Árgangurinn sem útskrifaðist frá Fóstruskóla Sumargjafar 1972 hélt í maí upp á að 50 ár voru liðin frá því að hópurinn, 34 fóstrur, útskrifaðist. Í tilefni af því söfnuðu þær nokkurri peningaupphæð og óskuðu eftir að afhenda Sumargjöf hana til styrkveitinga. Gjöfin var afhent í Grænuborg þriðjudaginn 24. maí, þar sem stjórn félagsins bauð upp á kaffiveitingar, en alls mættu 12 úr hópnum. Kristín Hagalín Ólafsdóttir, formaður félagsins, fór nokkrum orðum um Fóstruskólann og fyrstu sérmenntuðu fóstrurnar. Síðan afhenti Hildur Skarphéðinsdóttir sem hafði orð fyrir hópnum, gjöfina, og rifjaði upp skemmtilegar minningar frá árum þeirra í Fóstruskólanum. Þetta var næstsíðasti árgangurinn sem útskrifaðist áður en ríkið tók við skólanum. Stjórn Sumargjafar þakkar gjöfina og mun finna verðugt verkefni til að styrkja.