Breytt fyrirkomulag

Árlega hefur verið sent út fréttabréf ásamt auglýsingu um aðalfund og rukkun árgjalda. Ákveðið hefur verið að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt að fréttabréfið birtist eingöngu á heimasíðu félagsins, rukkun árgjalda birtist í heimabanka félagsmanna sem valgreiðsla og boðað verður til aðalfundar með auglýsingu á RÚV. Hér fyrir neðan er dagskrá aðalfundarins sem haldinn verður þriðjudaginn 13. október kl. 17:00 í Hannesarholti.

Continue ReadingBreytt fyrirkomulag

Aðalfundur 2020

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Hannesarholti (salnum í kjallara) þriðjudaginn 13. október 2020, kl. 17.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Rósa Björg Brynjarsdóttir
Varamenn: Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Bergsteinn Þór Jónsson.

Continue ReadingAðalfundur 2020

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2019 – 2020

Merki Sumargjafar shv

Mikil röskun hefur orðið á starfsemi félagsins vegna Covid-19 faraldursins, og var ákveðið að fresta bæði úthlutun styrkja og aðalfundi til haustsins.

Jón Freyr Þórarinsson fyrrverandi formaður Sumargjafar lést 21. desember 2019. Við útför hans 7. janúar var sendur blómakrans frá Sumargjöf, og hans minnst af hálfu félagsins í minningargrein í Morgunblaðinu. Jón Freyr var lífið og sálin í félaginu í rúm 40 ár, til ársloka 2017, og er hans sárt saknað.

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).

Íslensku barnabókaverðlaunin 2019 voru afhent í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi 10. október 2019. Snæbjörn Arngrímsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Rannsókn á leyndardómum eyðihússins. Að mati dómnefndar er þetta grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, og hugrökk og huglaus börn. Börn úr Valhúsaskóla aðstoðuðu við valið. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, kr. 500.000, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 31. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 34.

Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 14 handrit að barna- og unglinga­bókum. Upplýst verður 15. október nk. hver er höfundur að verðlaunabókinni og verður bókin þá kynnt og formlega gefin út. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Ákveðið hefur verið að hækka verðlaunaféð árið 2020 í kr. 750.000.

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 34 umsóknir. Ákveðið var að veita níu styrki, samtals kr. 5.700.000. Styrkirnir voru afhentir í lok september 2020, en vegna Covid-faraldursins var engin athöfn að þessu sinni.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn er nú 750.000 kr.

Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hóf verkið nú 1. september og mun ljúka því í ársbyrjun 2022.

Steinahlíð: Steinahlíð varð 70 ára 7. nóvember 2019, og var haldið upp á það með afmælishátíð í Steinahlíð. Í sumar var sett upp hlið í heimkeyrslu, þ.e. slá sem lyftist þegar hringt er í ákveðið númer, og ætti það að koma í veg fyrir óviðkomandi bílaumferð. Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en í ársbyrjun voru hugmyndir um hana kynntar félaginu. Þær eru ekki fullmótaðar, en líklegt talið að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar og skerði lóðina talsvert. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Hefur því verið komið á framfæri við Verkefnastofu Borgarlínu og við Skipulagsstofnun í tengslum við mat á umhverfisáhrifum sem er að hefjast.

Í ársbyrjun var hafinn undirbúningur að endurgerð leiksvæðis á lóð, sem er brýn framkvæmd, en borgin frestaði síðan öllum framkvæmdum við lóðina vegna óvissu um Borgarlínu.

Grænaborg: Í sumar var útbúið leiksvæði fyrir yngstu börnin í norðurhorni lóðar við Grænuborg og komið þar fyrir leiktækjum og er almenn ánægja með breytingarnar. Kostnaður var um 4,8 milljónir kr.

Skilti í Tjarnarborg var sett upp 13. nóvember 2019 til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara hér á landi.

Breytingar á stjórn: Bergsteinn Þór Jónsson leikskólastjóri í Steinahlíð kom inn sem varamaður á aðalfundi 2019.

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5 og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2019 – 2020

Styrkir 2020

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 34 umsóknir. Stjórn Sumargjafar komst að þeirri niðurstöðu að veita níu styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað en vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja að þessu sinni.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

Bland í poka. Safn nýrra barnalaga eftir Snorra Helgason

Plata sem inniheldur 11 lög flutt af Snorra og hljómsveit hans ásamt úrvalsliði gestasöngvara, meðal annars Sögu Garðarsdóttur, Valdimar Guðmundssyni, Bubba Morthens, Hugleiki Dagssyni, Halldóru Geirharðsdóttur, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og Teiti Magnússyni. Teiknarinn Elín Elísabet Einarsdóttir hefur gert teikningar við öll lögin á plötunni sem fylgir útgáfunni ásamt textum og gítarhljómum í 28 síðna bók sem hönnuðurinn Bobby Breiðholt setur upp. Bland í poka kom út í nóvember 2019 hjá Hinni islenzku hljómplötuútgáfu sem er útgáfufyrirtæki Snorra. 

– Styrkþegi Snorri Helgason. 

Handform íslenska táknmálsins í formi veggspjalds

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur unnið að þróun handformaplakats fyrir íslenskt táknmál (ÍTM). Handformaplakatið er verkfæri þeirra sem læra íslenskt táknmál (ÍTM) til að tileinka sér fljótt grunneiningu ÍTM. Plakatið nýtist börnum frá leikskólaaldri og verður dreift ókeypis til sem nota ÍTM til daglegra samskipta og/eða eru að læra ÍTM í leikskólum og grunnskólum. Áætlað er að prenta 2000 eintök af plakatinu. 

– Styrkþegi: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

– Tengiliður: Nedelina Ivanova, fagstjóri rannsókna.

Námsefni í Díalektískri atferlismeðferð (DAM)

Endurskoðun og uppfærsla á námsefni í Díalektískri aðferlismeðferð (DAM) fyrir unglinga með sjálfsskaða og sjálfsvígshegðun ætlað unglingum og fjölskyldum þeirra á göngudeild BUGL. DAM er það meðferðarúrræði sem sýnt hefur mestan árangur í rannsóknum við meðhöndlun alvarlegs tilfinningalegs óstöðugleika hjá unglingum sem birtist í sjálfskaðandi hegðun, sjálfsvígshugsunum og annarri áhættuhegðun. Reynsla styrkþega er að DAM sé það úrræði sem gagnist best þeirra viðkvæmasta skjólstæðingahópi en að þeirra mati er brýn þörf fyrir endurskoðun og uppfærslu námsefnisins. 

– Styrkþegar: Orri Smárason og Kolbrún Ása Ríkharðsdóttir sálfræðingar á BUGL.

Fræðslumyndbönd um slysavarnir barna

Miðstöð slysavarna barna býður öllum foreldrum sem eiga von á barni eða hafa nýlega eignast barn að koma í kennsluaðstöðu miðstöðvarinnar sem er innréttuð eins og heimili en þar er einnig að finna öryggisbúnað fyrir börn í bílum og öryggisbúnað fyrir heimilið sem foreldrar geta skoðað og kynnt sér. Um leið læra þeir um þroska og getu barnsins og hvernig skortur á þroska er oftast orsök slysa. Þar sem kennslan fer fram í Reykjavík er nauðsynlegt að útbúa myndbönd fyrir þá foreldra sem ekki geta nýtt sér kennsluna þar. Einnig er brýn nauðsyn að útbúa stutt myndbönd á erlendum tungummálum fyrir erlenda foreldra hér á landi. Myndböndin verða með texta eða talsetningu á filipínsku, pólsku, tælensku, rúmensku, portúgölsku, spænsku, ensku, frönsku, litháísku, þýsku og táknmáli/með texta á íslensku fyrir heyrnarskerta. 

– Styrkþegi: Miðstöð slysavarna barna. Tengiliður: Herdís Storgaard.

Atferlisþjálfun fyrir börn á leikskólaaldri með þroskaröskun sem eiga í erfiðleikum með máltöku og samskipti

Atferlisþjálfun – verkefni, leiðbeiningar og kennslugögn fyrir börn á leikskólaaldri, með einhverfu eða aðra gagntæka þroskaröskun sem eiga í miklum erfiðleikum með máltöku og samskipti. Í kennsluefninu er áhersla lögð á að læra að skilja og tala íslensku með því að auka orðaforða og að læra að eiga samskipti og geta notað orðin í samskiptum, læra að láta vilja sinn í ljós, læra að taka eftir, læra með herminámi, læra að verða sjálfbjarga og sjálfstæðir einstaklingar. Náms- og kennsluefnið verður sett fram á einfaldan hátt svo bæði faglærðir og ófaglærðir starfsmenn geti tileinkað sér efnið hratt og kennt það. Nálgunin er önnur tveggja kennsluleiða sem Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins mælir með fyrir börn með einhverfu. 

– Styrkþegi: Thelma Lind Tryggvadóttir sálfræðingur.

Málörvunarspjöld til að efla orðaforða og hugtakaskilning barna

Útgáfa á málörvunarspjöldum, upplýsingabæklingum og pappaöskjum með kennsluleiðbeiningum fyrir leikskólakennara og leiðbeinendur í leikskólum. Málörvunarspjöldin eru sérstaklega ætluð til að auka orðaforða og málskilning tví- og fjöltyngdra barna með seinkaðan málþroska og ná eikki greiningarviðmiðum 2ja til 6 ára barna. Spjöldin eru handhæg með stuttum lýsingum að kennsluleiðbeiningum og málörvunaræfingum, með vísan í handbók umsækjanda „Lengi býr að fyrstu gerð, snemmtæk íhlutun í mál og læsi”. Í handbókinni er farið yfir verkáætlanir og verkferla fyrir kennara, ásamt fræðilegum hluta um málþroska og læsi. Einnig eru ítarlegir listar yfir bækur og margvísleg spil ásamt leiðbeiningum sem henta vel til málörvunar. Spjöldin eru útfærð með fjölbreyttum og aldurstengdum verkefnum, sem eru flokkuð eftir skilgreindum málþáttum, eins og orðaforða, málskilningi, málvitund, hlustunarskilningi og framburði. Einnig fléttast hugmyndir og leiðir málörvunarspjaldanna inn í flesta alla grunnþætti menntunar. 

– Styrkþegi: Leikskólinn Tjarnarsel, Reykjanesbæ.

– Tengiliður: Árdís Hrönn Jónsdóttir leikskólastjóri.

Orðagull – smáforrit

Orðagull er frítt málörvunarforrit fyrir spjaldtölvur og snjallsíma og hefur að markmiði að styrkja orðaforða og málskilning, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, lesskilning og máltjáningu barna. Allt eru þetta mikilvægir undirstöðuþættir máls og læsis. Smáforritið hentar elstu börnum í leikskóla og börnum á yngsta stigi grunnskóla. Einnig getur það nýst eldri nemendum sem glíma við erfiðleika hvað varðar vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, orðaforða og endursögn, sem og nemendum á öllum aldri með íslensku sem annað tungumál. Orðagull var fyrst gefið út fyrir iOS spjaldtölvur á degi íslenskrar tungu 2016. Ári síðar var það gert aðgengilegt fyrir bæði snjallsíma og spjaldtölvur sem styðjast við Android og iOS stýrikerfin. Forritið hefur fengið mjög góðar viðtökur hjá kennurum í leik- og grunnskólum, foreldrum og börnum. Nú er komið að nýrri uppfærslu á forritinu og er samtímis verið að bæta 14 nýjum borðum við appið (fyrir eru 24 borð í eldri útgáfu). Nýja útgáfan mun því innihalda 38 borð sem hægt er að fara í gegnum á fjóra mismunandi vegu, þ.e. sem oðabók, fyrirmælavinna (málskilningur og lesskilningur), spurningar og orðalestur. Höfundar stefna á að hafa forritið áfram frítt. 

– Styrkþegar: Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur B. Snorradóttir talmeinafræðingar og sérkennarar.

Rafrænt kynningarefni fyrir foreldra og aðra aðstandendur pólskra barna á einhverfurófi

Skortur er á kynningarefni hérlendis fyrir foreldra og aðra aðstandendur barna á einhverfurófi sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Einnig hefur orðið mikil aukning tilvísana barna af erlendum uppruna til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins (GRR) vegna gruns um einhverfu og aðrar raskanir. GRR hefur ekki enn getað svarað þörf um námskeið til foreldra af erlendum uppruna, bæði vegna þess að þróa þarf slík námskeið með túlkum fyrir tiltölulega mörg tungumál auk þess sem það eru ekki ýkja margir innan hvers tungumálahóps. Við þetta bætist að margir þessara foreldra og aðstandenda búa víðsvegar um landið og því ekki alltaf auðvelt að komast á námskeið á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta skrefið í að þjónusta þennan hóp betur gæti verið að útbúa kynningarefni þar sem pólskur túlkur kynnir efni myndbandsins en svo verði farið yfir helstu grunnþætti skilgreiningar á einhverfu í myndbandi með íslenskum kennara og pólskum texta. Verkefnið felst í að útbúa þrjú 10 – 15 mínútna myndbönd sem gætu gefið foreldrum og öðrum aðstandendum mikilvægar grunnupplýsingar þegar grunur leikur á einhverfu í barni. Sama efni mætti síðar nota með einföldum hætti í samskonar miðlun á fleiri tungumálum. Byrjað verður á pólsku því sá hópur er stærsti erlendi innflytjendahópurinn hérlendis. 

– Styrkþegi: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í samstarfi við Einhverfusamtökin 

– Tengiliður: Dóra Magnúsdóttir hjá GRR.

„Hvar er húfan mín?“ – þróunarverkefni í tengslum við óskilamuni í grunnskólum.

Markmið er m.a. að lengja líftíma flíkna barna og koma í veg fyrir myndun óþarfa textilúrgangs í grunnskólum. Kunnuleg sjón í grunnskólum landsins að vori eru heilu haugarnir af flíkum sem hafa orðið eftir í skólanum yfir veturinn. Í Laugarnesskólanum í Reykjavík er þessu öðruvísi farið en þar hefur átt sér stað vitundarvakning á síðastliðnum fjórum árum og ríkir hreinlega stemmning í kringum óskilamunina. Verkefnastjórnin hefur verið í höndum einnar móður við skólann, Virpi Jokinen. Sjálfboðastarfið hefur í tvígang fengið tilnefningu til Foreldraverðlauna á vegum Heimilis og skóla og þar í bæ er talið að þetta verkefni eigi erindi í fleiri skóla. Hér má sjá innslag í Landanum í febrúar 2019 um verkefnið: https://www.ruv.is/frett/med-ahuga-a-oskilamunum? Hugmyndin er að fara með verkefnið í fleiri skóla og er styrkur Sumargjafar ætlaður til þess verkefnis. 

– Styrkþegi: Virki Jokinen.

Continue ReadingStyrkir 2020

Aðalfundur Sumargjafar

Barnavinafélagið Sumargjöf hefur haldið aðalfund félagsins ár hvert í byrjun júní en vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar var fundi frestað fram til haustsins. Stjórn Sumargjafar hefur samþykkt nýja dagsetningu aðalfundar og er fundarboðið eftirfarandi:

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Grænuborg við Eiríksgötu, fimmtudaginn 8. október 2020, kl. 20:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Rósa Björg Brynjarsdóttir
Varamenn: Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Bergsteinn Þór Jónsson.

Dagsetning styrkjaafhendingar verður birt síðar.

Continue ReadingAðalfundur Sumargjafar

Styrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að fresta styrkjaafhendingunni sem átti að fara fram vorið 2020 um óákveðinn tíma.

Öllum umsækjendum verður svarað þegar stjórn Sumargjafar hefur komist að niðurstöðu um hvaða verkefni hljóta styrki að þessu sinni og ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Með því að smella hér er hægt að sjá hvaða verkefni hafa hlotið styrki Sumargjafar frá árinu 1999.

Aðalfundi Sumargjafar hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Continue ReadingStyrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 24. febrúar 2020.

Reykjavík 23. janúar 2020
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Jón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Dánardægur: 21. desember 2019 – Útför: 7. janúar 2020.

Í dag kveðjum við góðan félaga okkar til margra ára, Jón Frey Þórarinsson, sem starfaði með okkur í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar um langt skeið og leiddi starfið sem formaður stjórnarinnar í áratugi.

Félagið var stofnað árið 1924 í því skyni að bæta hag barna í Reykjavík. Fyrstu áratugina hafði félagið það meginverkefni að stofna og reka leikskóla og dagheimili fyrir börn í Reykjavík og var brautryðjandi á því sviði hér á landi. Í fyrstu voru skólarnir í eigu Sumargjafar en smám saman tók Reykjavíkurborg stærri þátt í stofnun og byggingu þeirra og afhenti þá Sumargjöf til rekstrar. En þar kom þó, árið 1978, að Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn alfarið, þar á meðal rekstur þeirra leikskóla sem voru og eru í eigu Sumargjafar, sem borgin tók á leigu.

Jón Freyr tengdist félaginu fyrst með því að taka að sér ýmis verkefni til dæmis í tengslum við hátíðahöld á sumardaginn fyrsta og við undirbúning 50 ára afmælis félagsins 1974. Sumarið 1974 varð hann fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn félagsins og varaformaður stjórnar og sat í stjórninni til ársloka 1978, þegar borgin hafði að fullu yfirtekið reksturinn. Hann sinnti þó áfram verkefnum fyrir félagið til dæmis í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar sem reist var á Skólavörðuholti.

Yfirtaka Reykjavíkurborgar fól í sér gerbreytingu á verkefnum Sumargjafar. Þetta voru mikil viðbrigði og kom fyrst ákveðin lægð í starfsemina. Ljóst var að félagið þyrfti að finna sér nýjan starfsgrundvöll, því að mönnum var óljúft að leggja félagið niður og afhenda eignir þess Reykjavíkurborg. Af því varð þó ekki sem betur fer og átti Jón Freyr hvað stærstan þátt í því. Árið 1980 var hann kjörinn í stjórn og varð um leið formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemina og mótaði starfið í samvinnu við félaga sína í stjórninni af sinni alkunnu ljúfmennsku og yfirburðaþekkingu og yfirsýn sem reyndur skólamaður til margra ára. Undir hans leiðsögn haslaði félagið sér völl sem styrktaraðili margvíslegra  verkefna sem tengjast börnum bæði beint og óbeint til dæmis með þátttöku í Íslensku barnabókaverðlaununum, Íslensku upplestrarkeppninni og árlegum styrkveitingum til verkefna í þágu barna svo eitthvað sé nefnt.

Jón leiddi starfið í stjórn Sumargjafar farsællega til ársloka 2017 þegar hann lét af störfum sakir veikinda. Við félagar hans í stjórninni þökkum honum af alhug samstarfið og sendum Matthildi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar,

Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður.

Continue ReadingJón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Andlát

Jón Freyr Þórarinsson fyrrverandi formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 21. desember síðastliðinn. Útför fer fram frá Fella- og Hólakirkju 7. janúar kl. 15.

Jón Freyr var formaður Sumargjafar frá árinu 1980 til ársloka 2017. Um leið og stjórn  Sumargjafar vottar aðstandendum samúð minnumst við hans með hlýhug og þökkum fyrir samfylgdina.

Continue ReadingAndlát