Starfsemi Sumargjafar veturinn 2016 – 2017

Verðlaunasjóður barnabóka: Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, rithöfundar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Seljaskóla 13. október 2016. Að þessu sinni fékk Inga Mekkín Beck verðlaunin fyrir skáldsöguna: Skóladraugurinn, sem er fyrsta bók hennar og jafnframt lokaverkefni til meistaraprófs í ritlist frá Háskóla Íslands. Að mati dómnefndar er þetta spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hefur ástvin. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 26 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 28. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 31; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. 

Styrkir: Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 35 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.360.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 7. maí 2017, kl. 14.

70 ára afmæli leikskólakennaramenntunar: Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður 1946 og hafði það hlutverk að mennta leikskólakennara, sem þá kölluðust fóstrur. Þann 4. nóvember 2016 var haldin afmælishátíð í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð, í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá því að Uppeldisskólinn var stofnaður, en hann er nú á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sumargjöf tilnefndi Helgu Hallgrímsdóttur í undirbúningsnefnd og lagði fram 200.000 kr. styrk. Hátíðin var mjög vel heppnuð og voru þar 450 til 500 manns; á eftir var boðið upp á veitingar. Flutt voru nokkur erindi á sögulegum nótum, m.a. ræddi Jón Freyr Þórarinsson formaður félagsins um þátt Sumargjafar og Uppeldisskólann. – Í tilefni af afmælinu ákvað stjórnin að setja upp skilti í Steinahlíð til að minnast þess að þar var Uppeldisskólinn á árunum 1949–1952. Árið 1957 fékk skólinn nafnið Fóstruskóli Sumargjafar. Ríkið tók við rekstrinum 1973 undir nafninu Fósturskóli Íslands. Námið færðist á háskólastig 1998.

Stóra upplestrarkeppnin: Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Steinahlíð: Komið hefur verið upp matjurtagarði fyrir foreldra og starfsfólk, og voru á síðasta ári keypt verkfæri, verkfærakista, borð o.fl. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem hófst 2014 og er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Ragnar Jónasson hefur tekið saman greinargerð um upphaf Aldingarðsins, sem finna má á heimasíðu félagsins. Grænaborg: Nokkrar endurbætur voru gerðar innanhúss, en framkvæmdir á lóð bíða sumars.

Heimasíða Sumargjafar: Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna sumargjof.is

Bernskan: Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað: Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.