Starfsemi Sumargjafar veturinn 2021 – 2022

Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 8. júní 2022. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2021 til aðalfundar 2022. Helstu atriðin fara hér á eftir.

Nokkur röskun var á starfsemi félagsins á liðnu ári vegna Covid-19 faraldursins, en nú er þjóðlífið aftur að færast í eðlilegt horf.

Aðalfundur og breytingar á stjórn:

Aðalfundur Sumargjafar var haldinn í Hannesarholti þriðjudaginn 15. júní 2021, kl. 17. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningar afgreiddir til áritunar og kosið í stjórn. Steinunn Jónsdóttir sem setið hafði í varastjórn frá 2010 og í aðalstjórn frá 2015, gaf ekki kost á sér og var henni þakkað ánægjulegt samstarf. Særún Sigurjónsdóttir kom ný inn í varastjórn og Sölvi Sveinsson kom úr varastjórn í aðalstjórn. Á fyrsta fundi stjórnar strax að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:

Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir

Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir

Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson

Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Sölvi Sveinsson

Varamenn: Bergseteinn Þór Jónsson, Kristinn H. Þorsteinsson og Særún Sigurjónsdóttir

Verðlaunasjóður barnabóka

Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988).

Íslensku barnabókaverðlaunin 2021 voru afhent 12. október, og vegna fjöldatakmarkana var athöfnin í bókabúð Forlagsins úti á Granda. Að þessu sinni hlaut Ólafur Gunnar Guðlaugsson verðlaunin fyrir bókina Ljósbera, sem er fyrsta skáldsaga hans fyrir eldri börn. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Ljósberi sé kraftmikil og spennandi fantasía fyrir unglinga. Börn úr Vogaskóla aðstoðuðu dómnefnd við valið en alls bárust 19 handrit. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð 750.000 kr., en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Þetta var í 33. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.

Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun, og bárust 10 handrit að barna- og unglinga­bókum. Ekkert handritanna taldist verðlaunahæft að mati dómnefndar og falla verðlaunin því niður í ár. Framlag Sumargjafar átti að vera 750.000. Það hækkar í 1.000.000 kr. árið 2023. Sölvi Sveinsson hefur verið fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd frá ársbyrjun 2021.

Styrkir

Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Auglýstir voru styrkir til rannsókna, lista- og þróunarverkefna í þágu barna, einkum barna á leikskólaaldri. Alls bárust 32 umsóknir en tvær komu of seint. Ákveðið var að veita átta styrki, samtals kr. 6.130.000. Styrkirnir voru afhentir í byrjun maí 2022. Hægt er að kynna sér yfirlit styrkja hér.

Styrkur til UNICEF

Vegna stríðsátaka í Úkraínu efndi UNICEF á Íslandi til söfnunar til að bæta aðstæður barna þar. Stjórn Sumargjafar ákvað að gefa eina milljón króna í söfnunina.

Saga barna í Reykjavík

Í tilefni af því að Sumargjöf verður 100 ára vorið 2024, hefur stjórnin ákveðið að minnast afmælisins með því að láta rita sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár. Í bókinni verður lýst því umhverfi sem börnin uxu upp í og leiddi m.a. til stofnunar Sumargjafar. Bókin verður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur var ráðinn til verksins. Hann skilaði handriti í árslok 2021 og er það nú í yfirlestri hjá ritnefnd og stjórn, auk þess sem verið er að safna myndefni. Undirbúningur útgáfu verður á næsta ári, 2023. Í ritnefnd eru Hildur Biering, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson.

Myndir af leikskólum

Matthildur Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Freys Þórarinssonar fyrrverandi formanns Sumargjafar, afhenti félaginu litskyggnur sem hann tók af leikskólum um 1977.

Steinahlíð

Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, en áformað er að hún verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst og helst ekkert. Var því komið á framfæri við borgina, Verkefnastofu borgarlínu og Skipulagsstofnun. Borgin viðraði þá hugmynd að hugsanleg skerðing verði bætt með skiptum á öðru landi á svæðinu. Stjórn félagsins féllst á að skoða það ef uppbótarspildan henti fyrir starfsemi Steinahlíðar, þ.e. rekstur leikskóla og sem grænt svæði, og að borgin beri allan kostnað af standsetningu lóðarinnar. – Þann 26. apríl 2022 var haldinn fundur hjá borginni, þar sem fram kom að skerðing lóðar verður að hámarki 5.000 fm í suðausturhorni, sem bætt verður upp með jafnstórri spildu að norðaustan. Borgin lagði fram drög að samkomulagi um skipti á landi. Í þriðju grein þess er viljayfirlýsing um samstarf um að þróa svæðið áfram og fjölga leikskólaplássum. Sumargjöf er með nokkrar tillögur um breytingar á samkomulaginu. Borgin hefur boðað til fundar um málið 14. júní. Lögfræðistofan Réttur hefur verið Sumargjöf til ráðuneytis varðandi Steinahlíð og borgarlínu.

Endurgerð leiksvæðis og lóðar í Steinahlíð hefur verið í biðstöðu vegna óvissu um Borgarlínu.

Úthlíð

Undirbúnings- og kaffiaðstaða starfsfólks var flutt í Úthlíð sumarið 2021 og er ánægja með aðstöðuna. Kostnaður við að standsetja húsnæðið var greiddur af Reykjavíkurborg. Skrifstofa Bergsteins Þórs Jónssonar leikskólastjóra var um haustið flutt í kjallarann í gömlu Steinahlíð. Engin starfsemi er á efstu hæð í gömlu Steinahlíð, en hinar tvær eru í fullri notkun.

Gróðurhús og matjurtagarður

Í tilefni af 70 ára afmæli Steinahlíðar 2019 var leikskólanum gefið lítið gróðurhús. Það var sett upp vorið 2021 og er nú komið í fulla notkun. Matjurtagarðurinn er talsvert nýttur af foreldrum og öðrum.

Nýting á lóð

Um tíma nutu börn úr Fossvogsskóla kennslu í húsnæði Hjálpræðishersins. Lóðin í Steinahlíð var þá nýtt sem leiksvæði og til leikfimikennslu, með leyfi Bergsteins leikskólastjóra.

Grænaborg 90 ára

Haldið var upp á afmælið 25. júní, kl. 15-17, og var fjölmenni þar, börn, foreldrar og gestir, og borgarstjórinn í Reykjavík leit inn í lokin. Nokkur úr okkar hópi mættu. Kristín H Ólafsdóttir formaður Sumargjafar ávarpaði gesti og afhenti gjafir frá félaginu, til leikskólans og til starfsmanna. Keypt var upplýsingatækniefni fyrir gjöfina. Grænaborg er elsti leikskóli á landinu.

Sumargjöf barst gjöf frá útskriftarárgangi Fóstruskóla Sumargjafar 1972

Sumargjöf á ensku

Styrkþegi spurði um enskt heiti félagsins. Kristín leitaði til Kenevu Kunz sem er löggiltur þýðandi og var niðurstaða að velja: SUMARGJOF, Friends of Children Society.

Heimasíða Sumargjafar

Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur séð um vefsíðuna sumargjof.is og uppfært hana eftir þörfum. Einnig stofnaði hún Fésbókarsíðu, sem nýtist til að kynna styrki o.fl.

Annað

Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra.

Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.

Sigurjón Páll Ísaksson, ritari Sumargjafar tók saman.