Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 22. október voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Til að fylgja reglum um fjöldatakmarkanir vegna smithættu var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í bókabúð Forlagsins út á Granda að viðstöddum verðlaunahafa, nánustu fjölskyldu, dómnefnd og fjölmiðlum. Rut Guðnadóttir var hlutskörpust að þessu sinni með sína fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er skemmtileg og spennandi, vel skrifuð og af mikilli virðingu og næmi fyrir flóknum tilfinningum sem fylgja unglingsárunum að mati dómnefndar en einnig er sagan dásamlega fyndin.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi fjallar um: 

„Þegar furðuleg veikindi (nei, alveg pottþétt ekki Covid-19) fara að breiðast um skólann ákveða vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.“

íslensku barnabókaverðlaunin

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Vogaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarsson og voru afhent nú í 35. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér