Starfsemi Sumargjafar veturinn 2017 – 1018

Breytingar á stjórn
Þau tíðindi urðu um síðustu áramót að Jón Freyr Þórarinsson formaður og Ragnar Jónasson gjaldkeri hurfu úr stjórn eftir langt og farsælt starf.

Jón Freyr var skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Sumargjafar 14. ágúst 1974 og varð þá varaformaður félagsins. Þegar borgin hafði að fullu tekið við rekstri leikskólanna í árslok 1978, hætti Jón sem fulltrúi borgarinnar en vann áfram fyrir félagið í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar. Á aðalfundi 25. nóvember 1980 var hann kjörinn í stjórn Sumargjafar, og varð þá formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemi þess. Hann var því formaður Sumargjafar í 37 ár og vann fyrir félagið í meira en 43 ár.

Ragnar kom inn í stjórn 1984 og var gjaldkeri frá 1992, eða rúm 25 ár; hann sat í stjórn í 33 ár. Haldinn var kveðjufundur fyrir þá 29. janúar 2018 þar sem þeir fengu blóm, bóka- og peningagjöf og skrautrituð skjöl fyrir ómetanlegt starf. Stjórn félagsins þakkar þeim einstaklega ánægjulega samveru og samvinnu.

Í stað Jóns Freys og Ragnars komu inn í stjórn Albert Björn Lúðvígsson og Sölvi Sveinsson.
Kristín Hagalín Ólafsdóttir tók við formennsku og Gerður Sif Hauksdóttir varð gjaldkeri.

Verðlaunasjóður barnabóka
Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Lindaskóla í Kópavogi 17. október 2017. Að þessu sinni fékk Elísa Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur verðlaunin fyrir skáldsöguna: Er ekki allt í lagi með þig? sem er fyrsta bók hennar. Að mati dómnefndar er þetta spennandi og skemmtileg unglingasaga sem fjallar á nýstárlegan hátt um einelti sem fer að hluta fram á netinu. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 20 handrit að barna- og unglingabókum. Næsta verðlaunabók verður kynnt og gefin út í haust. Kristín Hagalín Ólafsdóttir er fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. Þetta var í 29. sinn sem verðlaunin voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 32; þetta er því orðinn veglegur bókaflokkur. 

Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 áhugaverðar umsóknir. Ákveðið var að veita þrettán styrki, samtals 9.500.000 krónur.  Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018, kl. 14.

Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn var nú 750.000 kr.

Steinahlíð
Kjallarinn í Steinahlíð var málaður og dúklagður og greiddi Sumargjöf tæp 40% kostnaðar, eða um 2,5 Mkr. Framhald er á Aldingarði æskunnar sem er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Sumargjafar. Steinunn Jónsdóttir hefur sagt upp sem leikskólastjóri í Steinahlíð, eftir 17 ára starf (frá 2001). Bergsteinn Þór
Jónsson hefur verið ráðinn nýr leikskólastjóri.

Grænaborg
Endurbætur á lóð fóru fram síðastliðið sumar og kostuðu rúmar 4,6 Mkr. sem Sumargjöf greiddi. Borgin sá um lagfæringar innanhúss, m.a. var skipt um efni í loftum.

Sumardagurinn fyrsti, ljósmyndasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur. Félagið styrkti sýninguna.

Heimasíða Sumargjafar
Áfram var unnið að því að bæta efni inn á heimasíðuna.

Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 fermetra skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Tölvupóstfang Sumargjafar er: sumargjof@simnet.is.