Aðalfundur og stjórnarkjör
Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg miðvikudaginn 8. júní 2022, kl. 19:30.
Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur afgreiddur til áritunar og kosið í stjórn, sem var óbreytt frá fyrra ári. Á fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa B. Brynjarsdóttir og Sölvi Sveinsson
Varamenn: Bergsteinn Þór Jónsson, Kristinn H. Þorsteinsson og Særún Sigurjónsdóttir
Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).
Íslensku barnabókaverðlaunin féllu niður á síðasta ári, 2022. Þá bárust 10 handrit, þar af tvö frambærileg en hvorugt metið verðlaunahæft.
Í vetur bárust 10 handrit og komu tvö til nánari athugunar. Niðurstaðan var að fella verðlaunin niður annað árið í röð. Framlag Sumargjafar átti að hækka í 1.000.000 kr. Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd.
Styrkir
Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, var ákveðið að gera hlé á styrkveitingum á þessu ári.
Styrkur til kaupa á gróðurhúsi í Tjarnarborg
Tjarnarborg átti 80 ára afmæli í árslok 2021, og kom þá upp hugmynd um að gefa leikskólanum gróðurhús. Hulda Ásgeirsdóttir leikskólastjóri óskaði eftir styrk frá Sumargjöf í þessu skyni. Tjarnarborg skipar sérstakan sess hjá Sumargjöf, þar var Uppeldisskólinn stofnaður og starfaði fyrsta árið. Samþykkt var að gjöf frá útskriftarárgangi Fóstruskóla Sumargjafar 1972, renni til þessa verkefnis, og félagið bæti við þannig að upphæðin verði 300.000 kr. Gróðurhúsið var sett upp sumarið 2023.
Saga barna í Reykjavík
Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, ákvað stjórnin að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur skilaði handriti í árslok 2021. Eftir yfirlestur hjá ritnefnd, endurskoðaði Guðjón og stytti handritið, aflaði mynda og samdi myndatexta. Stefnt er að því að ritið komi út næsta vor, 2024.
Útgáfa ritsins
Stjórnin taldi eðlilegt að þreifa fyrst fyrir sér hjá Forlaginu, sem við höfum unnið mikið með. Kristín og Sölvi hittu Hólmfríði Matthíasdóttur hjá Forlaginu 17. maí 2023, og tók hún vel í að gefa út bókina. Forlagið fékk þrjá kafla og hugmynd um myndafjölda og fjölda í lit.
Húsnæðismál félagsins
Félagið hafði á leigu rúmgott herbergi í Sóltúni 20, með afnotum af kaffistofu og salerni. Stjórnin velti fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fjárfesta í húsnæði fyrir félagið. Aðstaðan í Steinahlíð var skoðuð og var ekki talin koma til greina á meðan leikskólabörn eru í gamla húsinu og starfsmannaaðstaða í Úthlíð. Í nóvember 2022 bauðst tækifæri til að kaupa nýja stúdíóíbúð á 3. hæð í Hallgerðargötu 1A. Geymsla í kjallara fylgir. Samþykkt var að kaupa hana og var gengið frá kaupsamningi í lok nóvember; með afhendingu 1. mars 2023. Andvirði íbúðar í Skipholti 5 fór í kaupin og nokkuð að auki. Í febrúar 2023 kom í ljós að við myndum missa húsnæðið í Sóltúni og var þá ákveðið að flytja aðstöðu félagsins á Hallgerðargötu 1A. Fengnir voru flutningamenn í verkið og flutt inn 17. mars 2023. Talsverð vinna var að koma sér fyrir og er aðstaðan nú orðin mjög góð.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Var því komið á framfæri í mati á umhverfisáhrifum, skipulagsbreytingu og hugmyndasamkeppni. Á fundi með borginni 26. apríl 2022 voru kynnt drög að samkomulagi um skipti á landi. Sumargjöf gerði nokkrar lagfæringar á samkomulaginu, í samráði við lögfræðing félagsins. Borgin samþykkti allar breytingarnar og var samkomulagið undirritað í Steinahlíð 22. ágúst 2022 af borgarstjóra og formanni Sumargjafar. Jón Valgeir Björnsson hjá Eignaskrifstofu var þar kynntur sem umsjónarmaður verkefnisins af hálfu borgarinnar. Helstu atriði samkomulagsins eru:
Fari Borgarlínan inn á lóð Steinahlíðar, Suðurlandsbraut 75, … með þeim hætti sem greinir í 1. gr. samkomulags þessa, mun Sumargjöf framselja til Reykjavíkurborgar til eignar allt að 5.000 fermetra af lóðinni Steinahlíð. Reykjavíkurborg mun í staðinn bæta við lóð Steinahlíðar sambærilegu landi og skal það liggja að lóð Steinahlíðar. Landið sem kemur í stað lands sem framselt er Reykjavíkurborg skal vera að lágmarki að mati Sumargjafar eða óháðs þriðja aðila af sömu gæðum og stærð og landið sem framselt er Reykjavíkurborg og vera nýtanlegt fyrir Steinahlíð. Reykjavíkurborg skal á sinn kostnað leggja nýja girðingu á lóðarmörkum í samráði við Sumargjöf. Að öðru leyti en að framan greinir kemur ekki til frekara endurgjalds af hálfu aðila vegna skipta á landi
Veruleg óvissa er um framgang Borgarlínu og Sæbrautarstokks.
Ráðgjafarsamningur við Alta
Þann 28. september 2022 var fundur hjá borginni þar sem samþykkt var að fá Alta sem ráðgjafa í undirbúningsvinnunni. Sumargjöf samþykkti að vera í í forsvari fyrir vinnu Alta, þó að ekki liggi fyrir samningur um kostnaðarskiptingu. Þann 12. október var fundur í Steinahlíð með Halldóru Hreggviðsdóttur frá Alta þar sem lóðin var skoðuð og rætt um mögulegan stað fyrir nýjan leikskóla, skipulag lóðar og fleira. Í framhaldinu vann Alta fyrstu drög að „Þróunaráætlun fyrir Steinahlíð“. Meginatriðið er breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina, þar sem skilgreindur er byggingarreitur fyrir nýjan 120-200 barna leikskóla, og fyrir bráðabirgðahúsnæði á byggingartíma (Ævintýraborg). Verksamningurinn var samþykktur með smá breytingum í stjórninni og undirritaði Kristín hann fyrir hönd félagsins og Halldóra Hreggviðsdóttir fyrir hönd Alta, þann 29. nóvember 2022.
Nýr leikskóli í Steinahlíð
Borgin hefur rætt um að nýr leikskóli í Steinahlíð verði fyrir 120-200 börn. Gert er ráð fyrir 11 fm á barn, þannig að gólfflötur yrði allt að 2.200 fm. Til að minnka umfang hússins yrði það á tveimur hæðum og kjallari fyrir tæknirými undir hluta þess. Grunnflötur gæti verið 1.250 fm, sem er stórt hús. Skoðaðar hafa verið nokkrar staðsetningar. Á byggingartíma yrði starfsemin í Ævintýraborg sem rúmar 100 börn, og gæti staðið í 5 ár.
Haldnir hafa verið allmargir vinnufundir, flestir hjá Alta. Eftir fund 27. janúar 2023, kom upp biðstaða í málinu. Að beiðni Reykjavíkurborgar hafði Alta samband við Myrru hljóðstofu um að meta hljóðvist á lóðinni og mun borgin greiða þá vinnu. – Kristinn tók saman myndir og mikinn fróðleik um Steinahlíð, sem hann kynnti á stjórnarfundi 23. febrúar 2023.
Gamla Steinahlíðarhúsið
Það var lauslega metið í húsakönnun 2010 og var vilji til að friðlýsa það. Arne Finsen teiknaði það, en hann teiknaði m.a. Siglufjarðarkirkju. Pétur Ármannsson arkitekt hjá Minjastofnun þekkir vel til hússins og var ákveðið að fá hann til að skoða það. Hann kom 9. desember og leggur til að húsið verði friðað, en telur mikilvægt að því verði fundið hlutverk sem skili tekjum upp í viðhald. Friða mætti hluta af innrýminu (loftið). Með friðun má sækja um styrki til viðhalds, en það eru ekki háar upphæðir. Áður stóð við Steinahlíð garðhýsi sem flutt var að sumarbústað á Þingvöllum. Til eru teikningar af því.
Úthlíð
Pétri fannst Úthlíð stinga í stúf við gamla húsið, en talsverð verðmæti eru í húsinu, sem er innifalið í leigu.
Bekkur í Steinahlíð
Þann 26. ágúst afhenti Guðný Bjarnadóttir bekk með áletrun til minningar um Idu Ingólfsdóttur fyrsta leikskólastjóra í Steinahlíð. Bekkurinn er gjöf frá ættingjum og vinum Idu. Nokkur afgangur var af söfnunarfénu og voru í samráði við Bergstein leikskólastjóra keypt 4 borð með bekkjum fyrir börnin.
Stuðningur við starfsemi í Grænuborg og Steinahlíð
Í vetur voru afhentar viðurkenningar frá ríki og borg til vinnustaða með bestu starfskjör starfsfólks. Grænaborg lenti í öðru sæti fyrir 25-49 manna vinnustaði, og er viðurkenningarskjal komið upp á vegg þar. Sumargjöf hefur reynt að gera vel við starfsfólk í Grænuborg og Steinahlíð, til dæmis í sambandi við afmæli félagsins og leikskólanna. Ákveðið var að styrkja starfsmannafélögin árlega um 5.000 kr. á starfsmann, sem eru um 30 í Grænuborg og um 20 í Steinahlíð.
Ávöxtun fjármuna Sumargjafar
Henry Örn Magnússon endurskoðandi félagsins ráðlagði að setja hluta af innistæðum í að kaupa fasteign. Eins og fram hefur komið var fasteign keypt í vetur.
Heimasíða Sumargjafar
Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur séð um vefsíðuna sumargjof.is og uppfært eftir þörfum. Rósa hefur stofnað Fésbókarsíðu fyrir félagið þar sem styrkir hafa verið auglýstir.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.