Styrkir 2022

Í upphafi árs 2022 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna þar sem sérstaklega var litið til vandaðra umsókna ætluðum börnum á leikskólaaldri. Í ár bárust 32 umsóknir og komst stjórn Sumargjafar að þeirri niðurstöðu að veita átta styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað. Stjórn Sumargjafar hefur ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja í ár líkt og í fyrra vegna covid.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki:

  1. Snillinganámskeið í grunnskólunum fyrir börn með ADHD (The OutSMARTers program)Félag um kvíðaraskanir barna, Dagmar Kr. Hannesdóttir. Rannsókn af árangri snillinganámskeiðisins sem hefur verið þróað á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar. 
  2. Sumarfrí Innanlands fyrir efnaminni fjölskyldurHjálparstarf kirkjunnar, Júlía Margrét Rúnarsdóttir.
  3. Fatakort fyrir börn á leikskólaaldriHjálparstarf kirkjunnar, Júlía Margrét Rúnarsdóttir.
  4. Íslenski málhljóðamælirinn. Bryndís Guðmundsdóttir. Endurbætt útgáfa, viðbætur við snjalltækjaforritið Íslenski málhljóðamælirinn (ÍM) sem skimar framburð íslensku málhljóðann og hljóðkerfisvitund hjá íslenskum börnum. 
  5. OrðaspjallLeikskólinn Tjarnasel í Reykjanesbæ, Árdís Hrönn Jónsdóttir, leikskólastjóri og fleiri. Endurútgáfa bókarinnar Orðaspjall sem er ætluð að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bókalestri. Bætt verður við verkefnum sem hafa verið í þróun síðan bókin kom út 2013 og tengjast Orðaspjallsaðferðinn auk bókalista. 
  6. Ég þori! Ég get! Ég vil! Linda Ólafsdóttir. Myndlýst bók fyrir börn um Kvennafrídaginn 1975. „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði“. Linda er höfundur texta og
    myndefnis. Bókin er hugsuð fyrir unga lesendur.
  7. 30 ára afmælistónleikar Drengjakórs Reykjavíkur. Drengjakór Reykjavíkur, Anna Hugadóttir, formaður Foreldrafélags Drengjakórsins. Kórinn er skipaður 18 drengjum á aldrinum 8 – 15 ára. Áformað er að halda tónleika 4. júní 2022 og verða þeir helgaðir íslenskri tónlist. Sjórnandi kórsins er Þorsteinn Freyr Sigurðsson.
  8. Barnadagskrá RIFF 2022. Hrönn Marinósdóttir. Sýning sérstaks námsefnis fyrir börn þar sem kvikmyndir eru notaðar sem kennslukagn og börnunum kennt kvikmyndalæsi. Myndirnar snerta einni á samfélagslegum málum og gera mögulegar vitsmunalegar umræður milli barna að sýningum loknum.
Continue ReadingStyrkir 2022

Styrkir 2020

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 34 umsóknir. Stjórn Sumargjafar komst að þeirri niðurstöðu að veita níu styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað en vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja að þessu sinni.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

Bland í poka. Safn nýrra barnalaga eftir Snorra Helgason

Plata sem inniheldur 11 lög flutt af Snorra og hljómsveit hans ásamt úrvalsliði gestasöngvara, meðal annars Sögu Garðarsdóttur, Valdimar Guðmundssyni, Bubba Morthens, Hugleiki Dagssyni, Halldóru Geirharðsdóttur, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og Teiti Magnússyni. Teiknarinn Elín Elísabet Einarsdóttir hefur gert teikningar við öll lögin á plötunni sem fylgir útgáfunni ásamt textum og gítarhljómum í 28 síðna bók sem hönnuðurinn Bobby Breiðholt setur upp. Bland í poka kom út í nóvember 2019 hjá Hinni islenzku hljómplötuútgáfu sem er útgáfufyrirtæki Snorra. 

– Styrkþegi Snorri Helgason. 

Handform íslenska táknmálsins í formi veggspjalds

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur unnið að þróun handformaplakats fyrir íslenskt táknmál (ÍTM). Handformaplakatið er verkfæri þeirra sem læra íslenskt táknmál (ÍTM) til að tileinka sér fljótt grunneiningu ÍTM. Plakatið nýtist börnum frá leikskólaaldri og verður dreift ókeypis til sem nota ÍTM til daglegra samskipta og/eða eru að læra ÍTM í leikskólum og grunnskólum. Áætlað er að prenta 2000 eintök af plakatinu. 

– Styrkþegi: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

– Tengiliður: Nedelina Ivanova, fagstjóri rannsókna.

Námsefni í Díalektískri atferlismeðferð (DAM)

Endurskoðun og uppfærsla á námsefni í Díalektískri aðferlismeðferð (DAM) fyrir unglinga með sjálfsskaða og sjálfsvígshegðun ætlað unglingum og fjölskyldum þeirra á göngudeild BUGL. DAM er það meðferðarúrræði sem sýnt hefur mestan árangur í rannsóknum við meðhöndlun alvarlegs tilfinningalegs óstöðugleika hjá unglingum sem birtist í sjálfskaðandi hegðun, sjálfsvígshugsunum og annarri áhættuhegðun. Reynsla styrkþega er að DAM sé það úrræði sem gagnist best þeirra viðkvæmasta skjólstæðingahópi en að þeirra mati er brýn þörf fyrir endurskoðun og uppfærslu námsefnisins. 

– Styrkþegar: Orri Smárason og Kolbrún Ása Ríkharðsdóttir sálfræðingar á BUGL.

Fræðslumyndbönd um slysavarnir barna

Miðstöð slysavarna barna býður öllum foreldrum sem eiga von á barni eða hafa nýlega eignast barn að koma í kennsluaðstöðu miðstöðvarinnar sem er innréttuð eins og heimili en þar er einnig að finna öryggisbúnað fyrir börn í bílum og öryggisbúnað fyrir heimilið sem foreldrar geta skoðað og kynnt sér. Um leið læra þeir um þroska og getu barnsins og hvernig skortur á þroska er oftast orsök slysa. Þar sem kennslan fer fram í Reykjavík er nauðsynlegt að útbúa myndbönd fyrir þá foreldra sem ekki geta nýtt sér kennsluna þar. Einnig er brýn nauðsyn að útbúa stutt myndbönd á erlendum tungummálum fyrir erlenda foreldra hér á landi. Myndböndin verða með texta eða talsetningu á filipínsku, pólsku, tælensku, rúmensku, portúgölsku, spænsku, ensku, frönsku, litháísku, þýsku og táknmáli/með texta á íslensku fyrir heyrnarskerta. 

– Styrkþegi: Miðstöð slysavarna barna. Tengiliður: Herdís Storgaard.

Atferlisþjálfun fyrir börn á leikskólaaldri með þroskaröskun sem eiga í erfiðleikum með máltöku og samskipti

Atferlisþjálfun – verkefni, leiðbeiningar og kennslugögn fyrir börn á leikskólaaldri, með einhverfu eða aðra gagntæka þroskaröskun sem eiga í miklum erfiðleikum með máltöku og samskipti. Í kennsluefninu er áhersla lögð á að læra að skilja og tala íslensku með því að auka orðaforða og að læra að eiga samskipti og geta notað orðin í samskiptum, læra að láta vilja sinn í ljós, læra að taka eftir, læra með herminámi, læra að verða sjálfbjarga og sjálfstæðir einstaklingar. Náms- og kennsluefnið verður sett fram á einfaldan hátt svo bæði faglærðir og ófaglærðir starfsmenn geti tileinkað sér efnið hratt og kennt það. Nálgunin er önnur tveggja kennsluleiða sem Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins mælir með fyrir börn með einhverfu. 

– Styrkþegi: Thelma Lind Tryggvadóttir sálfræðingur.

Málörvunarspjöld til að efla orðaforða og hugtakaskilning barna

Útgáfa á málörvunarspjöldum, upplýsingabæklingum og pappaöskjum með kennsluleiðbeiningum fyrir leikskólakennara og leiðbeinendur í leikskólum. Málörvunarspjöldin eru sérstaklega ætluð til að auka orðaforða og málskilning tví- og fjöltyngdra barna með seinkaðan málþroska og ná eikki greiningarviðmiðum 2ja til 6 ára barna. Spjöldin eru handhæg með stuttum lýsingum að kennsluleiðbeiningum og málörvunaræfingum, með vísan í handbók umsækjanda „Lengi býr að fyrstu gerð, snemmtæk íhlutun í mál og læsi”. Í handbókinni er farið yfir verkáætlanir og verkferla fyrir kennara, ásamt fræðilegum hluta um málþroska og læsi. Einnig eru ítarlegir listar yfir bækur og margvísleg spil ásamt leiðbeiningum sem henta vel til málörvunar. Spjöldin eru útfærð með fjölbreyttum og aldurstengdum verkefnum, sem eru flokkuð eftir skilgreindum málþáttum, eins og orðaforða, málskilningi, málvitund, hlustunarskilningi og framburði. Einnig fléttast hugmyndir og leiðir málörvunarspjaldanna inn í flesta alla grunnþætti menntunar. 

– Styrkþegi: Leikskólinn Tjarnarsel, Reykjanesbæ.

– Tengiliður: Árdís Hrönn Jónsdóttir leikskólastjóri.

Orðagull – smáforrit

Orðagull er frítt málörvunarforrit fyrir spjaldtölvur og snjallsíma og hefur að markmiði að styrkja orðaforða og málskilning, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, lesskilning og máltjáningu barna. Allt eru þetta mikilvægir undirstöðuþættir máls og læsis. Smáforritið hentar elstu börnum í leikskóla og börnum á yngsta stigi grunnskóla. Einnig getur það nýst eldri nemendum sem glíma við erfiðleika hvað varðar vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, orðaforða og endursögn, sem og nemendum á öllum aldri með íslensku sem annað tungumál. Orðagull var fyrst gefið út fyrir iOS spjaldtölvur á degi íslenskrar tungu 2016. Ári síðar var það gert aðgengilegt fyrir bæði snjallsíma og spjaldtölvur sem styðjast við Android og iOS stýrikerfin. Forritið hefur fengið mjög góðar viðtökur hjá kennurum í leik- og grunnskólum, foreldrum og börnum. Nú er komið að nýrri uppfærslu á forritinu og er samtímis verið að bæta 14 nýjum borðum við appið (fyrir eru 24 borð í eldri útgáfu). Nýja útgáfan mun því innihalda 38 borð sem hægt er að fara í gegnum á fjóra mismunandi vegu, þ.e. sem oðabók, fyrirmælavinna (málskilningur og lesskilningur), spurningar og orðalestur. Höfundar stefna á að hafa forritið áfram frítt. 

– Styrkþegar: Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur B. Snorradóttir talmeinafræðingar og sérkennarar.

Rafrænt kynningarefni fyrir foreldra og aðra aðstandendur pólskra barna á einhverfurófi

Skortur er á kynningarefni hérlendis fyrir foreldra og aðra aðstandendur barna á einhverfurófi sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Einnig hefur orðið mikil aukning tilvísana barna af erlendum uppruna til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins (GRR) vegna gruns um einhverfu og aðrar raskanir. GRR hefur ekki enn getað svarað þörf um námskeið til foreldra af erlendum uppruna, bæði vegna þess að þróa þarf slík námskeið með túlkum fyrir tiltölulega mörg tungumál auk þess sem það eru ekki ýkja margir innan hvers tungumálahóps. Við þetta bætist að margir þessara foreldra og aðstandenda búa víðsvegar um landið og því ekki alltaf auðvelt að komast á námskeið á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta skrefið í að þjónusta þennan hóp betur gæti verið að útbúa kynningarefni þar sem pólskur túlkur kynnir efni myndbandsins en svo verði farið yfir helstu grunnþætti skilgreiningar á einhverfu í myndbandi með íslenskum kennara og pólskum texta. Verkefnið felst í að útbúa þrjú 10 – 15 mínútna myndbönd sem gætu gefið foreldrum og öðrum aðstandendum mikilvægar grunnupplýsingar þegar grunur leikur á einhverfu í barni. Sama efni mætti síðar nota með einföldum hætti í samskonar miðlun á fleiri tungumálum. Byrjað verður á pólsku því sá hópur er stærsti erlendi innflytjendahópurinn hérlendis. 

– Styrkþegi: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í samstarfi við Einhverfusamtökin 

– Tengiliður: Dóra Magnúsdóttir hjá GRR.

„Hvar er húfan mín?“ – þróunarverkefni í tengslum við óskilamuni í grunnskólum.

Markmið er m.a. að lengja líftíma flíkna barna og koma í veg fyrir myndun óþarfa textilúrgangs í grunnskólum. Kunnuleg sjón í grunnskólum landsins að vori eru heilu haugarnir af flíkum sem hafa orðið eftir í skólanum yfir veturinn. Í Laugarnesskólanum í Reykjavík er þessu öðruvísi farið en þar hefur átt sér stað vitundarvakning á síðastliðnum fjórum árum og ríkir hreinlega stemmning í kringum óskilamunina. Verkefnastjórnin hefur verið í höndum einnar móður við skólann, Virpi Jokinen. Sjálfboðastarfið hefur í tvígang fengið tilnefningu til Foreldraverðlauna á vegum Heimilis og skóla og þar í bæ er talið að þetta verkefni eigi erindi í fleiri skóla. Hér má sjá innslag í Landanum í febrúar 2019 um verkefnið: https://www.ruv.is/frett/med-ahuga-a-oskilamunum? Hugmyndin er að fara með verkefnið í fleiri skóla og er styrkur Sumargjafar ætlaður til þess verkefnis. 

– Styrkþegi: Virki Jokinen.

Continue ReadingStyrkir 2020

Styrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að fresta styrkjaafhendingunni sem átti að fara fram vorið 2020 um óákveðinn tíma.

Öllum umsækjendum verður svarað þegar stjórn Sumargjafar hefur komist að niðurstöðu um hvaða verkefni hljóta styrki að þessu sinni og ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Með því að smella hér er hægt að sjá hvaða verkefni hafa hlotið styrki Sumargjafar frá árinu 1999.

Aðalfundi Sumargjafar hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Continue ReadingStyrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 24. febrúar 2020.

Reykjavík 23. janúar 2020
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.

Steinahlíð: Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.

Grænaborg: Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.

Skipholt 5: Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.

Skilti í Tjarnarborg: Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.

Gerðabækur Sumargjafar: Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).

Breytingar á stjórn: Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2019

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 3. mars 2019.

Reykjavík 31. janúar 2019
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2019

Afhending styrkja 2018

Í upphafi árs 2018 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 40 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018. Eftirtalin verkefni hlutu styrki (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Trúðavaktin – íslensku sjúkrahústrúðarnir.

Trúðavaktina skipa faglega þjálfaðir leikarar sem allir eiga sinn sjúkrahústrúð. Markmið sjúkrahústrúða er að gleðja og létta lundina, bæði hjá veikum börnum og fjölskyldum þeirra. Trúðavaktin heimsækir Barnaspítala Hringsins einu sinni í viku, tveir og tveir trúðar í senn. Þjónustan er fjármögnuð utan heillbrigðiskerfinsins og er  spítalanum að kostnaðarlausu. Styrkur Sumargjafar er ætlaður til að greiða laun trúðanna í tvo mánuði. –

Styrkþegi: Trúðavaktin

Tengiliður: Agnes Þorkelsdóttir Wild

2. Veggmynd á tengigangi Barna- og Kvennadeildar Landspítalans.

Verkefnið er gríðarstór myndskreyting sem máluð er beint á veggi og loft langs gangs sem tengir saman Barna- og Kvennadeild Landspítalans við Hringbraut og jafnframt texti og myndefni að barnabók sem ætluð er börnum og aðstandendum þeirra. Myndefni bókarinnar er sótt í veggmyndina.

Styrkþegi: Arnór Kári Egilsson

3. Spítalablöðrur.

Verkefnið felst í því að styrkþeginn heimsækir Barnaspítala Hringsins vikulega og gerir blöðrudýr fyrir börnin sem þar eru. Þá kemur hann með blöðrur og pumpur svo krakkarnir geti sjálfir gert blöðrudýr með honum.

Styrkþegi: Daníel Sigríðarson

4. Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna.

Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna er sýning sem var opnuð á sumardaginn fyrsta 19. apríl sl. í Ráðhúsinu. Sýningin fjallar um tilurð og þróun barnamenningar með hliðsjón af sumardeginum fyrsta og sögu hans. Grunnhugmynd sýningarinnar og meginmarkmið er að vekja athygli á mikilvægi sumardagnsins fyrsta fyrir velferð barna og þróun barnamenningar í Reykjavík 1918 – 2018.

Styrkþegi: Björg Bjarkey Kristjánsdóttir

5. Ferðast um fullveldið – sögur af fullvalda börnum.

Um er að ræða tónleika og útgáfu á nýju tónlistarævintýri við nýjar sögur og ljóð eftir Þórarin Eldjárn og nýja tónlist Elínar Gunnlaugsdóttur. Þórarinn semur barnaljóð og sögur sem fjalla um börn á fullveldistímanum frá 1918 – 2018. Tekin eru fyrir tíu ártöl, 1918, 1928 o.s.frv. og búin til saga og ljóðatexti sem passar við hvert ártal. Stúlkur og drengir segja þá frá atburði í lífi sínu og kynna þannig fyrir yngstu kynslóðinni hvernig líf Íslendinga var á árunum 1918 – 2018 og þær breytingar sem orðið hafa. Gefin verður út myndskreytt bók og hljómdiskur og dagskráin flutt í Hörpu 18. nóvember 2018.

Styrkþegi og tengiliður: Elín Gunnlaugsdóttir

6. Tákn með tali tekið lengra – Þróun námskeiðs ásamt bæklingi með hagnýtum leiðbeiningum.

Markmiðið er að þróa og innleiða hnitmiðað og áhrifaríkt námskeið í notkun tjáskiptamátans TMT (tákn með tali) fyrir foreldra og starfsmenn leikskóla þar sem aðferðin er tekin lengra en áður með það að leiðarljósi að fjölga tækifærum barna með seinkun, frávik og/eða alvarlega röskun í málþroska til að gera sig skiljanleg og tjá sig fyrr og meira en ella.

Styrkþegi: Eyrún Ísfold Gísladóttir

7. Vefnámskeið í íslensku fyrir snjalltæki ætlað 5 til 7 ára börnum.

Snjalltækjavæðing grunnskóla hefur ekki leitt af sér aukið framboð námsefnis og þörfin á stafrænu íslensku efni fyrir börn hefur aldrei verið meiri. Að mati Menntamálastofnunar er gríðarleg vöntun á námsefni í íslensku fyrir börn með annað tungumál. Verkefninu er ætlað að koma til móts við þessa þörf með því að framleiða vandað námsefni í íslensku fyrir aldurshópinn 5 – 7 ára. Þróað verður aðgengilegt, skemmtilegt og gagnvirkt 60 klst. námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla, jafnt börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi.

Styrkþegar: Birna Arnbjörnsdóttir og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir

Tengiliður: Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir

8. Auðvitað get ég – Myndbandagerð fyrir börn úr innflytjendafjölskyldum á Íslandi.

Verkefninu er ætlað að styðja börn og fjölskyldur þeirra af erlendum uppruna í íslensku samfélagi við að aðlagast og öðlast færni til að lifa og starfa til fullnustu í íslensku samfélagi. Myndböndin eru ætluð til að fræða börnin um ýmsa hagnýta samfélagsþætti eins og

  1. Hvert get ég leitað ef ég þarf aðstoð? Til lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, námsráðgjafa o.s.frv.
  2. Þekkja stofnanir á Íslandi og hlutverk þeirra
  3. Mannréttindi barna
  4. Kvenréttindi
  5. Barnamenning
  6. Unglingamenning
  7. Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
  8. Heilbrigðisþjónusu o.fl.

Að verkefninu koma um 20 börn af ýmsum þjóðernum sem búa á Íslandi. Þau skipuleggja viðtöl, skrifa handrit fyrir myndböndin, sjá um upptökur og klippa myndböndin með aðstoð verkefnisstjóra.

Styrkþegi og tengiliður: Jamil Kouwatli

9. Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn.

Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn er ætlað börnum sem misst hafa náinn ástvin. Um er að ræða tilraunaverkefni sem var haldið helgina 20.-22. apríl sl. í Vindáshlíð í fyrsta sinn. Þörfin fyrir búðir af þessu tagi er brýn að sögn Jónu Hrannar Bolladóttur sem fer fyrir verkefninu sem heitir Örninn og er fyrirhugað er að hafa aðrar búðir í haust.

Tengiliður: Jóna Hrönn Bolladóttir

10. Reykjavík barnanna.

Reykjavík barnanna verður ríkulega myndskreytt bók um höfuðborgina og nágrenni hennar. Hún er framhald Íslandsbókar barnanna sem kom út árið 2016 og styrkþeginn, Linda Ólafsdóttir, myndskreytti. Nýja bókin er ætluð börnum, ungmennum og fólki á öllum aldri sem langar að fræðast um Reykjavík og nágrenni í máli og myndum. Markmið verkefnisins er að kynna höfuðstað Íslands, sögu hans, mannlíf og náttúru. Bókin er unnin í samstarfi við Margréti Tryggvadóttur sem skrifar bókina.

Styrkþegi: Linda Ólafsdóttir

11. Þinn besti vinur – Forvarnamyndbönd fyrir börn og unglinga um kvíða og þunglyndi.

Hópur sálfræðinga í samvinnu við leikara og framleiðslufyrirtæki vinnur að gerð stuttra myndbanda um þunglyndi og kvíða fyrir unglinga og ungt fólk. Myndböndin verða opin öllum á vef verkefnisins, thinnbestivinur.is og hugsuð sem forvörn til að sporna við þróun lyndisraskana hjá unglingum. Þeim er ætlað að vera fræðandi og skemmtileg þar sem grundvallaratriði í hugrænni atferlismeðferð (HAM) eru kynnt en HAM er gagnreynd meðferð við kvíða og þunglyndi. Myndböndin eiga að vera almennt fræðsluefni en einnig til notkunar í einstaklings- eða hópmeðferð við kvíða og þunglyndi.

Styrkþegi og tengiliður: Sólveig Hlín Kristjánsdóttir

12. Síðasta lestrarátak Ævars Vísindamanns

Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns í fyrsta sinn. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og hefur Ævar endurtekið leikinn árlega nokkrum sinnum síðan og börnum sem taka þátt fjölgar sífellt. Ævar hótar því nú að endurtaka leikinn í síðasta sinn og verðum við bara að vona að hann standi ekki við þau orð sín.

Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson

13. Dyndilyndi

Verkefnið felst í hljóðritun og útgáfu á átta nýjum sönglögum Megasar í nýjum útsetningum Þórðar Magnússonar. Lögin eru hugsuð fyrir börn á leikskólaaldri og yngstu bekki grunnskóla. Flytjendur og skipuleggjendur eru nemendur úr Tónlistardeild Listaháskóla Íslands í samstarfi við Mengi Records sem styrkir og sér um útgáfu. Lögin segja frá dýrum, heimkynnum þeirra, ástum og lífsbaráttu og eru sprottin frá hugmyndum barna. Í glænýjum útsetningum Þórðar Magnússonar fyrir strengjakvartett og rödd eignast lögin nýtt og litríkt líf. Skipuleggjendur og flytjendur eru allir nemendur úr Listaháskóla Íslands.

Styrkþegar og tengiliðir: María Sól Ingólfsdóttir og Agnes Eyja Gunnarsdóttir

Continue ReadingAfhending styrkja 2018