Lög fyrir barnavinafélagið Sumargjöf
samþykkt á aðalfundi 8. júní 2017

1. gr. Félagið heitir Barnavinafélagið Sumargjöf. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur félagsins er að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og þroska barna og vernda þau gegn óhollum áhrifum. Þessum tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:

  1. Stuðla að menningarstarfsemi í þágu barna.
  2. Stuðla að rannsóknum og ráðstöfunum viðvíkjandi hag og aðbúnaði barna og vinna að því að ritað sé um uppeldismál.
  3. Hafa áhrif á löggjöf landsins börnum í hag.
  4. Hvetja ríki og borg til að leggja sem mest fé fram þessum málum til stuðnings.

Almenn starfsemi snýst um rekstur og útleigu fasteigna, ávöxtun fjármuna og styrkveitingar.

3. gr. Um styrkveitingar gilda eftirtaldar reglur:

  1.  Auglýstir styrkir. Snemma árs skal auglýsa styrki og tilgreina skilmála og umsóknarfrest. Félagsstjórn tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingar, en hún getur falið nefnd úr hópi stjórnar að fara yfir umsóknir og leggja fram tillögur. Standa skal faglega að styrkveitingum og mati umsókna.
  2. Aðrir styrkir, sem stjórn ákveður á hverjum tíma, en ekki eru auglýstir. Geta það bæði verið tilfallandi styrkir, eða styrkir til lengri tíma.

Óskað skal eftir skilagrein um ráðstöfun styrks.

4. gr. Aðalfund félagsins skal halda í maí eða júní ár hvert. Hann hefur æðstu völd í öllum málum félagsins. Aðalfund skal boða á sannanlegan hátt með hálfs mánaðar fyrirvara og tilgreina fundarstað og -tíma. Telst aðalfundurinn þá lögmætur. Á aðalfundi skal lögð fram skýrsla stjórnar, endurskoðaðir reikningar félagsins samþykktir, og kosið í aðal- og varastjórn.

Auk aðalfundar skal halda almennan félagsfund, ef stjórninni þykir ástæða til, eða ef minnst 10 félagsmenn óska þess. Skal til hans boðað á sama hátt og aðalfundar, enda gildi sömu reglur um lögmæti hans. Í fundarboði skal koma fram hvaða mál verði tekin fyrir.

5. gr. Í stjórn félagsins eiga sæti sjö menn. Stjórnarmenn skulu kjörnir úr hópi félagsmanna á aðalfundi til þriggja ára í senn. Þriðja hvert ár skulu þrír kjörnir, en annars tveir. Kjósa skal þrjá varamenn árlega og taka þeir sæti í félagsstjórninni eftir atkvæðamagni, en umboð þeirra fellur niður við hvern aðalfund. Forfallist aðalmaður í eitt ár eða lengur, má fjölga varamönnum í fjóra. Stjórnarmenn má endurkjósa.

Kosning stjórnar skal vera skrifleg ef þess er óskað. Skal rita á kjörseðla nöfn jafn margra manna og kjósa á. Fyrst skal kjósa tvo (eða þrjá) aðalmenn. Náist ekki hreinn meirihluti atkvæða (>50%) fyrir einhvern þeirra, skal kjósa aftur milli þeirra sem voru næst því að ná kosningu. Standi atkvæði á jöfnu að lokinni annarri umferð, skal varpa hlutkesti. Einfaldur meirihluti nægir við kjör varamanna.

Stjórnin skiptir með sér verkum.

6. gr. Fjármál: Félagsstjórn hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins og kýs gjaldkera úr sínum hópi. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda, er félagsstjórn ræður til þess starfa. Að lokinni endurskoðun skulu reikningarnir lagðir fyrir stjórn og aðalfund til samþykktar eða synjunar. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Stjórnin skal á hverjum tíma hafa rétt til að athuga reikninga félagsins.

7. gr. Félagsmaður getur hver sá verið sem stendur í skilum með árgjald til félagsins. Árgjald er ákveðið á aðalfundi.

8. gr. Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi, og þarf til þess þrjá fimmtu hluta greiddra atkvæða. Þess skal getið í fundarboði að lagabreytingar verði á dagskrá og skulu breytingarnar kynntar þar eða á heimasíðu félagsins.

9. gr. Félagsslit: Ekki er heimilt að leggja félagið niður nema til komi aðalfundarsamþykkt með fjórum fimmtu hlutum atkvæða. Í aðalfundarboði skal greina rækilega frá fyrirhuguðum félagsslitum og hvaða ástæður liggja að baki. Fari svo að félagið verði lagt niður skal sjóðum og öðrum eignum félagsins ráðstafað í samræmi við tilgang þess og lög. Skal það gert í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur.

10. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi, og falla jafnframt úr gildi eldri lög félagsins frá árinu 1981, með breytingum 1982.