Styrkir 2022

Í upphafi árs 2022 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna þar sem sérstaklega var litið til vandaðra umsókna ætluðum börnum á leikskólaaldri. Í ár bárust 32 umsóknir og komst stjórn Sumargjafar að þeirri niðurstöðu að veita átta styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað. Stjórn Sumargjafar hefur ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja í ár líkt og í fyrra vegna covid.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki:

 1. Snillinganámskeið í grunnskólunum fyrir börn með ADHD (The OutSMARTers program)Félag um kvíðaraskanir barna, Dagmar Kr. Hannesdóttir. Rannsókn af árangri snillinganámskeiðisins sem hefur verið þróað á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar. 
 2. Sumarfrí Innanlands fyrir efnaminni fjölskyldurHjálparstarf kirkjunnar, Júlía Margrét Rúnarsdóttir.
 3. Fatakort fyrir börn á leikskólaaldriHjálparstarf kirkjunnar, Júlía Margrét Rúnarsdóttir.
 4. Íslenski málhljóðamælirinn. Bryndís Guðmundsdóttir. Endurbætt útgáfa, viðbætur við snjalltækjaforritið Íslenski málhljóðamælirinn (ÍM) sem skimar framburð íslensku málhljóðann og hljóðkerfisvitund hjá íslenskum börnum. 
 5. OrðaspjallLeikskólinn Tjarnasel í Reykjanesbæ, Árdís Hrönn Jónsdóttir, leikskólastjóri og fleiri. Endurútgáfa bókarinnar Orðaspjall sem er ætluð að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bókalestri. Bætt verður við verkefnum sem hafa verið í þróun síðan bókin kom út 2013 og tengjast Orðaspjallsaðferðinn auk bókalista. 
 6. Ég þori! Ég get! Ég vil! Linda Ólafsdóttir. Myndlýst bók fyrir börn um Kvennafrídaginn 1975. „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði“. Linda er höfundur texta og
  myndefnis. Bókin er hugsuð fyrir unga lesendur.
 7. 30 ára afmælistónleikar Drengjakórs Reykjavíkur. Drengjakór Reykjavíkur, Anna Hugadóttir, formaður Foreldrafélags Drengjakórsins. Kórinn er skipaður 18 drengjum á aldrinum 8 – 15 ára. Áformað er að halda tónleika 4. júní 2022 og verða þeir helgaðir íslenskri tónlist. Sjórnandi kórsins er Þorsteinn Freyr Sigurðsson.
 8. Barnadagskrá RIFF 2022. Hrönn Marinósdóttir. Sýning sérstaks námsefnis fyrir börn þar sem kvikmyndir eru notaðar sem kennslukagn og börnunum kennt kvikmyndalæsi. Myndirnar snerta einni á samfélagslegum málum og gera mögulegar vitsmunalegar umræður milli barna að sýningum loknum.
Continue ReadingStyrkir 2022

Útikennsla í Steinahlíð

Bergsteinn Þór Jónsson leikskólastjóri og Lárus Lúðvík Hilmarsson verkefnastjóri útikennslu ætla að segja frá starfi Steinahlíðar miðvikudaginn 16 mars kl. 17 – 18. Leikskólinn hefur verið þátttakandi í vest-norrænu samstarfi síðastliðið vetur en yfirskrift verkefnisins er: Sjálfbært menningar og umhverfismiðað uppeldi.

Barnavinafélaginu Sumargjöf barst vegleg gjöf á 25 ára afmælisdegi félagsins árið 1949 en það var húsið Steinahlíð við Suðurlandsbraut ásamt rúmgóðu landi með túni, görðum og trjálundum. Einkaerfingjar hjónanna Elly Scheplar Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar stórkaupmanns gáfu félaginu Steinahlíð til minningar um foreldra sína, að ósk föður þeirra. Gjöfinni fylgdi til að mynda það skilyrði að eingöngu skyldi vera starfrækt barnaheimili á eigninni þar sem væri lögð sérstök áhersla á trjárækt og matjurtarækt. Alla tíð hefur þetta skilyrði verið haft í hávegum.

Steinahlíð fékk að gjöf Bambahús, sjálfbært gróðurhús frá félaginu í tilefni 70 ára afmælis Steinahlíðar árið 2019. Með tilkomu hússins eykst fjölbreytnin í ræktuninni, ræktunartíminn lengist og forræktun verður auðveldari. Börnin taka virkan þátt.

Slóð á fundinn:  https:// meet.google.com/hxc-yzsd-gbh

Continue ReadingÚtikennsla í Steinahlíð

Ævar Þór Benediktsson styrkhafi

Árið 2019 styrkti barnavinafélagið Sumargjöf Ævar Þór Benediktsson, leikara og rithöfund og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, mynd- og rithöfundi til að klára bók þeirra Stórhættulega stafrófið. Styrkurinn munaði miklu fyrir þau til að myndskreyta þessa fallegu bók. 

Sumargjöf er stolt að geta styrkt verkefni sem skipta sköpum fyrir þroska barna. 

Continue ReadingÆvar Þór Benediktsson styrkhafi

Styrkir til verkefna í þágu barna árið 2022

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Að þessu sinni verður sérstaklega litið til vandaðra umsókna ætluð börnum á leikskólaaldri.

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði og senda það síðan í viðhengi á netfang Sumargjafar, [email protected]

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 7. mars 2022. 

Reykjavík, 27. janúar 2022.
Barnavinafélagið Sumargjöf

Merki Sumargjafar
Continue ReadingStyrkir til verkefna í þágu barna árið 2022

Íslensku barnabókaverðlaunin 2021

Ljósberi
Ljósberi
eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson

Þriðjudaginn 12. október 2021 voru íslensku barnabókaverðlaunin afhent. Venjan er að afhending verðlaunanna fari fram í skóla þeirra krakka sem lesa handrit bóka sem koma til greina að mati dómnefndar. Vegna covid var verðlaunaafhendingin með breyttu sniði í ár, líkt og í fyrra, í bókabúð Forlagsins út á Granda en hún hefði átt að vera í Vogaskóla. Verðlaunahafi, nánasta fjölskylda, dómnefnd og fjölmiðlar voru viðstaddir afhendingu. Ólafur Gunnar Guðlaugsson bar sigur úr býtum með bók sína Ljósberi.

Að mati dómnefndar er Ljósberi kraftmikil og spennandi fantasía fyrir unglinga, metnaðarfull fyrsta bók í fyrirhuguðum þríleik sem ber heitið Síðasti seiðskrattinn.

Ljósberi fjallar um „fjögur ungmenni [sem] rannsaka dularfullan dauða lærimeistara síns. Þeim er öllum gefing skyggnigáfa en eru mislangt á veg komin í að beita henni. Fljótlega blasir við að ekkert af því sem þau þóttust vita um lífið, alheiminn og eðli tilverunnar er eins og þau héldu – eða gat órað fyrir – og vilji þeirra til að sættast við krafta sína og læra að beita þeim skiptir sköpum í viðureigninni við djöflana sem ógna tilveru okkar allra.“

Ljósberi er fyrsta skáldsaga Ólafs Gunnars fyrir eldri lesendur en áður hefur hann sent frá sér vinsælar barnabækur og leikrit um Benedikt búálf.

Continue ReadingÍslensku barnabókaverðlaunin 2021

Styrkir 2021

Í upphafi árs 2021 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna. Í ár bárust 30 umsóknir og komst stjórn Sumargjafar að þeirri niðurstöðu að veita níu styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað. Stjórn Sumargjafar hefur ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja í ár líkt og í fyrra vegna covid.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

Íslensk myndlist sem öll ættu að þekkja.

Bók fyrir stálpuð börn, unglinga og fjölskyldur þar sem fjallað verður um allt að 20 íslenska listamenn sem hafa skipt sköpum í þróun myndlistar hér á landi. Styrkurinn er ætlaður fyrir myndbirtingarkostnaði. Höfundur stefnir að útgáfu verksins vorið 2022.

Styrkþegi: Margrét Tryggvadóttir

OCD sumarmeðferð fyrir unglinga 12 – 18 ára, nýtt hópmeðferðarúrræði.

Tilrauna- og samstarfsverkefni nokkurra aðila sem sinna meðferð fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Tilraunaverkefnið verður haldið sumarið 2022 og er tveggja vikna gagnreynd meðferð við áráttu/þráhyggjuröskun (OCD) sem áætlað er að hamli 1 – 2 % ungmenna á aldrinum 12 – 18 ára.

Styrkþegi: Félag um kvíðaraskanir barna

Tengiliður: Dagmar Hannesdóttir

Sumarfrí innanlands

Markmiðið er að veita börnum og fjöskyldum þeirra sem búa við kröpp kjör þá upplifun að fara í frí saman og stuðla að því að börnin upplifi sig ekki útundan meðal sinna jafningja og einnig að koma í veg fyrir mismunun.

Styrkþegi: Hjálparstarf kirkjunnar

Tengiliður: Júlía Margrét Rúnarsdóttir

Púlz – nútíma tónlist fyrir börn og unglinga

Púlz býður börnum og unglingum að læra að nýta nútíma tækni til þess að semja og flytja tónlist. Styrkurinn er ætlaður til styrktar rekstrinum svo unnt sé að fjölga kennurum og námskeiðum fyrir börn og ungmenni.

Styrkþegi: Púlz, Taktur & Sköpun

Tengiliður: Þorkell Ólafur Árnason

Fiðlufjör á Hvolsvelli, fiðlunámskeið

Þriggja daga fiðlunámskeið sem haldið hefur verið árlega á Hvolsvelli undanfarin fimm ár fyrir fiðlunemendur víðs vegar af landinu. Nemendur fá einkatíma, meðleikstíma, tónlistarsmiðju og spunatíma undir leiðsögn færra kennara. Í lokin eru haldnir lokatónleikar þar sem allir nemendur taka þátt. Aðalmarkmið hátíðarinnar er að bjóða upp á skemmtilegt og metnaðarfullt fiðlunámskeið fyrir fiðlunemendur óháð hvar á landinu þeir búa. Styrknum er ætlað að auðvelda að stilla námskeiðsgjöldum í hóf.

Styrkþegi: Chrissie Telma Guðmundsdóttir

Sjúkrahústrúðarnir

Íslensku sjúkrahústrúðarnir eru fyrstir sinnar tegundar á Íslandi og eru skipaðir tíu fagmenntuðum leikurum sem hlotið hafa sérstaka þjálfun í aðferðarfræði og vinnusiðferði sjúkrahústrúða. Trúðavaktin býður ókeypis þjónustu við Barnaspítala Hringsins og hóf starfsemi sína 1. mars 2018. Trúðarnir heimsækja öll börn frá 0 – 18 ára á spítalanum alla fimmtudaga allt árið um kring, tveir trúðar í senn. Hlutverk Trúðavaktarinnar er að skapa stuttar gleðistundir í erfiðum aðstæðum. Styrkurinn er ætlaður fyrir efniskostnað í nýja búninga.

Styrkþegi: Trúðavaktin

Tengiliður: Agnes Wild

Kjörbókalestur í unglingadeild Vogaskóla

Verkefnið er lestrarátak í unglingadeild Vogaskóla að frumkvæði bókasafnskennarans, Berglindar H. Guðmundsdóttur, og í samvinnu við kennara þar sem nemendur lesa bækur að eigin vali og ræða þær við bókasafnskennarann og í hópum sín á milli. Skortur á bókum hefur háð verkefninu og er styrknum ætlað að bæta úr því með kaupum á bókum.

Styrkþegi: Vogaskóli

Tengiliður: Berglind H. Guðmundsdóttir

Stuðningur og fræðsla fyrir börn foreldra barna með geðrænan vanda.

Markmið verkefnisins er að styðja við börn foreldra með geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra og er unnið í samstarfi við OurTime, góðgerðarsamtök í Bretlandi, sem eru leiðandi í starfi fyrir börn foreldra með geðrænan vanda þar í landi. Fræðsluefni fyrir þennan hóp vantar hér á landi og er styrknum ætlað að bæta úr því með gerð fræðslumyndbanda fyrir börnin.

Styrkþegi: Geðhjálp

Tengiliður: Sigríður Gísladóttir

Tímahylkið

Tímahylkið er verkefni sem nemendur og starfsmenn Valsárskóla hafa verið að vinna að í samstarfi við Safnasafnið á Svalbarðsströnd frá upphafi COVID árið 2020. Markmið verkefnisins er að varðveita upplifun, reynslu og hugrenningar unga fólksins okkar fyrir framtíðina. Þau fá að spreyta sig í að skrifa texta, teikna, mála og móta verk sem þau tengja veirunni skæðu, þau fá að vinna með sögulega texta, taka þátt í að hanna sýningu og vinna með fagfólki innan hönnunar og lista. Sagan verður fest á blað og fryst í tíma í tímahylki sem gert er ráð fyrir að varðveita á góðum stað og opna með viðhöfn að 50, 60 eða hundrað árum liðum. Gefið er út tímarit og afrakstur vinnunnar sýndur á sýningu í Safnasafninu.

Styrkþegi: Svalbarðsstrandarhreppur

Tengiliður: Björg Erlingsdóttir

Continue ReadingStyrkir 2021

Aðalfundur 2021

Aðalfundur Barnavinafélagsins Sumargjafar verður haldinn í Hannesarholti þriðjudaginn 15. júní 2021, kl. 17:00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir og afgreiddir til áritunar.
 3. Stjórnarkjör.
 4. Önnur mál.

Núverandi stjórn félagsins er skipuð þessum mönnum:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Steinunn Jónsdóttir
Varamenn: Sölvi Sveinsson, Bergsteinn Þór Jónsson og Kristinn H. Þorsteinsson.

Continue ReadingAðalfundur 2021