Íslensku barnabókaverðlaunin 2021

Ljósberi
Ljósberi
eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson

Þriðjudaginn 12. október 2021 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Vegna covid var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í ár, líkt og í fyrra, í bókabúð Forlagsins út á Granda en hún hefði átt að vera í Vogaskóla. Verðlaunahafi, nánasta fjölskylda, dómnefnd og fjölmiðlar voru viðstaddir afhendingu. Ólafur Gunnar Guðlaugsson bar sigur úr býtum með bók sína Ljósberi.

Að mati dómnefndar er Ljósberi kraftmikil og spennandi fantasía fyrir unglinga, metnaðarfull fyrsta bók í fyrirhuguðum þríleik sem ber heitið Síðasti seiðskrattinn.

Ljósberi fjallar um „fjögur ungmenni [sem] rannsaka dularfullan dauða lærimeistara síns. Þeim er öllum gefing skyggnigáfa en eru mislangt á veg komin í að beita henni. Fljótlega blasir við að ekkert af því sem þau þóttust vita um lífið, alheiminn og eðli tilverunnar er eins og þau héldu – eða gat órað fyrir – og vilji þeirra til að sættast við krafta sína og læra að beita þeim skiptir sköpum í viðureigninni við djöflana sem ógna tilveru okkar allra.“

Ljósberi er fyrsta skáldsaga Ólafs Gunnars fyrir eldri lesendur en áður hefur hann sent frá sér vinsælar barnabækur og leikrit um Benedikt búálf.

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin 2021

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.

Steinahlíð: Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.

Grænaborg: Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.

Skipholt 5: Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.

Skilti í Tjarnarborg: Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.

Gerðabækur Sumargjafar: Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).

Breytingar á stjórn: Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Íslensku barnabókaverðlaunin

Þriðjudaginn 16. október 2018 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Háteigsskóla. Stormsker eftir Birki Blæ Ingólfsson var hlutskörpust að þessu sinni en 20 handrit bárust. Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan  vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur úr 8. bekk sem voru að þessu sinni úr Háteigsskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé „spennandi fantasía… í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi“.

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin