Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 10. október 2019 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson var hlutskörpust að þessu sinni en 26 handrit bárust.

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan  vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Valhúsaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru afhent nú í 34. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér.

 

í umsögn dómnefndar um bókina segir  „þetta er  grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, hugrökk og huglaus börn“.

Um bókina: „Guðjón G. Georgsson er nýfluttur í Álftabæ og fær Eyðihúsið á heilann. Milla vinkona hans sá aldrei Hrólf nágranna sinn, ríkasta mann þorpsins, sem bjó í Eyðihúsinu. Hann var víst skapvondur ógæfumaður sem sást sjaldan utandyra því sennilega var honum illa við annað fólk. Dag einn birtist dularfullur trékistill á bókasafnströppunum og bréf frá Hrólfi – þar sem bæjarbúar fá þrjár vísbendingar, þrjá lykla að leyndardómum lífs hans og fjársjóðum. Lausnin er ekki einföld. Og sannarlega ekki hættulaus. En þá er gott að Guðjón G. Georgsson og Milla eru saman í liði.“