Þegar líða tók að 25 ára afmæli Barnavinafélagsins Sumargjafar ákvað stjórnin að láta gera merki fyrir félagið sem yrði táknrænt fyrir tilgang þess og störf. Tryggvi Magnússon listmálari gerði uppdrátt að merki sem er hér fyrir neðan.

Þetta merki Sumargjafar seldu börn á götum Reykjavíkur og víðar á sumardaginn fyrsta frá árinu 1948 til 1978.

Ísak Jónsson skólastjóri og þáverandi formaður Sumargjafar skrifaði um merki Sumargjafar í Barnadagsblaðið 1948, að það hafi einkum vakað fyrir forráðamönnum félagsins sem réðu gerð merkisins, að það yrði táknrænt fyrir þau málefni sem félagið barðist fyrir.

Hægt er að túlka merkið á eftirfarandi hátt:

Skeifan er gæfumerki. Það er gæfumerki að vinna fyrir æskuna og það er gæfa hverrar þjóðar að bernskunni sé búin vernd og þroskavænleg vaxtarskilyrði.

Skeifan er hluti af hring. Hringur er endalaus lína samkvæmt stærðfræðinni sem minnir á að viðfangsefni Sumargjafar eru ævarandi vandamál allra kynslóða.

Skeifan getur minnt á friðarbogann. Það þarf að vera samkomulag og friður um að vinna fyrir yngstu kynslóðina, sama hvaða stjórnmálaskoðun menn kunna að hafa. Heimilisfriður er eitt af meginskilyrðum þess að skapgerð barns mótist að óskum, en skapgerð hvers einstaklings ræður miklu um gæfu hans og gengi á lífsleiðinni.

Sólin er móðir alls lífs. Allt ber að gera til að barnið geti, bæði raunverulega og táknrænt, notið lífsins og ljóssins gæða. Enginn „fimmeyringur“ má í neinum skilningi skyggja á sólina. Þetta er hvatning um að fjölga sólskinsblettunum en fækka skuggunum á lífsleið barnsins.

Heilbrigð sál í hraustum líkama. Útivera, aðlaðandi umhverfi og fjölbreyttir leikmöguleikar eru barninu bráðnauðsynlegir til að þetta markmið geti orðið að veruleika.

Barn að starfi – vinnan göfgar manninn. Barnið þarf að geta fullnægt starfsþörf sinni við hollar athafnir á hverju aldursskeiði.

Ræktunarstörf eru þroskandi fyrir börn; þau læra mikið af því að umgangast nýgræðinginn. Moldin er móðir alls, sem lífsanda dregur. Hvetjið barnið til að snerta jörðina og sjá hvernig „moldarundrið glitrar og grær“.

Hverjum einstaklingi sé afmarkað svið undir gæfuboganum.

Á haustmánuðum árið 2020 var Júlíusi Valdimarssyni, grafískum hönnuði falið að endurteikna og hreinsa upprunalega merki Sumargjafar í þeim tilgangi að gera það skýrara. Hér fyrir neðan má sjá afrakstur þeirrar vinnu.