Aðalfundur Sumargjafar 2025 var haldinn í Grænuborg fimmtudaginn 12. júní 2025. Þar var flutt skýrsla um starfsemi félagsins frá aðalfundi 2024 til aðalfundar 2025. Helstu atriðin fara hér á eftir.
Aðalfundur 2024
Aðalfundurinn var í Grænuborg 6. júní 2024, kl. 19:0. Þar voru venjuleg aðalfundarstörf, ársreikningur samþykktur til áritunar og kosið í stjórn. Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem hafði verið í stjórn frá 2013, kom inn í varastjórn eftir eins árs hlé. Á fundi stjórnar að loknum aðalfundi var ákveðið að verkaskipting verði óbreytt:
Formaður: Kristín Hagalín Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Gerður Sif Hauksdóttir
Ritari: Sigurjón Páll Ísaksson
Meðstjórnendur: Helga Hallgrímsdóttir, Hildur Biering, Sölvi Sveinsson og Kristinn H. Þorsteinsson
Varamenn: Rósa Björg Brynjarsdóttir og Bergsteinn Þór Jónsson.
Verðlaunasjóður barnabóka: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Verðlaunin hafa verið veitt í 33 skipti, en alls eru verðlaunabækurnar orðnar 36.
Árið 2024 féllu verðlaunin niður vegna þess að verið var að ganga frá breytingum á sjóðnum. Ákveðið var að verðlaun sjóðsins fái þá sérstöðu að vera fyrir texta og myndverk og geta höfundar því verið tveir. Einnig var ákveðið að verðlaunin muni framvegis heita: Sólfaxi – Íslensku barnabókaverðlaunin. Gengið var frá nýrri reglugerð og ýmsum formsatriðum vorið 2024 og gert nýtt merki fyrir sjóðinn. Einnig samþykkti Sumargjöf að verðlaunin (framlag Sumargjafar) verði hækkuð í 1,5 Mkr. – Auglýst var eftir handritum 9. maí 2024 með skilafresti til 1. október. Alls bárust 34 handrit að myndríkum barnabókum. Þar af voru 24 fyrir yngri börn, en hin fyrir eldri börn og unglinga. Búið er að velja verðlaunabók og eru höfundarnir nú að klára teikningar og ganga frá bókinni, sem kemur út í haust. Auglýst var 20. maí 2025 eftir handritum að verðlaunabók 2026, skilafrestur er til 15. október. – Sölvi Sveinsson er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd og í stjórn sjóðsins.
Styrkir
Á undanförnum árum hafa styrkir til málefna sem varða heill barna verið mikilvægur þáttur í starfsemi Sumargjafar. Vegna mikils kostnaðar við afmælisrit og skipulagsmál í Steinahlíð, féllu styrkveitingar niður árin 2023 og 2024. Ákveðið var að taka aftur upp styrkveitingar á þessu ári og var auglýst eftir umsóknum með skilafresti til 2. mars 2025. Alls bárust 46 umsóknir. Ákveðið var að veita 15 styrki að þessu sinni, og er heildarupphæð þeirra 9.472.000 kr. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 4. maí.
Hægt er að stjá yfirlit styrkja með því að smella hér.
Styrkir til Grænuborgar og Steinahlíðar í tilefni af 100 ára afmæli félagsins
Samþykkt var að veita hvorum leikskóla veglegan styrk í tilefni afmælisins. Einnig fá starfsmannafélögin á leikskólunum styrk frá félaginu.
Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson
Bók sem fjallar um sögu barna í Reykjavík þessi 100 ár frá því að Barnavinafélagið Sumagjöf var stofnað, kom út í byrjun nóvember 2024. Bókin er glæsilegt verk og mikið myndskreytt, 640 bls. Útgáfuhóf var í verslun Forlagsins á Fiskislóð 6. nóvember og var það vel heppnað. Fanney Benjamínsdóttir kynningarstjóri Forlagsins setti samkomuna. Kristín H. Ólafsdóttir flutti ávarp, Guðjón Friðriksson kynnti bókina og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávarpaði gesti. Kristín afhenti honum svo tvö eintök af bókinni, annað fyrir hann sjálfan og hitt fyrir borgina.
Bókin var einnig kynnt í Kiljunni í sjónvarpi og Guðjón kynnti hana og las upp á um 40 stöðum. Bókin hlaut góðar undirtektir og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis. Í lok janúar fékk bókin svo Íslensku bókmenntaverðlaunin 2025 í flokki fræðirita. Hún hefur vakið mikla athygli og fólk er mjög ánægt með hana. Það var vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með þessum hætti.
Hægt er sjá umfjöllun um bókina Börn í Reykjavík með því að smella hér.
Steinahlíð
Stærsta málið sem tengist Steinahlíð er fyrirhuguð Borgarlína, sem áformað er að verði lögð um suðurjaðar lóðar Steinahlíðar. Stjórn Sumargjafar hefur lagt ríka áherslu á að Borgarlínan verði þannig útfærð að lóðin skerðist sem minnst. Samkvæmt nýlegri frétt á að gera Sæbrautarstokk á árunum 2027-30, en hann er forsendan fyrir Borgarlínu á þessum stað.
Lóð í Steinahlíð
Matjurtagarðurinn er nýttur af foreldrum og öðrum. Kristinn H. Þorsteinsson hefur haft umsjón með umhirðu lóðar, sem er í höndum verktaka.
Göngustígur í Steinahlíð
Foreldrar í Steinahlíð hafa óskað eftir göngustíg meðfram innkeyrslu til að minnka slysahættu. Málið er í athugun hjá borginni.
Gamla Steinahlíðarhúsið
Í húsinu er ein leikskóladeild (21 barn), en starfsemin í húsinu stendur e.t.v. tæpt, nema bætt verði úr aðgengi fyrir fatlaða. Mikilvægt er að starfsemi verði áfram í húsinu. Af þessu tilefni kom fram tillaga um að „rampa upp“ Steinahlíð til að húsið verði aðgengilegt fötluðum. Verkefninu Römpum upp Ísland er lokið, en einhver fyrirtæki veita ráðgjöf um útlit og hönnun rampa. Stefnt er að því að ljúka þessu á árinu.
Grænaborg
Kominn er tími á viðhald á loftræsikerfi og mögulega að útvíkka það inn í nýju álmuna. Kostnaður verður þónokkur ef til kemur og er málið í skoðun.
Heimasíðan sumargjof.is
Sumarið 2024 var hýsing vefsíðunnar færð yfir til Snerpu á Ísafirði, og fór vefsíðan í loftið um haustið. Rósa B. Brynjarsdóttir hefur séð um uppfærslu vefsíðunnar. Rósa hefur einnig séð um Facebook-síðu félagsins.
Fjármál Sumargjafar
Endurskoðun og ráðgjöf (Henry Örn Magnússon) hefur undanfarin ár verið endurskoðandi félagsins og sér einnig um rukkun leigu.
Firmaritun
Í sambandi við íbúðarkaup í árslok 2022 kom til skoðunar hver megi skrifa undir skuldbindingar í nafni félagsins (rita firma), það var ekki skýrt í lögum Sumargjafar. Lagabreyting þar um var gerð á aðalfundinum 2025.
Tímaritið Börn og menning
Það er gefið út af Ibby á Íslandi, sem eru frjáls félagasamtök um barnabókmenntir og barnamenningu. Sumargjöf styrkir tímaritið með 10 áskriftum.
Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg hefur leikskólana á leigu og annast rekstur þeirra. Einnig á félagið íbúð á Hallgerðargötu 1A, 3. hæð, þar sem aðsetur félagsins er.
Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.