Lubbi finnur málbein

Starfsmenn Grænuborgar voru á Lubbanámskeiði föstudaginn 17. mars. Allir voru glaðir og sáttir í lok námskeiðs sem þótti gagnlegt og fróðlegt.

Lubbi

Lubbi finnur málbein

Lubbi býður öllum börnum í ævintýraferð um Ísland í leit að 35 málbeinum sem hjálpa Lubbi_finnur_málbeinhonum að læra íslensku málhljóðin.

Sérstaða Lubbaefnisins liggur m.a. í eftirfarandi:

 • hnitmiðaðri rannsóknar- og þróunarvinnu höfunda til fjölda ára, m.a. doktorsverkefni Þóru um tileinkun íslenskra barna á ískenslu máhljóðunum sem sýnir fram á tileinkunarröð. Um er að ræða grundvallarrannsókn á þessu sviði innan talmeinafræðinnar.
 • notkun táknrænna hreyfinga fyrir hvert málhljóð sem gerir hljóðin nánast sýnileg og áþreyfanleg. Byggt er á þekkingu og áralangri reynslu Eyrúnar af notkun tjáskiptamátans Tákna með tali í vinnu með börn með fjölbreytileg frávik í máli og tali.
 • byggt er á Hljóðanámi í þrívídd, nálgun er höfundar hafa þróað og felur í sér samþættingu skynleiða: sjón-, heyrnar- og hreyfi-/snertiskyns sem auðveldar og hraðar tileinkun hljóðanna og vistun þeirra í minni.
 • málbeinum Lubba fyrir hvert málhljóð í litum Hljóðaregnbogans sem vekja áhuga barnanna og gera hljóðanámið að skemmtilegum leik.
 • áherslu á brúarsmíð á milli málhljóða og bókstafa með stuðningi táknrænu hreyfinganna. Lubbi er sannkallaður brúarsmiður.
 • sérstakri áherslu á hljóðavitund sem liggur til grundvallar umskráningu sem er forsenda lestrarfærni.
 • áhersla á hljóðtengingu með stuðningi málbeina og hringja með táknrænum hreyfingum, sbr. Vinnuborð Lubba sem hann notar til að læra að lesa.
 • tengingu við íslenska náttúru og staðhætti
  vísum fyrir hvert málhljóð eftir Þórarin Eldjárn

  Nánari umfjöllun um hin ýmsu atriði er að finna í ítarlegri handbók sem fylgir Hljóðasmiðju Lubba.

Texti og mynd af Lubba tekin af facebook síðunni Lubbi finnur málbein

Continue ReadingLubbi finnur málbein

Umsókn um styrk árið 2017

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna.

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.

 • Umsóknareyðublað um styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf (PDF)
  Vistið eyðublaðið á skjáborð tölvunnar og notið Adobe Reader til að opna skjalið og fylla út umsóknina. Hér er hægt að nálgast Adobe Reader.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 15. febrúar 2017.

Reykjavík, 16. janúar 2017
Barnavinafélagið Sumargjöf

Póstfang: Pósthólf 5423, 125 Reykjavík
Tölvupóstfang: [email protected]
Vefur: sumargjof.is

Continue ReadingUmsókn um styrk árið 2017

Leikskólakennaramenntun í 70 ár

Afmælismálþing

70-ara-afmaeli
Mynd tekin af facebook síðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Í tilefni þess að 70 ár eru síðan leikskólakennaranám hófst hér á landi var haldið afmælismálþing föstudaginn 4. nóvember 2016 í Skriðu, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háteigsveg. Menntavísindasvið HÍ, Barnavinafélagið Sumargjöf, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda í leikskólum og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar stóðu að málþinginu og var salurinn þéttsetinn.

 

70-ara-afmaeli-2
Mynd tekin af facebook síðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Litið var yfir farinn veg og stiklað á stóru í þróun menntunar leikskólakennara á Íslandi en á undanförnum áratugum hafa orðið miklar breytingar á námi leikskólakennara og starfsvettvangi.

 

 

 

Dagskrá málþingsins var eftirfarandi:

20161104_163242
Jón Freyr Þórarinsson, formaður Sumargjafar

Setning – Bryndís Garðarsdóttir, formaður námsbrautar í  leikskólakennarafræði

Söngatriði – sönghópur leikskólakennara ásamt Sigríði Pálmadóttur, tónmenntakennara

Uppeldisskóli Sumargjafar – Aðdragandi og upphaf
Jón Freyr Þórarinsson, formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar.

Fyrstu árin – áherslur og umgjörð námsins
Margrét G. Schram, leikskólakennari

„Þú ert hraust og opnar“
Hrafnhildur Sigurðardóttir, leikskólakennari

Frá Laugalæk í Stakkahlíð
Gunnur Árnadóttir, leikskólastjóri

Þróun menntunarinnar –  leikskólafræði sem fræðigrein
Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs20161104_161636

Samantekt og slit
Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara

Samsöngur undir stjórn Sigríðar Pálmadóttur

Málþingsstjóri: Hildur Skarphéðinsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri SFS

Að lokinni dagskrá í Skriðu var gestum boðið að þiggja veitingar og skoða sýningu í Skála.

20161104_155252 20161104_155237

Þróun menntunar leikskólakennara

Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður árið 1946 og er hann upphaf leikskólakennaramenntunar á Íslandi. Tilgangur skólans var að mennta fóstrur fyrir barnaheimilin en starfsheitið fóstra samsvarar nú orðinu leikskólakennari. Valborg Sigurðardóttir, MA í uppeldis- og sálarfræði, var ráðin skólastjóri og gegndi hún starfinu allan þann tíma sem Sumargjöf sá um reksturinn.

Árið 1957 var nafni Uppeldisskóla Sumargjafar breytt í Fóstruskóla Sumagjafar þegar starfsheitið „fóstra“ hafði unnið sér hefð í málinu. Hlé var á starfseminni árin 1952 – 1954. Á árunum 1946 – 1952 var námið tvö ár, hvort ár tvær fjögurra mánaða annir, bóklegt og verklegt. Haustið 1954 var námsfyrirkomulaginu breytt, bóklega námið tvö ár en verklega námið fór fram yfir sumartímann og nokkra eftirmiðdaga í viku fyrri veturinn og í 4 – 6 lotum seinni veturinn.

Ítarlegri sögu má finna hér: http://sumargjof.is/uppeldisskolinn/

Árið 1973 yfirtók ríkið Fóstruskólann og var nafni skólans breytt í Fósturskóli Íslands sem var jafnt fyrir karla og konur. Námsfyrirkomulaginu var breytt í þrjú ár.

Árið 1996 var sett á fót leikskólakennarskor við Háskólann á Akureyri.

Árið 1998 sameinaðist Fósturskóli Íslands Kennaraháskóla Íslands. Nám leikskólakennara breyttist og aukin áhersla var lögð á rannsóknir á menntun ungra barna.

Árið 2008 sameinaðist Kennaraháskólinn Háskóla Íslands og varð að Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Innan sviðsins er leikskólakennaradeild. Námið var lengt í fimm ár.
Nám leikskólakennara hefur alla tíð endurspeglað svipaðar áherslur, leikskólakennaranemendur læra að skipuleggja fjölbreytt nám í leikskóla ásamt því að leiða og þróa faglegt starf. Leikskólakennarar eiga að vera leiðandi í mótun uppeldis- og menntstarfs samkvæmt núgildandi aðalnámskrá. Rík áhersla er lögð á að börn séu sjálfstæð, virk og skapandi.

70-ara-afmaeli-7
Mynd tekin af facebook síðu Menntasviðs Háskóla Íslands

Continue ReadingLeikskólakennaramenntun í 70 ár

Styrkveitingar Sumargjafar til málefna barna þann 24. apríl 2016

 • Post category:styrkir

styrkhafar 2016 minnkuð

Í upphafi árs 2016 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 37 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Eftirtalin verkefni hljóta styrkina (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Snillinganámskeið fyrir eldri börn með ADHD.

Á Þroska- og hegðunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fer fram sérhæfð greining og meðferð á ADHD. Frá árinu 2008 hefur miðstöðin boðið upp á sérhæft meðferðarnámskeið fyrir 8 – 10 ára börn með ADHD þar sem áherslan er á að kenna börnunum félagsfærni, bætta stjórn á tilfinningum og reiðiköstum, bætta hvatvísisstjórn og minnisþjálfun með tölvuverkefninu Snillingarnir. Erlendar rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af námskeiðinu. Vantað hefur námskeið fyrir 10 – 12 ára börn. Ætlunin er að uppfæra námskeiðið þannig að það geti einnig nýst eldri börnum. Styrkurinn er ætlaður til þess að útbúa námskeiðið og viðeigandi gögn fyrir eldri börn einnig og prufukeyra það fyrir fyrsta hópinn haustið 2016. – Styrkþegi: Þroska- og hegðunarmiðstöð (ÞHS) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins. – Tengiliður: Dagmar Kristín Hannesdóttir.

2. Íslensk tónlistarsaga fyrir börn 7 – 14 ára.

Íslensk tónlistarsaga fyrir börn hefur ekki komið út. Gefin verður út myndskreytt bók og texti miðaður við hæfi 7 – 14 ára barna og mun fylgja bókinni diskur með tóndæmum. Fjallað verður um íslenska tónlistarsögu frá upphafi og sem næst fram til nútímans. Tæpt verður á tónlistarlífinu öllu, hljóðfærum, tónlistarmönnum og tónskáldum þegar þau koma fram, fyrir og um aldamótin 1900. Framsetningin verður í stíl ævintýris þar sem íslenskt tónskáld leiðir fram söguna. Halla Sólveig Þorgeirsdóttir myndlistarmaður mun skreyta bókina og Tónlistarsafn Íslands veitir sérfræðiaðstoð.

– Höfundur og styrkþegi: Jón Hrólfur Sigurjónsson.

3. Að bera kennsl á einhverfu í ung- og smábarnavernd.

Algengi einhverfu hefur aukist umtalsvert hér á landi sem og annars staðar síðustu áratugina. Einkenni einhverfu koma í flestum tilfellum fram á fyrstu tveimur aldursárunum og áhyggjur foreldra vakna snemma. Engu að síður fær 50% barna með einhverfu hér á landi ekki greiningu fyrr en á grunnskólaaldri og þau missa þar af leiðandi af sérhæfðri snemmtækri íhlutun og viðeigandi þjónustu á þeim aldri þegar rannsóknir sýna að mests árangurs er að vænta. Markmið verkefnisins er að stuðla að því að fleiri börn með einhverfu finnist fyrr í ung- og smábarnavernd hér á landi en nú er raunin. Það verður gert með því að –

1. Efla þekkingu á einkennum einhverfu hjá ungum börnum í heilsugæslunni.

2. Skima fyrir einkennum einhverfu hjá öllum börnum sem koma til reglubundins eftirlits með þroska í ung- og smábarnavernd við 30 mánaða aldur.

3. Þróa verkferla við skimun og tilvísun í frekari athugun og snemmtæka íhlutun gefi niðurstöður tilefni til þess.

Um er að ræða formlegt rannsóknarverkefni til að meta árangur ofangreindra aðgerða eða svokallaða framvirka samanburðarrannsókn. Niðurstöður rannasóknarinnar ættu að nýtast við upplýsta ákvörðunartöku um hvort skimun fyrir einhverfu hjá öllum börnum í tengslum við ung- og smábarnavernd eigi rétt á sér á Íslandi. Rannsóknin er samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. – Tengiliður: Sigríður Lóa Jónsdóttir.

4. Rannsókn á stöðu barna sem misst hafa foreldri úr krabbameini.

Rannsóknin er þríþætt og er fyrsta hluta hennar lokið. Í fyrsta hluta voru tekin hópviðtöl við hópa fagfólks úr ólíkum faggreinum og voru niðurstöður rýnihópviðtalanna gefin út í greinargerð í Ritröð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd. Í öðrum hluta rannsóknarinnar sem nú er að hefjast verða tekin einstaklingsviðtöl við eftirlifandi maka og foreldra látna foreldrisins (afa og ömmu barnsins). Í þriðja hluta rannsóknarinnar verður síðan rætt við ungmenni sem misst hafa móður úr krabbameini. Mikil þörf er á að gera rannsókn á þessu efni en engin slík rannsókn hefur verið gerð á Íslandi. Niðurstöður verða gefnar út í skýrslu og munu þær veita innsýn inn í málefnið og er einnig koma að gagni við endurskoðun á löggjöf varðandi aðstæður og aðbúnað barna. Rannsóknarhópurinn samanstendur af nokkrum sérfræðingum á LSH, Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og dr. Sigrúnu Júlíusdóttur prófessors við HÍ sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

– Styrkþegi: Rannsóknarhópur um stöðu barna sem misst hafa foreldri úr krabbameini. – Tengiliður: Gunnjóna Una Guðmundsdóttir.

5. Síðasta lestrarátak Ævars vísindamanns.

Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem kom út síðasta vor og bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og í ljós kom að börnin höfðu lesið yfir 60 þúsund bækur. Þar sem svo vel tókst til hyggst Ævar endurtaka leikinn skólaárið 2016 – 2017 en nú verða verðlaunin þau að fimm börn geta orðið persónur í stórhættulegri vélmennabók í stað risaeðlubókarinnar. – Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson.

6. Litla SOL – Spjallað og leikið með yngstu börnunum 0-3ja ára.

Verkefnið byggir á að þýða og staðfæra bókina Lille SOL – Sprog og leg for de yngste úr dönsku sem inniheldur m.a. leiki sem ætlaðir eru til að þjálfa málþroska barna. Með útgáfu bókarinnar fá leikskólakennarar tæki í hendur til að skipuleggja málörvun yngstu barnanna í leikskólanum með kennslufræði leiksins að leiðarljósi og stuðla þannig að farsælli máltöku og eðlilegri færni barna í íslensku. Bókin er einnig ætluð foreldrum. – Styrkþegi: SOL hópurinn. – Tengiliðir: Margrét Tryggvadóttir og Hrafnhildur Karlsdóttir.

7. Útgáfa á Pétri og úlfinum eftir Prokofiev í jazzútgáfu fyrir börn.

Verkefnið felst í útgáfu á Pétri og úlfinum eftir Prokofiev en í jazzútgáfu fyrir börn. Að útgáfunni stendur Stórsveit Reykjavíkur með Pamelu De Sensi og Sigurð Flosason

saxofónleikara í forsvari í samstarfi við Stefán Karl Stefánsson leikara. Oliver Nelson jazztónlistarmaður bjó til þessa útgáfu af Pétri og úlfinum sem er án sögumanns en þessi nýja framsetning verður með leikara í hlutverki sögumanns og er það líklega fyrsta útgáfan í þeirri mynd og það á íslensku. Útgáfan er ætluð 5 – 15 ára börnum og gæti nýst í tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum þar sem leitast er við að kynna börnum mismunandi tónlistarstefnur. Útgáfan verður í formi myndskreyttrar bókar og geisladisks. Myndlistarmaður er Sigrún Eldjárn. Útgáfutónleikar verða á Listahátíð 2017 í Hörpu. – Styrkþegi: Stórsveit Reykjavíkur. – Tengiliður: Pamela De Sensi.

8. Þróun á námsefni í Díalektískri atferlismeðferð fyrir unglinga með sjálfskaðandi hegðun.

Verkefnið felst í gerð námsefnis í hópmeðferðarforminu Díalektísk atferlismeðferð (DAM) fyrir unglinga og foreldra þar sem stuðst er við bókina DBT® Skills Manual for Adolescents eftir Jill H. Rathus o.fl. Umsækjendur starfa báðir sem meðferðaraðiliar í bráðateymi BUGL þar sem þær hafa séð aukningu á komum unglinga með sjálfskaða, viðvarandi sjálfvígshugsanir og endurteknar sjálfsvígtilraunir. DAM meðferðarformið var innleitt til að svara meðferðarþörf þessa hóps og hefur nýst mjög vel. Í ljós hefur komið þörf fyrir stytta útgáfu á DAM meðferðinni á íslensku og eru umsækjendur að hefja þróunarvinnu við það verkefni sem nota mætti utan BUGL, t.d. á heilsugæslustöðvum og þjónustumiðstöðvum. – Styrkþegar: Edda Arndal og Lára Pálsdóttir.

9. Málhljóðamælir – íslenskt smáforrit sem skimar framburð og hljóðkerfisþætti.

Verkefnið felst í að þróa skimunarpróf ,,Málhljóðamæli” í smáforrit fyrir spjaldtölvur sem verði notað í öllum skólum á Íslandi til að skima framburð og hljóðkerfisþætti barna. Málhljóðamælirinn verður skimunartæki sem metur hvaða börnum þarf sérstaklega að gefa gaum vegna framburðar og gefur strax niðurstöður um getu einstaklings og leggur fram tillögur um næstu skref. Einnig má nota mælinn til að fylgjast með framförum og breytingum hjá börnum. Prófið er sérstaklega ætlað leik- og grunnskólakennurum, talmeinafræðingum, sérkennurum, foreldrum og öðrum áhugasömum. Ekki er til neitt sambærilegt íslenskt próf sem skimar þessa þætti. Til er próf sem skimar málþroska íslenskra barna en ekkert skimunarpróf er til í íslenskum framburði fyrir þá sem starfa með börnum. – Styrkþegi: Bryndís Guðmundsdóttir.

10. Koma norska hópsins Landing á UNGA – Alþjóðlega sviðslistarhátíð fyrir unga áhorfendur.

ASSITEJ eru alþjóðleg samtök um leikhús fyrir unga áhorfendur en Íslandsdeild samtakanna hefur verið starfrækt allt frá árinu 1990. Yfirlýst markmið Íslandsdeildarinnar er að standa vörð um leikhús fyrir börn og ungt fólk með því m.a. að efla samskipti listafólks sem starfar á þessum vettvangi á Íslandi og hvetja það til alþjóðlegs samstarfs. Kjarni starfseminngar hérlendis frá árinu 2013 hefur verið árleg alþjóðleg sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur í Reykjavík. Hátíðin er sjálfstæð en haldin samhliða og í góðu samstarfi við Barnamenningarhátið í Reykjavík. Tjarnarbíó hefur verið miðstöð hátíðarinnar frá upphafi og frítt er inn á allar sýningar og viðburði hátíðarinnar. Fyrir hátíðina í ár var boðið tveimur erlendum hópum. Annar hópurinn er norski hópurinn Landing með sýninguna Safarium sem er danssýning sérstaklega samin fyrir börn og ungmenni með sérþarfir og verður hún sýnd í samstarfi við Klettaskóla. Vegna sérþarfa nemenda í Klettaskóla geta aðeins 15 áhorfendur verið á

hverri sýningu og því verða sýningar að vera 6 í stað 3ja sem er sá fjöldi sem UNGI getur fjármagnað. Styrk Sumargjafar er ætlað að fjármagna þessar þrjár umframsýningar. – Styrkþegi: ASSITJE á Íslandi. – Tengiliður: Vigdís Jakobsdóttir.

11. Vera og vatnið.

Vera og vatnið er leikskólasýning fyrir 2ja – 5 ára börn. Sviðslistahópurinn Bíbí og blaka sérhæfir sig í danssýningum fyrir leikskólabörn. Nefna má sýningarnar Skýjaborg og Fetta Bretta sem báðar voru frumsýndar í Þjóðleikhúsinu og hafa farið víða og eru enn á sýningarferðalögum hérlendis og erlendis. Næsta verk er Vera og vatnið sem er danssýning fyrir börn á aldrinum 2ja – 5 ára. Verkið fjallar um veruna Veru og tilraunir hennar og upplifanir í veðri og vindum. Vera leikur sér einnig með hljóð og sérstaklega röddina, blástur og andardráttinn. Sýningin er 20 – 30 mínútur að lengd en við sýningartímann bætist leikstund þar sem börnin fá að skoða leiknyndina og hitta veruna Veru. Að sýningunni standa Tinna Grétarsdóttir danshöfundur og Sólrún Sumarliðadóttir tónskáld. – Styrkþegi: Bíbí & blaka. – Tengiliður: Tinna Grétarsdóttir.

12. Kelerí, kynfæri, kynlíf – handbók um hjartans mál fyrir ungt fólk.

Verkefnið er handbók fyrir ungt fólk um eigin líkama, samskipti, samþykki, kynhneigð, kynvitund og kynhegðun. Handbókin er byggð á faglegri þekkingu höfundarins, Sigríðar Daggar Arnardóttur, sem kynfræðings en einnig af reynslu hennar af sex árum í kynfræðslu unglinga um allt land. Að sögn Sigríðar, miðast bókin við að svara ungu fólki á hreinskilinn hátt um kynlíf, ástarsambönd, eigin líkama og þennan umbrotstíma sem fylgir því að uppgötva sjálfan sig og aðra. Krista Hall sem er grafískur hönnuður myndskreytir bókina og Sunna Dís Másdóttir ritstýrir og prófarkales bókina. Miðað er við að bókin komi út haustið 2016. – Styrkþegi: Sigríður Dögg Arnardóttir.

13. Rokksmiðjur fyrir 10 til 16 ára stelpur og transkrakka.

Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðasamtök sem starfa eftir femínískri hugsjón að því markmiði að bjóða upp á valdeflandi tómstundarstarf fyrir ungar stelpur og transkrakka á Íslandi. Í þau 4 ár sem rokkbúðirnar hafa starfað hafa færri komist að en vilja í rokkbúðirnar þar sem stelpur spila á hljóðfæri, spila í hljómsveit og semja lög saman. Nú er verið að bjóða upp á fjölbreyttara úrval námskeiða en verið hefur, sérstaklega með það í huga að bjóða stúlkunum upp á að kynnast hliðum tónlistarstarfs sem eru taldar mjög karllægar. Fyrirhugað er að halda 8 dags- og helgarlangar rokksmiðjur haustið 2016 fyrir allt af 120 stelpur og transkrakka á aldrinum 10 – 12 ára annars vegar og 13 – 16 ára hins vegar. Styrkur Sumargjafar mun nýtast til að bjóða upp á allt að 40 frí pláss í rokksmiðjurnar en lykilhluti af starfsemi Stelpur rokka! er að vísa engri stúlku frá sökum fjárskorts. – Styrkþegi: Stelpur rokka! – Tengiliður: Áslaug Einarsdóttir.

 

Um Barnavinafélagið Sumargjöf.

Félagið var stofnað á sumardaginn fyrsta vorið 1924 og er því liðlega 90 ára. Lengst af annaðist Sumargjöf rekstur dagheimila og leikskóla Reykjavíkurborgar, auk eigin heimila, eða allt fram til ársins 1978, þegar Reykjavíkurborg yfirtók reksturinn. Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili ýmissa málefna sem varða heill barna. Eru styrkveitingarnar nú liður í því starfi en einnig má nefna að Sumargjöf styrkir ýmis önnur verkefni. Félagið er t.d. aðili að Verðlaunasjóði íslenskra barnabóka og styrkir sjóðinn með föstu framlagi

Continue ReadingStyrkveitingar Sumargjafar til málefna barna þann 24. apríl 2016

Afhending styrkja 2016

 • Post category:styrkir

Í ár bárust Sumargjöf 37 áhugaverðar og fjölbreyttar umsóknir um styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Stjórn Sumargjafar hefur samþykkt að styrkja 13 verkefni. Formleg afhending styrkja fer fram sunnudaginn 24. apríl kl. 14:00 í leikskólanum Grænuborg, Eiríksgötu 2. Styrkhafar fá tilkynningu og boð um að veita styrkjunum móttöku. Stjórn Sumargjafar þakkar öllum umsækjendum fyrir að hafa sótt um. Umsækjendur sem ekki hlutu styrk að þessu sinni verður tilkynnt um það

Continue ReadingAfhending styrkja 2016

Umsókn um styrk árið 2016

Barnavinafélagið Sumargjöf auglýsir hér með til umsóknar styrki á sviði rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna.

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að fylla út umsókn á sérstöku eyðublaði sem vistað er á vef félagsins og senda það síðan í viðhengi á tölvupóstfang Sumargjafar [email protected] að lokinni útfyllingu.

Stjórn Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnin og leita umsagnar fagaðila.

Umsóknarfrestur er til og með 15. febrúar 2016.

Reykjavík, 14. janúar 2016
Barnavinafélagið Sumargjöf

Póstfang: Pósthólf 5423, 125 Reykjavík
Tölvupóstfang: [email protected]
Vefur: sumargjof.is

Continue ReadingUmsókn um styrk árið 2016

Starfsemi Sumargjafar veturinn 2014 – 2015

Steinahlíð
Færanlega húsið í Steinahlíð, sem Reykjavíkurborg setti upp í árslok 2011, var tekið í notkun um síðustu áramót. Húsið er kallað Steinagerði en þar eru nú reknar tvær leikskóladeildir og sú þriðja er í gamla húsinu. Reksturinn hefur gengið vel og mun styrkja stöðu Steinahlíðar til framtíðar. Gerður var samningur við Reykjavíkurborg um ýmis fjárhagsleg atriði tengd rekstri hússins. Að undanförnu hefur verið til kynningar nýtt deiliskipulag í Steinahlíð, um innkeyrslu á lóð og bílastæði; niðurstaða liggur ekki fyrir.

Grænaborg
Reykjavíkurborg hefur verið með þreifingar um að byggja við Grænuborg og bæta þar við einni deild. Sumargjöf hefur fallist á að málið sé skoðað, en það er nú í biðstöðu.

Barnabókasjóður
LeitinAdBlodey-175x267Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Langholtsskóla 16. október 2014, og var það í 26. sinn sem þau voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 29. Að þessu sinni fékk Guðni Líndal Benediktsson verðlaunin fyrir skáldsöguna: Leitin að Blóðey – Ótrúleg ævintýri afa, sem er fyrsta bók höfundar, spennandi og bráðfyndin saga ætluð 7-12 ára lesendum; myndir gerði Ivan Capelli. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 28 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Ólafsdóttir er að þessu sinni fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. – Verðlaunabækurnar eru orðnar veglegur bókaflokkur og hefur vel tekist til með starfsemi sjóðsins.

Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 umsóknir sem margar voru áhugaverðar. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.550.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 3. maí 2015, að viðstöddum gestum.

Aldingarður æskunnar
Verkefnið hófst í Steinahlíð 25. júní 2014 með því að börnin gróðursettu eplatré, rifs o.fl. Garðyrkjufélag Íslands og Sumargjöf standa að verkefninu sem heldur áfram í ár. Verið er að útbúa grænmetisgarð í Steinahlíð fyrir foreldra barna þar.

Handbók: Snemmtæk íhlutun í málörvun 2-3 ára barnasnemmtæk íhlutun
Í tilefni af 90 ára afmæli félagsins 2014 gaf Sumargjöf öllum leikskólum í Reykjavík eintak af þessari bók, bæði borgarreknu leikskólunum og þeim einkareknu. Félagið væntir þess að bókin nýtist vel í leikskólastarfi.

Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn nam nú 500.000 kr.

Heimasíða Sumargjafar
Í tilefni af 90 ára afmæli Sumargjafar á síðasta ári var ákveðið að endurbæta heimasíðu félagsins, sumargjof.is. Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur unnið að málinu og er nú hægt að nálgast mun meiri upplýsingar um starfsemi félagsins en áður var.

Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Þar eru geymd ýmis söguleg gögn félagsins, auk þess sem þar er góð fundaraðstaða. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected]

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2014 – 2015

Styrkveitingar Sumargjafar til málefna barna

 

styrkir_2015Í upphafi árs 2015 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 40 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita ellefu styrki. Afhending styrkja fór fram þann 3. maí í leikskólanum Grænuborg við Eiríksgötu í Reykjavík. Eftirtalin verkefni hlutu styrkina að þessu sinni (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):

1. Gerð sjónvarpsmyndar um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í tilefni 25 ára afmælis sáttmálans.

Þann 20. nóvember 2014 var 25 ára afmæli barnasáttmála SÞ fagnað. Af því tilefni hafa ungmennaráð Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, umboðsmaður barna og Unicef á Íslandi tekið höndum saman um að gera sjónvarpsmynd um Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Markmiðið er að auka þekkingu og meðvitund barna og fullorðinna um mannréttindi barna með það fyrir augum að bæta líf barna á Íslandi. Ríkisútvarpið (RÚV) mun sýna myndina þann 20. nóvember 2015 í lok 25 ára afmælisársins. – Styrkþegi: Barnaheill. – Tengiliður: Þóra Jónsdóttir.

2. Hverfisfuglinn okkar. – Fræðsluverkefni ætlað börnum á leikskólaaldri í Dalskóla við bakka Úlfarsár í Úlfársdal.

Dalskóli er nýr skóli á 5. starfsári en einn af hornsteinum hans er umhverfismennt og útikennsla. Inntak verkefnisins er að börnin velja í sameiningu hvaða fuglategund sé hverfisfuglinn þeirra. Valið byggir á athugunum barnanna í kjölfar fræðslu um fuglalíf borgarinnar með áherslu á nánasta umhverfi. Styrkurinn er veittur til tækjakaupa, svo sem sjónauka og myndavéla. – Tengiliður skólans: Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir.

3. Komdu og skoðaðu fuglana. – Fræðslurit um fuglaskoðun ætlað ungum fuglaskoðurum.

Verkefnið byggist á útgáfu fræðslurits um fuglaskoðun, með það að markmiði að auðvelda áhugasömum ungum fuglaskoðurum að skoða okkar algengustu eða skrautlegustu fugla vor og vetur. Fjallað verður um 30 fugla og leitast við að byggja ritið upp á sem myndrænasta hátt. Ritið er ætlað 4. bekkingum grunnskóla og fær hvert barn í árganginum eintak að gjöf. Dreifa á ritinu til bekkjardeilda ásamt kennaraeintaki og bókasafnseintaki. Styrkþegi: Fuglaverndarfélag Íslands / Fuglavernd. – Tengiliður: Hólmfríður Árnadóttir.

4. Strengir á tímaflakki. – Skólatónleikar fyrir börn á Akureyri og nágrenni.

Stjórn Tónlistarfélags Akureyrar telur að sárlega hafi vantað framboð á vönduðum tónleikum fyrir börn á Akureyri og nágrenni síðustu ár. Félagið er í samstarfi við Pamelu de Sensi og er hún listrænn stjórnandi verkefnisins. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Strengir á tímaflakki“ og byggja á tónlistarævintýri eftir Pamelu sem Steingrímur Þórhallsson samdi tónlist við. Í ævintýrinu eru hljóðfæri hefðbundins strengjakvartetts kynnt með því að segja sögu. Einnig verður flutt verkið Divertimento K. 136 eftir Mozart. Þátttakendur eru hljóðfæraleikarar, sögumaður og leikari sem leikur Mozart og börn úr dansskóla á Akureyri. Sýningin er ætluð 2ja til 12 ára börnum og fá þau að taka þátt í sýningunni á ýmsan hátt með tali og hreyfingu. Fyrirhugað er að flytja verkefnið á skólatónleikum og þannig gefa öllum börnum á Eyjafjarðarsvæðinu kost á að sjá verkið auk barna frá norð-austur horninu. Styrkþegi: Tónlistarfélag Akureyrar. – Tengiliður: Ásdís Arnardóttir.

5. Stef fyrir stutta putta. – Nótnabók.

„Stef fyrir stutta putta“ er nótnabók með frumsömdum píanólögum fyrir nemendur á fyrri stigum píanónáms eftir Jóhann G. Jóhannsson. Með verkefninu er stefnt að því að auðga fremur fátæklega flóru af innlendu efni fyrir unga píanónemendur með aðgengilegum og skemmtilegum lögum í von um að það verði þeim hvatning og glæði áhuga þeirra á náminu. Bókin verður seld í Tónastöðinni og helstu bókaverslunum. – Höfundur og styrkþegi: Jóhann G. Jóhannsson.

6. Farandnámskeið í myndlist fyrir 5. – 7. bekk í grunnskólum Austurlands 2015 – 2016.

Námskeiðið er á vegum Skaftfells sem er myndlistarmiðstöð Austurlands og gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að myndlistarfræðslu í fjórðungnum. Eitt af helstu verkefnum miðstöðvarinnar hafa verið fræðsluverkefni fyrir grunnskólanema. Fyrir veturinn 2015-2016 verður lögð áhersla á óhlutbundna list sem tengist fyrirhugðri sýningu á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur (1924-1997) í sýningarsal Skaftfells og verða námskeiðin skólunum og börnunum að kostnaðarlausu. – Styrkþegi: Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands. – Tengiliður: Tinna Guðmundsdóttir.

7. Málfærni eldri leikskólabarna. – Málþroskapróf.

„Málfærni eldri leikskólabarna (MELB)“ er málþroskapróf, sem ætlað er fyrir fjögurra ára til sex ára börn. Búið er að ganga frá til útgáfu málþroskaprófi sem kannar málfærni ungra barna (MUB), tveggja til fjögurra ára. Samkvæmt niðustöðum rannsókna er sterk fylgni á milli málþroskamælinga við 5 ára aldur og niðurstaðna á samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði í 4., 7. og 10. bekk. Þetta þýðir að snemmtæk íhlutun og aðstoð við börn í áhættu getur skipt sköpum fyrir börnin og aðstandendur þeirra. Málþroskapróf gagnast vel til að finna börn sem eiga í erfiðleikum og greina vandann. Styrkurinn er ætlaður til vinnslu á myndefni fyrir málþroskaprófið „Málfærni eldri leikskólabarna (MELB)“. – Styrkþegar: Dr. Þóra Másdóttir, Dr. Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir.

8. Froskaleikur Hoppa. – smáforrit fyrir spjaldtölvur.

Um er að ræða smáforrit fyrir spjaldtölvur sem ætlað er börnum frá 4 ára til 9 ára. Smáforritinu er ætlað að undirbúa þroskaþætti er tengjast rökhugsun, málskilningi og grunnhugtökum. Börn með seinkun í þroska geta nýtt efnið langt fram eftir aldri og gætt verður að því að myndir henti breiðum aldurshópi og hafi ekki of menningarlega skírskotun. Markmið umsækjanda er að þróa og gefa út íslenskt smáforrit í spjaldtölvu sem þjálfar grunnhugtök sem mikilvæg eru í málþroska og stærðfræði. Að þróa og gefa út íslenskt smáforrit er mikilvægt framlag til viðhalds íslenskunni sem málminnihlutasamfélags í ört vaxandi tækniheimi. – Styrkþegi: Bryndís Guðmundsdóttir.

9. Orðagull. – Smáforrit.

Smáforritið kemur til með að byggja að mestu á verkefnum sem eru í málörvunarefninu Orðagull, málörvunarefni sem styrkir vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, orðaforða og endursögn. Málörvunarefnið var gefið út 2010 og hefur notið mikillar hylli meðal foreldra, leik- og grunnskólakennara. Í smáforritinu er gert ráð fyrir að hægt sé að halda utan um skráningu og mat á árangri nemenda. – Styrkþegi: Bjartey Sigurðardóttir.

10. SOL – Syngjum Og Leikum.

Verkefnið felst í að þýða, staðfæra og gefa út SOL (Sprog Og Lege) bókina úr dönsku. Bókin inniheldur 127 leiki sem ætlaðir eru til að þjálfa málþroska barna. Bókin er ætluð leikskólakennurum og foreldrum. Markmiðið með útgáfu bókarinnar era að auðvelda leikskólakennurum að byggja upp á skipulagðan hátt málörvun í leikskólum. – Styrkþegi: SOL hópurinn. – Tengiliðir: Hrafnhildur Karlsdóttir og Hólmfríður Árnadóttir.

11. Æskusirkus Íslands.

Árið 2009 stofnaði Sirkus Íslands Æskusirkusinn sem starfar allan ársins hring. Sirkuslistir þjálfa óteljandi hæfileika barna og flétta m.a. saman líkamsstyrk, sjálfsöryggi, leikgleði, framkomu, einbeitingu og samhæfni. Haldin eru námskeið fyrir börn á aldrinum 8 til 15 ára þar sem þau kynnast sirkuslistum og í lok námskeiða eru haldnar sýningar. Styrknum er ætlað að gera Sirkusi Íslands kleift að halda úti Æskusirkusnum.– Styrkþegi: Sirkus Íslands. – Tengiliður: Ragnheiður Maísól Sturludóttir.

Continue ReadingStyrkveitingar Sumargjafar til málefna barna