Íslensku barnabókaverðlaunin 2021

Ljósberi
Ljósberi
eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson

Þriðjudaginn 12. október 2021 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Vegna covid var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í ár, líkt og í fyrra, í bókabúð Forlagsins út á Granda en hún hefði átt að vera í Vogaskóla. Verðlaunahafi, nánasta fjölskylda, dómnefnd og fjölmiðlar voru viðstaddir afhendingu. Ólafur Gunnar Guðlaugsson bar sigur úr býtum með bók sína Ljósberi.

Að mati dómnefndar er Ljósberi kraftmikil og spennandi fantasía fyrir unglinga, metnaðarfull fyrsta bók í fyrirhuguðum þríleik sem ber heitið Síðasti seiðskrattinn.

Ljósberi fjallar um „fjögur ungmenni [sem] rannsaka dularfullan dauða lærimeistara síns. Þeim er öllum gefing skyggnigáfa en eru mislangt á veg komin í að beita henni. Fljótlega blasir við að ekkert af því sem þau þóttust vita um lífið, alheiminn og eðli tilverunnar er eins og þau héldu – eða gat órað fyrir – og vilji þeirra til að sættast við krafta sína og læra að beita þeim skiptir sköpum í viðureigninni við djöflana sem ógna tilveru okkar allra.“

Ljósberi er fyrsta skáldsaga Ólafs Gunnars fyrir eldri lesendur en áður hefur hann sent frá sér vinsælar barnabækur og leikrit um Benedikt búálf.

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin 2021

Styrkir 2021

Í upphafi árs 2021 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna. Í ár bárust 30 umsóknir og komst stjórn Sumargjafar að þeirri niðurstöðu að veita níu styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað. Stjórn Sumargjafar hefur ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja í ár líkt og í fyrra vegna covid.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

Íslensk myndlist sem öll ættu að þekkja.

Bók fyrir stálpuð börn, unglinga og fjölskyldur þar sem fjallað verður um allt að 20 íslenska listamenn sem hafa skipt sköpum í þróun myndlistar hér á landi. Styrkurinn er ætlaður fyrir myndbirtingarkostnaði. Höfundur stefnir að útgáfu verksins vorið 2022.

Styrkþegi: Margrét Tryggvadóttir

OCD sumarmeðferð fyrir unglinga 12 – 18 ára, nýtt hópmeðferðarúrræði.

Tilrauna- og samstarfsverkefni nokkurra aðila sem sinna meðferð fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Tilraunaverkefnið verður haldið sumarið 2022 og er tveggja vikna gagnreynd meðferð við áráttu/þráhyggjuröskun (OCD) sem áætlað er að hamli 1 – 2 % ungmenna á aldrinum 12 – 18 ára.

Styrkþegi: Félag um kvíðaraskanir barna

Tengiliður: Dagmar Hannesdóttir

Sumarfrí innanlands

Markmiðið er að veita börnum og fjöskyldum þeirra sem búa við kröpp kjör þá upplifun að fara í frí saman og stuðla að því að börnin upplifi sig ekki útundan meðal sinna jafningja og einnig að koma í veg fyrir mismunun.

Styrkþegi: Hjálparstarf kirkjunnar

Tengiliður: Júlía Margrét Rúnarsdóttir

Púlz – nútíma tónlist fyrir börn og unglinga

Púlz býður börnum og unglingum að læra að nýta nútíma tækni til þess að semja og flytja tónlist. Styrkurinn er ætlaður til styrktar rekstrinum svo unnt sé að fjölga kennurum og námskeiðum fyrir börn og ungmenni.

Styrkþegi: Púlz, Taktur & Sköpun

Tengiliður: Þorkell Ólafur Árnason

Fiðlufjör á Hvolsvelli, fiðlunámskeið

Þriggja daga fiðlunámskeið sem haldið hefur verið árlega á Hvolsvelli undanfarin fimm ár fyrir fiðlunemendur víðs vegar af landinu. Nemendur fá einkatíma, meðleikstíma, tónlistarsmiðju og spunatíma undir leiðsögn færra kennara. Í lokin eru haldnir lokatónleikar þar sem allir nemendur taka þátt. Aðalmarkmið hátíðarinnar er að bjóða upp á skemmtilegt og metnaðarfullt fiðlunámskeið fyrir fiðlunemendur óháð hvar á landinu þeir búa. Styrknum er ætlað að auðvelda að stilla námskeiðsgjöldum í hóf.

Styrkþegi: Chrissie Telma Guðmundsdóttir

Sjúkrahústrúðarnir

Íslensku sjúkrahústrúðarnir eru fyrstir sinnar tegundar á Íslandi og eru skipaðir tíu fagmenntuðum leikurum sem hlotið hafa sérstaka þjálfun í aðferðarfræði og vinnusiðferði sjúkrahústrúða. Trúðavaktin býður ókeypis þjónustu við Barnaspítala Hringsins og hóf starfsemi sína 1. mars 2018. Trúðarnir heimsækja öll börn frá 0 – 18 ára á spítalanum alla fimmtudaga allt árið um kring, tveir trúðar í senn. Hlutverk Trúðavaktarinnar er að skapa stuttar gleðistundir í erfiðum aðstæðum. Styrkurinn er ætlaður fyrir efniskostnað í nýja búninga.

Styrkþegi: Trúðavaktin

Tengiliður: Agnes Wild

Kjörbókalestur í unglingadeild Vogaskóla

Verkefnið er lestrarátak í unglingadeild Vogaskóla að frumkvæði bókasafnskennarans, Berglindar H. Guðmundsdóttur, og í samvinnu við kennara þar sem nemendur lesa bækur að eigin vali og ræða þær við bókasafnskennarann og í hópum sín á milli. Skortur á bókum hefur háð verkefninu og er styrknum ætlað að bæta úr því með kaupum á bókum.

Styrkþegi: Vogaskóli

Tengiliður: Berglind H. Guðmundsdóttir

Stuðningur og fræðsla fyrir börn foreldra barna með geðrænan vanda.

Markmið verkefnisins er að styðja við börn foreldra með geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra og er unnið í samstarfi við OurTime, góðgerðarsamtök í Bretlandi, sem eru leiðandi í starfi fyrir börn foreldra með geðrænan vanda þar í landi. Fræðsluefni fyrir þennan hóp vantar hér á landi og er styrknum ætlað að bæta úr því með gerð fræðslumyndbanda fyrir börnin.

Styrkþegi: Geðhjálp

Tengiliður: Sigríður Gísladóttir

Tímahylkið

Tímahylkið er verkefni sem nemendur og starfsmenn Valsárskóla hafa verið að vinna að í samstarfi við Safnasafnið á Svalbarðsströnd frá upphafi COVID árið 2020. Markmið verkefnisins er að varðveita upplifun, reynslu og hugrenningar unga fólksins okkar fyrir framtíðina. Þau fá að spreyta sig í að skrifa texta, teikna, mála og móta verk sem þau tengja veirunni skæðu, þau fá að vinna með sögulega texta, taka þátt í að hanna sýningu og vinna með fagfólki innan hönnunar og lista. Sagan verður fest á blað og fryst í tíma í tímahylki sem gert er ráð fyrir að varðveita á góðum stað og opna með viðhöfn að 50, 60 eða hundrað árum liðum. Gefið er út tímarit og afrakstur vinnunnar sýndur á sýningu í Safnasafninu.

Styrkþegi: Svalbarðsstrandarhreppur

Tengiliður: Björg Erlingsdóttir

Continue ReadingStyrkir 2021

Aðalfundur 2021

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Hannesarholti þriðjudaginn 15. júní 2021, kl. 17:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir og afgreiddir til áritunar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins er skipuð þessum mönnum:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Steinunn Jónsdóttir
Varamenn: Sölvi Sveinsson, Bergsteinn Þór Jónsson og Kristinn H. Þorsteinsson.

Continue ReadingAðalfundur 2021

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2020 – 2021

Mikil röskun hefur orðið á starfsemi félagsins vegna Covid-19 faraldursins, og var úthlutun styrkja síðasta árs frestað til hausts 2020 og aðalfundi þar til í desember 2020 af þeim sökum.


Aðalfundur og breytingar á stjórn

Vegna samkomubanns var ákveðið að halda aðalfund með rafrænum hætti 9. desember 2020. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningar afgreiddir til áritunar og kosið í stjórn. Rán Einarsdóttir sem setið hafði í stjórn í 39 ár gaf ekki kost á sér og var henni þakkað ánægjulegt samstarf. Kristinn H. Þorsteinsson kom nýr inn í varastjórn. Tekin var upp sú nýbreytni að árgjald var rukkað í heimabanka og fréttabréf birt á heimasíðu félagsins í stað þess að senda félagsmönnum það í pósti. Ársreikningur var undirritaður rafrænt.

Verðlaunasjóður barnabóka

Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).

Íslensku barnabókaverðlaunin 2020 voru afhent 22. október. Vegna fjöldatakmarkana var athöfnin í bókabúð Forlagsins úti á Granda. Að þessu sinni hlaut Rut Guðnadóttir verðlaunin fyrir sína fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Að sögn dómnefndar er sagan skemmtileg og spennandi og skrifuð af mikilli virðingu og næmni fyrir flóknum tilfinningum sem fylgja unglingsárunum. Bókin fékk vinsamlega dóma og seldist vel. Börn úr Vogaskóla aðstoðuðu við valið. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð kr. 750.000 en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 32. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 35.

Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 19 handrit að barna- og unglinga-bókum. Upplýst verður í október um höfund verðlaunabókarinnar og verður bókin þá gefin út og kynnt. Framlag Sumargjafar verður kr. 750.000.

Kristín H. Ólafsdóttir hefur verið fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd frá 2015. Síðastliðið haust óskaði hún eftir að Sölvi Sveinsson tæki sæti hennar í nefndinni, og tók hann við í ársbyrjun 2021.

Styrkir

Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna-, lista- og þróunarverkefna í þágu barna. Alls bárust 30 umsóknir. Ákveðið var að veita níu styrki, samtals kr. 6.200.000. Styrkirnir voru afhentir í lok maí 2021, en vegna Covid-19 faraldursins var engin athöfn að þessu sinni. Verkefnin sem hlutu styrk eru kynnt annars staðar á vefsíðunni.

Stóra upplestrarkeppnin

Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Lokahátíð var nú í mars og var styrkur Sumargjafar 750.000 kr. Þetta mun vera í síðasta skipti sem keppnin er haldin núverandi formi. Fyrirhugað er að sveitarfélögin taki verkefnið að sér, e.t.v. í breyttri mynd.

Saga Sumargjafar

Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi m.a. til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur vinnur að verkinu og mun ljúka því í ársbyrjun 2022.

Steinahlíð

Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en áformað er að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar og skerði lóðina talsvert. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Hefur því verið komið á framfæri við Verkefnastofu Borgarlínu og við Skipulagsstofnun í tengslum við mat á umhverfisáhrifum sem er að hefjast. Borgin hefur viðrað þá hugmynd að hugsanleg skerðing verði bætt með skiptum á öðru landi á svæðinu. Stjórn félagsins hefur fallist á að skoða það nánar, en þó með skilmálum um að uppbótarspildan henti fyrir starfsemi Steinahlíðar, þ.e. rekstur leikskóla og sem grænt svæði, og að borgin beri allan kostnað af standsetningu lóðarinnar. Ekki hefur heyrst nánar frá borginni um málið. Sumargjöf hefur fengið ráðgjöf hjá lögfræðistofunni Rétti varðandi Steinahlíð og Borgarlínu.

Endurgerð lóðar í Steinahlíð hefur verið í biðstöðu vegna óvissu um Borgarlínu, en þó var afgirt leiksvæði barna stækkað og tengt nýja húsinu, Steinagerði.

Úthlíð: Bergsteinn leikskólastjóri í Steinahlíð hefur óskað eftir að færa undirbúningsaðstöðu kennara úr risi gamla Steinahlíðarhússins yfir í Úthlíð, sem stundum hefur verið nýtt sem listasmiðja og mætti nýta betur. Málið er í skoðun hjá Vinnueftirlitinu og borginni. Einhverjar breytingar þarf að gera og fyrirhugað er að leggja ljósleiðara í húsið.

Gróðurhús: Í tilefni af 70 ára afmæli Steinahlíðar 2019 var ákveðið að gefa leikskólanum gjöf. Samþykkt hefur verið að kaupa lítið gróðurhús og verður það sett upp á næstunni.

Sala á Skipholti 5

Haustið 2019 var hugsanleg sala á Skipholti 5 til umræðu í stjórn, en íbúð félagsins á 3. hæð var orðin lúin, og er auk þess óþarflega stór. Í ársbyrjun 2021 kom fram að 2. hæð og hálf 3. hæð í Skipholti 5 væru komnar í sölu og var ákveðið að hafa samflot við söluna. Íbúð okkar seldist í febrúar og var afhent 15. mars síðastliðinn.

Mikil vinna var að rýma húsnæðið. Fara þurfti yfir öll gögn, velja úr til varðveislu og ráðstafa öðru. Árbæjarsafn tók við gömlum leikföngum og munum, skv. samningi um leikskólaminjar frá 2001. Skjöl og útgefið efni Sumargjafar var flokkað og skráð og komið fyrir í sýrufríum öskjum til varanlegrar varðveislu.

Nýtt húsnæði félagsins

Eftir söluna á Skipholti 5 var tekið á leigu rúmgott herbergi í Sóltúni 20, með afnotum af kaffistofu og salerni. Flutt var í það 2. mars 2021. Það hentar félaginu ágætlega sem fundaraðstaða, auk þess sem öll gögn og munir félagsins komast þar fyrir. Herbergið í Sóltúni er ekki framtíðaraðstaða fyrir félagið, og þarf að huga nánar að þeim málum.

Grænaborg

Í sumar verður Grænaborg 90 ára, og var samþykkt að gefa leikskólanum gjöf af því tilefni. Haldið verður upp á afmælið í Grænuborg 25. júní síðdegis með börnum, foreldrum, starfsfólki og borgarstjóranum í Reykjavík.

Merki Sumargjafar

Júlíus Valdimarsson grafískur hönnuður hefur hreinteiknað merki félagsins í lit og svart-hvítu, fyrir bæði prentmiðla og rafræna miðla.

Sumardagurinn fyrsti

Margrét Blöndal, sem er með þátt í Ríkisútvarpinu, óskaði eftir viðtali við Krístínu H. Ólafsdóttur, og var það flutt að morgni sumardagsins fyrsta. Þar var rætt um Barnavinafélagið Sumargjöf og starfsemi þess fyrr og nú, sem átti vel við á þessum degi.

Bernskan

Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan hefur undanfarin ár samnýtt húsnæðið í Skipholti 5 með Sumargjöf, var þar með herbergi og aðgang að fundarherbergi. Sumargjöf þakkar ánægjulegt sambýli, nú þegar breytingar verða á húsnæðismálum félagsins.

Annað

Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra.

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2020 – 2021

Styrkir til verkefna í þágu barna 2021

  • Post category:styrkir

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.
Nánari upplýsingar er að finna hér.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 1. mars 2021.

Reykjavík 28. janúar 20201
Barnavinafélagið SumargjöfFacebook

Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna 2021

Rafrænn aðalfundur

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður með breyttu sniði þetta árið og haldinn rafrænt miðvikudaginn 9. desember kl. 17:00. Félagsmenn geta óskað eftir tengil á fundinn með því að senda póst á [email protected] fyrir kl. 12:00 sama dag.

Dagskrá fundarins er sem hér segir:

  1. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
  2. Stjórnarkjör

Bent er á skýrslu stjórnar yfir starfsemi ársins 2019 – 2020 og yfirlit yfir styrki sem veittir voru á árinu hér á heimasíðu Sumargjafar.

Stjórn Sumargjafar

Continue ReadingRafrænn aðalfundur

Íslensku barnabókaverðlaunin

Fimmtudaginn 22. október voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Til að fylgja reglum um fjöldatakmarkanir vegna smithættu var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í bókabúð Forlagsins út á Granda að viðstöddum verðlaunahafa, nánustu fjölskyldu, dómnefnd og fjölmiðlum. Rut Guðnadóttir var hlutskörpust að þessu sinni með sína fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er skemmtileg og spennandi, vel skrifuð og af mikilli virðingu og næmi fyrir flóknum tilfinningum sem fylgja unglingsárunum að mati dómnefndar en einnig er sagan dásamlega fyndin.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi fjallar um: 

„Þegar furðuleg veikindi (nei, alveg pottþétt ekki Covid-19) fara að breiðast um skólann ákveða vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.“

íslensku barnabókaverðlaunin

Að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, sem stofnaði sjóðinn, bókaútgáfan Vaka-Helgafell sem er innan vébanda Forlagsins, IBBY á íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi og barnavinafélagið Sumargjöf. Dómnefnd skipa fulltrúar þessara aðila en einnig tveir nemendur sem voru í 8. bekk í vor og voru að þessu sinni úr Vogaskóla. Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður Sumargjafar sat í nefndinni fyrir hönd Sumargjafar.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 1986 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarsson og voru afhent nú í 35. skipti. Lista yfir fyrri verðlaunabækur má sjá hér

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin