Söguyfirlit 1924 - 2024
Sigurjón Páll Ísaksson tók saman
Stofnun Sumargjafar
- Félagið var stofnað 22. apríl 1924 og hlaut nafnið Sumargjöfin. Laufey Vilhjálsdóttir átti hugmyndina að nafninu.
- Félagið óx upp úr hreyfingu sem vakin var af reykvískum konum, og tók Bandalag kvenna að sér forystuna.
- Má rekja aðdragandann að stofnun félagsins til 1918.
Helstu stofnendur félagsins
- Fyrsta stjórn félagsins: Steingrímur Arason, formaður, Aðalbjörg Sigurðardóttir, Magnús Helgason, Steinunn Bjartmarsdóttir og Steindór frá Gröf.
- Aðrir forvígismenn: Camilla Bjarnason, Inga Lárusdóttir, Laufey Vilhjálmsdóttir, Steinunn H. Bjarnason og fleiri.
Markmið félagsins
- Tilgangur félagsins var, að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum.
- Tilgangi þessum hugðist félagið ná meðal annars með því að stuðla að rekstri dagheimila fyrir börn
- Félagið gerði Sumardaginn fyrsta að hátíðisdegi barna, í samræmi við gamla íslenska hefð. Þann dag fór einnig fram fjársöfnun félagsins.
Starfsemi Sumargjafar fyrstu árin var meðal annars:
- Hátíðahöld og fjársöfnun á Sumardaginn fyrsta.
- Útgáfa uppeldismálarita fyrir foreldra.
- Útgáfa ársritsins Sólskins, með lesefni fyrir börn.
- Rekstur dagheimila (leikskóla) yfir sumarið, þann tíma sem skólar störfuðu ekki.
Grænaborg – fyrsta dagheimilið
- Strax fyrsta árið, 1924, hófst rekstur dagheimilis í gamla Kennaraskólanum, og var það starfrækt þrjú sumur, 1924 – 1926.
- Árið 1930 var hafinn undirbúniningur að byggingu dagheimilis, Grænuborgar, og var það fullgert 25. júlí 1931. Þar með má segja að rekstur félagsins hafi komist á fullan skrið.
- Grænaborg var stækkuð 1943, og var dagheimili rekið þar til ársloka 1981, fyrst yfir sumarið, en frá 1954 var það starfrækt allt árið .
Vesturborg – fyrsta vetrardagheimilið
- Árið 1937 tók til starfa dagheimilið Vesturborg við Kaplaskjólsveg, en mikil þörf var orðin fyrir dagheimili í Vesturbænum.
- Þar hófst rekstur vetrardagheimilis1938.
- Upp úr 1940 fór dagheimilum að fjölga og jukust þá umsvif félagsins jafnt og þétt, með dyggum stuðningi bæjarstjórnar Reykjavíkur, enda naut félagið mikils trausts.
Tjarnarborg
- Árið 1941 festi Sumargjöf kaup á Tjarnargötu 33, Tjarnarborg. Ákvað stjórn félagsins að reka þar dagheimili og leikskóla. Þar voru aðalstöðvar Sumargjafar um skeið.
- Með þessu var að ýmsu brotið blað í sögu félagsins. Í fyrsta skipti var húsakostur orðinn svo mikill að hægt var að halda upp hentugri flokkun starfseminnar.
Fóstruskóli Sumargjafar
- Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður árið 1946. Árið 1957 var nafni skólans breytt í Fóstruskóli Sumargjafar.
- Tilgangur skólans var að mennta starfsfólk fyrir barnaheimilin.
- Skólinn varð ríkisskóli 1973, og hlaut þá nafnið Fósturskóli Íslands. Hann var sameinaður Kennaraháskóla Íslands árið 1998.
- Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf sá um reksturinn.
Steinahlíð
- Á 25 ára afmæli Sumargjafar, 1949, ánöfnuðu erfingjar hjónanna Elly Schepler Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar stórkaupmanns félaginu húseignina Steinahlíð við Suðurlandsbraut, með landi því sem henni fylgir.
- Þar hefur verið rekið dagheimili og leikskóli til þessa dags samkvæmt skilyrðum gjafabréfs.
- Steinahlíð er skemmtileg vin í borgarlandinu og býður upp á fjölbreytta útivist og náttúruskoðun.
Dagheimilum fjölgar
Með fjögun borgarbúa og breyttu þjóðfélagi fjölgaði dagheimilum og leikskólum jafnt og þétt. Um 1950 komst sú skipan á að borgin reisti heimilin og lagði fram rekstrarfé, en fól Sumargjöf reksturinn. Borgin hafði þá einnig fulltrúa í stjórn Sumargjafar.
Fjöldi dagheimila og leikskóla sem Sumargjöf rak:
- 1945 – 3
- 1950 – 8
- 1955 – 8
- 1960 – 12
- 1965 – 14
- 1970 – 20
- 1974 – 32
- 1978 – 35
Hagaborg
- Hagaborg við Fornhaga tók til starfa haustið 1960. Ári síðar fékk Sumargjöf húsnæðið í Hagaborg í makaskiptum fyrir Tjarnarborg.
- Í Hagaborg voru skrifstofur dagvistarmála frá 1961 – 1986, en þá fluttust þær í Hafnarhúsið.
- Þar var og aðsetur Sumargjafar til ársins 1997.
- Haustið 1997 fóru fram makaskipti, þar sem Reykjavíkurborg tók við Hagaborg, en í staðinn fékk Sumargjöf viðbyggingu nýju Grænuborgar.
Borgin yfirtekur reksturinn
- Í ársbyrjun 1978 yfirtók Reykjavíkurborg rekstur allra barnaheimila borgarinnar. Var þar raunar verið að viðurkenna staðreyndir; að Sumargjöf sæi um reksturinn byggðist eingöngu á trausti og gamalli hefð.
- Við þetta varð grundvallarbreyting á starfsemi félagsins. Áður hafði stjórn Sumargjafar verið stjórn dagvistarstofnana. Nú þurfti félagið að finna sér nýtt hlutverk.
Breytt hlutverk Sumargjafar
- Á síðustu árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem stuðningsaðili við málefni, sem tengjast velferð barna.
- Félagið vinnur að þessum markmiðum sínum, meðal annars með styrkveitingum.
- Félagið hefur verið aðili að verðlaunasjóði íslenskra barnabóka frá árinu 1988, og styrkir sjóðinn með því að leggja fram verðlaunaféð.
- Félagið hefur einnig styrkt hliðstæð samtök, eins og Bernskuna og Barnaheill.
Ný Grænaborg
- Gamla Grænaborg, sem byggð var 1931, var á lóð sem Ríkisspítalar þurftu fyrir sína starfsemi. Samið var um að spítalarnir yfirtækju gömlu Grænuborg, gegn því að kosta tvær deildir af þremur í nýjum leikskóla á Skólavörðuholti.
- Hann tók til starfa í apríl 1983 og hlaut nafnið Grænaborg.
- Haustið 1997 var bætt við tveimur leikskóladeildum og lóðin stækkuð mikið.
Völuskrín
- Vorið 1977 keypti Sumargjöf leikfangaverslunina Völuskrín, sem lengst af var á Klapparstíg 26.
- Verslunin sérhæfði sig í sölu vandaðra leikfanga sem hafa uppeldislegt gildi.
- Sumargjöf rak verslunina í 12 ár, eða til 1989. Þá var reksturinn orðinn það þungur að ákveðið var að selja hann. Varð niðurstaðan sú, að Mál og menning keyptu Völuskrín, og setti upp leikfangadeild í verslun sinni í Síðumúla.
Formenn félagsins
- Steingrímur Arason, 1924 – 1939.
- Ísak Jónsson, 1939 – 1954.
- Arngrímur Kristjánsson, 1954 – 1957.
- Páll S. Pálsson, 1957 – 1962.
- Ásgeir Guðmundsson, 1962 – 1974.
- Bragi Kristjánsson, 1974 – 1980.
- Jón Freyr Þórarinsson, 1980 – 2018.
- Kristín Hagalín Ólafsdóttir, 2018 –
Stjórn Sumargjafar á afmælisárinu 2024
- Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður.
- Gerður Sif Hauksdóttir, gjaldkeri.
- Sigurjón Páll Ísaksson, ritari.
- Helga Hallgrímsdóttir.
- Hildur Biering.
- Sölvi Sveinsson.
- Kristinn H. Þorsteinsson.
Varastjórn:
- Rósa Björg Brynjarsdóttir.
- Bergsteinn Þór Jónsson.