Starfsemi Sumargjafar veturinn 2023 – 2024

Aðalfundur og stjórnarkjör

Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 1. júní 2023, kl. 19:30. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur afgreiddur til áritunar og kosið í stjórn. Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem hafði verið í stjórn frá 2013, og í aðalstjórn frá desember 2017, ákvað að draga sig í hlé. Í stað hennar kom Kristinn H. Þorsteinsson inn í aðalstjórn. Særún Sigurjónsdóttir, varamaður frá 2021, dró sig einnig í hlé. Á fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir

Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir

Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson

Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Kristinn H. Þorsteinsson

Varamaður: Bergsteinn Þór Jónsson.

Verðlaunasjóður barnabóka

Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Verðlaunin hafa verið veitt í 33 skipti, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.

Í fyrra féllu verðlaunin niður annað árið í röð vegna þess að ekki bárust frambærileg handrit. Verðlaunaféð (framlag Sumargjafar) átti þá að hækka í 1,0 Mkr. Ástæðuna fyrir minnkandi áhuga má að hluta a.m.k. rekja til þess að Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur sem stofnað var til af hálfu borgarinnar, eru að efnislegu inntaki sniðin að Verðlaunasjóði barnabóka og síðan hefur verið samkeppni um handrit á milli þessara tveggja verðlauna. Einnig eru Íslensku bókmenntaverðlaunin sem forsetinn afhendir, farin að verðlauna barnabækur. Í vetur var því ákveðið að Verðlaunasjóður barnabóka fái þá sérstöðu að verðlauna texta og myndverk; höfundar geta því verið tveir. Einnig var ákveðið að verðlaunin muni framvegis heita: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin. Gengið var frá nýrri reglugerð og ýmsum formsatriðum. Einnig var samþykkt að framlag Sumargjafar (verðlaunin) hækki í 1,5 Mkr. Stefnt er að því að fyrsta verðlaunabókin samkvæmt nýjum reglum verði gefin út haustið 2025. Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd og í stjórn sjóðsins.

Styrkir

Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, var ákveðið að gera hlé á styrkveitingum á þessu ári, eins og í fyrra. Reiknað er með að taka aftur upp þráðinn á næsta ári.

Saga barna í Reykjavík

Í tilefni af 100 ára afmæli Sumargjafar nú í vor, fékk stjórnin Guðjón Friðriksson sagnfræðing til að rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Gengið var frá samningi við Guðjón 4. júní 2019. Hann skilaði handriti í árslok 2021, og fór það síðan í yfirlestur hjá ritnefnd, en í henni eru Hildur Biering, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson stjórnarmenn Sumargjafar. Guðjón skilaði svo fullbúnu handriti til Forlagsins 18. ágúst 2023 með myndum, myndatextum og heimildaskrá.

Varðandi útgáfu ritsins töldum við eðlilegt að leita til Forlagsins, sem við höfum unnið mikið með. Forlagið lýsti ánægju með bókina, og óskaði eftir að gefa hana út haustið 2024, og gera hana að jólabók, sem við samþykktum. Gengið var frá samkomulagi við Forlagið um útgáfuna. Umbrot bókarinnar er langt komið og verður þetta glæsileg bók.

Styrkir til útgáfunnar 

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti Sumargjöf 750.000 kr. styrk, og barnamálaráðherra veitti 250.000 kr. styrk. Reykjavíkurborg veitti 350.000 kr. styrk til afnota af ljósmyndum úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur, en fyrirhugað er að birta 171 mynd úr safninu.

Húsnæðismál félagsins 

Eins og fram kom í síðustu skýrslu var flutt inn í nýtt húsnæði félagsins á Hallgerðargötu 1A þann 17. mars 2023. Búið er að stofna húsfélag og sér Eignaumsjón um reksturinn. Íbúðin hentar vel sem aðstaða fyrir félagið.

Steinahlíð

Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Samkomulag liggur fyrir um skipti á landi, allt að 5.000 fermetrum, og var það undirritað í Steinahlíð 22. ágúst 2022 af borgarstjóra og formanni Sumargjafar. Veruleg óvissa er um framgang Borgarlínu og Sæbrautarstokks.

Nýr leikskóli og Ævintýraborg í Steinahlíð

Frá síðasta aðalfundi var málið í hálfgerðri biðstöðu, en vinna Alta við deiliskipulag hélt áfram fram á haustið 2023. Jón Valgeir Björnsson hjá borginni upplýsti þá að verkefnið í Steinahlíð væri komið á ís, og einnig Ævintýraborgin. Hann sagði að skipulagsvinnan nýtist ef haldið verður áfram. Hann bað um bréf um kostnaðarstöðu verksins, sem borgin mun væntanlega greiða a.m.k. að hluta.

Hljóðvist og loftgæði í Steinahlið

Þann 21. júní 2023 var fundur um hljóðvist með Myrru, hljóðstofu. Virðist hægt að uppfylla kröfur með vissum mótvægisaðgerðum.

Göngustígur í Steinahlíð

Foreldrar í Steinahlíð hafa óskað eftir göngustíg meðfram innkeyrslu til að minnka slysahættu. Málið er í skoðun hjá borginni.

Álfasteinar í Steinahlíð

Anna Lísa Guðmundsdóttir verkefnastjóri fornleifa hjá Árbæjarsafni hafði samband og spurði um örnefnið Tvísteina, og um Álfasteina við Steinahlíð. Snjólaug Guðmundsdóttir sem vann hjá Idu Ingólfsdóttur í Steinahlíð, hafði heyrt að Tvísteinar væru við húsið. Austast á lóðinni er steinn sem Elsa E. Guðjónsson lék sér við sem barn og kallaði Álfastein. Steinninn var fluttur inn á lóðina haustið 1997, með milligöngu Erlu Stefánsdóttur sjáanda, þegar lóðin var skert, sbr. Mbl. 26.09.1997.

Lóð í Steinahlíð 

Matjurtagarðurinn er nýttur af foreldrum og öðrum. Kristinn H. Þorsteinsson stjórnarmaður hefur haft umsjón með umhirðu lóðar, sem er í höndum verktaka.

Stuðningur við Grænuborg og Steinahlíð 

Sumargjöf hefur reynt að gera vel við starfsfólk í Grænuborg og Steinahlíð, til dæmis í sambandi við afmæli leikskólanna. Nýlega var samþykkt var að veita leikskólunum styrki í tilefni af 100 ára afmæli félagsins.

100 ára afmælið vorið 2024

Á síðasta vetrardag, 24. apríl, var viðtal við Kristínu H. Ólafsdóttur formann félagsins og Guðjón Friðriksson á morgunvaktinni í RÚV, og rætt um 100 ára afmælið og útgáfu á bókinni Börn í Reykjavík. Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, var viðtal við Kristínu í Morgunblaðinu. Þótti vel við hæfi að minnast afmælisins með þeim hætti. Þegar bókin Börn í Reykjavík kemur út í haust, verður útgáfuhóf hjá Forlaginu eða í Ráðhúsi Reykjavíkur. – Þess má geta að Kristín Dýrfjörð minntist 100 ára afmælisins á Fésbók. Einnig Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra á blog-síðu sinni.

Heimasíðan sumargjof.is 

Eftir að Rósa Björg Brynjarsdóttir hvarf úr stjórn hefur uppfærsla vefsíðunnar legið niðri. Sama er að segja um Fésbókarsíðu félagsins. Við það bættist að fá þurfti nýjan hýsingaraðila. Talsvert var unnið í málinu á árinu, undir umsjón Kristins H. Þorsteinssonar og er nú loksins farið að sjást til lands í málinu. Kominn er hýsingaraðili, Snerpa á Ísafirði. Rósa Björg Brynjarsdóttir sem sá um heimasíðuna, féllst á halda utan um uppfærslur fyrir okkur. Stefnt var að því að koma breyttum vef upp fyrir afmælið (25. apríl 2024), en það tókst ekki, og verður reynt að ljúka því sem fyrst. – Tímarit sem Sumargjöf gaf út eru komin inn á timarit.is, og verða þau tengd inn á vefsíðuna (Sólskin, Fóstra, Sumargjöfin, Barnadagurinn/ Barnadagsblaðið/ Sumardagurinn fyrsti). Einnig verður kynning um sögu félagsins sett þar inn, og kynning sem Kristinn var með á fundi hjá okkur um sögulega þróun Steinahlíðar.

Fjármál Sumargjafar 

Endurskoðun og ráðgjöf (Henry Örn Magnússon) hefur undanfarin ár verið endurskoðandi félagsins, og sér nú einnig um rukkun á leigu.

Annað

Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg á Skólavörðuholti og Steinahlíð við Suðurlandsbraut. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Einnig á félagið íbúð á Hallgerðargötu 1A. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.