Tjarnarborg

Barnavinafélagið Sumargjöf lét setja upp skilti í leikskólanum Tjarnarborg þann 13. nóvember 2019 til minnis um að Uppeldisskóli Sumargjafar starfaði þar í einni stofu fyrsta starfsárið, 1946 – 1947. Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður að tillögu Þórhildar Ólafsdóttur, forstöðukonu Tjarnarborgar.

Skólinn fékk nafnið Fóstruskóli Sumargjafar árið 1957 og var aftur staðsettur í Tjarnarborg frá haustinu 1962 til ársbyrjunar 1964. Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf rak skólann.

Ríkið tók við rekstri skólans árið 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands en námið færðist upp á háskólastig árið 1998 þegar skólinn sameinaðist Kennaraháskóla Íslands. Í dag er námið kennt í leikskólakennaradeild innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem mætti kalla arftaka Uppeldisskóla Sumargjafar.

Af þessu tilefni færðu stjórnarmenn Barnavinafélagsins Sumargjafar starfsfólkinu tertu og börnunum tvær bækur og púsluspil. Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar tók vel á móti stjórnarmönnum og sýndi þeim húsið og starfsemina. Halldór Guðmundsson útbjó skiltið.

Frá vinstri: Gerður Sif Hauksdóttir, gjaldkeri Sumargjafar, Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar, Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar, Helga Hallgrímsdóttir, stjórnarmaður Sumargjafar og Halldór Guðmundsson sem útbjó skiltið. Sigurjón Páll Ísaksson tók myndina.