Í upphafi árs 2018 auglýsti Sumargjöf eftir umsóknum um styrki til verkefna í þágu barna. Alls bárust 40 umsóknir. Stjórn félagsins komst að þeirri niðurstöðu að veita þrettán styrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir í Grænuborg sunnudaginn 6. maí 2018. Eftirtalin verkefni hlutu styrki (til að fá nánari lýsingu á verkefnunum veljið hvert verkefni fyrir sig):
1. Trúðavaktin – íslensku sjúkrahústrúðarnir.
Trúðavaktina skipa faglega þjálfaðir leikarar sem allir eiga sinn sjúkrahústrúð. Markmið sjúkrahústrúða er að gleðja og létta lundina, bæði hjá veikum börnum og fjölskyldum þeirra. Trúðavaktin heimsækir Barnaspítala Hringsins einu sinni í viku, tveir og tveir trúðar í senn. Þjónustan er fjármögnuð utan heillbrigðiskerfinsins og er spítalanum að kostnaðarlausu. Styrkur Sumargjafar er ætlaður til að greiða laun trúðanna í tvo mánuði. –
Styrkþegi: Trúðavaktin
Tengiliður: Agnes Þorkelsdóttir Wild
2. Veggmynd á tengigangi Barna- og Kvennadeildar Landspítalans.
Verkefnið er gríðarstór myndskreyting sem máluð er beint á veggi og loft langs gangs sem tengir saman Barna- og Kvennadeild Landspítalans við Hringbraut og jafnframt texti og myndefni að barnabók sem ætluð er börnum og aðstandendum þeirra. Myndefni bókarinnar er sótt í veggmyndina.
Styrkþegi: Arnór Kári Egilsson
3. Spítalablöðrur.
Verkefnið felst í því að styrkþeginn heimsækir Barnaspítala Hringsins vikulega og gerir blöðrudýr fyrir börnin sem þar eru. Þá kemur hann með blöðrur og pumpur svo krakkarnir geti sjálfir gert blöðrudýr með honum.
Styrkþegi: Daníel Sigríðarson
4. Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna.
Sumardagurinn fyrsti – dagur barnanna er sýning sem var opnuð á sumardaginn fyrsta 19. apríl sl. í Ráðhúsinu. Sýningin fjallar um tilurð og þróun barnamenningar með hliðsjón af sumardeginum fyrsta og sögu hans. Grunnhugmynd sýningarinnar og meginmarkmið er að vekja athygli á mikilvægi sumardagnsins fyrsta fyrir velferð barna og þróun barnamenningar í Reykjavík 1918 – 2018.
Styrkþegi: Björg Bjarkey Kristjánsdóttir
5. Ferðast um fullveldið – sögur af fullvalda börnum.
Um er að ræða tónleika og útgáfu á nýju tónlistarævintýri við nýjar sögur og ljóð eftir Þórarin Eldjárn og nýja tónlist Elínar Gunnlaugsdóttur. Þórarinn semur barnaljóð og sögur sem fjalla um börn á fullveldistímanum frá 1918 – 2018. Tekin eru fyrir tíu ártöl, 1918, 1928 o.s.frv. og búin til saga og ljóðatexti sem passar við hvert ártal. Stúlkur og drengir segja þá frá atburði í lífi sínu og kynna þannig fyrir yngstu kynslóðinni hvernig líf Íslendinga var á árunum 1918 – 2018 og þær breytingar sem orðið hafa. Gefin verður út myndskreytt bók og hljómdiskur og dagskráin flutt í Hörpu 18. nóvember 2018.
Styrkþegi og tengiliður: Elín Gunnlaugsdóttir
6. Tákn með tali tekið lengra – Þróun námskeiðs ásamt bæklingi með hagnýtum leiðbeiningum.
Markmiðið er að þróa og innleiða hnitmiðað og áhrifaríkt námskeið í notkun tjáskiptamátans TMT (tákn með tali) fyrir foreldra og starfsmenn leikskóla þar sem aðferðin er tekin lengra en áður með það að leiðarljósi að fjölga tækifærum barna með seinkun, frávik og/eða alvarlega röskun í málþroska til að gera sig skiljanleg og tjá sig fyrr og meira en ella.
Styrkþegi: Eyrún Ísfold Gísladóttir
7. Vefnámskeið í íslensku fyrir snjalltæki ætlað 5 til 7 ára börnum.
Snjalltækjavæðing grunnskóla hefur ekki leitt af sér aukið framboð námsefnis og þörfin á stafrænu íslensku efni fyrir börn hefur aldrei verið meiri. Að mati Menntamálastofnunar er gríðarleg vöntun á námsefni í íslensku fyrir börn með annað tungumál. Verkefninu er ætlað að koma til móts við þessa þörf með því að framleiða vandað námsefni í íslensku fyrir aldurshópinn 5 – 7 ára. Þróað verður aðgengilegt, skemmtilegt og gagnvirkt 60 klst. námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla, jafnt börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi.
Styrkþegar: Birna Arnbjörnsdóttir og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir
Tengiliður: Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir
8. Auðvitað get ég – Myndbandagerð fyrir börn úr innflytjendafjölskyldum á Íslandi.
Verkefninu er ætlað að styðja börn og fjölskyldur þeirra af erlendum uppruna í íslensku samfélagi við að aðlagast og öðlast færni til að lifa og starfa til fullnustu í íslensku samfélagi. Myndböndin eru ætluð til að fræða börnin um ýmsa hagnýta samfélagsþætti eins og
- Hvert get ég leitað ef ég þarf aðstoð? Til lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, námsráðgjafa o.s.frv.
- Þekkja stofnanir á Íslandi og hlutverk þeirra
- Mannréttindi barna
- Kvenréttindi
- Barnamenning
- Unglingamenning
- Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
- Heilbrigðisþjónusu o.fl.
Að verkefninu koma um 20 börn af ýmsum þjóðernum sem búa á Íslandi. Þau skipuleggja viðtöl, skrifa handrit fyrir myndböndin, sjá um upptökur og klippa myndböndin með aðstoð verkefnisstjóra.
Styrkþegi og tengiliður: Jamil Kouwatli
9. Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn.
Sumarbúðir fyrir syrgjandi börn er ætlað börnum sem misst hafa náinn ástvin. Um er að ræða tilraunaverkefni sem var haldið helgina 20.-22. apríl sl. í Vindáshlíð í fyrsta sinn. Þörfin fyrir búðir af þessu tagi er brýn að sögn Jónu Hrannar Bolladóttur sem fer fyrir verkefninu sem heitir Örninn og er fyrirhugað er að hafa aðrar búðir í haust.
Tengiliður: Jóna Hrönn Bolladóttir
10. Reykjavík barnanna.
Reykjavík barnanna verður ríkulega myndskreytt bók um höfuðborgina og nágrenni hennar. Hún er framhald Íslandsbókar barnanna sem kom út árið 2016 og styrkþeginn, Linda Ólafsdóttir, myndskreytti. Nýja bókin er ætluð börnum, ungmennum og fólki á öllum aldri sem langar að fræðast um Reykjavík og nágrenni í máli og myndum. Markmið verkefnisins er að kynna höfuðstað Íslands, sögu hans, mannlíf og náttúru. Bókin er unnin í samstarfi við Margréti Tryggvadóttur sem skrifar bókina.
Styrkþegi: Linda Ólafsdóttir
11. Þinn besti vinur – Forvarnamyndbönd fyrir börn og unglinga um kvíða og þunglyndi.
Hópur sálfræðinga í samvinnu við leikara og framleiðslufyrirtæki vinnur að gerð stuttra myndbanda um þunglyndi og kvíða fyrir unglinga og ungt fólk. Myndböndin verða opin öllum á vef verkefnisins, thinnbestivinur.is og hugsuð sem forvörn til að sporna við þróun lyndisraskana hjá unglingum. Þeim er ætlað að vera fræðandi og skemmtileg þar sem grundvallaratriði í hugrænni atferlismeðferð (HAM) eru kynnt en HAM er gagnreynd meðferð við kvíða og þunglyndi. Myndböndin eiga að vera almennt fræðsluefni en einnig til notkunar í einstaklings- eða hópmeðferð við kvíða og þunglyndi.
Styrkþegi og tengiliður: Sólveig Hlín Kristjánsdóttir
12. Síðasta lestrarátak Ævars Vísindamanns
Veturinn 2014 – 2015 stóð Ævar Þór Benediktsson fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns í fyrsta sinn. Markmiðið var einfalt að hans sögn; að vekja áhuga barna á lestri á nýjan og skemmtilegan hátt. Átakið virkaði þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem krakkar í 1.-7. bekk lásu fylltu þau út lestrarmiða sem skilað var í sérstakan lestrarátakskassa sem var á hverju skólabókasafni. Í lok átaksins voru allir kassarnir sendir til Ævars sem dró út fimm börn sem fengu í verðlaun að verða persónur í risaeðluævintýrabók sem bar titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Viðbrögðin við átakinu fóru fram úr björtustu vonum og hefur Ævar endurtekið leikinn árlega nokkrum sinnum síðan og börnum sem taka þátt fjölgar sífellt. Ævar hótar því nú að endurtaka leikinn í síðasta sinn og verðum við bara að vona að hann standi ekki við þau orð sín.
Styrkþegi: Ævar Þór Benediktsson
13. Dyndilyndi
Verkefnið felst í hljóðritun og útgáfu á átta nýjum sönglögum Megasar í nýjum útsetningum Þórðar Magnússonar. Lögin eru hugsuð fyrir börn á leikskólaaldri og yngstu bekki grunnskóla. Flytjendur og skipuleggjendur eru nemendur úr Tónlistardeild Listaháskóla Íslands í samstarfi við Mengi Records sem styrkir og sér um útgáfu. Lögin segja frá dýrum, heimkynnum þeirra, ástum og lífsbaráttu og eru sprottin frá hugmyndum barna. Í glænýjum útsetningum Þórðar Magnússonar fyrir strengjakvartett og rödd eignast lögin nýtt og litríkt líf. Skipuleggjendur og flytjendur eru allir nemendur úr Listaháskóla Íslands.
Styrkþegar og tengiliðir: María Sól Ingólfsdóttir og Agnes Eyja Gunnarsdóttir