Styrkveitingar Sumargjafar til málefna barna þann 24. apríl 2016

styrkhafar 2016 minnkuð

Í upphafi árs 2016 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 37 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Eftirtalin verkefni hljóta styrkina (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Snillinganámskeið fyrir eldri börn með ADHD.

Á Þroska- og hegðunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fer fram sérhæfð greining og meðferð á ADHD. Frá árinu 2008 hefur miðstöðin boðið upp á sérhæft meðferðarnámskeið fyrir 8 – 10 ára börn með ADHD þar sem áherslan er á að kenna börnunum félagsfærni, bætta stjórn á tilfinningum og reiðiköstum, bætta hvatvísisstjórn og minnisþjálfun með tölvuverkefninu Snillingarnir. Erlendar rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af námskeiðinu. Vantað hefur námskeið fyrir 10 – 12 ára börn. Ætlunin er að uppfæra námskeiðið þannig að það geti einnig nýst eldri börnum. Styrkurinn er ætlaður til þess að útbúa námskeiðið og viðeigandi gögn fyrir eldri börn einnig og prufukeyra það fyrir fyrsta hópinn haustið 2016. – Styrkþegi: Þroska- og hegðunarmiðstöð (ÞHS) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins. – Tengiliður: Dagmar Kristín Hannesdóttir.

2. Íslensk tónlistarsaga fyrir börn 7 – 14 ára.

Íslensk tónlistarsaga fyrir börn hefur ekki komið út. Gefin verður út myndskreytt bók og texti miðaður við hæfi 7 – 14 ára barna og mun fylgja bókinni diskur með tóndæmum. Fjallað verður um íslenska tónlistarsögu frá upphafi og sem næst fram til nútímans. Tæpt verður á tónlistarlífinu öllu, hljóðfærum, tónlistarmönnum og tónskáldum þegar þau koma fram, fyrir og um aldamótin 1900. Framsetningin verður í stíl ævintýris þar sem íslenskt tónskáld leiðir fram söguna. Halla Sólveig Þorgeirsdóttir myndlistarmaður mun skreyta bókina og Tónlistarsafn Íslands veitir sérfræðiaðstoð.

– Höfundur og styrkþegi: Jón Hrólfur Sigurjónsson.

3. Að bera kennsl á einhverfu í ung- og smábarnavernd.

Algengi einhverfu hefur aukist umtalsvert hér á landi sem og annars staðar síðustu áratugina. Einkenni einhverfu koma í flestum tilfellum fram á fyrstu tveimur aldursárunum og áhyggjur foreldra vakna snemma. Engu að síður fær 50% barna með einhverfu hér á landi ekki greiningu fyrr en á grunnskólaaldri og þau missa þar af leiðandi af sérhæfðri snemmtækri íhlutun og viðeigandi þjónustu á þeim aldri þegar rannsóknir sýna að mests árangurs er að vænta. Markmið verkefnisins er að stuðla að því að fleiri börn með einhverfu finnist fyrr í ung- og smábarnavernd hér á landi en nú er raunin. Það verður gert með því að –

1. Efla þekkingu á einkennum einhverfu hjá ungum börnum í heilsugæslunni.

2. Skima fyrir einkennum einhverfu hjá öllum börnum sem koma til reglubundins eftirlits með þroska í ung- og smábarnavernd við 30 mánaða aldur.

3. Þróa verkferla við skimun og tilvísun í frekari athugun og snemmtæka íhlutun gefi niðurstöður tilefni til þess.

Um er að ræða formlegt rannsóknarverkefni til að meta árangur ofangreindra aðgerða eða svokallaða framvirka samanburðarrannsókn. Niðurstöður rannasóknarinnar ættu að nýtast við upplýsta ákvörðunartöku um hvort skimun fyrir einhverfu hjá öllum börnum í tengslum við ung- og smábarnavernd eigi rétt á sér á Íslandi. Rannsóknin er samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. – Tengiliður: Sigríður Lóa Jónsdóttir.

4. Rannsókn á stöðu barna sem misst hafa foreldri úr krabbameini.

Rannsóknin er þríþætt og er fyrsta hluta hennar lokið. Í fyrsta hluta voru tekin hópviðtöl við hópa fagfólks úr ólíkum faggreinum og voru niðurstöður rýnihópviðtalanna gefin út í greinargerð í Ritröð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd. Í öðrum hluta rannsóknarinnar sem nú er að hefjast verða tekin einstaklingsviðtöl við eftirlifandi maka og foreldra látna foreldrisins (afa og ömmu barnsins). Í þriðja hluta rannsóknarinnar verður síðan rætt við ungmenni sem misst hafa móður úr krabbameini. Mikil þörf er á að gera rannsókn á þessu efni en engin slík rannsókn hefur verið gerð á Íslandi. Niðurstöður verða gefnar út í skýrslu og munu þær veita innsýn inn í málefnið og er einnig koma að gagni við endurskoðun á löggjöf varðandi aðstæður og aðbúnað barna. Rannsóknarhópurinn samanstendur af nokkrum sérfræðingum á LSH, Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og dr. Sigrúnu Júlíusdóttur prófessors við HÍ sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

– Styrkþegi: Rannsóknarhópur um stöðu barna sem misst hafa foreldri úr krabbameini. – Tengiliður: Gunnjóna Una Guðmundsdóttir.

5. Síðasta lestrarátak Ævars vísindamanns.

Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem kom út síðasta vor og bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og í ljós kom að börnin höfðu lesið yfir 60 þúsund bækur. Þar sem svo vel tókst til hyggst Ævar endurtaka leikinn skólaárið 2016 – 2017 en nú verða verðlaunin þau að fimm börn geta orðið persónur í stórhættulegri vélmennabók í stað risaeðlubókarinnar. – Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson.

6. Litla SOL – Spjallað og leikið með yngstu börnunum 0-3ja ára.

Verkefnið byggir á að þýða og staðfæra bókina Lille SOL – Sprog og leg for de yngste úr dönsku sem inniheldur m.a. leiki sem ætlaðir eru til að þjálfa málþroska barna. Með útgáfu bókarinnar fá leikskólakennarar tæki í hendur til að skipuleggja málörvun yngstu barnanna í leikskólanum með kennslufræði leiksins að leiðarljósi og stuðla þannig að farsælli máltöku og eðlilegri færni barna í íslensku. Bókin er einnig ætluð foreldrum. – Styrkþegi: SOL hópurinn. – Tengiliðir: Margrét Tryggvadóttir og Hrafnhildur Karlsdóttir.

7. Útgáfa á Pétri og úlfinum eftir Prokofiev í jazzútgáfu fyrir börn.

Verkefnið felst í útgáfu á Pétri og úlfinum eftir Prokofiev en í jazzútgáfu fyrir börn. Að útgáfunni stendur Stórsveit Reykjavíkur með Pamelu De Sensi og Sigurð Flosason

saxofónleikara í forsvari í samstarfi við Stefán Karl Stefánsson leikara. Oliver Nelson jazztónlistarmaður bjó til þessa útgáfu af Pétri og úlfinum sem er án sögumanns en þessi nýja framsetning verður með leikara í hlutverki sögumanns og er það líklega fyrsta útgáfan í þeirri mynd og það á íslensku. Útgáfan er ætluð 5 – 15 ára börnum og gæti nýst í tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum þar sem leitast er við að kynna börnum mismunandi tónlistarstefnur. Útgáfan verður í formi myndskreyttrar bókar og geisladisks. Myndlistarmaður er Sigrún Eldjárn. Útgáfutónleikar verða á Listahátíð 2017 í Hörpu. – Styrkþegi: Stórsveit Reykjavíkur. – Tengiliður: Pamela De Sensi.

8. Þróun á námsefni í Díalektískri atferlismeðferð fyrir unglinga með sjálfskaðandi hegðun.

Verkefnið felst í gerð námsefnis í hópmeðferðarforminu Díalektísk atferlismeðferð (DAM) fyrir unglinga og foreldra þar sem stuðst er við bókina DBT® Skills Manual for Adolescents eftir Jill H. Rathus o.fl. Umsækjendur starfa báðir sem meðferðaraðiliar í bráðateymi BUGL þar sem þær hafa séð aukningu á komum unglinga með sjálfskaða, viðvarandi sjálfvígshugsanir og endurteknar sjálfsvígtilraunir. DAM meðferðarformið var innleitt til að svara meðferðarþörf þessa hóps og hefur nýst mjög vel. Í ljós hefur komið þörf fyrir stytta útgáfu á DAM meðferðinni á íslensku og eru umsækjendur að hefja þróunarvinnu við það verkefni sem nota mætti utan BUGL, t.d. á heilsugæslustöðvum og þjónustumiðstöðvum. – Styrkþegar: Edda Arndal og Lára Pálsdóttir.

9. Málhljóðamælir – íslenskt smáforrit sem skimar framburð og hljóðkerfisþætti.

Verkefnið felst í að þróa skimunarpróf ,,Málhljóðamæli” í smáforrit fyrir spjaldtölvur sem verði notað í öllum skólum á Íslandi til að skima framburð og hljóðkerfisþætti barna. Málhljóðamælirinn verður skimunartæki sem metur hvaða börnum þarf sérstaklega að gefa gaum vegna framburðar og gefur strax niðurstöður um getu einstaklings og leggur fram tillögur um næstu skref. Einnig má nota mælinn til að fylgjast með framförum og breytingum hjá börnum. Prófið er sérstaklega ætlað leik- og grunnskólakennurum, talmeinafræðingum, sérkennurum, foreldrum og öðrum áhugasömum. Ekki er til neitt sambærilegt íslenskt próf sem skimar þessa þætti. Til er próf sem skimar málþroska íslenskra barna en ekkert skimunarpróf er til í íslenskum framburði fyrir þá sem starfa með börnum. – Styrkþegi: Bryndís Guðmundsdóttir.

10. Koma norska hópsins Landing á UNGA – Alþjóðlega sviðslistarhátíð fyrir unga áhorfendur.

ASSITEJ eru alþjóðleg samtök um leikhús fyrir unga áhorfendur en Íslandsdeild samtakanna hefur verið starfrækt allt frá árinu 1990. Yfirlýst markmið Íslandsdeildarinnar er að standa vörð um leikhús fyrir börn og ungt fólk með því m.a. að efla samskipti listafólks sem starfar á þessum vettvangi á Íslandi og hvetja það til alþjóðlegs samstarfs. Kjarni starfseminngar hérlendis frá árinu 2013 hefur verið árleg alþjóðleg sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur í Reykjavík. Hátíðin er sjálfstæð en haldin samhliða og í góðu samstarfi við Barnamenningarhátið í Reykjavík. Tjarnarbíó hefur verið miðstöð hátíðarinnar frá upphafi og frítt er inn á allar sýningar og viðburði hátíðarinnar. Fyrir hátíðina í ár var boðið tveimur erlendum hópum. Annar hópurinn er norski hópurinn Landing með sýninguna Safarium sem er danssýning sérstaklega samin fyrir börn og ungmenni með sérþarfir og verður hún sýnd í samstarfi við Klettaskóla. Vegna sérþarfa nemenda í Klettaskóla geta aðeins 15 áhorfendur verið á

hverri sýningu og því verða sýningar að vera 6 í stað 3ja sem er sá fjöldi sem UNGI getur fjármagnað. Styrk Sumargjafar er ætlað að fjármagna þessar þrjár umframsýningar. – Styrkþegi: ASSITJE á Íslandi. – Tengiliður: Vigdís Jakobsdóttir.

11. Vera og vatnið.

Vera og vatnið er leikskólasýning fyrir 2ja – 5 ára börn. Sviðslistahópurinn Bíbí og blaka sérhæfir sig í danssýningum fyrir leikskólabörn. Nefna má sýningarnar Skýjaborg og Fetta Bretta sem báðar voru frumsýndar í Þjóðleikhúsinu og hafa farið víða og eru enn á sýningarferðalögum hérlendis og erlendis. Næsta verk er Vera og vatnið sem er danssýning fyrir börn á aldrinum 2ja – 5 ára. Verkið fjallar um veruna Veru og tilraunir hennar og upplifanir í veðri og vindum. Vera leikur sér einnig með hljóð og sérstaklega röddina, blástur og andardráttinn. Sýningin er 20 – 30 mínútur að lengd en við sýningartímann bætist leikstund þar sem börnin fá að skoða leiknyndina og hitta veruna Veru. Að sýningunni standa Tinna Grétarsdóttir danshöfundur og Sólrún Sumarliðadóttir tónskáld. – Styrkþegi: Bíbí & blaka. – Tengiliður: Tinna Grétarsdóttir.

12. Kelerí, kynfæri, kynlíf – handbók um hjartans mál fyrir ungt fólk.

Verkefnið er handbók fyrir ungt fólk um eigin líkama, samskipti, samþykki, kynhneigð, kynvitund og kynhegðun. Handbókin er byggð á faglegri þekkingu höfundarins, Sigríðar Daggar Arnardóttur, sem kynfræðings en einnig af reynslu hennar af sex árum í kynfræðslu unglinga um allt land. Að sögn Sigríðar, miðast bókin við að svara ungu fólki á hreinskilinn hátt um kynlíf, ástarsambönd, eigin líkama og þennan umbrotstíma sem fylgir því að uppgötva sjálfan sig og aðra. Krista Hall sem er grafískur hönnuður myndskreytir bókina og Sunna Dís Másdóttir ritstýrir og prófarkales bókina. Miðað er við að bókin komi út haustið 2016. – Styrkþegi: Sigríður Dögg Arnardóttir.

13. Rokksmiðjur fyrir 10 til 16 ára stelpur og transkrakka.

Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðasamtök sem starfa eftir femínískri hugsjón að því markmiði að bjóða upp á valdeflandi tómstundarstarf fyrir ungar stelpur og transkrakka á Íslandi. Í þau 4 ár sem rokkbúðirnar hafa starfað hafa færri komist að en vilja í rokkbúðirnar þar sem stelpur spila á hljóðfæri, spila í hljómsveit og semja lög saman. Nú er verið að bjóða upp á fjölbreyttara úrval námskeiða en verið hefur, sérstaklega með það í huga að bjóða stúlkunum upp á að kynnast hliðum tónlistarstarfs sem eru taldar mjög karllægar. Fyrirhugað er að halda 8 dags- og helgarlangar rokksmiðjur haustið 2016 fyrir allt af 120 stelpur og transkrakka á aldrinum 10 – 12 ára annars vegar og 13 – 16 ára hins vegar. Styrkur Sumargjafar mun nýtast til að bjóða upp á allt að 40 frí pláss í rokksmiðjurnar en lykilhluti af starfsemi Stelpur rokka! er að vísa engri stúlku frá sökum fjárskorts. – Styrkþegi: Stelpur rokka! – Tengiliður: Áslaug Einarsdóttir.

 

Um Barnavinafélagið Sumargjöf.

Félagið var stofnað á sumardaginn fyrsta vorið 1924 og er því liðlega 90 ára. Lengst af annaðist Sumargjöf rekstur dagheimila og leikskóla Reykjavíkurborgar, auk eigin heimila, eða allt fram til ársins 1978, þegar Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn. Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili ýmissa málefna sem varða heill barna. Eru styrkveitingarnar nú liður í því starfi en einnig má nefna að Sumargjöf styrkir ýmis önnur verkefni. Félagið er t.d. aðili að Verðlaunasjóði íslenskra barnabóka og styrkir sjóðinn með föstu framlagi