Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.
Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.
Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.
Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.
Steinahlíð: Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.
Grænaborg: Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.
Skipholt 5: Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.
Skilti í Tjarnarborg: Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.
Gerðabækur Sumargjafar: Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).
Breytingar á stjórn: Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.
Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.
Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.