Í byrjun árs 2018 urðu miklar breytingar á stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar. Jón Freyr Þórarinsson, formaður og Ragnar Jónasson, gjaldkeri létu af störfum sínum fyrir félagið eftir farsælt starf. Kristín Hagalín Ólafsdóttir tók við sem formaður og Gerður Sif Hauksdóttir sem gjaldkeri. Albert Björn Lúðvígsson og Sölvi Sveinsson komu inn í stjórn félagsins sem varamenn. Af því tilefni var haldinn kveðjufundur með Jóni Frey, Ragnari og núverandi stjórn þann 29. janúar 2018 og þeim þakkað fyrir ómetanlegt starf fyrir Barnavinafélagið Sumargjöf.
Núverandi stjórn með fráfarandi stjórnarmönnum. Talið frá vinstri, efri röð: Kristín Hagalín Ólafsdóttir (formaður) Jón Freyr Þórarinsson (fráfarandi formaður), Albert Björn Lúðvígsson, Rósa Björg Brynjarsdóttir, Ragnar Jónasson (fráfarandi gjaldkeri), Rán Einarsdóttir og Hildur Biering. Neðri röð: Helga Hallgrímsdóttir, Gerður Sif Hauksdóttir (gjaldkeri), Steinunn Jónsdóttir, Sölvi Sveinsson og Sigurjón Páll Ísaksson (ritari).
Fráfarandi stjórnarmenn: Ragnar Jónasson (t.v.) og Jón Freyr Þórarinsson (t.h.)
Jón Freyr Þórarinsson var skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjón Sumargjafar þann 14. ágúst 1974 og varð þá varaformaður félagsins. Hann sat í stjórninni til ársloka 1978, en þá hafði borgin að fullu yfirtekið rekstur leikskólanna. Jón Freyr vann samt áfram fyrir félagið, því hann sat í byggingarnefnd nýrrar Grænuborgar. Á aðalfundi sem haldinn var 25. nóvember 1980 var Jón Freyr kjörinn í stjórn Sumargjafar, og varð þá formaður félagsins. Blés hann brátt nýju lífi í starfsemi þess. Hann var því formaður Sumargjafar í 37 ár, þar áður varaformaður í rúm 4 ár, og hefur unnið fyrir félagið í rúm 43 ár.
Ragnar Jónasson kom inn sem varamaður í stjórn Sumargjafar 1984, kom inn í aðalstjórn 1985 og tók við sem gjaldkeri 1992. Hann var því gjaldkeri í rúm 25 ár og sat í stjórn í rúm 33 ár, þar af 32 í aðalstjórn.
Stjórn Sumargjafar þakkar þeim fyrir einstaklega ánægjulega samveru og samvinnu.