Í upphafi árs 2021 auglýsti Barnavinafélagið Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til rannsókna-, lista-, og þróunarverkefna í þágu barna. Í ár bárust 30 umsóknir og komst stjórn Sumargjafar að þeirri niðurstöðu að veita níu styrki að þessu sinni. Öllum umsækjendum hefur verið svarað. Stjórn Sumargjafar hefur ákveðið að vera ekki með formlega athöfn styrkja í ár líkt og í fyrra vegna covid.
Eftirtalin verkefni hlutu styrki:
Íslensk myndlist sem öll ættu að þekkja.
Bók fyrir stálpuð börn, unglinga og fjölskyldur þar sem fjallað verður um allt að 20 íslenska listamenn sem hafa skipt sköpum í þróun myndlistar hér á landi. Styrkurinn er ætlaður fyrir myndbirtingarkostnaði. Höfundur stefnir að útgáfu verksins vorið 2022.
Styrkþegi: Margrét Tryggvadóttir
OCD sumarmeðferð fyrir unglinga 12 – 18 ára, nýtt hópmeðferðarúrræði.
Tilrauna- og samstarfsverkefni nokkurra aðila sem sinna meðferð fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Tilraunaverkefnið verður haldið sumarið 2022 og er tveggja vikna gagnreynd meðferð við áráttu/þráhyggjuröskun (OCD) sem áætlað er að hamli 1 – 2 % ungmenna á aldrinum 12 – 18 ára.
Styrkþegi: Félag um kvíðaraskanir barna
Tengiliður: Dagmar Hannesdóttir
Sumarfrí innanlands
Markmiðið er að veita börnum og fjöskyldum þeirra sem búa við kröpp kjör þá upplifun að fara í frí saman og stuðla að því að börnin upplifi sig ekki útundan meðal sinna jafningja og einnig að koma í veg fyrir mismunun.
Styrkþegi: Hjálparstarf kirkjunnar
Tengiliður: Júlía Margrét Rúnarsdóttir
Púlz – nútíma tónlist fyrir börn og unglinga
Púlz býður börnum og unglingum að læra að nýta nútíma tækni til þess að semja og flytja tónlist. Styrkurinn er ætlaður til styrktar rekstrinum svo unnt sé að fjölga kennurum og námskeiðum fyrir börn og ungmenni.
Styrkþegi: Púlz, Taktur & Sköpun
Tengiliður: Þorkell Ólafur Árnason
Fiðlufjör á Hvolsvelli, fiðlunámskeið
Þriggja daga fiðlunámskeið sem haldið hefur verið árlega á Hvolsvelli undanfarin fimm ár fyrir fiðlunemendur víðs vegar af landinu. Nemendur fá einkatíma, meðleikstíma, tónlistarsmiðju og spunatíma undir leiðsögn færra kennara. Í lokin eru haldnir lokatónleikar þar sem allir nemendur taka þátt. Aðalmarkmið hátíðarinnar er að bjóða upp á skemmtilegt og metnaðarfullt fiðlunámskeið fyrir fiðlunemendur óháð hvar á landinu þeir búa. Styrknum er ætlað að auðvelda að stilla námskeiðsgjöldum í hóf.
Styrkþegi: Chrissie Telma Guðmundsdóttir
Sjúkrahústrúðarnir
Íslensku sjúkrahústrúðarnir eru fyrstir sinnar tegundar á Íslandi og eru skipaðir tíu fagmenntuðum leikurum sem hlotið hafa sérstaka þjálfun í aðferðarfræði og vinnusiðferði sjúkrahústrúða. Trúðavaktin býður ókeypis þjónustu við Barnaspítala Hringsins og hóf starfsemi sína 1. mars 2018. Trúðarnir heimsækja öll börn frá 0 – 18 ára á spítalanum alla fimmtudaga allt árið um kring, tveir trúðar í senn. Hlutverk Trúðavaktarinnar er að skapa stuttar gleðistundir í erfiðum aðstæðum. Styrkurinn er ætlaður fyrir efniskostnað í nýja búninga.
Styrkþegi: Trúðavaktin
Tengiliður: Agnes Wild
Kjörbókalestur í unglingadeild Vogaskóla
Verkefnið er lestrarátak í unglingadeild Vogaskóla að frumkvæði bókasafnskennarans, Berglindar H. Guðmundsdóttur, og í samvinnu við kennara þar sem nemendur lesa bækur að eigin vali og ræða þær við bókasafnskennarann og í hópum sín á milli. Skortur á bókum hefur háð verkefninu og er styrknum ætlað að bæta úr því með kaupum á bókum.
Styrkþegi: Vogaskóli
Tengiliður: Berglind H. Guðmundsdóttir
Stuðningur og fræðsla fyrir börn foreldra barna með geðrænan vanda.
Markmið verkefnisins er að styðja við börn foreldra með geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra og er unnið í samstarfi við OurTime, góðgerðarsamtök í Bretlandi, sem eru leiðandi í starfi fyrir börn foreldra með geðrænan vanda þar í landi. Fræðsluefni fyrir þennan hóp vantar hér á landi og er styrknum ætlað að bæta úr því með gerð fræðslumyndbanda fyrir börnin.
Styrkþegi: Geðhjálp
Tengiliður: Sigríður Gísladóttir
Tímahylkið
Tímahylkið er verkefni sem nemendur og starfsmenn Valsárskóla hafa verið að vinna að í samstarfi við Safnasafnið á Svalbarðsströnd frá upphafi COVID árið 2020. Markmið verkefnisins er að varðveita upplifun, reynslu og hugrenningar unga fólksins okkar fyrir framtíðina. Þau fá að spreyta sig í að skrifa texta, teikna, mála og móta verk sem þau tengja veirunni skæðu, þau fá að vinna með sögulega texta, taka þátt í að hanna sýningu og vinna með fagfólki innan hönnunar og lista. Sagan verður fest á blað og fryst í tíma í tímahylki sem gert er ráð fyrir að varðveita á góðum stað og opna með viðhöfn að 50, 60 eða hundrað árum liðum. Gefið er út tímarit og afrakstur vinnunnar sýndur á sýningu í Safnasafninu.
Styrkþegi: Svalbarðsstrandarhreppur
Tengiliður: Björg Erlingsdóttir