Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 22. október voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Til að fylgja reglum um fjöldatakmarkanir vegna smithættu var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í bókabúð Forlagsins út á Granda að viðstöddum verðlaunahafa, nánustu fjölskyldu, dómnefnd og fjölmiðlum. Rut Guðnadóttir var hlutskörpust að þessu sinni með sína fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er skemmtileg og spennandi, vel skrifuð og af mikilli virðingu og næmi fyrir flóknum tilfinningum sem fylgja unglingsárunum að mati dómnefndar en einnig er sagan dásamlega fyndin.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi fjallar um: 

„Þegar furðuleg veikindi (nei, alveg pottþétt ekki Covid-19) fara að breiðast um skólann ákveða vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.“

íslensku barnabókaverðlaunin

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Vogaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarsson og voru afhent nú í 35. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin

Aðalfundur Sumargjafar

Barnavinafélagið Sumargjöf hefur haldið aðalfund félagsins ár hvert í byrjun júní en vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar var fundi frestað fram til haustsins. Stjórn Sumargjafar hefur samþykkt nýja dagsetningu aðalfundar og er fundarboðið eftirfarandi:

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Grænuborg við Eiríksgötu, fimmtudaginn 8. október 2020, kl. 20:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Rán Einarsdóttir, Steinunn Jónsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Rósa Björg Brynjarsdóttir
Varamenn: Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Bergsteinn Þór Jónsson.

Dagsetning styrkjaafhendingar verður birt síðar.

Continue ReadingAðalfundur Sumargjafar

Styrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Í upphafi árs 2020 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Vegna öryggisráðstafana í tengslum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur stjórn Sumargjafar ákveðið að fresta styrkjaafhendingunni sem átti að fara fram vorið 2020 um óákveðinn tíma.

Öllum umsækjendum verður svarað þegar stjórn Sumargjafar hefur komist að niðurstöðu um hvaða verkefni hljóta styrki að þessu sinni og ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Með því að smella hér er hægt að sjá hvaða verkefni hafa hlotið styrki Sumargjafar frá árinu 1999.

Aðalfundi Sumargjafar hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar

Continue ReadingStyrkjafhendingu og aðalfundi frestað

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 24. febrúar 2020.

Reykjavík 23. janúar 2020
Barnavinafélagið Sumargjöf

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2020

Jón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Dánardægur: 21. desember 2019 – Útför: 7. janúar 2020.

Í dag kveðjum við góðan félaga okkar til margra ára, Jón Frey Þórarinsson, sem starfaði með okkur í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar um langt skeið og leiddi starfið sem formaður stjórnarinnar í áratugi.

Félagið var stofnað árið 1924 í því skyni að bæta hag barna í Reykjavík. Fyrstu áratugina hafði félagið það meginverkefni að stofna og reka leikskóla og dagheimili fyrir börn í Reykjavík og var brautryðjandi á því sviði hér á landi. Í fyrstu voru skólarnir í eigu Sumargjafar en smám saman tók Reykjavíkurborg stærri þátt í stofnun og byggingu þeirra og afhenti þá Sumargjöf til rekstrar. En þar kom þó, árið 1978, að Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn alfarið, þar á meðal rekstur þeirra leikskóla sem voru og eru í eigu Sumargjafar, sem borgin tók á leigu.

Jón Freyr tengdist félaginu fyrst með því að taka að sér ýmis verkefni til dæmis í tengslum við hátíðahöld á sumardaginn fyrsta og við undirbúning 50 ára afmælis félagsins 1974. Sumarið 1974 varð hann fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn félagsins og varaformaður stjórnar og sat í stjórninni til ársloka 1978, þegar borgin hafði að fullu yfirtekið reksturinn. Hann sinnti þó áfram verkefnum fyrir félagið til dæmis í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar sem reist var á Skólavörðuholti.

Yfirtaka Reykjavíkurborgar fól í sér gerbreytingu á verkefnum Sumargjafar. Þetta voru mikil viðbrigði og kom fyrst ákveðin lægð í starfsemina. Ljóst var að félagið þyrfti að finna sér nýjan starfsgrundvöll, því að mönnum var óljúft að leggja félagið niður og afhenda eignir þess Reykjavíkurborg. Af því varð þó ekki sem betur fer og átti Jón Freyr hvað stærstan þátt í því. Árið 1980 var hann kjörinn í stjórn og varð um leið formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemina og mótaði starfið í samvinnu við félaga sína í stjórninni af sinni alkunnu ljúfmennsku og yfirburðaþekkingu og yfirsýn sem reyndur skólamaður til margra ára. Undir hans leiðsögn haslaði félagið sér völl sem styrktaraðili margvíslegra  verkefna sem tengjast börnum bæði beint og óbeint til dæmis með þátttöku í Íslensku barnabókaverðlaununum, Íslensku upplestrarkeppninni og árlegum styrkveitingum til verkefna í þágu barna svo eitthvað sé nefnt.

Jón leiddi starfið í stjórn Sumargjafar farsællega til ársloka 2017 þegar hann lét af störfum sakir veikinda. Við félagar hans í stjórninni þökkum honum af alhug samstarfið og sendum Matthildi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar,

Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður.

Continue ReadingJón Freyr Þórarinsson – Kveðja frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Andlát

Jón Freyr Þórarinsson fyrrverandi formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 21. desember síðastliðinn. Útför fer fram frá Fella- og Hólakirkju 7. janúar kl. 15.

Jón Freyr var formaður Sumargjafar frá árinu 1980 til ársloka 2017. Um leið og stjórn  Sumargjafar vottar aðstandendum samúð minnumst við hans með hlýhug og þökkum fyrir samfylgdina.

Continue ReadingAndlát