Grænaborg 1931
Gamla Grænaborg, Grænuborgartúninu 1931–1978
Þann 18. Júlí 1930 skrifuðu Steingrímur Arason formaður Barnavinafélagsins Sumargjafar og Knud Zimsen borgarstjóri undir samning um að félagið fengi land að láni á Grænuborgartúninu austan við Landspítalann, þar sem hægt væri að reisa dagheimili handa börnum. Byggingarframkvæmdir hófust seint í maí 1931 og var húsið fullgert að kvöldi 25. júlí; hlaut það nafnið Grænaborg. Jafnframt smíði hússins var útbúinn fyrsti leikvöllurinn hér á landi sem var með sérstökum leikvallartækjum. Starfsemi dagheimilis var allan ágústmánuð þetta sama ár. Stefanía Stefánsdóttir veitti heimilinu forstöðu þetta fyrsta sumar en Þorbjörg Árnadóttir hjúkrunarkona var ráðin forstöðukona sumarið 1932. Börnin mættu klukkan níu að morgni og fóru heim klukkan sex að kvöldi. Flest börnin mættu fylgdarlaus nema þau allra yngstu sem voru þriggja ára.
Grænaborg var leigð undir skólastarfsemi yfir veturinn. Hún var stækkuð 1943, og var dagheimili rekið þar til ársloka 1981, fyrst yfir sumartímann, en frá 1954 var leikskóli rekinn þar allt árið. Árið 1966 var opnuð dagheimilisdeild á Grænuborg fyrir hjúkrunarkonur sem unnu á Landspítalanum og bar Landspítalinn allan kostnað af deildinni.
Gamla Grænaborg, var á lóð sem Ríkisspítalar þurftu fyrir sína starfsemi. Samið var um að spítalarnir yfirtækju gömlu Grænuborg, gegn því að kosta tvær deildir af þremur í nýjum leikskóla á Skólavörðuholti.
Grænaborg, Skólavörðuholtinu 1983
Grænaborg á Skólavörðuholtinu tók til starfa í apríl 1983.
Haustið 1997 var bætt þar við tveimur leikskóladeildum og lóðin stækkuð mikið. Enn þann dag í dag er húsnæði Grænuborgar í eigu Sumargjafar en Reykjavíkurborg leigir það undir rekstur leikskólans.
Fóstruskólinn
Fóstruskólinn var starfræktur í Grænuborg frá 1954 til 1961 og starfaði hann þar í nánu sambýli og samvinnu við leikskólann.