Styrkveitingar Sumargjafar til málefna barna

 

styrkir_2015Í upphafi árs 2015 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 40 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita ellefu styrki. Afhending styrkja fór fram þann 3. maí í leikskólanum Grænuborg við Eiríksgötu í Reykjavík. Eftirtalin verkefni hlutu styrkina að þessu sinni (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Gerð sjónvarpsmyndar um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í tilefni 25 ára afmælis sáttmálans.

Þann 20. nóvember 2014 var 25 ára afmæli barnasáttmála SÞ fagnað. Af því tilefni hafa ungmennaráð Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, umboðsmaður barna og Unicef á Íslandi tekið höndum saman um að gera sjónvarpsmynd um Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Markmiðið er að auka þekkingu og meðvitund barna og fullorðinna um mannréttindi barna með það fyrir augum að bæta líf barna á Íslandi. Ríkisútvarpið (RÚV) mun sýna myndina þann 20. nóvember 2015 í lok 25 ára afmælisársins. – Styrkþegi: Barnaheill. – Tengiliður: Þóra Jónsdóttir.

2. Hverfisfuglinn okkar. – Fræðsluverkefni ætlað börnum á leikskólaaldri í Dalskóla við bakka Úlfarsár í Úlfársdal.

Dalskóli er nýr skóli á 5. starfsári en einn af hornsteinum hans er umhverfismennt og útikennsla. Inntak verkefnisins er að börnin velja í sameiningu hvaða fuglategund sé hverfisfuglinn þeirra. Valið byggir á athugunum barnanna í kjölfar fræðslu um fuglalíf borgarinnar með áherslu á nánasta umhverfi. Styrkurinn er veittur til tækjakaupa, svo sem sjónauka og myndavéla. – Tengiliður skólans: Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir.

3. Komdu og skoðaðu fuglana. – Fræðslurit um fuglaskoðun ætlað ungum fuglaskoðurum.

Verkefnið byggist á útgáfu fræðslurits um fuglaskoðun, með það að markmiði að auðvelda áhugasömum ungum fuglaskoðurum að skoða okkar algengustu eða skrautlegustu fugla vor og vetur. Fjallað verður um 30 fugla og leitast við að byggja ritið upp á sem myndrænasta hátt. Ritið er ætlað 4. bekkingum grunnskóla og fær hvert barn í árganginum eintak að gjöf. Dreifa á ritinu til bekkjardeilda ásamt kennaraeintaki og bókasafnseintaki. Styrkþegi: Fuglaverndarfélag Íslands / Fuglavernd. – Tengiliður: Hólmfríður Árnadóttir.

4. Strengir á tímaflakki. – Skólatónleikar fyrir börn á Akureyri og nágrenni.

Stjórn Tónlistarfélags Akureyrar telur að sárlega hafi vantað framboð á vönduðum tónleikum fyrir börn á Akureyri og nágrenni síðustu ár. Félagið er í samstarfi við Pamelu de Sensi og er hún listrænn stjórnandi verkefnisins. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Strengir á tímaflakki“ og byggja á tónlistarævintýri eftir Pamelu sem Steingrímur Þórhallsson samdi tónlist við. Í ævintýrinu eru hljóðfæri hefðbundins strengjakvartetts kynnt með því að segja sögu. Einnig verður flutt verkið Divertimento K. 136 eftir Mozart. Þátttakendur eru hljóðfæraleikarar, sögumaður og leikari sem leikur Mozart og börn úr dansskóla á Akureyri. Sýningin er ætluð 2ja til 12 ára börnum og fá þau að taka þátt í sýningunni á ýmsan hátt með tali og hreyfingu. Fyrirhugað er að flytja verkefnið á skólatónleikum og þannig gefa öllum börnum á Eyjafjarðarsvæðinu kost á að sjá verkið auk barna frá norð-austur horninu. Styrkþegi: Tónlistarfélag Akureyrar. – Tengiliður: Ásdís Arnardóttir.

5. Stef fyrir stutta putta. – Nótnabók.

„Stef fyrir stutta putta“ er nótnabók með frumsömdum píanólögum fyrir nemendur á fyrri stigum píanónáms eftir Jóhann G. Jóhannsson. Með verkefninu er stefnt að því að auðga fremur fátæklega flóru af innlendu efni fyrir unga píanónemendur með aðgengilegum og skemmtilegum lögum í von um að það verði þeim hvatning og glæði áhuga þeirra á náminu. Bókin verður seld í Tónastöðinni og helstu bókaverslunum. – Höfundur og styrkþegi: Jóhann G. Jóhannsson.

6. Farandnámskeið í myndlist fyrir 5. – 7. bekk í grunnskólum Austurlands 2015 – 2016.

Námskeiðið er á vegum Skaftfells sem er myndlistarmiðstöð Austurlands og gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að myndlistarfræðslu í fjórðungnum. Eitt af helstu verkefnum miðstöðvarinnar hafa verið fræðsluverkefni fyrir grunnskólanema. Fyrir veturinn 2015-2016 verður lögð áhersla á óhlutbundna list sem tengist fyrirhugðri sýningu á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur (1924-1997) í sýningarsal Skaftfells og verða námskeiðin skólunum og börnunum að kostnaðarlausu. – Styrkþegi: Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands. – Tengiliður: Tinna Guðmundsdóttir.

7. Málfærni eldri leikskólabarna. – Málþroskapróf.

„Málfærni eldri leikskólabarna (MELB)“ er málþroskapróf, sem ætlað er fyrir fjögurra ára til sex ára börn. Búið er að ganga frá til útgáfu málþroskaprófi sem kannar málfærni ungra barna (MUB), tveggja til fjögurra ára. Samkvæmt niðustöðum rannsókna er sterk fylgni á milli málþroskamælinga við 5 ára aldur og niðurstaðna á samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði í 4., 7. og 10. bekk. Þetta þýðir að snemmtæk íhlutun og aðstoð við börn í áhættu getur skipt sköpum fyrir börnin og aðstandendur þeirra. Málþroskapróf gagnast vel til að finna börn sem eiga í erfiðleikum og greina vandann. Styrkurinn er ætlaður til vinnslu á myndefni fyrir málþroskaprófið „Málfærni eldri leikskólabarna (MELB)“. – Styrkþegar: Dr. Þóra Másdóttir, Dr. Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir.

8. Froskaleikur Hoppa. – smáforrit fyrir spjaldtölvur.

Um er að ræða smáforrit fyrir spjaldtölvur sem ætlað er börnum frá 4 ára til 9 ára. Smáforritinu er ætlað að undirbúa þroskaþætti er tengjast rökhugsun, málskilningi og grunnhugtökum. Börn með seinkun í þroska geta nýtt efnið langt fram eftir aldri og gætt verður að því að myndir henti breiðum aldurshópi og hafi ekki of menningarlega skírskotun. Markmið umsækjanda er að þróa og gefa út íslenskt smáforrit í spjaldtölvu sem þjálfar grunnhugtök sem mikilvæg eru í málþroska og stærðfræði. Að þróa og gefa út íslenskt smáforrit er mikilvægt framlag til viðhalds íslenskunni sem málminnihlutasamfélags í ört vaxandi tækniheimi. – Styrkþegi: Bryndís Guðmundsdóttir.

9. Orðagull. – Smáforrit.

Smáforritið kemur til með að byggja að mestu á verkefnum sem eru í málörvunarefninu Orðagull, málörvunarefni sem styrkir vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, orðaforða og endursögn. Málörvunarefnið var gefið út 2010 og hefur notið mikillar hylli meðal foreldra, leik- og grunnskólakennara. Í smáforritinu er gert ráð fyrir að hægt sé að halda utan um skráningu og mat á árangri nemenda. – Styrkþegi: Bjartey Sigurðardóttir.

10. SOL – Syngjum Og Leikum.

Verkefnið felst í að þýða, staðfæra og gefa út SOL (Sprog Og Lege) bókina úr dönsku. Bókin inniheldur 127 leiki sem ætlaðir eru til að þjálfa málþroska barna. Bókin er ætluð leikskólakennurum og foreldrum. Markmiðið með útgáfu bókarinnar era að auðvelda leikskólakennurum að byggja upp á skipulagðan hátt málörvun í leikskólum. – Styrkþegi: SOL hópurinn. – Tengiliðir: Hrafnhildur Karlsdóttir og Hólmfríður Árnadóttir.

11. Æskusirkus Íslands.

Árið 2009 stofnaði Sirkus Íslands Æskusirkusinn sem starfar allan ársins hring. Sirkuslistir þjálfa óteljandi hæfileika barna og flétta m.a. saman líkamsstyrk, sjálfsöryggi, leikgleði, framkomu, einbeitingu og samhæfni. Haldin eru námskeið fyrir börn á aldrinum 8 til 15 ára þar sem þau kynnast sirkuslistum og í lok námskeiða eru haldnar sýningar. Styrknum er ætlað að gera Sirkusi Íslands kleift að halda úti Æskusirkusnum.– Styrkþegi: Sirkus Íslands. – Tengiliður: Ragnheiður Maísól Sturludóttir.