir veturinn. Hún var stækkuð 1943, og var dagheimili rekið þar til ársloka 1981, fyrst yfir sumartímann, en frá 1954 var leikskóli rekinn þar allt árið. Árið 1966 var opnuð dagheimilisdeild á Grænuborg fyrir hjúkrunarkonur sem unnu á Landspítalanum og bar Landspítalinn allan kostnað af deildinni.

Grænaborg, Skólavörðuholtinu, 1983 

Gamla Grænaborg, var á lóð sem Ríkisspítalar þurftu fyrir sína starfsemi. Samið var um að spítalarnir yfirtækju gömlu Grænuborg, gegn því að kosta tvær deildir af þremur í nýjum leikskóla á Skólavörðuholti. Hann tók til starfa í apríl 1983 og hlaut nafnið Grænaborg. Haustið 1997 var bætt þar við tveimur leikskóladeildum og lóðin stækkuð mikið. Enn þann dag í dag er húsnæði Grænuborgar í eigu Sumargjafar en Reykjavíkurborg leigir það undir rekstur leikskólans.

Nýja Grænaborg 1985

Fóstruskólinn var starfræktur í Grænuborg frá 1954 til 1961 og starfaði hann þar í nánu sambýli og samvinnu við leikskólann.

Heimasíða Grænuborgar

[Fyrsta skóflustungan í Grænuborg] [stafræn mynd]. (1980, 17. júlí). Sótt 10. maí 2019 af timarit.is.

[Nýja Grænuborg 1985] [stafræn mynd]. (1985, 15. júní). Sótt 10. maí 2019 af timarit.is.

Stýrimannaskóli 1936

Brýn þörf var fyrir nýtt daghemili í vesturbænum. Á aðalfundi félagsins 31. janúar 1932 hóf Ísak Jónsson fyrst umræður um þetta mál. Tekjur félagsins voru að mestu bundnar við einn dag á ári, sumardaginn fyrsta, og stóðu þær fyrst og fremst undir rekstrarhalla Grænuborgar. Næstu ár fóru því í frekari fjársöfnun. Sumargjöf leitaði til kennslumálaráðherra um að fá að láni húsnæði Stýrimannaskólans til að reka þar dagheimili sumarið 1936, og var það samþykkt. Forstöðukona var Ingunn Jónsdóttir. Samhliða rekstri dagheimilis í Stýrimannaskólanum undirbjó stjórn Sumargjafar smíði nýs húss í Vesturbænum.

Vesturborg 1937–1973

Bæjarráð Reykjavíkur veitti Sumargjöf umráðarétt yfir svonefndum Grundarbletti við Kaplaskjólsveg en þar voru brunarústir Elliheimilisins gamla. Uppistandandi veggir brunarústanna þóttu óskemmdir og vel nothæfir í nýja byggingu og fékk Sumargjöf leyfi frá bæjarráði til að endurbyggja húsið. Þann 12. júní 1937 hófst rekstur dagheimilisins Vesturborgar. Fyrsta forstöðukona var Anna Magnúsdóttir.

Í Vesturborg rak félagið í fyrsta skipti vetrarheimili fyrir börn veturinn 1938 til 1939. Starfsemi vetrarheimilins var tvíþætt, annars vegar var þar dagheimili með sama sniði og sumarheimili félagsins, og hins vegar deild sem var fast vistheimili þar sem börn dvöldu allan sólarhringinn, vikum og mánuðum saman og sá heimiliið þeim fyrir öllum nauðsynjum. Voru börnin á vegum Reykjavíkurborgar. Forstöðukona vetrarheimilisins var Guðrún Stephensen.

Sumarið 1938 var ný forstöðukona ráðin til starfa á Vesturborg, Bryndís Zoëga. Hún hafði lokið námi við Fröbel Höjskole í Kaupmannahöfn og var fyrsta konan á Íslandi sem hafði lokið sérstakri menntun til að starfa við dagheimili og veita þeim forstöðu. Barnavinafélagið hafði sett sér það markmið að í framtíðinni myndu eingöngu vera menntaðar stúlkur starfandi við heimilin og með komu Bryndísar var fyrsta skrefið stigið.

Sumarið 1941 féll niður öll starfsemi í Vesturborg og Grænuborg af hernaðarástæðum, vegna brottflutnings barna úr Reykjavík, og var það í fyrsta skipti síðan 1930 sem Sumargjöf rak ekki sumardagheimili í Reykjavík. Félagið tók að sér umsjón og stjórn tveggja heimila utan Reykjavíkur, á Hvanneyri og í Reykholti í Borgarfirði. Vesturborg var notuð fyrir vöggustofu sumarið 1941 og var Ingibjörg Jónsdóttir forstöðukona.

Starfsemi barnaheimilis var í húsinu þar til það brann 8. desember 1973. Árið 1979 var byggður nýr leikskóli á Hagamel 55 og ber hann nafnið Vesturborg. Þar er nú rekinn fjögurra deilda leikskóli.

Heimasíða Vesturborgar

Austurborg I, 1940

Þörfin fyrir dagheimili var einnig orðin brýn í Austurbænum og fékk Sumargjöf húsrými í Málleysingjaskólanum á Laugavegi 108. Dagheimili var starfrækt þar sumarið 1940. Forstöðukona var Þórhildur Ólafsdóttir en hún hafði stundað nám í Svíþjóð við Social Pedagogiska Seminariet sem var skóli fyrir stúlkur sem ætluðu að starfa við og veita forstöðu barnaheimilum og leikskólum.

Amtmannsstígur 1940–1941

Sumargjöf fékk húsnæði að Amtmannstíg 1 árið 1940 til að opna vetrardagheimili. Húsnæðið var rúmgott og þótti því tilvalið að koma í framkvæmd hugmyndinni að leikskóla (Kindergarten). Forstöðukona var Þórhildur Ólafsdóttir sem veitt hafði dagheimilinu í Málleysingjaskólanum forstöðu. Vetrardagheimilið og leikskólinn að Amtmannsstíg 1 störfuðu aðeins þennan eina vetur og fluttist starfsemin síðan að Tjarnargötu 33.

Tjarnarborg 1941–1978

Haustið 1941 festi Sumargjöf kaup á Tjarnargötu 33 fyrir starfsemi þá sem hafin var á Amtmannsstíg og fékk húsið nafnið Tjarnarborg. Í húsinu var starfsemi dagheimilis og leikskóla, auk vöggustofu sem áður hafði verið í Vesturborg. Með þessum kaupum var brotið blað í sögu félagsins. Í fyrsta sinn var húsakostur svo mikill að hægt var að halda uppi hentugri og heilbrigðri flokkun starfseminnar sem af fenginni reynslu þótti nauðsynleg. Eftirspurnin eftir plássi var mjög mikil og þurfti að vísa frá jafnmörgum börnum og tekin voru inn. Forstöðukona dagheimilisins og leikskólans var Þórhildur Ólafsdóttir en Guðrún Ö. Stephensen var forstöðukona vöggustofunnar.

Starfsemi Tjarnarborgar var margþætt. Dagheimilið var rekið árið um kring og var það í fyrsta skipti í sögu félagsins. Leikskólinn starfaði í tveimur deildum, fyrir og eftir hádegi. Vöggustofan starfaði allt árið og var það sólarhringsstarfsemi. Rekstur skóladagheimilis fyrir 6–9 ára börn hófst árið 1961 í Tjarnarborg. Fóstruskólinn fékk einnig til afnota eina leikstofu í Tjarnarborg sitt fyrsta starfsár, 1946–1947, og tvær kennslustofur frá haustinu 1962 til ársbyrjunar 1964. Fyrstu árin voru því ýmsar tegundir barnaheimila reknar í Tjarnarborg, en leikskólinn hefur verið rekinn í núverandi mynd frá árinu 1990.

Heimasíða Tjarnarborgar

Suðurborg 1943–1952

Mikil þörf var fyrir nýtt dagheimili í Austurbænum, og eftir nokkurn undirbúning samþykkti Reykjavíkurborg vorið 1943 að kaupa húsin Eiríksgötu 37 og Hringbraut 78 (nú Þorfinnsgötu 16) og lána Sumargjöf þau til reksturs barnaheimila. Margskonar starfsemi var rekin þar frá stofnun Suðurborgar árið 1943 til ársins 1952 (þegar Laufásborg tók til starfa). Strax á fyrsta ári varð starfsemin fjórþætt. Dagheimili var á fyrstu hæð hússins að Eiríksgötu, en hafði auk þess afnot af stofu á annarri hæð hússins á Hringbraut. Leikskóli var starfræktur í tveimur deildum í húsinu að Eiríksgötu. Fyrirkomulag var svipað og í Tjarnarborg. Guðrún Stephensen veitti dagheimilinu og leikskólanum forstöðu.

Vöggustofa sem áður hafði verið til húsa í Tjarnarborg var flutt á þriðju hæð hússins við Hringbraut. Vistheimili var sett á fót á annarri hæð í húsinu við Eiríksgötu en það var fyrir börn á ýmsum aldri. Vistheimilið var lagt niður árið 1950 og kom barnaverndarnefnd Reykjavíkur börnunum sem þar dvöldu fyrir á Silungapolli og í Vesturborg. Guðrún Árnadóttir hjúkrunarkona veitti vöggustofunni forstöðu fyrst um haustið en þá tók við Ísafold Teitsdóttir hjúkrunarkona, sem hafði einnig forstöðu með vistheimilinu.

Stýrimannaskóli 1948

Sumardagheimili var starfrækt í Stýrimannaskólanum árið 1948 og veitti Svava Gunnlaugsdóttir því forstöðu.

Steinahlíð 1949–1978 

Á 25 ára afmælisdegi Barnavinafélagsins Sumargjafar barst félaginu vegleg gjöf en það var húsið Steinahlíð við Suðurlandsbraut ásamt rúmgóðu landi með túni, görðum og trjálundum. Einkaerfingjar hjónanna Elly Schepler Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar stórkaupmanns gáfu félaginu Steinahlíð til minningar um foreldra sína, að ósk föður þeirra. Gjöfinni fylgdu eftirfarandi skilyrði:

  1. Eignin skyldi eingöngu notuð til að starfrækja barnaheimili, þar sem væri lögð sérstök áhersla á trjárækt og matjurtarækt.
  2. Barnavinafélagið Sumargjöf átti að tryggja samþykki bæjarstjórnar fyrir því að landið yrði ekki skert, vegir yrðu ekki lagðir um það eða lóðum af því úthlutað.
  3. Félagið átti að hlúa að þeim gróðri sem var á lóðinni.
  4. Eignin átti að halda nafni sínu, Steinahlíð.

Hin höfðinglega gjöf lýsti vel hugarfari þeirra hjóna og barna þeirra. Ýmsu þurfti að breyta og lagfæra en starfsemi leikskóla hófst þó strax haustið 1949. Ida Ingólfsdóttir var fyrsta forstöðukona Steinahlíðar og gengdi hún því starfi til 1982 þegar hún náði aldursmörkum, eða í 33 ár. Hún var jafnan kennd við Steinahlíð, enda bjó hún þar í risinu. Í Steinahlíð er enn í dag rekinn leikskóli og mikil áhersla lögð á trjárækt og matjurtarækt. Uppeldisskóli Sumargjafar var starfræktur í Steinahlíð árin 1949–1952.

Í árslok 2011 fékk Reykjavíkurborg leyfi til að setja færanlegt hús á lóð Steinahlíðar. Það var tekið í notkun í ársbyrjun 2015 og eru þar reknar tvær leikskóladeildir, en sú þriðja er í gamla húsinu.

Heimasíða Steinahlíðar

Drafnarborg 1950–1978

Leikskólarnir Drafnarborg á Drafnarstíg og Barónsborg á Barónsstíg eru fyrstu leikskólarnir sem Reykjavíkurborg lét sérstaklega byggja fyrir starfsemi leikskóla. Gunnar Thoroddsen, þáverandi borgarstjóri afhenti Sumargjöf leikskólahúsin til afnota 28. september 1950. Starfsemi Drafnarborgar hófst 13. október 1950. Fyrsta forstöðukona leikskólans var Bryndís Zoëga og gegndi hún því starfi til 1991.

Árið 2011 var Drafnarborg sameinuð leikskólanum Dvergasteini undir nafninu Drafnarsteinn.

Heimasíða Drafnarsteins

Barónsborg 1950–1978

Starsemi Barónsborgar hófst 13. desember 1950. Fyrsta forstöðukonan var Guðbjörg Magnúsdóttir. Árið 2011 var leikskólinn Barónsborg sameinaður leikskólunum Lindarborg og Njálsborg undir nafninu Miðborg.

Heimasíða Miðborgar

Brákarborg 1952–1978

Borgin lét byggja nýtt hús við Brákarsund sérstaklega fyrir leikskóla eins og Barónsborg og Drafnarborg. Fyrsta forstöðukona Brákarborgar var Lára Gunnarsdóttir. Leikskólinn Brákarborg er enn starfræktur.

Heimasíða Brákarborgar

Laufásborg 1952–1978 

Eitt það merkasta sem gerðist í sögu Sumargjafar var opnun Laufásborgar árið 1952. Á 25 ára afmæli Sumargjafar lýsti þáverandi borgarstjóri, Gunnar Thoroddsen því yfir að samstæðuhúsin að Laufásvegi 53 og 55 myndu standa Sumargjöf til boða ef samningar tækjust. Litið var á þessa yfirlýsingu sem eins konar afmælisviðurkenningu til félagsins. Umrædd hús voru afhent Sumargjöf þann 23. október 1952 við hátíðlega athöfn. Í ræðu sinni við þetta tilefni talaði borgarstjórinn um hið langa og sívaxandi samstarf Reykjavíkurborgar og Sumargjafar. Einnig hélt Jónas B. Jónsson, fræðslufulltrúi athyglisverða ræðu um þörf fyrir dagheimili og leikskóla. Formaður Sumargjafar, Ísak Jónsson skólastjóri, veitti húsunum viðtöku sem var stærsta barnaheimilið til þessa. Í Laufásborg var rekinn leikskóli, dagheimili og í fyrsta sinn dagvöggustofa hér á landi. Þórhildur Ólafsdóttir var fyrsta forstöðukona Laufásborgar.

Í dag er Laufásborg einkarekinn leikskóli af Hjallastefnunni.

Heimasíða Laufásborgar

Austurborg II 1958–1968

Árið 1958 bættist leikskólinn Austurborg II við leikskóla Sumargjafar en hann var til húsa í félagsheimili Óháða safnaðarins, Kirkjubæ við Háteigsveg. Forstöðukona Austurborgar II var Dóra Fríða Jónsdóttir. Leikskólinn starfaði til ársins 1968.

Hagaborg 1960–1978

Hagaborg við Fornhaga 8 var byggt í félagi við „Hvítabandið“. Hvítabandið átti hluta af efri hæð hússins sem var ætlað ljóslækningastarfsemi. Barnaheimilið var byggt af Reykjavíkurborg á árunum 1958–1961. Þegar byggingu hússins var lokið var það afhent Sumargjöf í makaskiptum fyrir húsnæði Tjarnarborgar (Tjarnargötu 33). Sumargjöf keypti efri hæð hússins árið 1973 af Hvítabandinu og var það notað fyrir skrifstofur félagsins.

Dagheimilisstarfsemi Tjarnarborgar var flutt í Hagaborg og hófst starfsemi í húsinu haustið 1960 þó það væri ekki fullklárað. Fyrsta forstöðukona Hagaborgar var Þórunn Einarsdóttir. Auk dagheimilisins í Hagaborg var þar rekin dagvöggustofa og skriðdeild. Í dag er 5 deilda leikskóli starfræktur á báðum hæðum hússins. Fóstruskólinn var starfræktur í Hagaborg veturinn 1961 til 1962. Árið 1997 keypti Reykjavíkurborg húsnæðið af Sumargjöf og ríkti nokkur óvissa um hvort leikskólinn myndi starfa þar áfram en ákveðið var að Hagaborg fengi allt húsið og er leikskólinn starfandi í þeirri mynd í dag.

Heimasíða Hagaborgar

Hlíðaborg 1960–1978

Húsnæðið við Eskihlíð var byggt árið 1955 en var fyrstu árin notað sem barnaskóli, Eskihlíðarskóli. Árið 1960 afhenti Reykjavíkurborg Sumargjöf húsnæði í Eskihlíð til að reka leikskóla. Fyrsta starfsárið fékk Sumargjöf aðeins eina stofu til umráða en fékk full umráð yfir húsinu árið 1961. Fyrsta forstöðukona Hlíðaborgar var Guðrún Guðjónsdóttir. Hlíðaborg var sameinuð leikskólanum Sólhlíð árið 2011 og ber leikskólinn í dag nafnið Hlíð.

Heimasíða Hlíðar

Lindarborg 1960

Í Lindarborg við Lindargötu 50 gerði Sumargjöf tilraun með skóladagheimili fyrir 6–9 ára börn sem var rekið árið 1960, en sú starfsemi fluttist um haustið í Tjarnarborg. Forstöðukona skóladagheimilisins var Elín Torfadóttir.

Hlíðarendi 1963

Sumargjöf fékk árið 1963 afhent húsnæði við Sunnutorg, sem Thorvaldsensfélagið hafði verið í. Dagvöggustofa var starfrækt í húsnæðinu sem bar nafnið Hlíðarendi. Fyrsta forstöðukona Hlíðarenda var Ólafía Jónsdóttir.

Hamraborg 1964–1978

Reykjavíkurborg byggði leikskólann Hamraborg að Grænuhlíð 24 og afhenti Sumargjöf hann til starfrækslu. Starfsemin hófst haustið 1964. Bæði byggingin og leikskólalóðin var byggð eftir ýtrustu kröfum sem giltu í nálægum löndum um gerð slíkra stofnana. Fyrsta forstöðukona Hamraborgar var Lára Gunnarsdóttir. Í húsinu var bæði dagvöggustofa og skriðdeild. Árið 2011 var leikskólinn Hamraborg sameinaður leikskólanum Sólbakka og heitir í dag Bjartahlíð.

Heimasíða Björtuhlíðar

Holtaborg I, 1965–1969

Snemma árs 1965 tók til starfa nýr leikskóli í húsnæði K.F.U.M. og K. við Holtaveg og fékk hann nafnið Holtaborg I. Fyrsta forstöðukona Holtaborgar var Jóhanna Bjarnadóttir. Í sumarbyrjun 1969 tóku K.F.U.M. og K. húsnæðið til afnota og var starfsemi leikskólans flutt í Holtaborg II.

Laugaborg 1966–1978

Reykjavíkurborg lét reisa myndarlegt dagheimili við Leirulæk árið 1966. Dagheimilið var vígt í maí 1966 en tók ekki að fullu til starfa fyrr en í október sama ár. Dagheimilið fékk nafnið Laugaborg og var Guðrún Guðjónsdóttir fyrsta forstöðukona heimilisins. Árið 2011 sameinaðist leikskólinn Laugaborg við leikskólann Lækjaborg og heitir sameinaður leikskóli Laugasól.

Heimasíða Laugasólar

Staðarborg 1967–1978

Reykjavíkurborg afhenti Sumargjöf barnaheimilið Staðarborg við Mosgerði í byrjun árs 1967. Húsið var byggt 1958 og var ætlunin að reka þar leikskóla á þeim tíma en í staðinn var það notað sem barnaskóli yngri barna í Háagerðisskóla þangað til það var afhent Sumargjöf. Fyrsta forstöðukona Staðarborgar var Gyða Sigvaldadóttir. Árið 1997 fluttist hluti af börnunum og starfsfólk frá Staðarborg yfir á leikskólann Jörfa við Hæðargarð 27a.

Heimasíða Jörfa

Álftaborg 1968–1978

Reykjavíkurborg lét byggja nýjan leikskóla við Álftamýri sem fékk nafnið Álftaborg, en hann tók til starfa í byrjun árs 1968. Fyrsta forstöðukona leikskólans var Pálína Árnadóttir. Ný Álftaborg var reist árið 2007 við Safamýri 30.

Heimasíða Álftaborgar

Efrihlíð 1968–1978

Árið 1968 tók til starfa dagheimilið Efrihlíð við Norðurmýrarblett 35 (Stigahlíð 68) fyrir börn stúdenta. Ríkið átti húsnæðið en afhenti Félagsstofnun stúdenta eignina. Sumargjöf tók síðan að sér faglegan rekstur heimilisins. Fyrsta forstöðukona Efrihlíðar var Sólveig Björnsdóttir.

Í dag rekur Félagsstofnun stúdenta þrjá leikskóla, Sólgarð við Eggertsgötu 8, Mánagarð við Eggertsgötu 34 og Efrihlíð við Stigahlíð. Leikskólinn Efrihlíð er í dag ætlaður börnum á aldrinum níu mánaða til tveggja ára.

Árborg 1969–1978

Árið 1969 var stofnaður nýr leikskóli í Hlaðbæ 17 í Árbænum sem fékk nafnið Árborg. Fyrsta forstöðukona Árborgar var Rán Einarsdóttir. Leikskólinn er starfandi á sama stað í dag, en árið 1997 var byggt við húsið.

Heimasíða Árborgar

Skógarborg 1969–1978

Dagheimilið Skógarborg hóf starfsemi árið 1969 og var fyrir börn hjúkrunarkvenna við Borgarspítalann. Stjórn sjúkrahússins keypti gamalt hús og lét innrétta það en Sumargjöf tók síðan að sér reksturinn. Fyrsta forstöðukona Skógarborgar var  Hrafnhildur Sigurðardóttir. Árið 2011 sameinaðist Skógarborg leikskólanum Furuborg og fékk nafnið Furuskógur.

Heimasíða Furuskógar

Holtaborg II, 1969–1978

Árið 1969 tók til starfa leikskólinn Holtaborg II þegar Holtaborg I hætti störfum í húsnæði K.F.U.M. og K. við Holtaveg. Nýi leikskólinn var í nýbyggðu húsi við Sólheima 21. Jóhanna Bjarnadóttir var fyrsta forstöðukona Holtaborgar II en hún hafði áður verið forstöðukona Holtaborgar I. Árið 2011 var Holtaborg II sameinuð leikskólanum Sunnuborg og heitir í dag Langholt.

Heimasíða Langholts 

Sunnuborg 1970–1978

Barnaheimilið Sunnuborg við Sólheima 19 tók til starfa árið 1970. Reykjavíkurborg lét byggja húsið og afhenti Sumargjöf það til reksturs. Fyrsta forstöðukona Sunnuborgar var Ólafía Jónsdóttir. Árið 2011 var Sunnuborg sameinuð Holtaborg II og heitir sameinaður leikskóli Langholt.

Heimasíða Langholts

Skóladagheimili I, Skipasundi 1971–1978

Í byrjun árs 1971 stofnaði Sumargjöf í fyrsta skipti skóladagheimili, þ.e. fyrir börn á fræðsluskyldualdri, en það var einnig það fyrsta sinnar tegundar í borginni. Í upphafi var það rekið í leiguhúsnæði en flutti síðan í Skipasund 80. Á skóladagheimilinu gátu börn fengið aðstoð við nám sitt og ýmiss konar aukakennslu. Fyrsta forstöðukona skóladagheimilisins að Skipasundi var Hólmfríður Jónsdóttir.

Skóladagheimili II, Heiðargerði 1971–1978

Í lok árs 1971 tók til starfa skóladagheimili að Heiðargerði 38. Reykjavíkurborg keypti húsnæðið en Sumargjöf sá um starfsemina. Pálína Árnadóttir var forstöðukona skóladagheimilisins að Heiðargerði.

Arnarborg 1972–1978

Leikskólinn Arnarborg var byggður við Maríubakka og tók til starfa 1972. Fyrsta forstöðukona leikskólans var Kristín Johansen. Leikskólinn Arnarborg var sameinaður leikskólanum Fálkaborg árið 2011 og heitir í dag Borg.

Heimasíða Borgar

Lækjaborg 1972–1978

Leikskólinn Lækjaborg við Leirulæk tók til starfa í júlí 1972. Fyrsta forstöðukona Lækjabogar var Oddbjörg Jónsdóttir. Árið 2011 var Lækjaborg sameinaður leikskólanum Laugaborg og heitir í dag Laugasól.

Heimasíða Laugasólar

Kvistaborg 1972–1978

Leikskólinn Kvistaborg við Kvistaland tók til starfa í september 1972. Fyrsta forstöðukona Kvistaborgar var Ásta Ólafsdóttir. Enn í dag er rekinn leikskóli í Kvistaborg.

Heimasíða Kvistaborgar

Bakkaborg 1972–1978

Dagheimilið Bakkaborg við Blöndubakka tók til starfa í desember 1972. Fyrsta forstöðukona Bakkaborgar var Bergþóra Gústafsdóttir. Í dag er rekinn þar leikskóli.

Heimasíða Bakkaborgar

Valhöll 1973–1978

Haustið1973 opnaði nýtt dagheimili við Suðurgötu 37 sem fékk nafnið Valhöll. Ríkið hafði keypt húsnæðið til þess að Félagsstofnun stúdenta ræki þar barnaheimili. Forstöðukona Valhallar var Áslaug Sigurðardóttir.

Skóladagheimili III, Skáli 1973–1978

Árið 1973 var gömlu húsi við Hagamel, sem áður hafði verið rekið sem fjölskylduheimili, breytt og gert að skóladagheimili. Hallgrímur Th. Björnsson var ráðinn forstöðumaður en þetta var í fyrsta skiptið sem karlmaður var ráðinn til forstöðu barnaheimilis í Reykjavík.

Fellaborg 1973–1978

Reykjavíkurborg lét byggja nýjan leikskóla við Völvufell árið 1973 sem hlaut nafnið Fellaborg sem Sumargjöf rak. Fyrsta forstöðukona Fellaborgar var Gyða Sigvaldadóttir. Árið 2010 sameinaðist Fellaborg leikskólanum Völvuborg og heitir í dag Holt.

Heimasíða Holts

Selásborg 1973–1978

Dagheimilið Selásborg við Selásblett 6 hóf rekstur árið 1973. Fyrsta forstöðukona Selásborgar var Sigríður Gísladóttir. Leikskólinn Rofaborg sem tók til starfa 1985 er þar sem Selásborg var, lóðirnar voru sameinaðar 1995.

Austurborg III 1974–1978

Leikskólinn Austurborg tók til starfa 1. júlí 1974 við Háaleitisbraut 70, við hliðina á Grensárkirkju. Hann er fjögurra deilda með börn á aldrinum tveggja til sex ára. Fyrsta forstöðukona var Pálína Árnadóttir. Leikskólinn er enn starfandi í dag.

Heimasíða Austurborgar

Dyngjuborg 1974
Völvuborg 1974

Leikskólinn Völvuborg  var sameinaður leikskólanum Fellaborg árið 2010 og ber sameinaður leikskóli nafnið Holt.

Heimasíða Holts

Heimildaskrá

Álftaborg. (e.d.). Leikskólinn Álftaborg. Sótt 9. Maí 2018 af http://www.alftaborg.is/index.php/leikskolinn.

Bjartahlíð. (e.d.). Leikskólinn Bjartahlíð. Sótt 9. maí 2018 af https://www.bjartahlid.is/index.php?option=com_content&view=article&id=542&Itemid=115.

Björk Þorleifsdóttir (ritstjóri). (2012). Hamingjuhöllin, Laufásborg, 1952 – 2012. Höll handa litlum Reykvíkingum. 4 – 5.

Gils Guðmundsson (tók saman). (1949). 25 ára, Barnavinafélagið „Sumargjöf“, 1924 – 11. apríl – 1949. Reykjavík: Barnavinafélagið „Sumargjöf“.

Guðmundur Þorláksson (tók saman). (1974). Barnavinafélagið Sumargjöf 50 ára, 1924 apríl 1974. Reykjavík: Barnavinafélagið Sumargjöf.

Háskóli Íslands. (e.d.) Félagsstofnun stúdenta. Sótt 9. Maí 2018 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=skoli&chapter=content&id=178.

Leikskólinn Árborg. (2016). Skólanámskrá Árborgar. Sótt 16. maí 2018 af http://www.arborgin.is/images/Sk%C3%B3lan%C3%A1mskr%C3%A1_2015_3.pdf.

Leikskólinn Austurborg. (e.d.). Leikskólinn Austurborg. Sótt 16. maí 2018 af https://www.austurborg.is/leikskolinn/um-leikskolann.

Leikskólinn Bakkaborg. (e.d.). Leikskólinn Bakkaborg. Sótt 16. Maí 2018 af http://www.bakkaborg.is/.

Leikskólinn Borg. (e.d.). Leikskólinn Borg. Sótt 16. maí 2018 af https://borg.leikskolar.is/leikskolinn.

Leikskólinn Brákarborg. (e.d.). Leikskólinn Brákarborg. Sótt 4. maí 2018 af http://www.brakarborg.is/leikskolinn.

Leikskólinn Drafnarsteinn. (e.d.). Leikskólinn Drafnarborg. Sótt 3. maí 2018 af http://drafnarsteinn.leikskolar.is/leikskolinn/drafnarborg.

Leikskólinn Furuskógur. (e.d.). Leikskólinn Furuskógur.  Sótt 16. maí 2018 af http://furuskogur.is/leikskolinn.

Grænaborg. (e.d.). Leikskólinn Grænaborg. Sótt 2. maí 2018 af http://www.graenaborg.is/index.php/leikskolinn.

Leikskólinn Hagaborg. (e.d.). Leikskólinn Hagaborg. Sótt 9. maí 2018 af http://hagaborg.is/index.php/leikskolinn.

Leikskólinn Hlíð. (2003). Námskrá Hlíðaborgar. Sótt 9. maí 2018 af http://hlid.leikskolar.is/images/stories/Skjol/Namsskra/inngangur_fr_leiksklum_nv_03.pdf.

Leikskólinn Holt. (e.d.). Leikskólinn. Sótt 16. maí 2018 af http://holt.leikskolar.is/index.php/leikskolinn.

Leikskólinn Holtaborg. (e.d.). Leikskólinn Holtaborg. Sótt 16. maí 2018 af http://langholt.leikskolar.is/images/stories/Skjol/Namsskra/namskra.pdf.

Leikskólinn Jörfi. (e.d.). Leikskólinn Jörfi. Sótt 9. maí 2018 af https://www.jorfinn.is/leikskolinn.

Leikskólinn Kvistaborg. (e.d.). Leikskólinn Kvistaborg. Sótt 16. maí 2018 af https://www.kvistaborg.is/.

Leikskólinn Langholt. (e.d.) Leikskólinn Langholt. Sótt 16. maí 2018 af http://langholt.leikskolar.is/leikskolinn-langholt.

Leikskólinn Laugasól. (2016). Skólanámskrá Laugasólar. Sótt 9. maí 2018 af https://www.laugasol.is/images/stories/Begga/namskralaugasolarr_2016.pdf.

Leikskólinn Miðborg. (e.d.). (e.d.). Barónsborg/Regnbogaland. Sótt 4. maí 2018 af https://midborg.leikskolar.is/leikskolinn/baronsborg.

Leikskólinn Steinahlíð. (e.d.). Leikskólinn Steinahlíð. Sótt 3. maí 2018 af http://www.steinahlid.is/leikskolinn/um-steinahlidh.

Leikskólinn Tjarnarborg. (e.d.). Leikskólinn Tjarnarborg. Sótt 2. Maí 2018 af http://www.tjarnarborg.is/tjarnarborg.

Leikskólinn Vesturborg. (2015). Leikskólinn Vesturborg, skólanámskrá. Sótt 2. maí 2018 af https://www.vesturborg.is/images/Sk%C3%B3lan%C3%A1mskr%C3%A1_Vesturborgar_2015_n%C3%BDtt.pdf.