Starfsemi Sumargjafar veturinn 2014 – 2015

Steinahlíð
Færanlega húsið í Steinahlíð, sem Reykjavíkurborg setti upp í árslok 2011, var tekið í notkun um síðustu áramót. Húsið er kallað Steinagerði en þar eru nú reknar tvær leikskóladeildir og sú þriðja er í gamla húsinu. Reksturinn hefur gengið vel og mun styrkja stöðu Steinahlíðar til framtíðar. Gerður var samningur við Reykjavíkurborg um ýmis fjárhagsleg atriði tengd rekstri hússins. Að undanförnu hefur verið til kynningar nýtt deiliskipulag í Steinahlíð, um innkeyrslu á lóð og bílastæði; niðurstaða liggur ekki fyrir.

Grænaborg
Reykjavíkurborg hefur verið með þreifingar um að byggja við Grænuborg og bæta þar við einni deild. Sumargjöf hefur fallist á að málið sé skoðað, en það er nú í biðstöðu.

Barnabókasjóður
LeitinAdBlodey-175x267Sjóðurinn var stofnaður 1985 og standa að honum Forlagið, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Sumargjöf (frá 1988). Barnabókaverðlaunin voru afhent í Langholtsskóla 16. október 2014, og var það í 26. sinn sem þau voru veitt, en alls eru verðlaunabækurnar 29. Að þessu sinni fékk Guðni Líndal Benediktsson verðlaunin fyrir skáldsöguna: Leitin að Blóðey – Ótrúleg ævintýri afa, sem er fyrsta bók höfundar, spennandi og bráðfyndin saga ætluð 7-12 ára lesendum; myndir gerði Ivan Capelli. Sumargjöf lagði fram verðlaunaféð, 500.000 kr, en auk þess fær höfundur samningsbundin ritlaun. Auglýst var eftir handritum fyrir næstu úthlutun og bárust 28 handrit að barna- og unglingabókum. Búið er að velja verðlaunabók og verður hún kynnt og gefin út í haust. Kristín Ólafsdóttir er að þessu sinni fulltrúi Sumargjafar í dómnefnd. – Verðlaunabækurnar eru orðnar veglegur bókaflokkur og hefur vel tekist til með starfsemi sjóðsins.

Styrkir
Á undanförnum árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem styrktaraðili málefna sem varða heill barna. Eins og í fyrra voru auglýstir styrkir til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Alls bárust 40 umsóknir sem margar voru áhugaverðar. Ákveðið var að veita ellefu styrki, samtals 6.550.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Grænuborg sunnudaginn 3. maí 2015, að viðstöddum gestum.

Aldingarður æskunnar
Verkefnið hófst í Steinahlíð 25. júní 2014 með því að börnin gróðursettu eplatré, rifs o.fl. Garðyrkjufélag Íslands og Sumargjöf standa að verkefninu sem heldur áfram í ár. Verið er að útbúa grænmetisgarð í Steinahlíð fyrir foreldra barna þar.

Handbók: Snemmtæk íhlutun í málörvun 2-3 ára barnasnemmtæk íhlutun
Í tilefni af 90 ára afmæli félagsins 2014 gaf Sumargjöf öllum leikskólum í Reykjavík eintak af þessari bók, bæði borgarreknu leikskólunum og þeim einkareknu. Félagið væntir þess að bókin nýtist vel í leikskólastarfi.

Stóra upplestrarkeppnin
Sumargjöf hefur um mörg undanfarin ár styrkt samtökin Raddir, sem sjá um Stóru upplestrarkeppnina í skólum. Styrkurinn nam nú 500.000 kr.

Heimasíða Sumargjafar
Í tilefni af 90 ára afmæli Sumargjafar á síðasta ári var ákveðið að endurbæta heimasíðu félagsins, sumargjof.is. Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur unnið að málinu og er nú hægt að nálgast mun meiri upplýsingar um starfsemi félagsins en áður var.

Bernskan
Sumargjöf er aðili að Bernskunni – Íslandsdeild OMEP samtakanna. Bernskan samnýtir húsnæðið í Skipholti 5, og hefur þar eitt herbergi og aðgang að fundarherbergi.

Annað
Í eigu Sumargjafar eru leikskólarnir Grænaborg og Steinahlíð. Reykjavíkurborg leigir leikskólana og sér um rekstur þeirra. Einnig á Sumargjöf 76 m2 skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð í Skipholti 5. Þar eru geymd ýmis söguleg gögn félagsins, auk þess sem þar er góð fundaraðstaða. Tölvupóstfang Sumargjafar er: [email protected].

Continue ReadingStarfsemi Sumargjafar veturinn 2014 – 2015