Reykjavík svarar fyrir sig: umfjöllun Stefáns Pálssonar um Börn í Reykjavík í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2025

Stefán Pálsson fjallaði um Börn í Reykjavík í tímariti Máls og menningar og segir hann meðal annars að:

„Í stað þess að drekkja lesendum í talnasúpu eða miðla gögnum með stöpla- og skífuritum, eins og hefði þó auðveldlega verið unnt, kýs höfundur að bera frásögnina áfram með fjölda tilvitnana í minningarbrot gamalla Reykvíkinga. Niðurstaðan er skemmtilegur texti sem dregur upp lifandi fortíðarmyndir. Minningarbrotin eru flest fengin úr ævisögum viðkomandi einstaklinga, ýmist rithöfunda eða fólks sem þekkt varð af öðrum störfum. Að auki hikar höfundur ekki við að skrifa frá eigin brjósti og rifja upp minningar frá uppvaxtarárum sínum þar sem það á við… Eldri lesendur geta kitlað fortíðarþrána með því að skoða myndir og lesa upprifjanirnar, á meðan þau yngri klóra sér í kollinum yfir þeim miklu breytingum sem orðið hafa á skömmum tíma“.

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni hér.

Continue ReadingReykjavík svarar fyrir sig: umfjöllun Stefáns Pálssonar um Börn í Reykjavík í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2025

Börn í Reykjavík: umfjöllun dr. Sigrúnar Júlíusdóttur í tímariti félagsráðgjafa, 1. tbl., 19. árgangur 2025

Dr. Sigrún Júlíusdóttir fjallaði um Börn í Reykjavík í tímariti félagsráðjafa og segir hún meðal annars að: 

„Bókin Börn í Reykjavík er ætluð almenningi, en jafnframt er hún fengur fyrir fræðafólk og fagstéttir sem starfa við uppeldi, kennslu og velferðarmál barna.“ 

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sínni hér.

Continue ReadingBörn í Reykjavík: umfjöllun dr. Sigrúnar Júlíusdóttur í tímariti félagsráðgjafa, 1. tbl., 19. árgangur 2025

Starfsemi Sumargjafar starfsárið 2024 – 2025

Aðalfundur Sumargjafar 2025 var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 12. júní 2025. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2024 til aðalfundar 2025. Helstu atriðin fara hér á eftir.

 

Aðalfundur 2024

Aðalfundurinn var í Grænuborg 6. júní 2024, kl. 19:0. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur samþykktur til áritunar og kosið í stjórn. Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem hafði verið í stjórn frá 2013, kom inn í varastjórn eftir eins árs hlé. Á fundi stjórnar að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Kristinn H. Þorsteinsson 
Varamenn: Rósa Björg Brynjarsdóttir og Bergsteinn Þór Jónsson.

 

Verðlaunasjóður barnabóka: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin

Sjóðurinn var stofn­aður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Verðlaunin hafa verið veitt í 33 skipti, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.

Árið 2024 féllu verðlaunin niður vegna þess að verið var að ganga frá breytingum á sjóðnum. Ákveðið var að verðlaun sjóðsins fái þá sérstöðu að vera fyrir texta og myndverk og geta höfundar því verið tveir. Einnig var ákveðið að verðlaunin muni framvegis heita: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin. Gengið var frá nýrri reglugerð og ýmsum formsatriðum vorið 2024 og gert nýtt merki fyrir sjóðinn. Einnig samþykkti Sumargjöf að verðlaunin (framlag Sumargjafar) verði hækkuð í 1,5 Mkr. – Auglýst var eftir handritum 9. maí 2024 með skilafresti til 1. október. Alls bárust 34 handrit að myndríkum barnabókum. Þar af voru 24 fyrir yngri börn, en hin fyrir eldri börn og unglinga. Búið er að velja verðlaunabók og eru höfundarnir nú að klára teikningar og ganga frá bókinni, sem kemur út í haust. Auglýst var 20. maí 2025 eftir handritum að verðlaunabók 2026, skilafrestur er til 15. október. – Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd og í stjórn sjóðsins.

 

Styrkir

Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, féllu styrkveitingar niður árin 2023 og 2024. Ákveðið var að taka aftur upp styrkveitingar á þessu ári og var auglýst eftir umsóknum með skilafresti til 2. mars 2025. Alls bárust 46 umsóknir. Ákveðið var að veita 15 styrki að þessu sinni, og er heildarupphæð þeirra 9.472.000 kr. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 4. maí.

Hægt er að stjá yfirlit styrkja með því að smella hér.

 

Styrkir til Grænuborgar og Steinahlíðar í tilefni af 100 ára afmæli félagsins 

Samþykkt var að veita hvorum leikskóla veglegan styrk í tilefni afmælisins. Einnig fá starfsmannafélögin á leikskólunum styrk frá félaginu.

 

Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson

Bók sem fjallar um sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár frá því að Barnavinafélagið Sumagjöf var stofnað, kom út í byrjun nóvember 2024. Bókin er glæsilegt verk og mikið myndskreytt, 640 bls. Útgáfuhóf var í verslun Forlagsins á Fiskislóð 6. nóvember og var það vel heppnað. Fanney Benjamínsdóttir kynningarstjóri Forlagsins setti samkomuna. Kristín H. Ólafsdóttir flutti ávarp, Guðjón Friðriksson kynnti bókina og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávarpaði gesti. Kristín afhenti honum svo tvö eintök af bókinni, annað fyrir hann sjálfan og hitt fyrir borgina. 

Bókin var einnig kynnt í Kiljunni í sjónvarpi og Guðjón kynnti hana og las upp á um 40 stöðum. Bókin hlaut góðar undirtektir og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis. Í lok janúar fékk bókin svo Íslensku bókmenntaverðlaunin 2025 í flokki fræðirita. Hún hefur vakið mikla athygli og fólk er mjög ánægt með hana. Það var vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með þessum hætti.

Hægt er sjá umfjöllun um bókina Börn í Reykjavík með því að smella hér.


Steinahlíð

Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Samkvæmt nýlegri frétt á að gera Sæbrautarstokk á árunum 2027-30, en hann er forsendan fyrir Borgarlínu á þessum stað.

Lóð í Steinahlíð

Matjurtagarðurinn er nýttur af foreldrum og öðrum. Kristinn H. Þorsteinsson hefur haft umsjón með umhirðu lóðar, sem er í höndum verktaka.

Göngustígur í Steinahlíð

Foreldrar í Steinahlíð hafa óskað eftir göngustíg meðfram innkeyrslu til að minnka slysahættu. Málið er í athugun hjá borginni.

Gamla Steinahlíðarhúsið 

Í húsinu er ein leikskóladeild (21 barn), en starfsemin í húsinu stendur e.t.v. tæpt, nema bætt verði úr aðgengi fyrir fatlaða. Mikilvægt er að starfsemi verði áfram í húsinu. Af þessu tilefni kom fram tillaga um að „rampa upp“ Steinahlíð til að húsið verði aðgengilegt fötluðum. Verkefninu Römpum upp Ísland er lokið, en einhver fyrirtæki veita ráðgjöf um útlit og hönnun rampa. Stefnt er að því að ljúka þessu á árinu.

 

Grænaborg

Kominn er tími á viðhald á loftræsikerfi og mögulega að útvíkka það inn í nýju álmuna. Kostnaður verður þónokkur ef til kemur og er málið í skoðun.

 

Heimasíðan sumargjof.is

Sumarið 2024 var hýsing vefsíðunnar færð yfir til Snerpu á Ísafirði, og fór vefsíðan í loftið um haustið. Rósa B. Brynjarsdóttir hefur séð um uppfærslu vefsíðunnar. Rósa hefur einnig séð um Facebook-síðu félagsins.


Fjármál Sumargjafar

Endurskoðun og ráðgjöf (Henry Örn Magnússon) hefur undanfarin ár verið endurskoðandi félagsins og sér einnig um rukkun leigu.


Firmaritun

Í sambandi við íbúðarkaup í árslok 2022 kom til skoðunar hver megi skrifa undir skuldbindingar í nafni félagsins (rita firma), það var ekki skýrt í lögum Sumargjafar. Lagabreyting þar um var gerð á aðalfundinum 2025.


Tímaritið Börn og menning

Það er gefið út af Ibby á Íslandi, sem eru frjáls félagasamtök um barnabókmenntir og barnamenningu. Sumargjöf styrkir tímaritið með 10 áskriftum.


Annað

Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Einnig á félagið íbúð á Hallgerðargötu 1A, 3. hæð, þar sem aðsetur félagsins er. 

Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar starfsárið 2024 – 2025

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar 2025

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í leikskólanum Grænuborg við Eiríksgötu í Reykjavík 12. júní  kl. 19:30.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir og afgreiddir til áritunar.
  3. Stjórnarkjör.
  4. Lagabreyting – bætt við 5. gr.: „Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar“.
  5. Önnur mál.

Núverandi stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Kristinn H. Þorsteinsson og Sölvi Sveinsson.
Varamenn: Bergsteinn Þór Jónsson og Rósa Björg Brynjarsdóttir.

 

Continue ReadingAðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar 2025

Afhending styrkja 2025

Í upphafi árs 2025 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 46 umsóknir og komst stjórn félagsins að þeirri niðurstöðu að veita 15 styrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir í leikskólanum Grænuborg sunnudaginn 4. maí 2025.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

  1. Heimildamynd um Rauðhólabörnin.  Elín Sveinsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Fjallar um sumardvöl barna reykvískra verkakvenna og verslunarkvenna um miðja síðustu öld í húsakynnum Vorboðans í Rauðhólum.
  2. Galdurinn við að vekja lestraráhuga hjá börnum með bókum og notalegu umhverfi. Arndís Hilmarsdóttir, Bókasafn Foldaskóla.
  3. Sól og máni, hnettirnir sem lýsa upp tilveruna. Linda Ólafsdóttir, höfundur og myndskreytir. Myndlýsing barnabókar sem ráðgert er að komi út haustið 2026.
  4. SkaHm, Vesturbrún 17, nýsköpunarsmiðja fyrir börn og ungmenni með fjölþættan tilfinninga- og hegðunarvanda. Einar Þór Haraldsson, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Kaup á þrívíddarprentara.
  5. Skammtímadvöl fatlaðra barna að Álfalandi. Halla Magnúsdóttir, hjá Keðjunni, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Kaup á skynörvunartækjum í umhverfi 0 – 12 ára barna með fötlun. 
  6. Bína fer í sveit. Ásthildur B. Snorradóttir, talmeinafræðingur og Bjarni Þór Bjarnason, myndskreytir. Útgáfa á 4. bókinni um Bínu bálreiðu. 
  7. Sumarfrí innanlands fyrir efnaminni fjölskyldur. Hjálparstarf kirkjunnar.
  8. Vetrarfatnaður fyrir börn efnaminni fjölskyldna. Hjálparstarf kirkjunnar. 
  9. Íslenskan er allra mál, verkefnahefti til að efla íslenskukunnáttu erlendra foreldra leikskólabarna. Berglind Erna Tryggvadóttir, Þórunn R. Gylfadóttir og Guðlaug Stella Bryjólfsdóttir. Unnið í samvinnu við leikskólann Grænuborg. 
  10. Unglingabókin Skuldadagar. Bergrún Íris Sævarsdóttir og Sigmundur Breiðfjörð, myndhöfundur. 3. bók í seríunni um Dag og Ylfu sem sýkt eru af mannætusjúkdómi (hrollvekja). 
  11. Framhaldsverkefni um Amelíu og Oliver. Sigrún Alda Sigfúsdóttir og Kristín Björg Sigurvinsdóttir, Bókabeitan.  Markviss orðaforðaþjálfun í gegnum sögulestur með aðferð beinnar kennslu fyrir 3 – 8 ára börn. 
  12. Tilfinningaspil og styrkleikaspil. Linda Sóley Birgisdóttir.  Spilin eru á helstu málum sem töluð eru hér á landi. 
  13. Viltu koma að leika? Sigríður Sunna Reynisdóttir o.fl., ÞYKJÓ. Könnun á sjálfsprottnun leik 5 – 9 ára barna utandyra. 
  14. Töfratal – fræðslubæklingur. Anna Lísa Benediktsdóttir, Ágústa Guðjónsdóttir og Eyrún Agnarsdóttir. Ætlaður foreldrum um málþroska barna. 
  15. Forskot á framtíð. Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi, Samskiptastöðinni. Þýðing handbókar um líðan á meðgöngu og fyrsta árið, fræðsluefni fyrir foreldra.

 

Continue ReadingAfhending styrkja 2025

Börn í Reykjavík – Íslensku bókmenntaverðlaunin 2024

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar óskar Guðjóni Friðrikssyni innilega til hamingju með íslensku bókmenntaverðlaunin 2024 í flokki fræðirita og rita almenns efnis. 

Í umsögn dómnendar segir: „Börn í Reykjavík er yfirgripsmikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborginni allt frá þéttbýlismyndun til dagsins í dag. Stíllinn er leikandi léttur og skrifað er af nærfærni og næmni um málefni barna og fjölskyldna, aðbúnað þeirra og umhverfi og textinn dýpkaður með persónulegum sögum. Höfundur dregur einnig fram daglegt líf barna á tímabilinu – leikina, skemmtanirnar, skólamál og skyldurnar – og tengir þetta við þróun og breytingar í borgarsamfélaginu sem var að mótast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bókina eykur heimildargildi hennar til muna og með þeim og lifandi frásagnarstílnum tekst Guðjóni að vekja söguna til lífs og draga upp skýra mynd af þróun samfélagsins og áhrifum hennar á börnin. Börn í Reykjavík er tímamótaverk sem er líklegt til að ná til breiðs lesendahóps og auka skilning á stöðu og veruleika barna í nútíð og þátíð.“

Continue ReadingBörn í Reykjavík – Íslensku bókmenntaverðlaunin 2024

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2025

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. 

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði og senda það síðan í viðhengi á netfang Sumargjafar, sumargjof@simnet.is.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 2. mars 2025. 

Reykjavík, 23. janúar 2025.
Barnavinafélagið Sumargjöf

Merki Sumargjafar
Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2025

Börn í Reykjavík

Í ár fagnar Barnavinafélagið Sumargjöf aldarafmæli en það var stofnað þann 22. apríl 1924. Stjórn félagsins fékk til liðs við sig Guðjón Friðriksson, sagnfræðing og rithöfund til að skrásetja og lýsa lífi barna í Reykjavík síðustu 100 árin og Forlagið, bókaútgáfu til að gefa bókina út. 

Í tilefni útgáfu bókarinnar Börn í Reykjavík verður blásið til útgáfuhófs í Bókabúð Forlagsins, Fiskislóð, kl. 16:30 miðvikudaginn 6. nóvember .

Bókinni er lýst sem einstakri heimild á viðburði Bókabúðar Forlagsins á facebook.

Í tilefni útgáfu bókarinnar Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson verður blásið til útgáfuhófs í Bókabúð Forlagsins, Fiskislóð, kl 16:30 miðvikudaginn 6. nóvember. Léttar veitingar verða í boði og bókin verður seld á sérstöku tilboði.

Bókin Börn í Reykjavík er einstök heimild. Lýst er lífi barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld til okkar daga. Þau birtast okkur á hvunndagsfötum og sparibúin, sagt er frá leikjum þeirra og námi, félagsstarfi og skemmtunum og fjallað um ólíkar aðstæður þeirra. Sagan er rakin í glöggum og skemmtilegum texta og vel á sjötta hundrað ljósmyndum. Útkoman er einstaklega heillandi aldarspegill sem ungir og aldnir munu gleyma sér yfir.“

Continue ReadingBörn í Reykjavík

End of content

No more pages to load