Afhending styrkja 2017

 


Sumargjöf hefur undanfarin ár verið styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Í upphafi árs 2017 voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 35 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.360.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 7. maí 2017. Eftirtalin verkefni hlutu styrki (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Natur – Kultur – Retur

Samstarfsverkefni 42 nemenda í 6. bekk Síðuskóla á Akureyri og 50 jafnaldra þeirra í grunnskóla í Danmörku. Samstarfið snýst um að kynnast náttúru og menningu þjóðanna sem tengjast tungumálunum og náttúrunni og gagnkvæmum heimsóknum hópanna. Verkefnið er stórt og er nýlunda að hefja samstarf milli landa með svo unga nemendur.

Tengiliðir: Jóhanna Ásmundsdóttir og Jónína Sveinbjörnsdóttir umsjónarkennarar 6. bekkjar í Síðuskóla, Akureyri.

2. Gæðaþjónusta fyrir barnafjölskyldur – rannsóknarverkefni á krabameinsdeild LSH

Síðastliðin þrjú ár hefur þverfaglegur hópur sérfræðinga hjá Landspítala (LSH), Krabbameinsfélagi Íslands og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd unnið að rannsókn á stöðu barna sem misst hafa foreldri úr krabbameini. Lokið er þremur hlutum rannsóknarinnar og styrkti Sumargjöf þriðja hluta rannsóknarinnar á síðasta ári. Niðurstöður leiddu til að ákveðið var að efna til 6 mánaðar þróunar- og tilraunaverkefnis sem fjórða og lokahluta rannsóknarinnar  og er hér veittur styrkur til þess hluta. Sá hluti er tilrauna- eða þróunarverkefni sem felur í sér veitta gæðaþjónustu í 6 mánuði. – Rannsóknarhópurinn samanstendur af sérfræðingum á LSH, Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og dr. Sigrúnu Júlíusdóttur prófessors við HÍ sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

Styrkþegi: Rannsóknarhópur um stöðu barns við andlát foreldris.

Tengiliður: Gunnjóna Una Guðmundsdóttir.

3. Bjöllukór Tónstofu Valgerðar

Tónstofa Valgerðar er viðurkenndur tónlistarskóli þar sem fram fer tónlistarsérkennsla. Nemendur eru einstaklingar á öllum aldri sem vegna sérþarfa, skertrar færni eða sjúkdóma þarfnast sértækra kennsluaðferða og breyttrar námsframvindu. Bjöllukór Tónstofunnar sem heldur upp á tvítugsafmæli sitt á skólaárinu hefur verið í framvarðarsveit skólans. Í tilefni af afmæli Bjöllukórsins og þrítugsafmæli Tónstofunnar er veittur styrkur til kaupa á nýjum bjöllum handa kórnum en þess má geta að Sumargjöf styrkti einmitt kórinn til kaupa á bjöllum við stofnun hans árið 1996.

Styrkþegi: Tónstofa Valgerðar.

Tengiliður: Valgerður Jónsdóttir.

4. Ævintýrið um norðurljósin – nýtt íslenskt tónlistar- og dansverk

Ævintýrið um Norðurljósin er sýning fyrir börn í bland við tónlist, dans og leik. Hún fjallar um ást Tröllastelpu og Álfadrengs, sjávarguðinn Njörð og eiginkonuna Skaði, Álfadrottningu og íbúa heimanna sjö. Sýningin er samstarfsverkefni margra listamanna; þeir eru: Alexandra Chernishovu tónskáld, Evgenia Chernyshova textahöfundur, Árni Bergmann þýðandi, Anna G. Torfadóttir grafískur listamaður, Guðrún Ásmundsdóttir sögumaður og leikstjóri og Jón Hilmarsson ljósmyndari. Markmið verkefnisins er að kynna nýja tónsköpun, styðja nýtt íslenskt tónlistar- og dansverk og sögu fyrir börn og nálgast börnin í gegnum fjölbreytt listform.

Styrkþegi og tengiliður: Alexandra Chernyshova.

5. Maxímús Músíkús fer á fjöll – íslensk útgáfa, bók og geisladiskur

Fjármögnun á gerð bókar og geisladisks á flutningi framhaldssögu um músikölsku músina, Maxímús Músikús. Sögurnar um Maxa eru skemmtisögur, sem jafnframt eru óbein fræðsla og veita börnum innsýn í heim tónlistarinnar. Sögurnar um Maxa hafa fengið mjög góðar viðtökur, jafnt hjá börnum sem fullorðnum, innanlands og utan. Nýja sagan heitir Maximús Músikús fer á fjöll og er verkefnið unnið í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmoníuhljómsveit Los Angeles, Forlagið og FÍH.

Verkefnisstjóri: Hallfríður Ólafsdóttir.

6. Fimm vinir í blíðu og stríðu – vetrarævintýri og sumarævintýri

Um er að ræða þróun lestrarkennsluefnis fyrir börn sem ekki eru orðin fulllæs en hafa náð tökum á lestrartækninni. Efninu er ætlað að bæta grunnfærni barna í stafsetningu, mál- og setningarfræði miðað við börn í 2. – 4. bekk. Bækurnar er tvær; þær eru myndskreyttar auk fylgiefnis fyrir skjá og verkefni á vef.

Styrkþegi: Rannveig Lund.

7. Kjarvalsbók fyrir 7 – 11 ára börn

Um er að ræða bók um Jóhannes S. Kjarval listmála, líf hans og list, fyrir börn, u.þ.b. 7 – 11 ára. Höfundurinn, Margrét Tryggvadóttir, hefur áður gefið út barnabók um myndlist, bókina Skoðum myndlist í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur sem kom út árið 2006. Sumargjöf styrkti verkið á sínum tíma en sú bók er eina íslenska barnabókin sem hefur komið út um íslenska myndlist og er hún nú uppseld. Að þessu sinni er viðfangsefnið ævi og störf Kjarvals sem henta vel sem viðfangsefni barnabókar. Þá eru verk hans mörg aðgengileg og hafa yfir sér ævintýrablæ og tengjast þjóðsögum. Styrkurin er ætlaður til greiðslu kostnaðar við myndbirtingar.

Höfundur og tengiliður: Margrét Tryggvadóttir.

8. Lítil hönd í lófa – bók um ættleiðingu barna

Lítil hönd í lófa er bók um ættleidd börn ætluð foreldrum ættleiddra barna. Bókin er byggð á rannsókn höfundar, Jórunnar Elídóttur, sem leiddi í ljós að ættleidd börn glíma við einhvern vanda í lengri eða skemmri tíma eftir ættleiðinguna sem rekja má til frumbernsku barnsins í upprunalandinu. Sumargjöf styrkti það verkefni á sínum tíma. Frá árinu 1978 hafa um 600 börn verið ættleidd til landsins fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar og hin síðari ár hefur fjöldi ættleiddra barna með svokallaðar sérþarfir aukist. Að sögn höfundar er lítið til af fræðsluefni á íslensku sem nýst gæti foreldrum og kennurum og mikil þörf fyrir þetta efni bæði fyrir foreldra og skóla.

Höfundur og tengiliður: Jórunn Elídóttir.

9. Sumarnámskeið í handverki fyrir börn

Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur árum saman haldið handverksnámskeið fyrir börn á aldrinum 7 – 14 ára á sumrin og árlega sækja 18 – 25 börn námskeiðin. Námskeiðin hafa notið mikilla vinsælda. Börnin læra að tálga, vefa, mála, gera sultu, jurtalita og margt fleira. Kennarar eru handverks- og listafólk sem vant er að vinna með börnum. Við efnisval er lögð áhersla á náttúruleg efni og endurvinnslu. Heimilisiðnaðarskólinn á talsvert af búnaði fyrir fullorðna en minna af búnaði fyrir börn. Áhöld til tóvinnu, þ.e. kambar, snældur og rokkar fyrir börn eru af skornum skammti og er styrk Sumargjafar ætlað að bæta úr því.

Styrkþegi: Heimilisiðnaðarfélag

Tengiliður: Margrét Valdimarsdóttir, formaður.

10. Fjórða lestrarátak Ævars vísindamanns í 1. – 7. bekk

Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars  sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og í ljós kom að börnin höfðu lesið yfir 60 þúsund bækur. Þar sem svo vel tókst til endurtók Ævar leikinn og hyggst nú endurtaka leikinn í fjórða sinn næsta ár en að þessu sinni verða verðlaunin fyrir börnin þátttaka í geimverubók.

Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson.

11. Steingrímur Arason – uppeldisfræðilegar hugmyndir hans í ljósi samtíma og nútíma

Steingrímur Arason (1879 – 1951) barnakennari og rithöfundur var fyrsti formaður Sumargjafar. Hann menntaði sig hérlendis og erlendis, í Columbia háskólanum í NY og við Kaliforníuháskála og lauk prófum á báðum skólum, m.a. á sviði uppeldis- og leikskólafræða. Hann flutti heim nýja þekkingu á sviði skólastarfs og gerðist mikilvirkur á því sviði, skrifaði, var í ritnefndum, kenndi við Kennaraskólann og varð fyrsti formaður Sumargjafar. Hann er talinn vera einn hvatamanna þess að Grænaborg var byggð. Verkefninu er m.a. ætlað að gera grein fyrir uppeldisfræðilegum hugmyndum Steingríms, innihaldsgreina ræður hans og rit og gera aðgengilegt.

Styrkþegi: Kristín Dýrfjörð.