Aðalfundur Sumargjafar

Barnavinafélagið Sumargjöf hefur haldið aðalfund félagsins ár hvert í byrjun júní en vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar var fundi frestað fram til haustsins. Stjórn Sumargjafar hefur samþykkt nýja dagsetningu aðalfundar og er fundarboðið eftirfarandi:

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Grænuborg við Eiríksgötu, fimmtudaginn 8. október 2020, kl. 20:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Rósa Björg Brynjarsdóttir
Varamenn: Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Bergsteinn Þór Jónsson.

Dagsetning styrkjaafhendingar verður birt síðar.

Continue ReadingAðalfundur Sumargjafar

Styrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að fresta styrkjaafhendingunni sem átti að fara fram vorið 2020 um óákveðinn tíma.

Öllum umsækjendum verður svarað þegar stjórn Sumargjafar hefur komist að niðurstöðu um hvaða verkefni hljóta styrki að þessu sinni og ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Með því að smella hér er hægt að sjá hvaða verkefni hafa hlotið styrki Sumargjafar frá árinu 1999.

Aðalfundi Sumargjafar hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Continue ReadingStyrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 24. febrúar 2020.

Reykjavík 23. janúar 2020
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Jón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Dánardægur: 21. desember 2019 – Útför: 7. janúar 2020.

Í dag kveðjum við góðan félaga okkar til margra ára, Jón Frey Þórarinsson, sem starfaði með okkur í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar um langt skeið og leiddi starfið sem formaður stjórnarinnar í áratugi.

Félagið var stofnað árið 1924 í því skyni að bæta hag barna í Reykjavík. Fyrstu áratugina hafði félagið það meginverkefni að stofna og reka leikskóla og dagheimili fyrir börn í Reykjavík og var brautryðjandi á því sviði hér á landi. Í fyrstu voru skólarnir í eigu Sumargjafar en smám saman tók Reykjavíkurborg stærri þátt í stofnun og byggingu þeirra og afhenti þá Sumargjöf til rekstrar. En þar kom þó, árið 1978, að Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn alfarið, þar á meðal rekstur þeirra leikskóla sem voru og eru í eigu Sumargjafar, sem borgin tók á leigu.

Jón Freyr tengdist félaginu fyrst með því að taka að sér ýmis verkefni til dæmis í tengslum við hátíðahöld á sumardaginn fyrsta og við undirbúning 50 ára afmælis félagsins 1974. Sumarið 1974 varð hann fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn félagsins og varaformaður stjórnar og sat í stjórninni til ársloka 1978, þegar borgin hafði að fullu yfirtekið reksturinn. Hann sinnti þó áfram verkefnum fyrir félagið til dæmis í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar sem reist var á Skólavörðuholti.

Yfirtaka Reykjavíkurborgar fól í sér gerbreytingu á verkefnum Sumargjafar. Þetta voru mikil viðbrigði og kom fyrst ákveðin lægð í starfsemina. Ljóst var að félagið þyrfti að finna sér nýjan starfsgrundvöll, því að mönnum var óljúft að leggja félagið niður og afhenda eignir þess Reykjavíkurborg. Af því varð þó ekki sem betur fer og átti Jón Freyr hvað stærstan þátt í því. Árið 1980 var hann kjörinn í stjórn og varð um leið formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemina og mótaði starfið í samvinnu við félaga sína í stjórninni af sinni alkunnu ljúfmennsku og yfirburðaþekkingu og yfirsýn sem reyndur skólamaður til margra ára. Undir hans leiðsögn haslaði félagið sér völl sem styrktaraðili margvíslegra  verkefna sem tengjast börnum bæði beint og óbeint til dæmis með þátttöku í Íslensku barnabókaverðlaununum, Íslensku upplestrarkeppninni og árlegum styrkveitingum til verkefna í þágu barna svo eitthvað sé nefnt.

Jón leiddi starfið í stjórn Sumargjafar farsællega til ársloka 2017 þegar hann lét af störfum sakir veikinda. Við félagar hans í stjórninni þökkum honum af alhug samstarfið og sendum Matthildi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar,

Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður.

Continue ReadingJón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Andlát

Jón Freyr Þórarinsson fyrrverandi formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 21. desember síðastliðinn. Útför fer fram frá Fella- og Hólakirkju 7. janúar kl. 15.

Jón Freyr var formaður Sumargjafar frá árinu 1980 til ársloka 2017. Um leið og stjórn  Sumargjafar vottar aðstandendum samúð minnumst við hans með hlýhug og þökkum fyrir samfylgdina.

Continue ReadingAndlát

Tjarnarborg

Barnavinafélagið Sumargjöf lét setja upp skilti í leikskólanum Tjarnarborg þann 13. nóvember 2019 til minnis um að Uppeldisskóli Sumargjafar starfaði þar í einni stofu fyrsta starfsárið, 1946 – 1947. Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður að tillögu Þórhildar Ólafsdóttur, forstöðukonu Tjarnarborgar.

Skólinn fékk nafnið Fóstruskóli Sumargjafar árið 1957 og var aftur staðsettur í Tjarnarborg frá haustinu 1962 til ársbyrjunar 1964. Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf rak skólann.

Ríkið tók við rekstri skólans árið 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands en námið færðist upp á háskólastig árið 1998 þegar skólinn sameinaðist Kennaraháskóla Íslands. Í dag er námið kennt í leikskólakennaradeild innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem mætti kalla arftaka Uppeldisskóla Sumargjafar.

Af þessu tilefni færðu stjórnarmenn Barnavinafélagsins Sumargjafar starfsfólkinu tertu og börnunum tvær bækur og púsluspil. Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar tók vel á móti stjórnarmönnum og sýndi þeim húsið og starfsemina. Halldór Guðmundsson útbjó skiltið.

Frá vinstri: Gerður Sif Hauksdóttir, gjaldkeri Sumargjafar, Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarborgar, Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar, Helga Hallgrímsdóttir, stjórnarmaður Sumargjafar og Halldór Guðmundsson sem útbjó skiltið. Sigurjón Páll Ísaksson tók myndina.

Continue ReadingTjarnarborg

Leikskólinn Steinahlíð

70 ára

Gestir á afmælisdeginum

Leikskólinn Steinahlíð fagnaði 70 ára starfsafmæli þann 7. nóvember 2019 en leikskólinn hefur verið starfæktur frá árinu 1949. Húsið var byggt 1932 og var það ásamt rúmgóðu landi með túni, görðum og trjálundi gjöf til Barnavinafélagsins Sumargjafar frá erfingjum Elly Schepler Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar til minningar um foreldra sína, að ósk föður þeirra. Skilyrði gjafarinnar fólust í því að eignina skyldi eingöngu nota til að starfrækja barnaheimili þar sem sérstök áhersla yrði lögð á trjárækt og matjurturækt. Einnig átti Sumargjöf að tyggja að landið yrði ekki skert og félagið átti að hlúa að þeim gróðri sem var á lóðinni. Eignin átti að halda nafni sínu, Steinahlíð.

Enn þann dag í dag er rekinn leikskóli í Steinahlíð og mikil áhersla er lögð á trjárækt og matjurtarækt. Í ársbyrjun 2015 var sett færanlegt hús á lóð Steinahlíðar sem Reykjavíkurborg fékk leyfi fyrir og eru þar reknar tvær leikskóladeildir, en sú þriðja er í gamla húsinu.

Ida Ingólfsdóttir var fyrsta forstöðukona Steinahlíðar og gengdi hún því starfi í 33 ár eða til ársins 1982. Hún var jafnan kennd við Steinahlíð. Um mitt árið 2018 tók Bergsteinn Þór Jónsson við starfi leikskólastjóra Steinahlíðar af Steinunni Jónsdóttur.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Sigurjón Páll Ísaksson tók á afmælishátíðinni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur ávarpaði hópinn

Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar ávarpaði hópinn

Kristín Hagalín Ólafsdóttir afhenti Bergsteini Þór Jónssyni, leikskólastjóra Steinahlíðar blóm og gjöf í tilefni dagsins frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Krstín Hagalín Ólafsdóttir, Bersteinn Þór Jónsson, Dagur B. Eggertsson og börnin

Svala Jóhannsdóttir og Steinunn Jónsdóttir, fyrrverandi leikskólastjóri Steinahlíðar

Continue ReadingLeikskólinn Steinahlíð

Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 10. október 2019 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson var hlutskörpust að þessu sinni en 26 handrit bárust.

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan  vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Valhúsaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru afhent nú í 34. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér.

 

í umsögn dómnefndar um bókina segir  „þetta er  grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, hugrökk og huglaus börn“.

Um bókina: „Guðjón G. Georgsson er nýfluttur í Álftabæ og fær Eyðihúsið á heilann. Milla vinkona hans sá aldrei Hrólf nágranna sinn, ríkasta mann þorpsins, sem bjó í Eyðihúsinu. Hann var víst skapvondur ógæfumaður sem sást sjaldan utandyra því sennilega var honum illa við annað fólk. Dag einn birtist dularfullur trékistill á bókasafnströppunum og bréf frá Hrólfi – þar sem bæjarbúar fá þrjár vísbendingar, þrjá lykla að leyndardómum lífs hans og fjársjóðum. Lausnin er ekki einföld. Og sannarlega ekki hættulaus. En þá er gott að Guðjón G. Georgsson og Milla eru saman í liði.“

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið,
fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 voru afhent í Háteigsskóla 16. október. Birkir Blær
Ingólfsson fékk þá verðlaunin fyrir skáldsöguna: Stormsker ‒ fólkið sem fangaði vindinn. Að mati dómnefndar er þetta spennandi frásögn af hugrökkum krökkum í heimi sem er bæði óþægilega kunnuglegur og furðulega framandi. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 30. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 33; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, þ.e. 2019, og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum og verður verðlaunabókin kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd, en börn úr Grunnskóla Seltjarnarness aðstoðuðu við valið. Sumargjöf hefur ákveðið að hækka verðlaunaféð fyrir árið 2020 í 750.000 kr.

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 33 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 8.629.000 krónur: Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 5. maí 2019, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Saga Sumargjafar: Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin
ákveðið að láta rita sögu félagsins í 100 ár, þótt áður hafi komið út bækur um fyrstu 50 árin.
Í nýju riti yrði sjónarhornið meira á börnum og því umhverfi sem þau uxu upp í og leiddi til
stofnunar Sumargjafar. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til verksins
(frá hausti 2020) og er miðað við að hann skili handriti og myndum í mars 2022. Bókin verði í stóru broti og ríkulega myndskreytt.

Steinahlíð: Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands hefur verið fenginn til að hafa umsjón með matjurtagarði og umhirðu lóðar.

Grænaborg: Nýlega keypti Sumargjöf píanó fyrir leikskólann Grænuborg og var það vígt við afhendingu styrkja 5. maí 2019.

Skipholt 5: Húsnæði félagsins í Skipholti 5 er farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds.

Skilti í Tjarnarborg: Í undirbúningi er að setja upp skilti í Tjarnarborg til að minnast þess að þar var Uppeldisskóli Sumargjafar fyrsta árið, 1946‒1947. Þar hófst menntun leikskólakennara.

Gerðabækur Sumargjafar: Á árinu voru gerðabækur stjórnarfunda frá árunum 1974 til 1995 afhentar Borgarskjalasafni (einnig gerðabækur aðalfunda 1972 til 1993).

Breytingar á stjórn: Albert Björn Lúðvígsson varamaður hvarf úr stjórn um áramótin.

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan
samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected]

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2018 – 2019