Jón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Dánardægur: 21. desember 2019 – Útför: 7. janúar 2020.

Í dag kveðjum við góðan félaga okkar til margra ára, Jón Frey Þórarinsson, sem starfaði með okkur í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar um langt skeið og leiddi starfið sem formaður stjórnarinnar í áratugi.

Félagið var stofnað árið 1924 í því skyni að bæta hag barna í Reykjavík. Fyrstu áratugina hafði félagið það meginverkefni að stofna og reka leikskóla og dagheimili fyrir börn í Reykjavík og var brautryðjandi á því sviði hér á landi. Í fyrstu voru skólarnir í eigu Sumargjafar en smám saman tók Reykjavíkurborg stærri þátt í stofnun og byggingu þeirra og afhenti þá Sumargjöf til rekstrar. En þar kom þó, árið 1978, að Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn alfarið, þar á meðal rekstur þeirra leikskóla sem voru og eru í eigu Sumargjafar, sem borgin tók á leigu.

Jón Freyr tengdist félaginu fyrst með því að taka að sér ýmis verkefni til dæmis í tengslum við hátíðahöld á sumardaginn fyrsta og við undirbúning 50 ára afmælis félagsins 1974. Sumarið 1974 varð hann fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn félagsins og varaformaður stjórnar og sat í stjórninni til ársloka 1978, þegar borgin hafði að fullu yfirtekið reksturinn. Hann sinnti þó áfram verkefnum fyrir félagið til dæmis í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar sem reist var á Skólavörðuholti.

Yfirtaka Reykjavíkurborgar fól í sér gerbreytingu á verkefnum Sumargjafar. Þetta voru mikil viðbrigði og kom fyrst ákveðin lægð í starfsemina. Ljóst var að félagið þyrfti að finna sér nýjan starfsgrundvöll, því að mönnum var óljúft að leggja félagið niður og afhenda eignir þess Reykjavíkurborg. Af því varð þó ekki sem betur fer og átti Jón Freyr hvað stærstan þátt í því. Árið 1980 var hann kjörinn í stjórn og varð um leið formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemina og mótaði starfið í samvinnu við félaga sína í stjórninni af sinni alkunnu ljúfmennsku og yfirburðaþekkingu og yfirsýn sem reyndur skólamaður til margra ára. Undir hans leiðsögn haslaði félagið sér völl sem styrktaraðili margvíslegra  verkefna sem tengjast börnum bæði beint og óbeint til dæmis með þátttöku í Íslensku barnabókaverðlaununum, Íslensku upplestrarkeppninni og árlegum styrkveitingum til verkefna í þágu barna svo eitthvað sé nefnt.

Jón leiddi starfið í stjórn Sumargjafar farsællega til ársloka 2017 þegar hann lét af störfum sakir veikinda. Við félagar hans í stjórninni þökkum honum af alhug samstarfið og sendum Matthildi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar,

Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður.