Saga leikskólakennaramenntunar

Uppeldisskóli Sumargjafar (1946 – 1957)

Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður árið 1946, að tillögu Þórhildar Ólafsdóttur forstöðukonu í Tjarnarborg. Tilgangur skólans var að mennta fóstrur fyrir barnaheimilin, en starfsheitið fóstra samsvarar nú orðinu leikskólakennari. Valborg Sigurðardóttir var ráðin skólastjóri, en hún hafði þá nýlokið MA prófi í uppeldis- og sálarfræði í Bandaríkjunum. Valborg var skólastjóri allan þann tíma sem Sumargjöf sá um reksturinn. Skólinn starfaði undir nafninu Uppeldisskóli Sumargjafar til ársins 1957. 

Fóstruskóli Sumargjafar (1957 – 1973)

Árið 1957 var nafni skólans breytt í Fóstruskóli Sumargjafar, þegar starfsheitið fóstra hafði unnið sér hefð í málinu. Skólinn starfaði samfleytt til ársins 1973. Hlé var á starfseminni 1952 – 1954. 

Fósturskóli Íslands (1973 – 1998)

Ríkið yfirtók Fóstruskólann árið 1973 og hlaut þá skólinn nafnið Fósturskóli Íslands. Varð skólinn þá jafnt fyrir karla og konur, og hét því Fósturskóli.

Kennaraháskóli Íslands (1998 – 2008)

Árið 1998 sameinaðist Fósturskólinn Kennaraháskóla Íslands. Námið færðist þá á háskólastig en í lögum um leikskóla sem tóku í gildi árið 1994 var hætt að nota orðið fóstra og starfsheitið leikskólakennari tekið upp. 

Háskóli Íslands (2008 – )

Árið 2008 sameinaðist Kennaraháskólinn Háskóla Íslands, og varð að Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Innan sviðsins er leikskólakennaradeild, sem segja má að sé arftaki Uppeldisskóla Sumargjafar. 

Sögu Uppeldisskóla Sumargjafar má finna í afmælisritum Sumargjafar, 25 ára Barnavinafélagið Sumargjöf, 1924 – 1949 og Barnavinafélagið Sumargjöf 50 ára, 1924 – 1974. Hér fyrir neðan er stutt samantekt.

Tildrög Uppeldisskóla Sumargjafar

Haustið 1946 rak Sumargjöf þrjú barnaheimili en einungis voru þrjár sérmenntaðar fóstrur þar starfandi. Forstöðukonurnar sáu að ekki var unnt að reka barnaheimilin sem uppeldisstofnanir ef ekki yrði fært að fá sérmenntað starfslið til fóstrustarfa. Þórhildur Ólafsdóttir, forstöðukona í Tjarnarborg mun hafa átt frumkvæði að því árið 1945 að Barnavinafélagið Sumargjöf stofnaði Uppeldisskólann. Undir forustu Ísaks Jónssonar, formanns félagsins, tókst að fá styrk til reksturs skólans frá ríki og Reykjavíkurborg. 

Uppeldisskóli Sumargjafar tekur til starfa

Uppeldisskóli Sumargjafar hóf starfsemi 1. október 1946. Valborg Sigurðardóttir var ráðin skólastjóri en hún lauk MA prófi í uppeldis- og sálarfræði frá Smith College í Massachusetts sama ár og Uppeldisskólinn tók til starfa. Hún hafði einnig kynnt sér starfsemi leikskola og dagheimila í Bandaríkjunum með tilliti til væntanlegs starfs síns. Frá upphafi völdust framúrskarandi vel menntaðir og hæfir kennarar til skólans. 

Skóli sem þessi var algjört nýmæli í íslenskum skólamálum og þótti mörgum fásinna að ætla sér að mennta fólk til að passa börn, það gætu allir. Enn fávíslegra þótti að gera kröfur til einhverrar menntunar sem inntökuskilyrði. Níu stúlkur með tilskilda menntun sóttu um skólavist og hóf skólinn starfsemi sína á einni stofu á barnaheimilinu Tjarnarborg. Árið 1948 brautskráðust þessar níu stúlkur sem ruddu brautina sem fyrstu sérmenntuðu íslensku fóstrurnar. 

Valborg Sigurðardóttir, skólastjóri

Valborg Sigurðardóttir, skólastjóri Uppeldisskóla Sumargjafar, 1951

Húsnæðismál

Uppeldisskólinn starfaði fyrsta árið í einni leikstofu í Tjarnarborg, en það húsnæði var ekki til frambúðar. Næsta haust fékk skólinn eina stofu í Kennaraháskóla Íslands og starfaði þar árin 1947 – 1959. Þegar Sumargjöf eignaðist Steinahlíð fluttist skólinn þangað og var starfræktur þar ásamt litlum leikskóla frá 1949 – 1952. Nemendur skiptust á um að vinna við leikskólann síðdegis. Vegna fjárskorts var hlé á starfseminni um tveggja ára skeið. Haustið 1954 var skólinn fluttur í Grænuborg þar sem Steinahlíð þótti ekki hentug vegna þrengsla og fjarlægðar frá miðbænum. Skólinn starfaði í Grænuborg til vorsins 1961 í nánu sambýli og samvinnu við leikskólann. 

Árið 2019 færði Barnavinafélagið Sumargjöf leikskólanum Tjarnaborg þetta skilti til minnis um að Uppeldisskólinn hóf starfsemi sína í einni kennslustofu þar árið 1946. 

Aftur þurfti að leita að nýju húsnæði þar sem skólastofan var of lítil. Haustið 1961 var húsnæði ljósastofu Hvítabandsins á efri hæð barnaheimilisins Hagaborgar tekið á leigu. Vegna fjölgunar á barnaheimilum varð um þetta leyti skortur á fóstrum og var brugðist við því með að taka inn nemendudr á hverju ári í stað annars hvors árs. Með þessari fjölgun var útilokað að dvelja áfram í einni kennslustofu Hagaborgar og fluttist skólinn aftur til Tjarnarborgar haustið 1962. Skólinn fékk þar tvær kennslustofur og litla skrifstofu. Önnur skólastofan var einnig notuð sem leikstofa fyrir börn eftir hádegi en það var mjög óhagkvæmt. Starfsaðstaða skólans var bæði lítil og erfið og loks var orðið endanlega ljóst að útilokað var að starfrækja skólann í híbýlum barnaheimila Sumargjafar. Samstarfið við forstöðukonur barnaheimilanna var þó alla tíð frábært þrátt fyrir þrengsli. 

Í ársbyrjun 1964 fékk skólinn húsnæði sambýli við Æskulýðsráð Reykjavíkur að Fríkirkjuvegi 11 (fyrir tilstilli fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, Jónasar B. Jónssonar, sem lengst af var formaður skólanefndar Fóstruskóla Sumargjafar). Skólinn fékk tvær rúmgóðar kennslustofur, aðra þó með Æskulýðsráði, föndursofu, skrifstofu fyrir skólastjóra og litla almenna skrifstofu. Starfsemi skólans dafnaði vel í þessum húskynnum og var aðstaðan ólíkt betri en áður hafði verið. Mikill fjörkippur kom í aðsókn að skólanum á þessum árum, en aðsóknin var meiri en húsrúm leyfði og sprengdi nemendafjöldinn þetta húsnæði af sér. Enn þurfti að hugsa sé til Hreyfings vorið 1969.

Fóstruskólinn fékk Lækjargötu 14b þar sem Gagnfræðaskóli Vesturbæjar var áður en hann var lagður niður. Í fyrsta skipti komst Fóstruskólinn í húsnæði án sambýlis við aðra, sem var aðalkosturinn, en auk þess voru þrjár stórar kennslustofur, skrifstofa fyrir skólastjóra og almenn skrifstofa sem auk þess var notuð sem kennarastofa. Enn jókst aðsóknin og haustið 1972 tókst að fá efri hæðina á húsinu Vonarstræti 1 og bættust þá við þrjár kennslustofur, almenn skrifstofa, kennarastofa og bókasafn. 

Hlutverk Fóstruskólans og inntökuskilyrði

Hlutverk Fóstruskólans var í upphafi skilgreint á þann veg, að hann ætti að veita ungum stúlkum menntun til þess að stund a fóstrustörf á barnaheimilum og til að stjórna slíkum stofnunum.

inntökuskilyrði voru frá byrjun gagnfræðapróf (eða landspróf síðar) eða að minnsta kosti tveggja ára nám í héraðsskóla eða gagnfræðaskóla. Lágmarksaldur var 18 ár. Vorið 1969 var endanlega tekið fyrir að umsækjendur sem ekki höfðu gagnfræðaprós eða landspróf yrðu teknir inn í skólann. enda aðsókn orðin miklu meiri að skólanum en hægt var að sinna. haustið 1971 var nemendahópnum skipt í tvær bekkjardeild þar sem inntaka nemenda var aukin. 

Auk ofangreindra menntunarskilyrða var einnig snemma gert að inntökuskilyrði, að nemandi hefði unnið á barnaheimili í um það bil þrjá mánuði, 

Námsfyrirkomulag

Á árunum 1946 – 1952 var skólinn tveggja vetra skóli og skiptist hvor vetur um sig í tvær fjögurra mánaða annir, bóklega og verklega. Nemendur höfðu laun á verklega tímabilinu. Kostirnir við þetta fyrirkomulag var hversu náin tengslin voru á milli verklega náms og bóklegs en þótti þó ekki hentugt fyrir starfsemi barnaheimilanna. 

Haustið 1954 var námsfyrirkomulaginu breytt. Bóklega námið var lengt í tvo vetur en verklega námið fór fram yfir sumarmánuðina og nokkra eftirmiðdaga í viku í fyrstu (síðar einn heilan dag í viku) fyrri veturinn, en 4 – 6 vikna samfellt starf um miðjan seinni veturinn. Komu nemendur þá inn á barnaheimilin án kaups. Þetta fyrirkomulag hélst til ársins 1968.

Undirbúningur nemenda var misjafn og var því tekinn upp sá háttur haustið 1968 að koma á fót undirbúningsdeild með tveggja vikna bóklegu námskeiði fyrst en síðan tók við sjö mánaða undirbúningsvinna eða reynslutími á barna heimilum í Reykjavík og nágrenni undir handleiðslu sérmenntaðra fóstra og forstöðukvenna. Þessi reynslutími skar úr um hvort nemandi var talinn hæfur til áframhaldandi fóstrunáms eða ekki, auk þess sem nemandi fékk tækifæri til að gera sér sjálfum grein fyrir hvort hann teldi sig una eða eiga heima í fóstrustarfinu.

Frá því um haustið 1968 var fóstrunámið orðið þriggja ára nám. Eftirfarandi námsfyrirkomulag var á náminu þangað til Fóstruskóla Sumargjafar var breytt í ríkisskólann Fósturskóla Íslands (1973).

Fyrsta árið, frá því um miðjan september til aprílloka, voru nemendur í undirbúningsdeild. Þeir unnu fullt starf og fengu laun fyrir.

Annað árið, frá 1. október til 30. apríl var nær eingöngu bóklegt nám en auk þess störfuðu nemendur einn dag í viku á barnaheimilum. Þá tók við fimm mánaða fullt starf á launum á barnaheimilum, frá 1. maí til 30. september.

Þriðja árið skiptist í tvær bóklegar annir með eins mánaðar verklegu námi í milli um miðjan vetur. Verklega námið var launalaust og unnu nemendur ýmis verkefni frá skólanum. Bóklega náminu lauk með skriflegu burtfararprófi eftir 13 mánaða bóklegt nám og 13 mánaða verklegt nám. 

Allt til ársins 1964 sá skólastjóri um allt skipulag verklega námsins, ef eftir að nemendum fjölgaði urðu samskiptin yfirgripsmeiri og varð því nauðsynlegt að fá aðstoð við þetta starf. Það var fólgið í því að fylgjast með og leiðbeina nemendum í verklega náminu og vera trúnaðamaður skólastjóra og nemenda á þeim vettvangi. 

 

Námsgreinar

Meginkjarni námsgreina var sá sami þau 25 ár sem Fóstruskóli Sumargjafar starfaði, en tók þó einhverjum stakkaskiptum eftir því sem aðstæður breyttust og reynsla og kröfur tímans gáfu tilefni til. Skólinn var í nánum tengslum við hliðstæða skóla erlendis, einkum á Norðurlöndum; fylgst var með þróun þeirra og umbótum og notið ráðlegginga og uppörvunar frá forráðamönnum þessara skóla. Skólinn var í sífelldri þróun, námstíminn lengdist, námsgreinum fjölgaði, námsefni og námsbókakostur jókst, innihald námsefnis breyttist og námsfyrirkomulag tók á sig nýtt snið.

Uppeldis- og sálarfræði skipaði öndvegi í námsskrá skólans. Höfuðáhersla var lögð á barnasálfræði og uppeldi heilbrigðra barna undir sjö ára aldri eða á forskólaaldri. Einnig var farið í ungbarnameðferð og starfshætti á leikskólum og dagheimilum, fjallar var sérstaklega um sálarfræði og uppeldi afbrigðilegra barna og hópsálfræði. Margt hefur breyst í vitund manna um litróf einstaklinganna.

List- og verkgreinar, eins og hljómlist (söngur, flautuleikur, gítarleikur), leikræn tjáning, myndlist, föndur og smíðar skipuðu veglan sess í námskrá. 

Móðurmálsgreinar voru margþættar, svo sem íslenskar bókmenntir, framsögn og barnabókmenntir (sögur, kvæði og þulur). Í allmörg ár voru nemendur með barnaskemmtun einu sinni á ári í einu af kvikmyndahúsum borgarinnar. Síðustu árin var þessi barnaskemmtun undir stjórn kennarans í framsögn og varð því nánast fastur liður í náminu. 

Frá upphafi voru félagsfræði, næringarefnafræði, líkams- og heilsufræði og átthagafræði einnig kenndar. Meðal þeirra breytinga sem urðu á námsskránni voru þær að náttúruræðikennsla var tekin upp og danska var kennd um árabil, aðallega sem aðstoð við lestur kennslubóka í uppeldis- og sálarfræði. Dönskukennslan var svo lögð niður líkt og bókfærsla sem var þá orðin hluti af kennslu til gagnfræðaprófs. Ný námsgrein, samtalstækni var einnig tekin upp. 

Á bóklega tímabilinu var ætlaður allmikill tími til heimsókna á ýmsar stofnanir fyrir börn. Einnig voru ýmsir fyrirlestrar haldnir, m.a. af forráðamönnum þessara stofnana. 

Brautskráðar fóstrur frá Fóstruskóla Sumargjafar

Frá Fóstruskóla Sumargjafar (og Uppeldisskóla Sumargjafar) var alls brautskráð 341 fóstra. Á fyrstu fimmtán árum skólans, á tímabilinu 1946 til 1961 luku aðeins 88 fóstrur námi en 253 á árunum 1961 til 1973. Þessar tölur sína hversu mjög skólinn óx, enda var aðsóknin sívaxandi. 

Skólastjóri og skólanefnd

Valborg Sigurðardóttir var skólastjóri frá 1946 til 1073 og jafnframt aðalkennarinn í uppeldis- og sálarfræði. Dr. Þuríður Kristjánsdóttir leysti hana af veturinn 1969 til 1970, meðan Valborg var í námsleyfi í Svíþjóð.

Formenn skólanefnda voru Ísak Jónsson, formaður Sumargjafar 1946 – 1954 og Jónas B. Jónsson, fræðslustjori 1954 – 1973. 

Fóstruskóli Sumargjafar verður Fósturskóli Íslands

Fr’a upphafi var hugmyndin sú að skólinn yrði ríkisskóli, annaðhvort sjálfstæður fóstruskóli eða deild í Kennaraskóla íslands. Skólin nvar lengi vel fámennur og vakti hvorki áhuga né athygli ráðamanna í menntamálum þjóðarinnar. Á árunum 1965 – 1969 ræddu Ásgeir Guðmundsson, formaður Sumargjafar og Valborg Sigurðardóttir, skólastjóri Fóstruskólans nokkrum sinnum um þessi mál við þáverandi menntamálaráðherra, Gylfa Þ. Gíslason. 

sýnilegt var að Sumargjöf gæti ekki rekið skólann öllu lengur þar sem hann stækkaði ört. Þann 4. maí 1971 samþykkti skólanefnd ályktun þar sem kom fram að aðsókn við skólann væri mjög vaxandi og ivð þær aðstæður sem skólinn bjó við gæti hann hvorki valdið því hlutverki að mennta þann fjölda uppeldismenntaða starfsliðs sem þörf væri á né víkkað starfssvið sitt sem æskilegt var. Talin var brýn nauðsyn að sett yrði upp nefnd kunnaáttumanna til að fjalla um framtíð skólans og gera tillögur um stöðu hans í fræðslukerfinu og um eflingu hans. Ályktun þessi var send menntamálaráðherra og borgarráði Reykjavíkur.

Þáverandi menntamálaráðherra skipaði nefnd í júní 1971 til þess að ger tillögur um framtíð Fóstruskólans og tengsl hans við hið almenna fræðslukerfi. Nefndin samdi frumvarp til laga um Fósturskóla Íslands sem lagt var fyrir alþingi og samþykkti sem lög nr. 10/1973. Haustið 1973 var starfsemi Fóstruskóla Sumargjafar lögð niður en samkvæmt lögum tók ríkisskólinn Fósturskóli Íslands til starfa. Starfsemin byggði á þeim grunni sem Fóstruskóli Sumargjafar hafði þegar lagt. 

Meðal merkustu breytinga sem lögin höfðu í för með sér voru að inntökukröfur voru auknar í stúdentspróf eða gagnfræðapróf að viðbættu tveggja ára framhaldsnámi. Gert var ráð fyrir að hægt væri að víkja frá þessum inntökukröfum af sérstökum ástæðum, til dæmis ef um langan og farsælan feril er að ræða á viðurkenndum uppeldisstofnunum fyrir börn. Mikilvægt þótti að fá fólk í skólann með mismunandi bakgrunn til þess að fá meiri fjölbreytni í námið og fóstrustarfið.

Annað athyglisvert atriði í lögunum er, að tekið er fram í fyrstu grein laganna, að skólinn sé jafnt fyrir karla og konur. Nafnbreytingin úr Fóstruskóla í Fósturskóla er í samræmi við það. Enginn vafi lék á því að mikla nauðsyn bar til að karlmenn hlytu fóstrumenntun og réðust til fóstrustarfa. 

Fósturmenntun og Fóstrustörf voru mikið í sviðsljósinu í hinum vestræna heimi á þessum árum og er ein aðalástæðan sú, að menn hafa sannfærst um hversu mikils virði uppeldi á fyrstu bernskuárunum er fyrir framtíðarþroska mannsins og farnað hans í lífinu. Skólamönnum, uppeldisfræðingum og öllum þorra almennings var einnig orðið ljósara hversu mikið gildi uppeldislegt leikskólastarfsemi hefur fyrir þroska og hamingju barnsins.