Börn í Reykjavík – Íslensku bókmenntaverðlaunin 2024

Stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar óskar Guðjóni Friðrikssyni innilega til hamingju með íslensku bókmenntaverðlaunin 2024 í flokki fræðirita og rita almenns efnis. 

Í umsögn dómnendar segir: „Börn í Reykjavík er yfirgripsmikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborginni allt frá þéttbýlismyndun til dagsins í dag. Stíllinn er leikandi léttur og skrifað er af nærfærni og næmni um málefni barna og fjölskyldna, aðbúnað þeirra og umhverfi og textinn dýpkaður með persónulegum sögum. Höfundur dregur einnig fram daglegt líf barna á tímabilinu – leikina, skemmtanirnar, skólamál og skyldurnar – og tengir þetta við þróun og breytingar í borgarsamfélaginu sem var að mótast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bókina eykur heimildargildi hennar til muna og með þeim og lifandi frásagnarstílnum tekst Guðjóni að vekja söguna til lífs og draga upp skýra mynd af þróun samfélagsins og áhrifum hennar á börnin. Börn í Reykjavík er tímamótaverk sem er líklegt til að ná til breiðs lesendahóps og auka skilning á stöðu og veruleika barna í nútíð og þátíð.“