Steinahlíð 1949
Á 25 ára afmælisdegi Barnavinafélagsins Sumargjafar barst félaginu vegleg gjöf en það var húsið Steinahlíð við Suðurlandsbraut ásamt rúmgóðu landi með túni, görðum og trjálundum. Einkaerfingjar hjónanna Elly Schepler Eiríksson og Halldórs Eiríkssonar stórkaupmanns gáfu félaginu Steinahlíð til minningar um foreldra sína, að ósk föður þeirra. Skilyrði gjafarinnar voru þau að börnum yrði kennt að meta og rækta tengslin við náttúruna og að lögð yrði áhersla á trjárækt og matjurtarækt.
Hin höfðinglega gjöf lýsti vel hugarfari þeirra hjóna og barna þeirra. Ýmsu þurfti að breyta og lagfæra en starfsemi leikskóla hófst þó strax haustið 1949.
Ida Ingólfsdóttir
Ida Ingólfsdóttir var fyrsta forstöðukona Steinahlíðar og gengdi hún því starfi til 1982 þegar hún náði aldursmörkum, eða í 33 ár. Hún var jafnan kennd við Steinahlíð, enda bjó hún þar í risinu. Í Steinahlíð er enn í dag rekinn leikskóli og mikil áhersla lögð á trjárækt og matjurtarækt.
Uppeldisskóli Sumargjafar
Uppeldisskóli Sumargjafar var starfræktur í Steinahlíð árin 1949–1952.
Í árslok 2011 fékk Reykjavíkurborg leyfi til að setja færanlegt hús á lóð Steinahlíðar. Það var tekið í notkun í ársbyrjun 2015 og eru þar reknar tvær leikskóladeildir, en sú þriðja er í gamla húsinu.